Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Áfangaskýrsla um þjóðgarð á miðhálendi Íslands afhent ráðherra

Horft-ad-Snaefelli
Horft að Snæfelli

Nefnd sem hefur fjallað um forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra áfangaskýrslu. Skýrslan felur í sér greiningu á núverandi stöðu miðhálendisins auk kortlagningar svæðisins. Með skýrslunni er tekið saman heildsætt yfirlit um miðhálendið, m.a. náttúru svæðisins, stefnumörkun, verndun, nýtingu og innviðum innan miðhálendsins. Gert er ráð fyrir að lokaskýrsla nefndarinnar, leggi grunninn að ákvarðanatöku um næsta áfanga verndunar miðhálendisins.

Miðhálendið nær yfir um 40% af flatarmáli landsins og er eitt stærsta samfellda svæðið í Evrópu þar sem ekki er föst búseta. Innan miðhálendisins eru stærstu víðerni landsins og fremur fá og dreifð mannvirki. Svæðið markast af svonefndri miðhálendislínu sem dregin er milli heimalanda og afrétta.

Áfangaskýrslan inniheldur yfirlit um náttúru miðhálendisins, svo sem jarðminjar, lífríki, landslag, víðerni og menningarminjar. Í henni er yfirlit og greining á gildandi stefnumarkandi áætlunum stjórnvalda sem taka til miðhálendisins og um þá landnotkun sem þar er. Gerð er grein fyrir friðlýstum svæðum innan miðhálendisins, stjórnun þeirra og fyrirkomulagi og hvort og þá hvar áform eru um stækkanir á friðlýstum svæðum. Jafnframt er fjallað um þau svæði sem fyrirhugað er að friðlýsa og þjóðlendum og stöðu þeirra mála. Loks er í henni að finna greiningu á helstu hagsmunum sem eru fyrir hendi innan miðhálendisins og hvaða nýting og starfsemi á sér þar stað.

Gert er ráð fyrir að lokaskýrsla nefndarinnar liggi fyrir síðar á árinu en í henni verður m.a. gerð nánari grein fyrir hagsmunum innan miðhálendisins og hvernig þessir hagsmunir fari saman við hugmyndir um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Þá verður gerð grein fyrir stjórnfyrirkomulagi þjóðgarða og reynslu af þeim hér á landi og einnig skoðaðar sviðsmyndir um mismunandi form á stjórnfyrirkomulagi þjóðgarðs. Þá verða viðhorf til stofnunar þjóðgarðs jafnframt könnuð.

Forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands - Áfangaskýrsla nefndar (pdf-skjal)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum