Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 28. apríl 2023

Er föstudagur?

 

Ef svarið er já þá lítum yfir liðna viku í leik og störfum í utanríkisþjónustunni. Byrjum á ráðherra.

 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var á ferðalagi í vikunni. Á mánudag var hún stödd í Lúxemborg þar sem hún kynnti formennsku Íslands og undirbúning leiðtogafundarins fyrir utanríkisráðherrum ESB, auk þess sem hún átti fund með utanríkismálastjóra ESB, Joseph Borell og tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Finnlands og Írlands. Þaðan var förinni heitið til Strassborgar þar sem hún ávarpaði þing Evrópuráðsins, leit yfir farinn veg í formennsku Íslands og lýsti vonum og væntingum um góða niðurstöðu af leiðtogafundinum sem eins og vitað er fer fram í Reykjavík 16. - 17. maí. Greint var frá þessu í frétt á vef Stjórnarráðsins.

 

Í ferðinni átti ráðherra jafnframt fundi með Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins og Mariju Pejčinović Burić, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, mannréttindafrömuðinum Bill Prowder og þingmönnum í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.

 

Í lok ferðar opnaði ráðherra svo sérstaka móttöku sem haldin var í tengslum við sýnileikaviku lesbía. Viðburðurinn var hluti af formennskuáætlun Íslands og skipulagður með skrifstofu Evrópuráðsins um réttindi hinsegin fólks og hópi lesbískra aðgerðasinna. 

 

Frá Strassborg lá leiðin til Chisinau, höfuðborgar Moldóvu, þar sem utanríkisráðherrar NB8-ríkjanna funduðu með leiðtogum Moldóvu um öryggismál í Evrópu og aðild Moldóvu að Evrópusambandinu. 

 

Og frá Chisinau til úkraínsku hafnborgarinnar Odesa, þar sem utanríkisráðherrar NB8-ríkjanna áréttuðu stuðning sinn við stjórnvöld í landinu og undirstrikuðu mikilvægi þess að kornútfluningur frá borginni gengi hindranalaust fyrir sig. 

 

„Þetta er í þriðja sinn sem ég heimsæki Úkraínu. Í hvert skipti sem ég kem hingað styrkist ég í þeim ásetningi að gera allt sem í mínu valdi stendur til að styðja úkraínsku þjóðina í hetjulegri baráttu hennar gegn innrásaröflunum. Sameiginlegar rætur Úkraínu og Norðurlanda liggja langt aftur og okkur ber að hlúa að þessum tengslum og efla þau,“ sagði Þórdís Kolbrún af tilefninu.

 

Greint var frá því í Heimsljósi, fréttaveitu okkar um þróunarmál, að tuttugu og tveir sérfræðingar frá fjórtan löndum hefðu útskrifast frá Sjávarútvegsskóla GRÓ. Hópurinn mun vera 24. árgangurinn sem lýkur námi við skólann og hefur dvalið á Íslandi við nám síðustu sex mánuði. 

 

 

 

Sameiginlegt lið Svíþjóðar og Íslands bar sigur úr býtum á netvarnaræfingunni Skjaldborg (Locked Shields) sem fór fram í vikunni. Æfingin er haldin af öndvegissetri Atlantshafsbandalagsins í netvörnum í Tallinn og er skipulögð sem netvarnarkeppni þar sem liðin keppast við að verja tölvukerfi fyrir árásum. Um er að ræða eina stærstu netvarnaræfingu í heimi og taka rúmlega 2.400 manns þátt í 24 liðum. 

 

 

Á miðvikudag dró til tíðinda hjá Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York þegar ályktun um samstarf milli Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna var samþykkt með 122 atkvæðum. Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi  Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, lagði ályktunardrögin fyrir allsherjarþingið og flutti jafnframt ræðu fyrir hönd 51 ríkis sem gerðist meðflytjandi að ályktuninni.

 

 

Fastanefndin tók jafnframt vel á móti Ingu Huld Ármann, ungmennafulltrúa, sem tók þátt í ungmennaráðstefnu efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) fyrir Íslands hönd.

Þórir Ibsen sendiherra Íslands í Kína afhenti Xi Jinping forseta Kína trúnaðarbréf sitt í byrjun vikunnar.

 

Þá fór hann, ásamt viðskiptafulltrúa og samstarfsaðila CRI, á fund með forseta bankastjórnar Innviðabanka Asíu og ræddu við sérfræðinga um græna fjármögnun og kynntu fyrir þeim  íslenska tækni og fyrirtæki sem veit kínverskum fyrirtækjum tæki og tækni til að fanga og endurnýta kolefni.  

 

 

Í dag var tekin í notkun jarðhitavirkjun í borginni Schwerin við hátíðlega athöfn. Kanslari Þýskalands og fleiri háttsettir aðilar opnuðu hana formlega og sendiherra Íslands í Berlín María Erla Marelsdóttir var viðstödd athöfnina. Kanslari Þýskalands og borgarstjórinn í Schwerin minntust sérstaklega á að Ísland væri framarlega á sviði jarðhita.

 

 

Þá heimsótti María Erla sendiherra í vikunni listakonuna Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur í Künstlerhaus Bethanien í Berlín, en sýningin hennar "I will keep close to you" er þar opin almenningi til 30. apríl.

 

 

Harald Aspelund sendiherra Íslands í Helsinki var viðstaddur Locked Shields netvarnaræfinguna þar sem íslenska liðið vann til verðlauna ásamt hinu sænska og greint var frá fyrr í póstinum. 

 

 

Þá tóku sendiherrahjónin í Helsinki á móti listnámsdeild Menntaskólans á Ísafirði í sendiherrabústaðnum. Í heimsókninni var farið yfir líf og störf í sendiráðinu og spjallað um íslenska list.

 

 

Sendiráð Íslands í Lilongwe, Malawi segir frá tveimur verkefnum sem fjármögnuð eru að hluta af sendiráðinu. Annars vegar verkefnið Go Fund A Girl Child sem miðar að því að efla efnahag stúlkna og ungra kvenna í viðkvæmri stöðu. 

 

 

og hinsvegar jafnréttisverkefni sem miðar að því að efla kynjajafnrétti í héraðsráðum Blantyre, Mangochi, Nkhotakota og Mulanje héröðum. 

 

 

Í sendiráði Íslands í London var fundað með stjórn Félags eigenda íslenskra hesta í Bretlandi (IHSGB). Rædd var starfsemi félagsins og hvernig hægt væri að efla samstarf við sendiráðið. 

 

 

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra í Moskvu tók þátt í fundi utanríkisráðherra í Moldóvu sem greint var frá fyrr í þessum pósti ásamt Jóhanni Þorvarðarsyni, sérfræðingi úr utanríkisráðuneytinu. 

 

 

Högni Kristjánsson sendiherra Íslands í Osló heimsótti Bodö á dögunum og var vel tekið á móti honum af ræðismanni Íslands í bænum, Hanne Kristin Jakhelln. 

 

 

Högni var jafnframt viðstaddur norrænt mót matreiðslu- og framreiðslunema sem fór fram í Osló síðastliðna helgi þar sem íslenskt lið matreiðslunema stóð sig best og bar sigur úr býtum. 

 

 

Starfsmenn sendiráðsins í Kanada mættu til vinnu í gallafatnaði og nýttu útlitið – betur þekkt sem „Canadian tuxedo“ – í auglýsingu fyrir sýningu sendiráðsins á BAND eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur sem var haldin sl. miðvikudagskvöld. Sýningin var hluti af kvikmyndahátíðinni Bright Nights: Baltic-Nordic Film Festival sem sendiráðið tekur þátt í að skipuleggja ásamt hinum NB8 sendiráðunum í Ottawa. 

 

 

Auk þess hélt sendiráðið annað vefnámskeið um markaðsaðgang að Kanada fyrir íslensk fyrirtæki, nú undir yfirskriftinni Food & Natural Products: Opportunities in Canada for Icelandic Enterprises. Upptökur frá fyrri námskeiðum í þessari röð er hægt að nálgast á vefsíðu sendiráðsins.

 

Sendiráð Íslands í París greindi frá því á Facebook síðu sinni að hinn þýsk-íslenski leikstjóri Gunnur Martinsdóttir hefði hlotið tilnefningu til gullpálmans á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir stuttmynd sína F anoR. 

 

 

Og Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands gagnvart Spáni sagði frá heimsókn Svandísar Svavarsdóttur sjávarútvegsráðherra á einni stærstu sjávarútvegsstefnu heims Seafood Expo Global í Barcelona á dögunum þar sem gestir gátu gætt sér á íslenskum sjávarafurðum. 

 

 

Þá tók sendiráðið á móti nemendahópi úr Landakotsskóla sem fékk kynningu á störfum Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og áherslum Íslands innan hennar. Landakotsskóli er svokallaður UNESCO skóli en verkefnið felur í sér að hvetja til menntunar um mál sem tengjast markmiðum Sameinuðu þjóðanna og stuðla að friði og öryggi með því að efla samvinnu þjóða í mennta-, vísinda- og menningarmálum. 

 

 

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson tók þátt í Barbershop viðburði sem skipulagður var af meðal annars fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu.

Sendiráð Íslands í Stokkhólmi auglýsir á Facebook síðu sinni vortónleika Íslendingakórsins í Lundi sem fram fara nú um helgina. 

 

 

Í byrjun vikunnar opnaði sendiráðið í Stokkhólmi dyr sínar fyrir þátttakendum í Nordkurs, vinnustofu kennara sem kenna norræn tungumál. Þátttakendur frá Íslandi voru kennarar í íslensku sem öðru máli, Ána Stanicevic og Marc D. S. Volhardt, auk Íslandsfulltrúa fyrir Nordkurs, Branislav Bédi. 

 

 

Fjölbreytileikanum var fagnað á Pride viðburði í Tókýó sem Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra tók þátt í ásamt öðrum norrænum og norður-evrópskum sendiherrum. 

 

 

Sendiráðið í Tókýó greindi jafnframt frá því að 15 nemendur hefðu hlotið styrk úr Watanabe styrktarsjóðnum til að stunda nám í Japan. Alls nema styrkveitingar úr sjóðnum um 11 milljónum yena.

 

 

Og sendiherrann kom jafnframt fram í viðtali við Yuriko Mori, rithöfund og ræddi þar um Ísland og umhverfismál, meðal annars. 

 

 

Nóg var um að vera í nýstofnuðu sendiráði Íslands í Varsjá að vanda. Hamingjuóskum var komið á framfæri til þýðandans Jacek Godek sem fékk á dögunum þýðendaverðlaunin Orðstír fyrir þýðingar sínar á íslenskum bókmenntaverkum yfir á pólsku. 

 

 

Hannes Heimisson sendiherra Íslands í Póllandi tók þátt í pallborðsumræðum ásamt öðrum norrænum sendiherrum á viðburðinum Nordic Green Meeting Point 2023.

 

 

Þá heimsótti hann einnig Kozminski háskóla sem fékk á dögunum fulltrúa frá Háskólanum í Reykjavík í heimsókn til að ræða mögulegt samstarf milli skólanna tveggja. 

 

 

Hannes tók jafnframt þátt í málþinginu "Capacity building of key stakeholders in the field of geothermal energy" í Varsjá. 

 

 

Og sendiráðið tilkynnti stolt þátttöku sína í nokkurskonar "Hjólað í vinnuna" átaki sem fer fram í Varsjá í maí.

 

 

Á aðalræðisskrifstofu Íslands í Færeyjum var haldið upp á svokallaðan flaggdag.

 

 

Sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, Bergdís Ellertsdóttir, heimsótti Minnesota síðastliðna helgi og ávarpaði samkomu Hekla Club í Minnesota en um er að ræða einn elsta félagsskap Íslendinga í Norður-Ameríku sem stofnaður var af íslenskum konum árið 1925.

 

 

Vilhjálmur Wiium, aðalræðismaður Íslands í Winnipeg sótti sama viðburð. 

 

 

Sendiráð Íslands í Bandaríkjunum tók á móti þingmönnum frá Íslandi og starfsmönnum Alþingis sem sóttu fund Norðurslóðaþingmanna í Washington D.C. sem haldinn var að frumkvæði öldungardeildarþingkonunnar og Íslandsvinkonunnar Lisa Murkowski.

 

 

Ásmundur Einar, Mennta- og Barnamálaráðherra sótti ráðstefnuna International Summit on the Teaching Profession í Washington í vikunni (og átti fund með sendiherra). 

 

 

Starfsfólk sendiráðs tók þátt í árlegri göngu í Washington D.C. Scandinavian Soldiers March sem skipulögð er af norrænum varnarmálafulltrúum. 

 

 

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra Íslands tók þátt í göngunni ásamt sendiherrum Noregs og Úkraínu.

 

Sendiráð Ísland hélt móttöku í sendiráðsbústaðnum á fimmtudag fyrir starfsmenn og viðskiptavini Kerecis í tengslum við þátttöku fyrirtækisins á ráðstefnunni Symposium on Advanced Wound Care sem fram fer í Maryland þessa vikuna. 

 

Föstudagspósturinn verður ekki lengri að þessu sinni. 


Góða helgi og byltingarkveðjur til ykkar á baráttudegi verkalýðsins næstkomandi mánudag.


Upplýsingadeild

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum