Hoppa yfir valmynd
6. september 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar: 31. ágúst - 06. september 2002

Fréttapistill vikunnar
31. ágúst - 6. september 2002



Lyfjaútgjöldin vaxandi vegna nýrra og dýrari lyfja

Heildarsala á krabbameinslyfjum hefur í krónum talið fjórfaldast á fimm árum (1996 til 2001) samkvæmt yfirliti, sem lyfjamálaskrifstofa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hefur tekið saman og byggist samantektin á notkuninni og skráðu hámarksverði. Gera má ráð fyrir að kostnaður hins opinbera, Tryggingastofnunar og sjúkrahúsanna, hafi aukist í réttu hlutfalli við aukna sölu. Á meðfylgjandi súluriti kemur fram að það er fyrst og fremst ávísun á ný og dýr krabbameinslyf sem veldur aukningunni. Sömuleiðis hefur notkunin mæld sem skilgreindir dagskammtar á íbúa aukist nokkuð. Yfirgnæfandi hluti lyfjanna er notaður á sjúkrahúsum og langflest teljast til hinna svokölluð S-merktu lyfja. Á liðnu ári tæplega tvöfaldaðist kostnaður vegna notkunar þessa lyfjaflokks eða úr 450 milljónum 820 milljónir. Skýringin á þessari miklu hækkun er einkum vegna aukinnar notkunar nýrra lyfja sem skráð hafa verið og markaðssett á síðustu 4 árum.
SÚLURIT... (Pdf-skrá)

Útgjöld OECD-ríkja til heilbrigðismála: Ísland í 6. sæti
Að gefnu tilefni skal þess getið að upplýsingar frá OECD sýna að þegar heildarútgjöld einstakra ríkja til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu (VÞF) eru borin saman var Ísland í 6. sæti meðal OECD-ríkja árið 2000. Heilbrigðisútgjöldin árið 2000 voru í Kanada 9,1% af VÞF, Frakklandi 9,5% af VÞF, Þýskalandi 10,6% af VÞF, Sviss 10,7% af VÞF og Bandaríkjunum 13,0% af VÞF. Útgjöldin hér á landi voru það ár 8,9% af VÞF og er það svipað og á hinum Norðurlöndunum og í flestum löndum V-Evrópu. Samanburður sýnir að á tímabilinu 1990-1998 var Ísland að meðaltali í 10. sæti meðal OECD-ríkja með tilliti til þess hverju þau verja til heilbrigðismála. Í þessum útreikningum ná tölur OECD ekki aðeins til útgjalda ríkis og sveitarfélaga heldur einnig framlaga atvinnurekenda, frjálsra trygginga og einstaklinganna sjálfra. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar reynt er að fá heildarmynd af útgjöldum einstakra ríkja til heilbrigðismála. Norræna hagskýrslunefndin á sviði heilbrigðis- og tryggingamála (NOSOSKO) hefur í meira en hálfa öld gefið út staðtölur um heilbrigðis- og tryggingamál. Í ársskýrslu nefndarinnar eru birtar tölur um útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum og jafnframt er þar að finna sérstakt yfirlit um útgjöld til heilbrigðismála eingöngu. Rétt er að benda á að í samanburði á heilbrigðisútgjöldum hér á landi við önnur ríki verður að taka tillit til vægis bæði heilbrigðisútgjalda og útgjalda til félagsmála...
MEIRA...

Framlög TR vegna forvarna tannlækninga barna
Nokkuð hefur verið rætt um tannlæknakostnað vegna forvarna barna og ungmenna á opinberum vettvangi undanfarið og tölur verið nokkuð á reiki. Framlög Tryggingastofnunar ríkisins vegna forvarnaþáttar tannlækninga barna voru á liðnu ári samtals um 287 milljónir króna. Framlög vegna flúorlökkunar barna, sem nokkuð hefur rætt um á opinberum vettvangi, námu um 74 milljónum króna á liðnu ári. Framlög vegna skoðunar voru um 83 milljónir, vegna skorufyllna um 26 milljónir króna, vegna röntgenmynda um 61 milljón króna, vegna tannhreinsunar og pússunar rúmlega 40 milljónir króna og vegna flúorpenslunar rúmlega 3 milljónir króna, eða samtals um 287 milljónir króna á árinu 2001, eins og áður sagði. Framlög vegna almennra tannlækninga barna voru um 500 milljónir á liðnu ári og forvarnaþátturinn sem
sé meira en helmingur þeirra.

Heyrnarskert börn innkölluð árlega í skoðun
Hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er nú að hefjast kerfisbundin innköllun heyrnarskertra barna og er það í fyrsta sinn sem HTÍ stendur fyrir slíku. Börnum og foreldrum er gefinn tími þar sem farið er yfir alla þætti sem snúa að heyrnarskerfðingu, tæki eru yfirfarin, heyrnin mæld, málþroski barnanna prófaður ef þörf er á o.fl. Gert er ráð fyrir að heimsókn hvers barns standi í 3 - 4 tíma. Foreldrum er boðið upp á fræðslu meðan á heimsókninni stendur. Ráðgert er að bjóða heyrnarskertum börnum og foreldrum þeirra upp á þessa þjónustu árlega í framtíðinni.

Nýr bæklingur um notkun heyrnartækja
Út er kominn nýr bæklingur HTÍ með ítarlegum ráðleggingum um notkun heyrnartækja. Bæklingurinn er ætlaður notendum heyrnartækja og starfsfólki sem hjálpar og leiðbeinir við notkun þeirra. Í bæklingnum eru upplýsingar um þær tegundir heyrnartækja sem í boði eru, notkun þeirra, viðhald og meðferð, auk þess sem veittar eru upplýsingar um önnur hjálpartæki heyrnarskertra.
HEIMASÍÐA HTÍ...

Blóðbankinn eignast fullkominn blóðsöfnunarbíl
Rauði kross Íslands afhenti Blóðbankanum í dag fullkominn blóðsöfnunarbíl sem mun stórauka öryggi þeirra sem þurfa á blóðgjöf að halda hér á landi og styrkja starf Blóðbankans. Bíllinn er 13,5 metra langur, búinn öllum nauðsynlegum tækjum til blóðtöku. Í honum er mögulegt að taka á móti 50 til 100 blóðgjöfum á venjulegum vinnudegi og jafnvel fleirum í neyðartilvikum. Rauði krossinn hóf að safna fyrir bílnum árið 1996 en fjármögnun var endalega tryggð með fimm milljóna króna framlagi frá ríkisstjórninni á síðasta ári. Blóðsöfnunarbíllinn var sérsmíðaður í Finnlandi og kostaði, hingað kominn, um 30 milljónir króna.

Norrænir öldrunarfræðingar þinga á Íslandi
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið stóð í vikunni fyrir ráðstefnu um mat á aðbúnaði aldraðra með s.k. RAI-mælingum. Á ráðstefnunni leiddu saman hesta sína margir færustu fræðimenn Norðurlanda á sviði öldrunarmála. Öldrunarfræðingar hafa á liðnum áratug unnið að því að þróa aðferðir til að meta raunverulegan aðbúnað aldraðra á öldrunarstofnunum og þar sem heimaþjónusta er útbreiddust. Við mælingarnar er notuð aðferð, eða tæki, sem notað er víða um heim í dag og nefnist "The residential assessment instrument" (RAI), sem hér á landi kallast "Raunverulegur aðbúnaður íbúa" (RAI). Með þessum mælingum fást haldgóðar upplýsingar um allan aðbúnað, umönnun og þarfir hvers skjólstæðings og þykja aðferðirnar vera bylting í gæðaeftirliti og haldgóð viðmiðun þegar meta á hvers kyns úrræðum heppilegast sé að beita í þjónustunni við aldraða. Átta fyrirlesarar annars staðar að af Norðurlöndunum gerðu á ráðstefnunni grein fyrir því hvernig RAI-matið er notað í viðkomandi löndum, fjölluðu um áreiðanleika aðferðarinnar, og gerðu grein fyrir því hvernig þjónusta er almennt veitt á hjúkrunarheimilum. Þá var fjallað sérstaklega um mat á heimaþjónustu í Kaupmannahöfn, hvernig RAI-matinu er beitt við líknarþjónustu o.fl. Ráðstefnan var haldin í tengslum við vinnufund svonefnds Nord-RAI sem hér var haldinn í vikunni. Fundir Nord-RAI eru styrktir af Norðurlandaráði.

Nýjar áherslur í endurlífgun
Talið er að fjöldi þeirra sem deyr skyndidauða utan sjúkrahúsa sé á bilinu 120 til 140 á ári. Hjá fullorðnum er hjartastopp orsök skyndidauða í 80% tilvika. Endurlífgun eins og hún snýr að almenningi felur í sér öndunaraðstoð með munn við munn aðferðinni og hjartahnoði. Mörgum þykir endurlífgun flókin í framkvæmd, sér í lagi öndunaraðstoðin, og skortir fólk oft kunnáttu. Í þessu ljósi hefur verið ákveðið að kynna nýjar áherslur um endurlífgun með það að markmiði að bjarga fleiri mannslífum og bæta lífsskilyrði. Endurlífgunarráð, Landlæknisembættið og Rauði kross Íslands héldu í vikunni upplýsingafund um nýjar áherslur í endurlífgun. Á fundinum gerði Sigurður Guðmundsson, landlæknir grein fyrir stofnun og tilgangi Endurlífgunarráðs. Davíð O. Arnar, hjartalæknir og formaður ráðsins kynnti nýjar áherslur í endurlífgun og sagði frá því hvernig áformað er að stuðla að vitundarvakningu meðal almennings um þessi mál. Svanhildur Þengilsdóttir, deildarstjóri hjá Rauða krossi Íslands lýsti leiðum við endurlífgun og aðkomu Rauða krossins að verkefninu. Endurlífgunarráð var stofnað í febrúar sl. Landlæknir sér um að skipa endurlífgunarráð til fjögurra ára í senn. Endurlífgunarráð skipa Davíð O. Arnar hjartalæknir, formaður, Svanhildur Þengilsdóttir hjúkrunarfræðingur, ritari, Bjarni Torfason brjóstholsskurðlæknir, Felix Valsson svæfingalæknir, Gestur Þorgeirsson hjartalæknir, Hildigunnur Svavarsdóttir hjúkrunarfræðingur, Jón Baldursson bráðalæknir og Jón Þór Sverrisson hjartalæknir.
NÁNAR...

Skurðaðgerðum á LSH hefur fjölgað um 8,7% á árinu
Skurðaðgerðum við Landspítala háskólasjúkrahús hefur fjölgað um 8,7% á þessu ári miðað við sama tímabil í fyrra og er það í samræmi við stefnu spítalans um að stytta biðlista eftir aðgerðum. Hagkvæmt er að nýta vel afkastagetu skurðstofa og skurðdeilda þar sem fastur kostnaður er verulegur og þegar greiddur. Þetta er meðal þess sem fram kemur í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga með Stjórnunarupplýsingum LSH fyrir júlí sl. Í samráði við heilbrigðisyfirvöld verður áfram unnið samkvæmt þeirri stefnu að fjölga skurðaðgerðum um a.m.k. 10% í ár en endurskoðun mun fara fram í lok árs þegar fjárlög ársins liggja fyrir. Í greinargerðinni kemur einnig fram að komum á slysa- og bráðamóttöku spítalans hefur fjölgað langt umfram fólksfjölgun á síðustu fimm árum, eða um nærri 30% og segir að sumt af þeim verkefnum ætti frekar að vera sinnt af heilsugæslunni.
GREINARGERÐIN...


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
6. september 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum