Hoppa yfir valmynd
23. mars 2001 Heilbrigðisráðuneytið

17. - 23. mars 2001

Fréttapistill vikunnar
17. - 23. mars 2001



Lyfseðlar framvegis pentaðir á pappír með vatnsmerki til að hindra ólöglega fjölföldun þeirra
Þann 1. apríl n.k. taka gildi nokkrar nýjar reglugerðir, sem leysa af hólmi reglugerð um gerð lyfseðla og ávísun lyfja, afgreiðslu þeirra og merkingu frá 1998, en alls hafa verðir gerðar á henni 30 breytingar frá útgáfu. Ein þessara nýju reglugerða er reglugerð nr. 111/2001 um gerð lyfseðla og ávísun lyfja. Með henni verða gerðar nokkrar breytingar á lyfseðilseyðublaðinu. Þá hefur verið ákveðið að framvegis skuli lyfseðlar prentaðir á pappír með sérstöku vatnsmerki. Þetta er gert til að koma í veg fyrir ólöglega fjölföldun lyfseðla, en fjöldi slíkra tilvika hefur aukist á undanförnum árum, ýmist með skönnun lyfseðla eða ljósritun. Eftir 1. júlí 2001 verður notkun eldri lyfseðilseyðublaða óheimil. Hægt er að nálgast reglugerðina á heimasíðu ráðuneytisins. Sýnishorn nýrra lyfseðla eru birt sem fylgiskjöl með henni.
Sjá reglugerð með fylgiskjölum>

Sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum endurbætt fyrir 150 milljónir króna
Samningur milli ríkisins og Vestmannaeyjabæjar um endurbætur á Sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum var undirritaður í dag [23.03]. Handlæknis- og lyfjadeild verða sameinaðar og gagngerar breytingar gerðar á efstu hæðum hússins. Með sameiningu deildanna er stefnt að bættri þjónustu og hagkvæmari rekstri. Áætlað er að verja 150 milljónum króna til endurbótanna og á að ljúka verkinu á tveimur árum. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, undirritaði samninginn fyrir hönd Ingibjargar Pálmadóttur, heilbrigðisráðherra og Guðjón Hjörleifsson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, undiritaði hann af hálfu bæjarins.

Sameining sérgreina við Landspítala - háskólasjúkrahús
Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur lagt fram tillögur um sameiningu sérgreina, en hjúkrunar- og lækningaforstjóri ásamt sviðsstjórum hlutaðeigandi sviða hafa unnið að undirbúningi þessara mála að undanförnu. Tillögurnar fela í sér sameiningu Taugadeilda, Smitsjúkdómadeilda, Krabbameins- og blóðfræðideilda o.fl. Í samþykkt framkvæmdastjórnar er lagt til að ákvörðun um fyrirkomulag geðlækninga í Fossvogi, sem nú er í athugun, liggi fyrir eigi síðar en 23. - 27. apríl n.k. Sömuleiðis verði þá tekin ákvörðun um staðsetningu og skipulag slysa- og bráðaþjónustu sjúkrahússins og framtíðarskipulag hjartalækninga. Þann 3. apríl nk.
er væntanleg álitsgerð danskra ráðgjafa um húsnæðisþörf sjúkrahússins og verður hún höfð til hliðsjónar þegar ákvarðanir verða teknar.
Nánar >

Ráðstefna um sjálboðaliðastörf meðal aldraðra
Árið 2001 er alþjóðlegt ár sjálfboðaliðastarfa að ákvörðun Sameinuðu þjóðanna. Í tilefni þess er í undirbúningi ráðstefna undir yfirskriftinni Sjálfboðaliðastörf meðal aldraðra - verðmæti fyrir íslensk samfélagsem haldin verður í Áskirkju, föstudaginn 27. apríl. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni verða Lise Legarth, verkefnisstjóri þjóðarátaks um sjálfboðaliðastörf í Danmörku. Að ráðstefnunni standa; heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Landssamband eldri borgara, Félagsþjónustan í Reykjavík, Ellimálanefnd Þjóðkirkjunnar, Rauði kross Íslands, Landlæknisembættið og Öldrunarráð Íslands. Dagskráin verður auglýst síðar.

Fyrsti rafræni lyfseðillinn
Fyrsti rafræni lyfseðillinn var sendur frá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga til Húsavíkurapóteks í vikunni, þegar Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, undirritaði samning um þróunarverkefni við Eyþing og doc.is um notkun rafrænna lyfseðla. Þrjár sekúndur liðu frá því að lyfseðlinum var ávísað þar til hann var tilbúinn til afgreiðslu. Samningurinn er hluti þróunarverkefnisins ,,Lyfseðlar frá læknum til apóteka" sem unnið er á vegum verkefnisstjórnar Íslenska heilbrigðisnetsins og er eitt af mörgum verkefnum hennar um þróun rafrænna samskipta innan heilbrigðiskerfisins.
Nánar>

Undirritun samnings um árangursstjórnun við Heilbrigðisstofnunina á Húsavík
Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, undirritaði í vikunni samning um árangursstjórnun við stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Markmið samningsins er margþætt og felur í sér auknar gagnkvæmar skyldur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og stofnunarinnar. Áhersla er lögð á að efla áætlanagerð og eftirlitsþátt ráðuneytisins en auka jafnframt sjálfstæði og ábyrgð stofnunarinnar á rekstri sínum og þjónustu.
Nánar>




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
23. febrúar 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum