Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Veruleg tækifæri til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (HHÍ) hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðuneytinu greiningarskýrslu um möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. HHÍ kynnti helstu niðurstöður hennar á fundi í dag.

Ráðuneytið bað HHÍ að gera slíka skýrslu til að byggja undir stefnumótum í loftslagsmálum. Samskonar skýrsla var gerð árið 2009, sem var lögð til grundvallar aðgerðaáætlun til draga úr losun og samþykkt var í ríkisstjórn 2010. Sú áætlun miðaði að því að Ísland gæti staðið við skuldbindingar til 2020 skv. ákvæðum Kýótó-bókunarinnar.

Í skýrslu HHÍ kemur fram að spáð er aukningu í losun um 53-99% til 2030 miðað við 1990. Ef kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu er tekin með er aukningin heldur minni, eða 33-79%. Aukning losunar er mest í stóriðju. Skýrsla HHÍ segir líka að margvíslegir möguleikar séu til að draga úr losun. Greindar voru 30 mótvægisaðgerðir með tilliti til kostnaðar og ábata. Sumir kostir eru dýrir, aðrir kosta tiltölulega lítið og sumir skila jafnvel fjárhagslegum nettóábata. Skýrslan greinir tæknilega möguleika á að draga úr losun og auka kolefnisbindingu, en tekur fram margt hafi áhrif á hvort samdráttur í losun verði í raun, s.s. stjórnvaldsákvarðanir, olíuverð og fleiri þættir. Að óbreyttu stefni í að Ísland standi ekki við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamningnum til 2030, en slíkt sé hins vega mögulegt ef gripið verði til frekari mótvægisaðgerða.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að gerð verði aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið og að áætlunin feli meðal annars í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum. Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra stefnir að því að kynna skýrslu sína um loftslagsmál fyrir Alþingi í febrúarmánuði. Skýrslan mun m.a. taka mið af niðurstöðum HHÍ, sem kynntar voru í dag. 

Ísland og loftslagsmál - skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (pdf-skjal)

Efni þessarar fréttar tengist Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, m.a. um sjálfbæra orku og verndun jarðarinn


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
 Heimsmarkmið SÞ: 13 Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum