Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 86/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 86/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18120006

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 2. janúar 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. desember 2018, um að synja honum um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af greinargerð kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, með gildistíma frá 16. október 2015 til 18. september 2016. Var leyfið endurnýjað tvisvar, síðast með gildistíma til 18. september 2018. Þann 31. maí 2018 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi og var umsókninni synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. júlí 2018. Þann 20. ágúst 2018 sótti kærandi um endurnýjun á dvalarleyfi sínu á grundvelli hjúskapar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 17. desember 2018 var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 19. desember sl. og kærði hana til kærunefndar útlendingamála þann 2. janúar 2019, en kæru fylgdi greinargerð kæranda. Samkvæmt gögnum frá Útlendingastofnun lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi þann 18. október 2018 og hefur sú umsókn ekki verið tekin til vinnslu hjá stofnuninni. Þann 15. janúar 2019 bárust viðbótargögn frá kæranda. Þann 14. febrúar 2019 barst kærunefnd greinargerð frá nýjum umboðsmanni kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laganna væri heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Samkvæmt 7. mgr. ákvæðisins skuli makar og sambúðarmakar hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili en heimilt sé að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður séu fyrir hendi og vísaði stofnunin til lögskýringargagna með ákvæðinu. Samkvæmt gögnum málsins væru kærandi og maki hans bæði með skráð lögheimili á sama stað en samkvæmt upplýsingum frá maka kæranda byggi kærandi ekki hjá henni, en hann hefði aðsetur í [...] þar sem hann stundi atvinnu en búi hjá maka sínum og dóttur í [...] þegar hann sé í vaktarfríum og oftar. Vísaði stofnunin til þess að í ljósi framangreinds væri ljóst að kærandi og maki hans byggju ekki á sama stað í skilningi 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og þá væru aðstæður í málinu ekki þess eðlis að þær féllu undir undanþágu síðari málsl. ákvæðisins, enda væri ekkert í gögnum málsins sem benti til þess að um sérstakt tímabundið ástand væri að ræða. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð, dags. 14. febrúar 2019, óskaði kærandi eftir því að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Þar sem mál þetta varðar ekki mál skv. IV kafla eða 74. gr. laga um útlendinga kom ekki til skoðunar að veita kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð, dags. 14. febrúar 2019, kemur fram að kærandi byggi á því að aðstæður hans og maka falli undir undanþáguheimild 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Sé um tímabundið ástand að ræða hjá kæranda og því blasi við að rétt sé að víkja frá ákvæðinu. Þá vísar kærandi til þess að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti, sbr. m.a. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi synjun á dvalarleyfi sérstaklega íþyngjandi áhrif á kæranda endi eigi hann [...] ára dóttur sem treysti á hann.

Í greinargerð kæranda, dags. 2. janúar 2019 kemur fram að kærandi mótmæli ákvörðun Útlendingastofnunar og er vísað til röksemda sem fram komi í bréfi kæranda til stofnunarinnar, dags. 26. nóvember 2018. Í umræddri greinargerð komi skýrt fram að ástæða þess að aðilar hafi ekki haft sömu búsetu að öllu leyti megi rekja til náms maka kæranda og staðsetningu atvinnu kæranda. Eins og vikið sé að í greinargerðinni hafi kærandi og maki hans hafið sambúð í [...] í [...] 2015, maki kæranda hafi svo hafið nám í [...] haustið 2016 og fengið úthlutað stúdentaíbúð í september 2017. Hafi það orðið til þess að kærandi og maki hans hafi talið það hagkvæmast að kærandi hefði áfram aðsetur í [...] vegna atvinnu hans þar. Í vaktafríum, og jafnan oftar, hafi kærandi hins vegar haft búsetu hjá maka sínum og dóttur í [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Í 7. mgr. 70. gr. laganna kemur fram að makar og sambúðarmakar skuli hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili og aðsetur. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi. Í athugasemdum við 7. mgr. 70. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að í ákvæðinu sé það skilyrði sett að hjón þurfi að búa saman og skuli halda saman heimili. Borið hafi á því að umsækjendur búi ekki saman en segist eigi að síður vera í hjúskap. Í sumum tilvikum geti það verið eðlilegt vegna atvinnu annars eða beggja hjóna. Þegar slíkt sé uppi sé heimilt að veita undanþágu frá því að hjón eða sambúðaraðilar búi saman ef einungis um tímabundið ástand sé að ræða, t.d. vegna náms eða vinnu. Undanþáguna skuli túlka þröngt líkt og aðrar undanþágur og eigi hún ekki við um tilvik þar sem aðstandandi hér á landi sæti eða muni sæta fangelsisrefsingu.

Þann 1. janúar 2019 tóku gildi lög um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018. Í 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna segir að lögheimili sé sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Í 2. mgr. 1. gr. segir að einstaklingur teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Í 1. mgr. 5. gr. segir að hjón eigi sama lögheimili en hjónum sé þó heimilt að skrá það hvort á sínum staðnum.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga um lögheimili og aðsetur hefur Þjóðskrá Íslands eftirlit með framkvæmd laganna og er stofnuninni heimilt að leita aðstoðar lögreglu og Útlendingastofnunar í þeim tilgangi. Í 2. mgr. 15. gr. kemur fram að þegar uppi sé vafi um skráningu á lögheimili sé Þjóðskrá Íslands heimilt að óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri, sem búa yfir eða varðveita upplýsingar um búsetu einstaklinga, í þeim tilgangi að ákvarða rétta skráningu. Sé stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri skylt að verða við beiðni Þjóðskrár. Þá sé stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri heimilt að eigin frumkvæði að upplýsa Þjóðskrá þegar þau verða þess vör að ósamræmi sé á milli lögheimilisskráningar og raunverulegar búsetu. Í 2. mgr. 17. gr. laga um útlendinga segir að stofnunum skv. 1. mgr. ákvæðisins, s.s. Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og Þjóðskrá Íslands, sé heimilt að samkeyra persónuupplýsingar útlendinga svo tryggja megi að dvöl þeirra hér á landi sé lögleg. Þá segir í 3. mgr. sama ákvæðis að fái Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála eða Þjóðskrá Íslands upplýsingar sem gætu falið í sér hugsanlegt lögbrot beri viðkomandi stofnun að upplýsa lögreglu eða hlutaðeigandi stjórnvald um málið og afhenda þau gögn sem hún gæti krafist. Samkvæmt 1. málsl. í 2. mgr. 16. gr. laga og lögheimili og aðsetur getur Þjóðskrá geti breytt skráningu lögheimilis einstaklinga bæði að eigin frumkvæði eða á grundvelli beiðni frá þinglýstum eiganda húsnæðis eða öðrum sem hagsmuna eigi að gæta.

Eins og að framan greinir er það verkefni Þjóðskrár Íslands að halda skrá yfir lögheimili manna í samræmi við ákvæði laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur. Þar hafa stofnuninni jafnframt verið falin tiltekin verkefni tengd þeirri skráningu, þ.m.t. að rannsaka og framfylgja því að skráning lögheimilis hjá einstaklingum, s.s. hjónum og fólki í sambúð, sé í samræmi við ákvæði laganna.

Samkvæmt gögnum málsins eru kærandi og maki hans með skráð sama lögheimili. Þrátt fyrir að maki kæranda stundi nú nám í [...] og hafi aðsetur þar vegna þessa, leggur kærunefnd til grundvallar að þar sem kærandi og maki hennar séu með skráð lögheimili á sama stað séu þau með „fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili og aðsetur“, sbr. 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu uppfyllir kærandi því skilyrði 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi.

Þar sem ekki liggur fyrir mat Útlendingastofnunar á því hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði fyrir endurnýjun á dvalarleyfi sínu verður lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                        Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum