Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 26/2009. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. nóvember 2009

í máli nr. 26/2009:

Vátryggingafélag Íslands hf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 15. júlí 2009, kærir Vátryggingafélag Íslands hf. þá ákvörðun Ríkiskaupa og Fjallabyggðar, dags. 9. júlí 2009, að velja tilboð frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. í útboði nr. 14660 – Tryggingar fyrir Fjallabyggð og ákvörðun um að heimila breytingu á fyrrgreindu tilboði eftir opnun tilboða. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli kærða með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru þessari.

2.  Þess er krafist að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða að leyfa Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að breyta tilboðsfjárhæð sinni.

3.  Þess er krafist að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

4.  Þá er gerð krafa um að kærða verði gert að greiða kostnað kærnada við að hafa kæruna uppi samkvæmt mati kærunefndar útboðsmála.

Kærði, Ríkiskaup, skilaði athugasemdum vegna kröfu kæranda, dags. 24. júlí 2009, þar sem hann krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst hann að kæranda verði gert að greiða málskostnað með tilvísun til 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

Með ákvörðun 29. júlí 2009 tók kærunefnd útboðsmála afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis kærða og var henni hafnað.

 

I.

Kærandi gerði kröfu um aðgang að öllum gögnum málsins með tölvubréfi, dags. 7. september 2009, og síðar með bréfi, dags. 5. október 2009. Með bréfi, dags. 2. október 2009,

krafðist kærði þess að trúnaðar yrði gætt um umrædd gögn. Kærunefnd útboðsmála tók afstöðu til þessarar kröfu kæranda um afhendingu gagna með ákvörðun 29. október 2009. Með ákvörðuninni var kæranda veittur aðgangur að skjali úr hluta tilboðs Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna útboðs kærða, Ríkiskaupa, nr. 14660 – Tryggingar fyrir Fjallabyggð, nánar tiltekið „0.1 Tilboðsblað (1 af 2)“. Í framhaldi var aðilum máls tilkynnt um ákvörðun nefndarinnar.

Ljóst er að við ritun fyrrgreindrar ákvörðunar láðist nefndinni að tilgreina jafnframt skjal, sem auðkennd er „Tilboðsskrá (1 af 2) – Leiðrétt tilboðsskrá 18. júní 2009“.  Nefndin hefur afmáð tilteknar tölulegar upplýsingar sem þar koma fram. Með hliðsjón af 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða ákvörðunarorð sem hér segir:

 

Ákvörðunarorð:

Kæranda, Vátryggingafélagi Íslands hf., er veittur aðgangur að skjölum úr hluta tilboðs Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna útboðs kærða, Ríkiskaupa, nr. 14660 – Tryggingar fyrir Fjallabyggð, nánar tiltekið „0.1 Tilboðsblað (1 af 2)“ og „ Tilboðsskrá (1 af 2) – Leiðrétt tilboðsskrá 18. júní 2009“ eftir að nefndin hefur afmáð tilteknar tölulegar upplýsingar úr síðarnefnda skjalinu.

                     

                       Reykjavík, 13. nóvember 2009.

 

Páll Sigurðsson,

 Stanley Pálsson,

         Auður Finnbogadóttir

 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 13. nóvember 2009.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum