Hoppa yfir valmynd
24. júní 2005 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Jarðgöng undir Almannaskarð vígð og opnuð fyrir umferð

Fyrir stundu opnaði Sturla Böðvarsson göng undir Almannaskarð.

Almannaskarðsgöng munu auka umferðaröryggi til muna þar sem þau leysa af hólmi brattasta vegarhluta hringvegarins, en vegurinn er með 17% halla. Vegna þessa mikla halla er vegurinn töluvert hættulegur og má segja að hann hafi verið farartálmi vegna grjóthruns árið um kring, auk þess sem leiðin hefur oft verið erfið að vetri til vegna hálku og snjóa.

Jarðgöngin sjálf eru 1146 metrar á lengd, en með steyptum forskálum teljast þau 1308 metrar.

Heildarfjárveitingar til verksins eru um 1.100 m.kr. og þótt endanlegt kostnaðaruppgjör liggi ekki fyrir virðist ljóst að verkið rúmist innan fjárveitinga. Jarðgangagröftur hófst fyrir nánast réttu ári síðan, eða 16. júní 2004 og lokasprenging var 8.október. Gangagröfturinn gekk mjög vel allan tímann þrátt fyrir misjafnar jarðfræðilegar aðstæður, og lauk mun fyrr en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Meðal annars var sett Íslandsmet í gerð sprengdra ganga þegar göngin lengdust um 105 metra á einni viku með einum vinnuflokki. Eftir gegnumbrot hefur verið unnið við lokastyrkingar, vatnsvarnir, frárennsliskerfi, raflagnir og lýsingu, vegagerð innan og utan ganga, frágangi steyptra vegskála ásamt landmótun og frágangi alls svæðisins sem raskað var við framkvæmdirnar.

Heildarlengd ganga í bergi er eins og áður sagði 1.146 metrar en með vegskálunum verður heildarlengd um 1.308 metrar. Samkvæmt hönnunarsniði er rúmmál ganga um 63.000 m3 en áætla má að með yfirbroti hafi alls verið sprengdir um 70.000 m3 af föstu bergi. Við gangagröftinn voru að jafnaði notuð um 1,6 kg af sprengiefni á hvern rúmmetra bergs og hafa því um 112 tonn af sprengiefni verið notuð við verkið. Hver sprengifæra var um 5 m löng og alls voru sprengdar 230 sprengifærur. Til bergstyrkinga voru alls verið notaðir 3.200 bergboltar (3 til 5 m langir) og 2.600 m3 af sprautusteypu.

Aðalverktaki við verkið var Héraðsverk ehf. og norska fyrirtækið Leonhard Nilsen & Sönner AS. Undirverktaki við vegskálabyggingar var G. Þorsteinsson ehf. frá Höfn.

GeoTek ehf. sá um framkvæmdaeftirlit fyrir Vegagerðina.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira