Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 76/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA 

Þann 23. febrúar 2015 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 76/2016
í stjórnsýslumáli nr. KNU15100018 

Kæra [...]á ákvörðun
Útlendingastofnunar


 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 27. október 2015, kærði [...] fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. september 2015, um að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002, um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi skv. 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi þann 22. júlí 2015 sótt um hæli hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Með kæranda í för voru eiginkona hans og tvö börn þeirra. Hælisviðtal var tekið við kæranda hjá Útlendingastofnun þann 16. september 2015 og ákvörðun tekin í málum kæranda og fjölskyldu hans þann 25. september 2015. Var kæranda og fjölskyldu hans synjað um hæli hér á landi ásamt því að þeim var synjað um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Var ákvörðun stofnunarinnar birt kæranda þann 16. október 2015 og kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 27. október 2015. Kærunefnd útlendingamála barst greinargerð kæranda þann 12. nóvember 2015. Kærunefnd bárust læknaskýrslur vegna heilsufars eiginkonu kæranda þann 27. og 28. janúar 2016.

Hinn 25. janúar 2016 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b útlendingalaga.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er frásögn hans talin trúverðug að nokkru leyti, þó ekki hvað varðar aðgang kæranda og eiginkonu hans að viðunandi heilbrigðisþjónustu.

Útlendingastofnun fjallar um aðstæður í [...] og greindi frá því að samkvæmt heimildum séu borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þar í megindráttum virt og að staða annarra grundvallarréttinda fari batnandi. Grundvallarmannréttindi njóti verndar samkvæmt stjórnarskrá landsins. [...] sé aðili að [...] . Mikið hafi verið lagt upp úr því síðari ár að uppræta spillingu sem hafi verið viðvarandi vandamál í landinu. Þá eigi allir borgarar [...] rétt á heilbrigðisþjónustu sem sé að mestu leyti ókeypis. Þá sé einnig að finna einkarekna heilbrigðisþjónustu í landinu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um flótta kæranda frá heimalandi sínu vegna stríðsátaka þar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að átök þau er kærandi vísaði til hafi verið aðgerðir [...]. Leiddu átökin til dauða 22 einstaklinga og 37 slösuðust. Átökin hafi staðið yfir í tvo sólarhringa áður en lögregla náði stjórn á ástandinu Enginn almennur borgari hafi látið lífið og engir frekari eftirmálar hafi orðið.

Þá mat Útlendingastofnun það svo að kærandi væri ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu, en tekið var mið af aldri barna kæranda við töku ákvarðanna í máli þeirra.

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir eða meðferð sem jafnað verði til ofsókna í heimalandi sínu. Kæranda hafi því verið synjað um hæli skv. 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að kærandi eigi ekki á hættu illa meðferð skv. 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.

Varðandi kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga segir í ákvörðun Útlendingastofnunar að ekki verði talið að kærandi sé í þeirri aðstöðu í [...] að hann eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Kærandi og eiginkona hans hafi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu í [...] og því þótti ekki ástæða til að veita kæranda dvalarleyfi með vísan til mannúðarsjónarmiða né félagslegra aðstæðna kæranda. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík sérstök tengsl við Ísland að heimilt væri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli þeirra.

Þá var það mat Útlendingastofnunar að endursending kæranda til [...] fæli ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Að lokum var kæranda vísað frá landinu á grundvelli 3. mgr. 90. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga sbr. IX kafla reglugerðarinnar.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kveðst hafa flúið [...] vegna bágra aðstæðna og vegna veikinda eiginkonu sinnar en eiginkona kæranda sé [...]. Kærandi telji sig ekki hafa nægilega góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu í heimalandi þar sem sú þjónusta sem eiginkona kæranda hefur þörf á sé of dýr. Mikið álag hafi verið á fjölskyldu kæranda í kjölfar átaka sem brutust út í [...]. Hafi fjölskylda kæranda flúið landið samkvæmt læknisráði en hættulegt geti reynst fyrir eiginkonu kæranda að vera undir of miklu álagi.

Byggir kærandi á því að aðstæður fjölskyldunnar falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til athugasemda við frumvarp það er varð að lögum nr. 115/2010 um breytingu á lögum um útlendinga, þar sem m.a. sé vikið að félagslegum aðstæðum hælisleitanda í heimalandi.

Kærandi byggir á því að ekki sé fótur fyrir staðhæfingum Útlendingastofnunar um að mannréttindi séu almennt virt í heimalandi kæranda. Útlendingastofnun taki beinlínis fram í ákvörðun sinni að víða sé pottur brotinn í mannréttindamálum í [...] og lítils árangurs vart enn þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til úrbóta. Kærandi byggi á því að eiginkona hans geti hæglega orðið af mikilvægri þjónustu t.a.m. nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu vegna spillingar og mútuþægni. Ljóst sé að kærandi sé efnalítill og hafi litla rödd í [...] samfélagi. Þá glími eiginkona hans við alvarleg veikindi og þarfnist heilbrigðisþjónustu, stöðugleika og öryggis.

VI.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hann framvísað [...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...] ríkisborgari.

Réttarstaða barna kæranda

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni, sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að ákvarða réttarstöðu barnsins í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar.

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“ Ákvæðið sækir einkum fyrirmynd til inngangsákvæða Barnasáttmálans, einkum 3. gr. Í 1. mgr. 1. gr. barnalaga, nr. 76/2003, segir að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Í 2. mgr. 1. gr. segir að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.

Svo sem fram er komið komu börn kæranda með honum og eiginkonu hans hingað til lands. Haldast úrskurðir er varða foreldra og börn þeirra í hendur í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar, þegar barn er í fylgd annars eða beggja foreldra. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd beggja foreldra sinna.

Landaupplýsingar

[...]  er ríki með um [...] íbúa og eru mannréttindi almennt virt af stjórnvöldum þar í landi. [...] gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið [...].

Kærunefnd útlendingamála hefur m.a. skoðað eftirfarandi skýrslur um aðstæður í [...]:

Í ofangreindum gögnum kemur fram að spilling sé þó nokkur í [...] stjórnkerfinu. [...] ríkið hafi hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við spillingu með misgóðum árangri. Auk þess kemur fram að dómskerfið sé óskilvirkt og meðferð mála taki langan tíma. Þá er jafnframt greint frá því að spenna ríki í samskiptum milli [...] og að hlutfall [...] sem starfi í dómskerfinu sé lágt. Hlutfall [...] af [...] á þjóðþingi [...] fari vaxandi auk þess sem stærsti flokkur [...] eigi nú sæti í ríkisstjórn landsins. Aðgangur einstaklinga að heilbrigðisþjónustu sé almennt góður. Heilsugæsla sé að mestu ókeypis en þátttaka í kostnaði er tekjutengd og einstaklingar sem tilheyra viðkvæmum hópum séu undanþegnir gjaldtöku.

Ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga

Kærandi gerði kröfu um það hjá Útlendingastofnun að honum yrði veitt hæli sem flóttamanni á grundvelli 1. og 2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að í greinargerð kæranda sé aðallega gerð krafa um hæli skv. 2. mgr. 44. gr. laga um útlendingamála telur kærunefnd útlendingamála að nefndinni beri einnig að endurskoða kröfu kæranda um hæli skv. 1. mgr. 44. gr. sömu laga.

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Krafa kæranda um vernd hér á landi byggir á félagslegum aðstæðum hans í heimalandi, auk þess sem hann hafi ekki aðgang að heilbrigðiskerfi í heimalandi.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á hæfilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli slíkar ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að einhverjar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna. (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008).

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig ofsóknir af hálfu [...] stjórnvalda eða aðilum tengdum þeim. Kærandi hefur þar að auki ekki borið fyrir sig ofsóknir af ástæðum sem taldar eru upp í 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, þ.e. á grundvelli kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu réttarstöðu flóttamanns.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Aðalkrafa kæranda er sú að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.

Í 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna. Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt hæli hér á landi hafnað.

Ákvæði 12. gr. f útlendingalaga

Til vara krefst kærandi að sér verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í skýringum með lögum nr. 115/2010 sem breyttu 12. gr. f laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé, í samræmi við framkvæmd í öðrum löndum, miðað við atriði á borð við það hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða sem meðferð er til við hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Þá kemur fram að ef um langvarandi sjúkdóm er að ræða séu ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur er á lokastigi. Jafnframt sé rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki sé læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varða félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, í málum þar sem til álita kemur að flytja veikan einstakling úr landi, er einungis um brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans að ræða við sérstakar aðstæður þar sem fyrir hendi eru rík mannúðarsjónarmið, sbr. m.a. dóm í máli Tatar gegn Sviss frá 14. apríl 2015. Veikur einstaklingur á ekki kröfu til þess að vera áfram í aðildarríki til þess eins að njóta áfram heilbrigðis- eða félagslegrar þjónustu sem endursendingarríki veitir. Jafnvel þó að lífslíkur einstaklingsins minnki við brottvísun frá aðildarríki mannréttindasáttmálans þá er það eitt og sér ekki nóg til þess að um brot á 3. gr. sáttmálans sé að ræða.

Eiginkona kæranda kveðst vera [...] og ber því við að hún fái ekki fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í heimalandi sínu. Þá sé hún einnig haldin [...]. Vegna þessarar veikinda sé hún óvinnufær og hafi því engar eða afar litlar tekjur. Þau gögn sem kærunefndin hefur farið yfir við meðferð máls kæranda og eiginkonu hans benda til þess að einstaklingar hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu í [...] og að endurgjald fyrir slíka þjónustu sé tekjutengt. Þá benda gögn til þess að eiginkona kæranda hafi hlotið læknisþjónustu í heimalandi sínu. Kærunefnd telur því að ljós að kærandi og eiginkona hans geti notið fullnægjandi læknisþjónustu í heimalandi sínu.

Í skýringum með 2. gr. laga nr. 115/2010 sem breyttu ákvæði 12. gr. f útlendingalaga, kemur fram það sjónarmið að almennt séð beri að taka sérstakt tillit til barna hvort sem þau eru fylgdarlaus eða ekki. Sérstaklega er þó vikið að því að í tilviki fylgdarlausra barna beri einnig að taka tillit til þess hvort framfærsla barns sé örugg og forsjáraðilar til staðar ef barni sé synjað um dvalarleyfi. Þá er einnig til staðar félagslegt kerfi í [...]. Börn kæranda komu hingað til lands í fylgd með foreldrum sínum og verða í fylgd með þeim komi til endursendingar þeirra til heimalands.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða eins og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og fjölskyldu hans í [...] séu ekki með þeim hætti að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga

Þá tekur kærunefndin jafnframt undir niðurstöðu Útlendingastofnunar um að kærandi uppfylli ekki skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið landinu í tengslum við umsókn sína um hæli.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

 

  

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                                                  Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum