Hoppa yfir valmynd
30. mars 2001 Heilbrigðisráðuneytið

24. - 30. mars 2001

Fréttapistill vikunnar
24. - 30. mars 2001


Ný fæðinga- og kvensjúkdómadeild við sjúkrahúsið á Akranesi

Stefnt er að því að næsta verkefni við endurbætur á Sjúkrahúsi Akraness verði innrétting húsnæðis fyrir Fæðinga- og kvensjúkdómadeild, samkvæmt viljayfirlýsingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, bæjarstjórnar Akraness og stjórnar Sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar Akraness, sem undirrituð var í gær [29.mars]. Lauslega áætlaður kostnaður við verkið nemur um 60 milljónum króna og er gert ráð fyrir að það verði unnið á tveimur árum.

Um 200 - 250 aðgerðir vegna brjóstastækkana á hverju ári
Talið er að árlega séu gerðar 200 - 250 brjóstastækkunaraðgerðir hér á landi, samkvæmt samantekt landlæknisembættisins. Stærstur hluti þessara aðgerða fer fram á einkastofum lýtalækna, en í þessum tölum eru meðtaldar aðgerðir á sjúkrahúsum. Um 90% aðgerðanna teljast fegrunaraðgerðir en um 10% eru vegna eftirstöðva brjóstakrabbameins og annarra slíkra sjúkdóma. Þetta kom fram í svari Ingibjargar Pálmadóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í vikunni. Kvartanir til landlæknis vegna brjóstastækkunaraðgerða eru að meðaltali ein á ári. Ráðherra tók fram að langflestar aðgerir væru gerðar á konum á aldrinum 25 - 35 ára en hjá yngri konum væru þær einkum gerðar vegna þess að brjóst hefðu ekki þroskast. Fram kom að hjá landlækni er um þessar mundir verið að byggja upp gagnagrunn sem gerir mögulegt að fylgjast betur en áður með þessum tegundum aðgerða og fleiri slíkum. Ráðherra sagði ástæðu til að taka til umfjöllunar í samfélaginu hvað ylli því að mjög ungum konum væri kappsmál að láta stækka á sér brjóstin án þess að um sjúkdóm væri að ræða.

Kynning á nýjum lyfseðli

Ný reglugerð nr. 111/2001 um gerð lyfseðla og ávísun lyfja, sem tekur gildi 1. apríl nk. felur í sér ýmsar breytingar á gerð lyfseðla. Skrifstofa lyfjamála hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu hefur tekið saman ýtarlega kynningu á þessum breytingum þar sem sýnt er á myndrænan hátt (Power Point-glærur) hvernig haga skal útfyllingu lyfseðla samkvæmt nýju reglugerðinni.
Skoða kynningu >

Álitsgerðir nefndar um ágreiningsmál almennings og heilbrigðisþjónustunnar

Nefnd sem fjallar um ágreiningsmál almennings og heilbrigðisþjónustunnar hefur sent frá sér álitsgerðir vegna áranna 1998 og 1999. Birtir eru útdrættir úr 23 álitsgerðum nefndarinnar. Samkvæmt starfsreglum ágreiningsmálanefndar ber henni að taka til meðferðar ágreiningsmál sem rísa vegna samskipta almennings og heilbrigðisþjónustunnar og vísað er til hennar. Í slíkum málum skal nefndin skila álitsgerðum, þar með talið um ætlaðan skaða á heilsu sjúklings vegna aðgerðar lækna í eða utan sjúkrastofnana, rangra aðgerða eða of seint framkvæmdra, vegna hjúkrunar eða vistunar á heilbrigðisstofnun og önnur atriði sem kærur eða kvartanir fjalla um. Í nefndinni sitja Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík og er hann formaður, Kristín Björnsdóttir, dósent, og Guðmundur Pétursson, læknir. Ritari nefndarinnar er Feldís Lilja Óskarsdóttir, lögfræðingur. Álitsgerðir ágreiningsmálanefndar er að finna á heimasíðu heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins.
Skýrsla ágreiningsmálanefndar >

Frumvarp um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni. Samkvæmt ákvæðum núgildandi laga er ráðherra heimilt að takmarka innflutning, vörslu og notkun ávana- og fíkniefna, ef þau hafa verið flokkuð sem slík með alþjóðasamningum um ávana- og fíkniefni. Sífellt eru að koma fram ný ávana- og fíkniefni, sem ekki hafa verið tekin upp í alþjóðasamninga. Breytingar á slíkum samningum geta tekið langan tíma og á meðan er ekki unnt að refsa fyrir sölu og meðferð efnanna. Þannig er hætta á því að löggjafinn sé ávallt skrefi á eftir.
Frumvarpið var unnið í starfshópi sem dómsmálaráðherra skipaði og fól að fara yfir löggjöf og reglur varðandi vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna. Hópurinn var settur á fót að tillögu Ríkissaksóknara vegna óvissu sem reis í kjölfar dóma þar sem sýknað hafði verið af ákærum þar sem refsiheimildir á þessu sviði þóttu ófullnægjandi. Af þeim sökum var ekki talið fært af ákæruvaldsins hálfu að höfða opinber mál vegna tiltekinna efna sem hafa svipuð áhrif og efnið MDMA (svokölluð alsæla). Með frumvarpinu verður ráðherra heimilt að banna hér á landi alls konar afbrigði ávana- og fíkniefna sem eru á listum með alþjóðasamningum þar um.
Skoða frumvarpið >

Nýgengi krabbameins
Tíðni krabbameina á Íslandi hefur aukist um 1,2% á ári frá því að regluleg skráning hófst árið 1954 en á sama tíma hafa lífslíkur þeirra sem veikjast af krabbameini batnað verulega. Tíðni krabbameins í blöðruhálskirtli hefur nær fimmfaldast og er nú orðið algengasta krabbamein karla. Brjóstakrabbamein hefur frá upphafi skráninga verið algengasta meinið meðal kvenna en er nú tvöfalt algengara en við upphaf skráninga. Tíðni magakrabbameins er nú aðeins þriðjungur af því sem áður var og er það m.a. þakkað breyttum neysluvenjum. Sama máli gegnir um leghálskrabbameins og skýrist það af leit að sjúkdómnum á forstigi. Árlega eru greind um 1.040 krabbamein hér á landi, 530 hjá körlum og 510 hjá konum. Spáð hefur verið að eftir áratug muni greinast 1.300 - 1.400 ný tilfelli af krabbameini árlega hér á landi. Þettta kemur m.a. fram í skriflegu svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi nýlega.
Svar ráðherra >


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
30. mars 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum