Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2001 Heilbrigðisráðuneytið

7. - 11. apríl 2001

Fréttapistill vikunnar
7. - 11. apríl 2001


Ingibjörg Pálmadóttir lætur af embætti

Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að láta af ráðherraembætti. Ingibjörg tók við embætti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra árið 1995 og hefur gegnt því í samfellt sex ár, lengur en nokkur annar.

Styrkir til gæðaverkefna á sviði heilbrigðisþjónustu
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, veitti í vikunni tíu styrki til gæðaverkefna á sviði heilbrigðisþjónustu. Hæsti styrkurinn, 400.000 krónur, var veittur heilsugæslustöðvunum á höfuðborgarsvæðinu til styrktar verkefninu Heilsugæsla til framtíðar. Gæðamál heilbrigðisþjónustunnar eru vaxandi þáttur í starfsemi heilbrigðisstofnana og hefur þrotlaust starf áhugamanna, fagstétta og stofnana vakið eftirtekt. Styrkirnir eru veittir í því skyni að ýta undir frekara starf á þessum vettvangi og örva það frumkvæði sem menn hafa sýnt.
Nánar >

Stefnt að viðbótarnámi til aukinna réttinda fyrir sjúkraliða
Nefnd um skilgreiningu viðbótarréttinda sem framhaldsnám fyrir sjúkraliða gæti veitt, sem skipuð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 11. maí 2000, hefur lokið störfum. Nefndin kynnti ráðherra tillögur sínar í dag. Nefndin leggur til að stofnað verði til tveggja anna viðbótarnáms fyrir sjúkraliða þar sem í fyrstu verði sérstök áhersla lögð á öldrunarþjónustu. Þetta er lagt til í ljósi þess að skortur á sjúkraliðum er hvergi meiri en á dvalar- og hjúkrunarheimilum aldraðra og eins vegna þess að vaxandi áhersla er lögð á að fjölga úrræðum fyrir aldraða og auka á fjölbreytni í þjónustu við þá. Þetta krefst vel menntaðs starfsfólks með sérhæfingu á þessu sviði. Vonir standa til að fyrstu sjúkraliðarnir geti hafið nám um næstu áramót.

Leiðrétt tekjutrygging til ellilífeyrisþega
Leiðrétt tekjutrygging til ellilífeyrisþega, samkvæmt lögum nr. 9/2001, var greidd út 11. apríl sl. Rúmlega 900 ellilífeyrisþegar fengu að þessu sinni hærri tekjutryggingu en áður í kjölfar lagabreytingarinnar og nam eingreiðsla til hvers þeirra tæpum 31.000 kr. að meðaltali fyrir þriggja mánaða tímabil.
Nánar >

Ný heimasíða Tourette samtakanna á Íslandi - www.tourette.is
Tourette samtökin á Íslandi opnuðu upplýsinga- og fræðsluvef á Netinu í dag, 11. apríl. Starf samtakanna hefur frá upphafi einkum falist í því að miðla upplýsingum um Tourette. Í kynningu á heimasíðu samtakanna segir: ,,Tourette heilkenni (Syndrome) er taugasjúkdómur sem oft er mistúlkaður, og getur valdið miklu hugarangri og kvíða vegna einkennanna sem fylgja honum, þótt hann sé ekki hættulegur. Þekking á TS kemur því öllum til góða, bæði þeim sem hafa hann, og þeim sem umgangast þá. Á þessum vef er að finna upplýsingar um orsakir TS, helstu einkenni og úrræði sem hægt er að beita."
Athygli er vakin á því að á heimasíðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins eru slóðir að heimasíðum íslenskra sjúklingafélaga.
Slóðir >



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
11. apríl 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum