Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2016 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 45/2016 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. febrúar 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 45/2016

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15080005

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst kærunefnd útlendingamála, dags. 13. ágúst 2015, kærði Hreiðar Eiríksson hdl., f.h. [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. júlí 2015, um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita honum dvalarleyfi á Íslandi. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun stofnunarinnar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gekk kærandi í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þann 4. október 2012. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins þann 7. janúar 2013. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. júlí 2015.

Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála með bréfi sem barst þann 13. ágúst 2015. Með tölvupósti, dags. 14. ágúst 2015, var óskað eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd þann 8. september 2015. Með tölvupósti, dags. 28. september 2015, var kæranda veittur 14 daga frestur til að leggja fram greinargerð vegna kærumálsins. Greinargerð barst frá kæranda þann 14. október 2015. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn frá kæranda þann 26. og 27. október 2015.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að rökstuddur grunur sé á að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað til málamynda. Þau atriði sem stofnunin tiltók sérstaklega eru m.a. þau að mikill aldursmunur sé á milli kæranda og maka. Þá hafi þau þekkst í tiltölulega stuttan tíma áður en þau gengu í hjúskap og að þau geti ekki átt samskipti á tungumáli sem bæði tala vel. Jafnframt hafi önnur gögn í málinu stutt grun stofnunarinnar að um málamyndahjúskap sé að ræða, þ.e. ósamræmi í lýsingum þeirra á búsetu og heimili, að kærandi hafi ekki vitað hve mörg systkini maki ætti og frásagnir af samskiptum þeirra á meðan þau bjuggu í sitthvoru landinu. Auk þess hafi kærandi og maki ekki verið samsaga um hvers vegna þau þurftu að fresta brúðkaupi sínu á sínum tíma. Stofnunin taldi það vega inn í heildarmat á trúverðugleika kæranda og maka að lögð hafi verið fram staðfesting barnsmóður kæranda á því að hún samþykkti að barn hennar og kæranda myndi flytjast til Íslands, en í viðtali kæranda og maka hjá stofnuninni hefðu þau kveðið barnsmóður kæranda látna. Var það mat stofnunarinnar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, og að ekki hafi verið sýnt fram á annað með óyggjandi hætti af hálfu kæranda. Kæranda var því synjað um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er byggt á því að ákvörðun Útlendingastofnunar sé efnislega röng. Með henni sé brotið gegn borgaralegum réttindum hans sem tryggð séu samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Þá byggir hann enn fremur á því að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin, sem og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Kærandi hafnar því að aldursmunur kæranda og maka þyki benda til þess að um málamyndahjúskap sé að ræða. Hann bendir á að í öllum löndum heims hafi fólk á mismunandi aldri gengið í hjúskap án þess að tilgangur eða gildi hjónabanda hafi verið dreginn í efa. Slík hjónabönd séu algeng milli íslenskra ríkisborgara og áratugum saman hafi erlendum konum, einkum frá Asíu, verið veitt dvalarleyfi athugasemdalaust vegna hjúskapar með íslenskum karlmönnum, sem voru áratugum eldri en þær. Vísar kærandi þessu til stuðnings til 65. gr. stjórnarskrárinnar, 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 31/1993.

Kærandi mótmælir því að stofnunin haldi því fram að kærandi og maki hafi þekkst í stuttan tíma og geti ekki haft samskipti á tungumáli sem þau bæði tala. Það komi greinilega fram í gögnum málsins að kærandi og maki kynntust árið 2008 og hittust þá í eigin persónu. Þau hafi átt í reglulegum samskiptum í fjögur ár, frá þeim tíma og þar til þau gengu í hjónaband. Sambandið hafi því verið rótgróið við hjúskaparstofnunina. Þá hafi tungumálaerfiðleikar aldrei komið í veg fyrir samskipti þeirra.

Kærandi vísar á bug staðhæfingum stofnunarinnar um ósamræmi í lýsingum kæranda og maka á búsetu og heimili. Þau hafi verið samhljóða um heimilisfang sitt en maki hafi ekki verið beðinn um að lýsa innanstokksmunum í viðtalinu, dags. 16. desember 2014. Lýsing kæranda var því lýsing á öðrum atriðum en lýsing maka, auk þess hafi lýsing maka verið skráð rúmlega ári áður en lýsing kæranda var skráð. Hinar svokölluðu mismunandi lýsingar kæranda og maka hafi því verið svör við mismunandi spurningum sem auk þess hafi verið lagðar fyrir með árs millibili. Kærandi heldur því fram að hann og maki hafi ekki fengið sömu spurningar um þessi atriði og því hafi túlkun stofnunarinnar um þau verið á þessa leið.

Þá mótmælir kærandi því að stofnunin meti það svo að kunningsskapur kæranda við [...] hafi þýðingu við mat á því hvort um málamyndahjúskap sé að ræða. Einnig er því mótmælt að það hafi yfir sér ólíkindablæ að kærandi og [...] hafi báðir hitt á sama tíma tvær íslenskar vinkonur á sama stað og gengið síðar í hjúskap með þeim. Bendir kærandi á að [...] hafi gengið í hjúskap með vinkonu maka eftir mun styttri kynni en kynni kæranda og maka, en þrátt fyrir það hafi hann fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli hjúskapar síns.

Þá telur kærandi að ekki sé glögg vísbending til staðar að um málamyndahjúskap sé að ræða. Þvert á móti hafi kærandi sýnt fram á það með óyggjandi hætti að til hjúskaparins hafi verið stofnað eftir langt ástarsamband, á lögmætan hátt, milli tveggja fullorðinna og sjálfráða einstaklinga. Tilgangurinn hafi verið að lifa í samvistum við hvort annað og halda heimili saman til frambúðar.

Í viðtali hjá stofnunni þann 16. desember 2014 hafi komið fram að kærandi ætti barn í [...] og að móðir þess væri látin. Kærandi hafði skilað inn skjali til stofnunarinnar sem varðaði barnið og var það undirritað af konu með sama nafn og móðir barnsins. Kærandi útskýrði þetta í viðtalinu og greindi frá því að eftir andlát móðurinnar hefði barninu verið komið fyrir hjá konu úr sömu ætt. Ættarnafn hennar væri hið sama og ættarnafn móður barnsins og einnig væri eiginnafn konunnar hið sama. Kærandi kveður það algengt í [...]. Þá hafi stofnunin krafið kæranda um dánarvottorð barnsmóður hans. Slík krafa sé ekki í neinum tengslum við umsókn kæranda um dvalarleyfi og sé án lagastoðar. Kærandi hafi gert tilraun til þess að afla vottorðsins án árangurs, þar sem eftirlifandi ættingjar konunnar hafi neitað honum um vottorðið og hafnað að veita honum umboð til að afla staðfestingar stjórnvalda á andlátinu.

Kærandi mótmælir því að mismunandi skýringar hans og maka um frestun brúðkaups þeirra teljist rökstuðningur fyrir því að um málamyndahjúskap hafi verið að ræða. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi gefið þá skýringu að brúðkaupinu hafi verið frestað vegna andláts móður hans en maki hafi gefið þá skýringu að hún hefði veikst. Kærandi bendir á að báðar skýringar séu réttar.

Kærandi mótmælir því að hann og maki hafi haft uppi mismunandi frásagnir um upphaf kynna sinna eins og stofnunin byggir á. Þá bar þeim saman um samskipti sín áður en þau gengu í hjúskap og um hvenær ákvörðun um að ganga í hjúskap hafi verið tekin. Jafnframt hafi þeim borið saman um framkvæmd brúðkaupsins, gagnkvæmum kynnum af fjölskyldumeðlimum og kaup á giftingarhringum.

Í greinargerð sinni mótmælir kærandi því að forsendur hjónanna fyrir dvöl [...] á heimilinu séu dregnar inn í mat á því hvort um málamyndahjúskap sé að ræða. Þá gerir kærandi athugasemdir við framkvæmd viðtala kæranda og maka hjá stofnuninni. Þar hafi verið lagðar mismunandi spurningar fyrir kæranda og maka um vistarverur þeirra í [...] og þeim síðan skýrt í óhag sú staðreynd að svörin hafi ekki verið eins.

Kærandi telur að ákvörðun stofnunarinnar sé geðþóttaákvörðun sem byggist á ómálefnalegu mati á því sem stofnunin kallar misræmi í frásögnum kæranda og maka í viðtölum hjá stofnuninni. Stofnunin hafi ýkt þýðingu smáatriða og gefið óeðlilega mikið vægi á sama tíma og hún hafi litið alfarið framhjá fjölmörgum atriðum sem sýndu með ótvíræðum hætti fram á að kynni kæranda og maka hans bar að með eðlilegum hætti, samskipti þeirra í aðdraganda hjúskaparins voru regluleg og stóðu í langan tíma. Með þessu hafi stofnunin leitast við að snúa sönnunarbyrði við, þ.e. að leggja byrðar á kæranda að sanna með ótvíræðum hætti að tilgangur hjúskaparins væri ekki sá einn að afla honum dvalarleyfis. Kærandi telur sig hafa staðið undir þeirri sönnunarbyrði með viðtölum og öðrum gögnum sem hann hefur lagt fram. Í þessu sambandi vísar kærandi til úrskurðar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 12. nóvember 2010 (DMR10030025/8.10.1) þar sem komi m.a. fram að ákvörðun um að synja um dvalarleyfi á þeim grundvelli að um málamyndahjúskap sé að ræða verði að teljast afar íþyngjandi ákvörðun, sérstaklega þar sem það feli í sér öfuga sönnunarbyrði. Því beri að beita ákvæðinu með varúð. Kærandi telur að með þessum úrskurði komi fram að rökstuddur grunur þurfi að beinast að því að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim eina tilgangi að afla útlendingi dvalarleyfis á Íslandi, sbr. afdráttarlaust orðalag 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga. Ekki nægi að rökstuddur grunur leiki á að það kunni að hafa verið eitt af markmiðum hjúskaparins, heldur verði það að teljast vera eina markmið hans. Kærandi áréttar að í hans tilfelli hafi hjúskapurinn á engan hátt verið ætlaður til að afla sér dvalarleyfis hér á landi. Þá telur hann að 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga hafi ekki verið beitt með varúð í hans tilfelli, heldur af léttúð og geðþótta.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara vegna gruns um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 13. gr. laga um útlendinga og 47. gr. reglugerðar um útlendinga er að finna heimild til að veita maka íslensks ríkisborgara dvalarleyfi hér á landi að uppfylltum almennum skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis sem koma fram í 11. gr. laga um útlendinga. Kærandi þarf því að uppfylla sérstök skilyrði 13. gr. laga um útlendinga ásamt almennum skilyrðum 11. gr. laganna til að unnt sé að fallast á útgáfu dvalarleyfis henni til handa. Í 11. gr. laga um útlendinga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr. laganna að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt.

Kærandi telur Útlendingastofnun hafa brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og beri því að ógilda ákvörðun stofnunarinnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Mál telst nægjanlega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar.

Við skoðun á máli kæranda og ákvörðunar Útlendingastofnunar verður talið að fullnægjandi gögn hafi legið fyrir og að Útlendingastofnun hafi rannsakað mál kæranda nægilega til að taka ákvörðun í málinu. Kærandi lagði fram gögn máli sínu til stuðnings áður en ákvörðun var tekin í máli hans. Eins naut kærandi stuðnings lögmanns við framlagningu kæru og greinagerðar. Verður ekki annað séð en að Útlendingastofnun hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti og ákvörðun hafi verið byggð á fyrirliggjandi gögnum og heildarmati á aðstæðum kæranda. Er því ekki talið að slíkur ágalli sé á úrlausn málsins að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar af þeirri ástæðu.

Kærandi heldur því fram að ákvörðun Útlendingastofnunar feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum mannréttindum hans samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, en þar er kveðið á um rétt manna til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Sá réttur er jafnframt tryggður í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 17. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafa, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Skylda ríkisins til að virða, vernda og tryggja réttinn til einkalífs, heimilis og fjölskyldu skv. 8. gr. mannréttindasáttmálans, metin í þessu ljósi, felur ekki í sér almenna skyldu til að virða val hjóna eða sambúðarfólks á dvalarríki. Þá felur 8. gr. sáttmálans heldur ekki almennt í sér skyldu ríkis til að samþykkja umsókn erlends maka um leyfi til dvalar eða búsetu á yfirráðasvæði sínu (sjá t.d. Antwi ofl. gegn Noregi, dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, 12. febrúar 2012 og Abdulaziz, Cabales og Balkandali gegn Bretlandi, dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, 28. maí 1985). Ekki verður séð að tilgangur 71. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið að útvíkka gildissvið friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu umfram inntak 8. gr. mannréttindasáttmálans. Þegar kærandi gekk í hjúskap með íslenskum ríkisborgara var hann ekki með dvalarleyfi hér á landi. Á þeim tíma mátti kæranda vera ljóst að fyrir hendi gætu legið aðstæður sem valdið gætu synjun á útgáfu dvalarleyfis. Verður samkvæmt ofangreindu ekki talið að höfnun á dvalarleyfi kæranda og brottvísun hans frá landinu brjóti á rétti kæranda eða maka hans til friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu skv. 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Kærunefnd fellst ekki á það með kæranda að sú ákvörðun Útlendingastofnunar að heimila honum komu til landsins vegna viðtala á meðan mál hans var til meðferðar, hafi falið í sér yfirlýsingu þess efnis að meiri líkur en minni væru á útgáfu dvalarleyfis og að hann hafi vegna þessa mátt hafa réttmætar væntingar til þess að búa á Íslandi til frambúðar. Hvað sem líður væntingum kæranda af boðun hans til landsins þá hefur það engin áhrif á rétt til dvalaleyfis og kemur því ekki til frekari skoðunar í máli þessu.

Í 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, veiti slíkur hjúskapur ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. einnig 47. gr. reglugerðar um útlendinga. Í athugasemdum í frumvarpi við 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. gr. laga nr. 20/2004 um breytingu á lögum um útlendinga, kemur m.a. fram að skilyrði þess að synjað verði um dvalarleyfi sé í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé um að um gerning til málamynda sé að ræða. Það verði að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þeim efnum geta t.d. verið að aðilar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilji ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur sé á þeim, þau þekki ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða til fyrri hjónabanda. Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað eingöngu til þess að fá dvalarleyfi, vegna framangreindra atriða eða af öðrum ástæðum, fellur það í hlut umsækjanda að sýna fram á annað. Synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda um dvalarleyfi verður að skilja þannig að hún sé byggð á því að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda, í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi.

Við mat sitt á því hvort um málamyndahjúskap sé að ræða fjallar Útlendingastofnun ítarlega um málavöxtu alla og grundvallast mat stofnunarinnar á heildarmati á gögnum málsins. Það er mat kærunefndar að af gögnum málsins megi ráða að kærandi og maki þekki ekki til einstakra atvika eða atriða úr lífi hvors annars fyrir giftingu þrátt fyrir að þau kveðist hafa verið í samskiptum frá árinu 2008. Þá er 20 ára aldursmunur með kæranda og maka. Jafnframt er ljóst að ósamræmi var í lýsingum þeirra á búsetu og heimilisaðstæðum. Þá eru vísbendingar um að þau geti ekki átt samskipti á tungumáli sem bæði tala vel.

Af öllum málsgögnum virtum er það mat kærunefndar að slíkt ósamræmi sé í frásögnum kæranda og maka hans um líf þeirra að frásögnin í heild sinni geti ekki talist trúverðug. Er það því mat kærunefndar að fallast megi á með Útlendingastofnun að rökstuddur grunur sé um að til hjúskapar kæranda og maka hans hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Við málsmeðferð fyrir kærunefndinni hefur kærandi ekki fært fram haldbær rök sem sýna fram á annað með óyggjandi hætti. Umræddur hjúskapur veitir því ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga.

Að framansögðu virtu er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                           Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum