Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Styrkur til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi

Ljósmynd: Rauði krossinn - mynd

Rauði krossinn á Íslandi hefur sent rúmlega 21 milljón króna til mannúðaraðstoðar Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans (ICRC) í Sýrlandi. – Þetta kemur fram í frétt frá Rauða krossinum. Þar segir:

„Átök í Sýrlandi hafa skapað einhvern mesta mannúðarvanda í heiminum í seinni tíð og fátt bendir til þess að þeim linni í bráð. Átök geisa enn í landinu og enn er langt í að Sýrlendingar geti snúið til síns heima. Áætlað er að um 13 milljón einstaklinga innan landamæra Sýrlands þurfi á mannúðaraðstoð að halda, þar af eru um 5,6 milljónir einstaklinga sem eru í bráðri lífshættu. Þá er ótalið allt fólkið sem flúið hefur heimkynni sín vegna átakanna en 5,1 milljón sýrlensks flóttafólks er skráð hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í Tyrklandi, Líbanon, Jórdaníu, Írak og Egyptalandi. Þá er tæp milljón sýrlenskra umsækjenda um alþjóðlega vernd í Evrópu. Verkefni Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Sýrlandi eru stærstu einstöku mannúðaraðgerðir hreyfingarinnar í dag.

Fjármagninu sem Rauði krossinn á Íslandi hefur sent út er ætlað að aðstoða þolendur átakanna í landinu, þ.e. dreifingu hjálpargagna, aðstoð við sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, aðstoð við særða og sjúka ásamt líkamlegri og samfélagslegri endurhæfingu þolenda átakanna.

Með þessu framlagi styður Rauða krossinn á Íslandi við aðgerðir Alþjóðaráðsins (ICRC) en sérstaða Rauða krossins er að grundvallarhugsjónir hreyfingarinnar eru m.a. mannúð og hlutleysi og þannig er ekki tekin afstaða í átökum. Það gerir hreyfingunni kleift að efla traust við aðila átaka sem gerir það að verkum að oft fær Rauði krossinn aðgang að svæðum sem aðrir fá ekki aðgang að til að veita mannúðaraðstoð. Alþjóðaráðið er verndari Genfarsamninganna og er ætlað að stuðla að virðingu fyrir ákvæðum alþjóðlegra mannúðarlaga.

„Það er ljóst að gríðarleg uppbygging þarf að eiga sér stað í Sýrlandi á næstu árum og áratugum og átökum linnir ekki enn. Það er mikilvægt að við aðstoðum núna og til framtíðar. Við megum ekki gleyma átaka- og hamfarasvæðum þótt átök hafi staðið yfir í langan tíma. Aðstæðurnar eru enn erfiðar og verða áfram þrátt fyrir að um sjö ár séu brátt liðin frá því átök brutust fyrst út“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira