Hoppa yfir valmynd
5. júní 2014 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 2/2014

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Fjallabyggð


Kærandi, sem er kona, taldi að við skipulagsbreytingar hjá kærða, niðurlagningu stöðu deildarstjóra og uppsögn úr því starfi, hefði kærða borið að auglýsa stöður annarra deildarstjóra. Þar sem kæran barst kærunefnd eftir að lögmæltur kærufrestur var liðinn, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008, var henni vísað frá nefndinni.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 5. júní 2014 er tekið fyrir mál nr. 2/2014 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með erindi til kærunefndar, dagsettu 5. febrúar 2014, gerði kærandi athugasemd við breytingar í stjórnsýslu kærða er framkvæmdar voru sumarið 2013. Nánar tiltekið kvaðst hún gagnrýna að ný störf hjá sveitarfélaginu hefðu ekki verið auglýst, að málasviðum hefðu verið gefin heiti til þess að þau hentuðu eldri störfum og að karlar sem gegndu viðkomandi störfum hefðu enga háskólagráðu.  
 3. Kærunefndin ritaði kærða bréf, dagsett 7. mars 2014, þar sem greint var frá því að nefndin hefði ekki tekið afstöðu til þess hvort kæran hlyti efnismeðferð fyrir nefndinni með tilliti til kærufrests. Með vísan til atriða sem fram komu í kærunni óskaði kærunefnd eftir því að kærði gerði grein fyrir skipulagsbreytingum hjá sveitarfélaginu á árinu 2013. Kærunefndin óskaði einnig eftir öllum gögnum um niðurlagningu starfs fræðslu- og menningarfulltrúa ásamt upplýsingum um launakjör kæranda við niðurlagningu starfsins jafnframt því sem hún óskaði eftir upplýsingum og gögnum um ráðningu í nýtt starf fræðslu- og menningarfulltrúa. Svör kærða bárust með bréfi, dagsettu 24. mars 2014, er kynnt var kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 2. apríl 2014.
 4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 9. apríl 2014, með athugasemdum við bréf kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 22. apríl 2014. Athugasemdir kærða bárust nefndinni 22. maí 2014.
 5. Með bréfi kærunefndar, dags. 26. maí 2014, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina athugasemdum vegna hugsanlegrar frávísunar málsins hjá nefndinni. Kærandi sendi nefndinni athugasemdir er bárust 30. maí 2014. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR
 6. Kærandi starfaði sem fræðslu- og menningarfulltrúi hjá kærða frá 1. október 2007. Með bréfi frá kærða, dagsettu 27. júní 2013, var kæranda sagt upp störfum með fjögurra mánaða fyrirvara sem telja skyldi frá og með mánaðamótum júní og júlí 2013. Uppsögnin var rökstudd á þann veg að fyrirhugaðar væru skipulagsbreytingar og hagræðing innan sveitarfélagsins. Í bréfinu var kæranda jafnframt tilkynnt að samkvæmt nýju skipuriti væri staða fræðslu- og menningarfulltrúa lögð niður en henni boðið að taka við nýju starfi í stjórnsýslu- og fjármáladeild og fara með verkefni sem sneru að menningar-, atvinnu-, kynningar- og ferðamálum. Tekið var fram að nýja starfið væri launasett lægra en starf fræðslu- og menningarfulltrúa. Með bréfi, dagsettu 9. júlí 2013, óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi frá kærða vegna uppsagnarinnar og nánari upplýsingum vegna skipulagsbreytinganna. Svarbréf kærða er dagsett 19. júlí 2013. Kærandi tilkynnti kærða með bréfi, dagsettu 26. júlí 2013, að hún hefði ákveðið að taka ekki við nýju starfi hjá kærða.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA
 7. Kærandi greinir frá því að hún hafi verið eina konan sem hafi verið deildarstjóri fyrir ofangreindar breytingar. Kærandi sé með mikla menntun og reynslu og hafi verið yfir stærsta málaflokknum, fræðslumálunum, og því hafi hún verið nokkuð örugg með að halda vinnunni. Kærandi hafi talið að ný störf sviðsstjóra yrðu auglýst og hafi verið ákveðin í að sækja um. Nýju störfin hafi ekki verið auglýst þrátt fyrir miklar breytingar á stöðunum, mun meiri ábyrgð og að nýir málaflokkar hafi verið settir þar undir. Fræðslumálin hafi því farið undir fjölskyldusvið og menningarmálin undir stjórnsýslu- og fjármáladeild. Kærandi gagnrýnir að störfin skyldu ekki vera auglýst samkvæmt stjórnsýslulögum þannig að þeir sem væru með menntun og reynslu sem krafist væri í starfið gætu sótt um. Kærandi gagnrýnir einnig að sviðin hafi fengið heiti sem myndu henta gömlu störfunum og þeim körlum sem ynnu störfin. Eðlilegra hefði verið að kalla nýtt svið fræðslu- og félagsmálasvið í stað þess að fella svo stóran málaflokk undir fjölskyldusvið. Þá gagnrýnir kærandi að karlarnir sem hafi fengið störfin hafi enga háskólagráðu. Hún sé hins vegar með BA-gráðu í mannfræði, sé grunn- og framhaldsskólakennari, með diplómu í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á stjórnun menntastofnana og sé að ljúka meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræðum. Þá hafi hún mikla reynslu í stjórnun, ráðgjöf, gerð starfs- og fjárhagsáætlana, starfsmannamálum og fleiru.
 8. Kærandi kveðst hafa óskað eftir upplýsingum frá kærða um menntun og laun karlanna en ekki fengið þrátt fyrir að ný upplýsingalög veiti henni þann rétt. Kærandi telur að gróflega hafi verið gengið fram hjá henni og að jafnréttislög hafi verið brotin. Uppsögnin hafi haft mikil áhrif á allt hennar líf og enga sambærilega stöðu sé að fá í sveitarfélaginu eða nágrannasveitarfélögum. Staða kæranda setji því búsetu hennar á svæðinu í hættu, hún neyðist til að flytja í burtu og selja hús sitt. Kærandi hafi sótt um nokkrar stöður á D, E og víðar en ekki fengið.
 9. Í bréfi kæranda, dagsettu 9. apríl 2014, er greint frá því að í kvörtun hennar til kærunefndarinnar gagnrýni hún að allir þeir fimm einstaklingar sem hafi gegnt lykilhlutverkum innan deilda/sviða hjá kærða fyrir breytingar hafi ekki setið við sama borð við skipulagsbreytingarnar. Þegar deildarskipulagi hafi verið breytt hafi stöður deildarstjóra ekki verið auglýstar lausar til umsóknar á opinberum vettvangi í samræmi við ákvæði í kjarasamningum og starfsmannastefnu kærða. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þann sem hafi verið ráðinn í nýja stöðu markaðs-, menningar- og atvinnufulltrúa. Hann hafi verið ráðinn hálfu ári síðar og hafi haft þá menntun og reynslu sem hafi verið óskað eftir í auglýsingu. Samkvæmt nýju skipuriti hafi nýjar deildir orðið til sem ekki hafi verið samkvæmt eldra skipuriti. Með nýju fyrirkomulagi hafi orðið breytingar á staðsetningu verkefna og breytingarnar hafi verið það veigamiklar að það hefði átt að auglýsa störf deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar og deildarstjóra fjölskyldudeildar.
 10. Varðandi kærufrest tekur kærandi fram að hún hafi fengið mikið áfall þegar starf hennar hafi verið lagt niður. Hún hafi farið í gegnum sorgarferli og átt við veikindi að stríða. Vegna þessa hafi hún ekki treyst sér til að takast á við málið fyrr.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA
 11. Kærði greinir frá því að sveitarfélagið hafi fengið fyrirtækið C til að gera úttekt og leggja fram tillögur að hagræðingu í rekstri kærða. Í skýrslu C komi meðal annars fram að launakostnaður hafi verið hlutfallslega of hár í rekstri kærða. Á fundi bæjarstjórnar þann 12. júní 2013 hafi verið samþykktar breytingar á skipulagi kærða sem hafi meðal annars falið í sér að félags- og fræðslumál hafi verið færð undir fjölskyldudeild en menningar-, atvinnu-, kynningar- og ferðamál undir stjórnsýslu­- og fjármáladeild. Breytingar á skipuriti hafi því haft í för með sér fækkun deildarstjóra, úr fimm í þrjá. Þremur deildarstjórum hafi verið boðið að halda sínum stöðum með áorðnum breytingum. Þar hafi í fyrsta lagi verið um að ræða félagsmálastjóra, en fræðslu- og frístundamál ásamt félagsmálum hafi verið sett undir fjölskyldudeild í skipuriti. Í öðru lagi hafi verið um að ræða deildarstjóra tæknideildar, en stjórnun á sviði umhverfisfulltrúa hafi verið færð til hans. Þriðji deildarstjórinn hafi verið skrifstofu- og fjármálastjóri, en menningar-, atvinnu-, kynningar- og ferðamál hafi verið sett undir stjórnsýslu- og fjármáladeild. Vegna breytinganna hafi starf fræðslu- og menningarfulltrúa verið lagt niður og kæranda, sem hafi gegnt því starfi, sagt upp. Jafnframt hafi kæranda verið boðið nýtt starf í stjórnsýslu- og fjármáladeild sem markaðs- og menningarfulltrúi, sem hafi meðal annars falið í sér áframhaldandi starf við hluta þeirra verkefna sem kærandi hafi áður sinnt, þ.e. menningar- og kynningarmál. Kærandi hafi hafnað boðinu.
 12. Kærði greinir frá því að ekki hafi verið talin þörf á sérstökum sérfræðingi í fræðslumálum í fjölskyldudeild þar sem sú þekking væri fyrir hendi í skólum sveitarfélagsins. Niðurlagning starfs fræðslu- og menningarfulltrúa hafi verið liður í víðtækri endurskipulagningu sem hafi verið tekin af þar til bæru stjórnvaldi og ákvörðunin byggð á málefnalegum forsendum að fenginni ítarlegri úttekt á starfsemi kærða.
 13. Kærði rekur aðrar breytingar sem hafi verið gerðar vegna breytinga á skipuriti. Starf markaðs- og menningarfulltrúa hafi verið auglýst laust til umsóknar þann 2. ágúst 2013. Tíu umsóknir hafi borist og bæjarráð hafi samþykkt á fundi sínum þann 3. september 2013 að ráða tiltekinn karl í starfið.
 14. Vegna þeirra skýringa á kæruefninu er fram komu í bréfi kæranda, dagsettu 9. apríl 2014, þykir ekki ástæða til að rekja nánar svör kærða er lúta að hinu nýja starfi markaðs- og menningarfulltrúa.

  NIÐURSTAÐA
 15. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Í 3. mgr. 6. gr. laganna er mælt fyrir um að erindi skuli berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því ætlað brot á lögunum hafi legið fyrir, frá því að því ástandi sem talið er brot á lögunum lauk eða frá því að sá er málið varðar hafi fengið vitneskju um ætlað brot.
 16. Erindi kæranda lýtur að þeirri ákvörðun kærða að auglýsa ekki stöður deildarstjóra hjá sveitarfélaginu, einkum stöðu deildarstjóra fjölskyldudeildar. Kærandi hafði gegnt stöðu fræðslu- og menningarfulltrúa en sú deildarstjórastaða var lögð niður og verkefni færð til annarra deilda. Ákvörðun þessi var tekin á fundi bæjarstjórnar 12. júní 2013. Kæranda var svo sagt upp með bréfi 27. júní 2013. Í bréfi, dagsettu 19. júlí 2013, sem var svar við bréfi kæranda til kærða, dagsettu 9. júlí 2013, kom fram að deildarstjórastaðan hefði aldrei verið laus og hefði af þeim sökum ekki verið auglýst. Er því ljóst að þegar á þessum tíma lá það fyrir hjá sveitarfélaginu að starf deildarstjóra fjölskyldudeildar yrði ekki auglýst. Erindi kæranda barst kærunefnd þann 6. febrúar 2014. Voru þá liðnir meira en sex mánuðir frá því hin kærða ákvörðun var tekin og frá því rökstuðningur kærða, er látinn var í té með bréfinu 19. júlí 2013, lá fyrir. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt, með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008, að vísa máli þessu frá kærunefndinni enda hafa ekki komið fram atvik er valdið gætu því að taka bæri kæruna til meðferðar að liðnum framangreindum fresti.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

Erla S. Árnadóttir

Arnar Þór Jónsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira