Hoppa yfir valmynd
14. júní 2011 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Rannsóknaþing 2011 - Áskoranir á Norðurslóðum - Ræða haldin 8. júní 2011

Rannsóknaþing 2011
Rannsóknaþing 2011

Ágætu þinggestir:
Loftlagsbreytingar og áhrif þeirra fá stöðugt meiri athygli. Hvert hitametið af öðru er slegið í heiminum og hiti síðustu vetra á Norðurhveli er með því hæsta frá því mælingar hófust. Samkvæmt fréttum Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar hefur fjöldi mannskæðra flóða og þurrka tvöfaldast á síðasta áratug. Alþjóðlegur hópur sérfræðinga um veðurfarsbreytingar hefur margsinnis birt mat sitt á áhrifum mannsins á loftslag heimsins. Allt ber að sama brunni; veruleg hlýnun er í vændum. Helstu sérfræðingar á sviði veðurfars telja nú yfirgnæfandi líkur á því að athafnir mannsins skýri þær loftslagsbreytingar sem þegar hafi átt sér stað og munu verða í náinni framtíð.
Áhrif loftlagsbreytinga á umhverfi og hagræn áhrif þeirra snerta flesta þætti mannlífs svo og náttúruauðlindir á Norðurslóðum. Það er því engin tilviljun að viðfangsefni Rannsóknarþings 2011 sé umfjöllun um þær áskoranir sem íbúar norðurslóða og aðrir jarðarbúar standa frammi fyrir vegna loftlagsbreytinga. Áskoranirnar eru af ýmsum toga, hagrænar, umhverfislegar og mannvistarlegar. Í raun er fátt undanskilið svo víðtæk geta áhrifin orðið á lífríkið og samfélög manna.
Ég vil fyrst geta þess að 28. mars s.l. samþykkti Alþingi þingsályktun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.  Þar er lýst meginstefnu Íslands í þessum mikilvæga málaflokki sem miðar að því að tryggja hagsmuni Íslands með tilliti til áhrifa loftlagsbreytinga, umhverfis- og auðlindamála, siglinga og samfélagsþróunar auk þess að efla tengsl og samstarf við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni svæðisins.
Eitt af leiðarljósum í stefnu vísinda- og tækniráðs „Byggt á styrkum stoðum“, er að efla beri alþjóðlegt samstarf á sviði vísinda og nýsköpunar, enda liggi þar ónýtt tækifæri. Íslenskir vísindamenn hafa tekið virkan þátt í alþjóðlegum verkefnum um málefni norðurslóða, bæði hvað varðar náttúru og samfélög á svæðinu.  
Íslendingar hafa tekið virkan þátt í verkefnum innan Norðurslóðaáætlunar,  m.a. í allnokkrum verkefnum er tengjast viðbrögðum við áhrifum loftlagsbreytinga. Þar má sem dæmi nefna verkefnið Coast Adapt sem er fjölþjóðlegt rannsóknarverkefni, sem fjallar um það hvernig lítil samfélög við strendur Norður Atlantshafs aðlagast breytingum sem verða vegna hnattrænnar hlýnunar.
Norræna ráðherranefndin ákvað árið 2009 að setja á laggirnar Öndvegisrannsóknaáætlunina, (Topforskningsinitiativet) sem er samnorrænt átak í rannsóknum er snúa að loftslagi, umhverfi og orku. Undir áætluninni eru sex undiráætlanir og fjalla tvær þeirra um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á umhverfi og samfélag.  Auglýst var eftir umsóknum í rannsóknarverkefni fyrir árin 2011-2015 og hlutu Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt Landsvirkjun og Landsneti veglega styrki til rannsókna á jöklum og hagnýtingu vindorku.
Þá er Rannís þátttakandi í fjölmörgum alþjóðlegum samstarfsverkefnum um rannsóknir á norðurslóðum, bæði norrænum verkefnum og verkefnum innan Evrópusambandsins.
Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin (IASC) sameinar innan sinna vébanda opinberar stofnanir og samtök á sviði norðurslóðavísinda í 19 ríkjum. Hún er því mikilvægur samráðsvettvangur fyrir norðurslóðarannsóknir og vöktun. Þá má nefna alþjóðleg norðurslóðasamtök félagsvísindamanna (IASSA). Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri hefur gegnt formennsku fyrir samtökin síðustu þrjú ár. Alþjóðlega ráðstefna samtakanna verður haldin á Akureyri dagana 22. – 26. júní n.k. undir heitinu Circumpolar Perspectives in Global Dialogue: Social Sciences beyond the International Polar Year en þar munu um 400 ráðstefnugestir frá um 20 löndum fjalla um rannsóknir á sviði félags-, hug- og mannvísinda á norðurslóðum. Á Akureyri hefur orðið til vísir að alþjóðlegri norðurslóðamiðstöð en þar hafa fjölmargar stofnanir og samtök sem sinna rannsóknum á norðurslóðum aðsetur, þar með talið skrifstofa tveggja starfshópa Norðurskautsráðsins, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og rannsóknarþing norðurslóða.
Fulltrúar sjö þjóða á norðurslóðum undirrituðu 16. febrúar s.l. yfirlýsingu um samstarf á sviði heilbrigðismála; The Artic Health Declaration, að viðstöddum tveimur alþjóðasamtökum frumbyggja. Þjóðirnar sem standa að yfirlýsingunni eru Bandaríkin, Danmörk, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð, auk Færeyja og Grænlands. Þjóðirnar lýstu þarna yfir vilja sínum til að bæta velferð íbúa á norðurslóðum með virkum aðgerðum til að sporna við útbreiðslu lífsstílstengdra sjúkdóma og smitsjúkdóma og til að vinna gegn geðrænum vandamálum, misnotkun vímuefna og sjálfsvígum. Sérstaklega er bent á að þjóðirnar sem koma að yfirlýsingunni þurfi að vera viðbúnar því að fást við frekari áhrif á heilsufar og aðrar aðstæður fólks á norðurslóðum vegna loftlagsbreytinga og efnahagslegra breytinga. Áhrif þeirra geti meðal annars varðað fæðuöryggi en einnig menningu og menningarleg gildi fólks á norðurslóðum.
Minnkandi ís á norðurslóðum, vegna hlýnandi veðurfars hefur nú gert áður torsótt svæði aðgengileg fyrir siglingar og auðlindanýtingu. Þessi þróun hefur í för með sér ný tækifæri sem mikilvægt er að Íslendingar nýti sem best. Á sama tíma hafa yfirvofandi breytingar hættur í för með sér sem íslensk stjórnvöld þurfa að fylgjast vel með og vera í stakk búin að bregðast við í samvinnu við aðrar þjóðir. Því er mikilvægt að hafa skýra stefnu í málefnum svæðisins sem tryggir hagsmuni Íslands. Í framtíðarstefnumörkun er mikilvægt að hafa í huga að málefni norðurslóða takmarkast ekki við málefni einstakra byggða eða svæða á Íslandi heldur tengjast þau stöðu Íslands og hagsmunum í alþjóðlegu samhengi.
Margs konar hættur fylgja aukinni skipaumferð samfara vaxandi áhuga og sókn í olíu- og gasauðlindir, fiskstofna og aðrar auðlindir á norðurslóðum. Því er spáð að siglingar skemmtiferðaskipa sem og olíu- og gasflutningaskipa auk kjarnorkuknúinna ísbrjóta og kafbáta muni stóraukast á norðurskautssvæðum og í nágrenni Íslands. Þessar væntingar undirstrika brýna nauðsyn þess að ríkin á Norðursskautsvæðinu hafi á hverjum tíma heildaryfirsýn yfir þær framkvæmdir og athafnir sem fram fara á svæðinu og áhrif þeirra á viðkvæma náttúru Norðurslóða.  Þetta kallar á nánari samvinnu allra norðurslóðaríkja og sameiginlega hagsmunagæslu innan alþjóðastofnana sem sinna umhverfisöryggi og siglingum. Þá er friðsamlegt samstarf á grundvelli þjóðarréttar um sjálfbæra nýtingu auðlinda norðursins brýnt hagsmunamál Íslendinga. Stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda í hagsmunamálum Íslands á norðurslóðum byggjast á mannauði og þekkingu á því sviði. Þannig hafa íslensk stjórnvöld nú þegar beitt sér fyrir aukinni áherslu á þverfaglegar rannsóknir sem geta nýst við upplýsta stefnumótun í málefnum norðurslóða á vettvangi norðurskautsráðsins og í norrænu samstarfi. Sívaxandi hlutur Íslands í norðurslóðasamvinnu grundvallast m.a. á öflugu framlagi íslenskra vísindamanna og rannsóknarstofnana í náttúru- og hugvísindum.
Norræna ráðherranefndin hefur unnið að samstarfi Evrópusambandsins og norðurskautssvæðanna um nokkurra ára skeið og stóð fyrir námsstefnu embættismanna í  Brussel í aprílmánuði síðastliðnum. Í kjölfarið hennar óskaði Evrópuþingið eftir því að framkvæmdastjórn ESB hefji undirbúning að því að koma á laggir norðurskautsmiðstöð í Rovaniemi í Finnlandi sem gæti orðið miðstöð tengslanets um rannsóknir með það að markmiði að tryggja fræðilegar undirstöður stefnumótunar um norðurskautið.
Áhrifum loftlagsbreytinga á auðlindir hafsins, fiskistofna og sjávarútveg og áhrif á gróðurfar hér á landi hef ég vísvitandi sleppt í þessu stutta innleggi mínu hér við setningu Rannsóknaþings 2011, enda er þeim viðfangsefnum gerð skil hér síðar í dagskránni.
Af öllu framansögðu má ljóst vera að margvíslegar ógnanir en jafnframt tækifæri liggja í málefnum norðurslóða bæði á vettvangi stjórnmálanna en jafnframt á sviði vísinda- og fræðastarfs.

Ég segi Rannsóknarþing 2011 sett.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum