Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þjóðargjöf í viku íslenskunnar: 550 eintök af heildarútgáfu Íslendingasagnanna

Gísli Sigurðsson, Jóhann Sigurðsson útgefandi, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Frú Vigdís Finnbogadóttir og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. - myndBirgir Ísleifur

„Það er mér heiður og ánægja að taka við þessari merku þjóðargjöf,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra sem í dag tók við 550 eintökum af heildarútgáfu Íslendingasagnanna sem gefin verða til mennta-, menningar- og heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið. Saga forlag hafði veg og vanda af fimm binda hátíðarútgáfu sagnanna, sem út kom í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins.

 

Ráðherra veitti gjöfinni viðtöku í Safnahúsinu við Hverfisgötu, við hátíðlega athöfn. Viðstödd voru meðal annars Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og frú Vigdís Finnbogadóttir, sem er verndari útgáfunnar.

 

„Við verðum ávallt að leita nýrra leiða til þess að kveikja áhuga og ástríðu fyrir íslenskri menningu – ekki síst okkar dýrmæta menningararfi. Afhending þjóðargjafarinnar er táknræn viðleitni í því samhengi. Hver kynslóð þarf að hafa tækifæri til þess að uppgötva, endurskapa og rannsaka menningararfinn. Finna hlutdeild sína í honum og miðla áfram – sá þráður má ekki slitna,“ sagði ráðherra.

 

Afhending þjóðargjafarinnar er styrkt af fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum en meðal viðtakenda eru skólar, bókasöfn, hjúkrunar-, meðferðar- og dvalarheimili. Útgáfan sem um ræðið er með nútímastafsetningu og henni fylgja ítarlegir formálar sem greiða götur um veröld sagnanna, vandaðar orðskýringar, vísnaskýringar og nafnaskrá auk greina og mynda.

 

„Sögurnar verða örugglega til að styrkja íslenska tungu og treysta málkennd og gleðja lesendur, unga sem aldna, til langrar framtíðar. Bækurnar munu síðan fara í alla skóla í landinu, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, almenningsbókasöfn, dvalarheimili aldraðra, sjúkrahús og heilsustofnanir, og menningarsetur; já raunar verða sögurnar tiltækar allstaðar þar sem þú kannt að dvelja eða reka inn nefið í leit að bókakosti. Mig langar að þakka ráðherra fyrir gott samstarf og þeim fyrirtækjum sem eru bakhjarlar þjóðargjafarinnar,“ segir Jóhann Sigurðsson, útgefandi.

 

Ritstjórar útgáfunnar voru Aðalsteinn Eyþórsson, Bragi Halldórsson, Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum