Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2001 Heilbrigðisráðuneytið

14. - 20. apríl 2001

Fréttapistill vikunnar
14. apríl - 20. apríl 2001




Nýr ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála tekinn til starfa

Jón Kristjánsson, nýr ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála tók til starfa sl. mánudag og Ingibjörg Pálmadóttir kvaddi ráðuneyti sitt eftir sex ára starf. Í dag (föstudaginn 20. apríl) heimsótti nýr ráðherra Landspítala - háskólasjúkrahús og kynnti sér starfsemi barnadeildar sjúkrahússins við Hringbraut og einnig slysadeildar sjúkrahússins í Fossvogi. Ráðherra heimsótti jafnframt heilsugæslustöðina í Efstaleiti, ræddi við starfsfólk stöðvarinnar og kynnti sér starfsemina. Þar hitti hann einnig að máli stjórnendur Heilsugæslunnar í Reykjavík.

Nýr framkvæmdastjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað Sigríði Snæbjörnsdóttur framkvæmdastjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands til fimm ára. Fimmtán sóttu um stöðuna en umsóknarfrestur rann út 7. mars sl. Stjórn Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar mælti einróma með ráðningu Sigríðar í stöðuna að fengnu mati sérstakrar hæfnisnefndar. Sigríður tekur til starfa 1. júní nk.

Kínversk sendinefnd kynnir sér heilbrigðismál á Íslandi
Von er á sex manna sendinefnd háttsettra kínverskra embættismanna (delegation of the State Drug Administration of China) hingað til lands í byrjun maí til að kynna sér stjórnun og fyrirkomulag lyfjamála á Íslandi. Ráðgert er að nefndin hafi fimm daga viðdvöl á Íslandi, frá 1. - 5. maí.

Nýr deildarstjóri ráðinn til að starfa á sviði tannheilsu- og tannverndarmála
Helga Ágústsdóttir, tannlæknir, hefur verið ráðin deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, á skrifstofu heilsugæslu- sjúkrahúsa- og öldrunarmála. Deildarstjóranum er ætlað að sinna verkefnum er lúta að tannheilsu, þar á meðal forvarnarstörfum á því sviði. Helga er sérmenntuð í öldrunartannlækningum.




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
20. apríl 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum