Hoppa yfir valmynd
1. október 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárlagafrumvarp 2010

Fréttatilkynning nr. 66/2009

Helstu atriði:

  • Byggt á forsendum áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009 til 2013.
  • Verulegur afkomuábati ríkissjóðs.
  • Aðhaldsaðgerðir lækka útgjöld um 43 milljarða kr.
  • Skatttekjur sem hlutfall af VLF færast nær því sem verið hefur.
  • Aukinn trúverðugleiki fjárlaga.

Verulegur afkomuábati

Fjárlagafrumvarp ársins 2010 byggir á forsendum og miðar að markmiðum skýrslu um áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013 sem fjármálaráðherra lagði fyrir Alþingi í júní sl.

Hreinar skuldir hins opinbera á Íslandi og hjá ríkjum OECD
Meginmarkmið áætlunarinnar eru skýr. Í fyrsta lagi að ríkissjóður standi áföll vegna efnahagshrunsins af sér til að geta haldið uppi nauðsynlegri velferðar- og samfélags-þjónustu. Í öðru lagi að byrjað verði að grynnka á skuldabyrðinni sem allra fyrst til þess að létta á vaxtabyrðinni, sem er að ryðja úr vegi umtalsverðum hluta af útgjöldum annarra mikilvægra málaflokka.

Bætt afkoma ríkissjóðs

Í samræmi við áætlunina er gert ráð fyrir verulegum bata í afkomu ríkissjóðs á árinu 2010, m.a. að frumjöfnuður ríkissjóðs, þ.e. þegar vaxtajöfnuður er undanskilinn, verði neikvæður um 25,4 milljarða kr. á árinu 2010 í stað 126,7 milljarða kr. frumhalla á þessu ári. Heildarhalli á ríkissjóði lækkar einnig umtalsvert samkvæmt frumvarpinu og er hann áætlaður 87,4 milljarðar kr. Þessi bati hefur bein áhrif á handbært fé frá rekstri sem áætlað er að verði neikvætt um 95 milljarða kr. í stað um 174 milljarða kr. í ár.

Það er ásetningur stjórnvalda að þær aðhaldsaðgerðir og niðurskurður útgjalda hins opinbera bitni sem allra minnst á hag heimilanna og velferðarþjónustu, einkum í félags og heilbrigðismálum, og að félagslegt öryggi allra sé tryggt. Jafnframt að grunnþjónusta á borð við starfsemi skóla verði varin. Til að svo geti orðið ber brýna nauðsyn til þess að það fé sem varið er til verkefna og þjónustu hins opinbera verði nýtt svo vel sem kostur er. Óhjákvæmilegt er að í því skyni verði fyrirkomulag og forgangsröðun í opinberum rekstri tekin til gaumgæfilegrar skoðunar. Nýta þarf öll færi til hagræðingar og nýsköpunar í ríkisrekstrinum.

Þær efnahagsforsendur fyrir árið 2010 sem frumvarpið byggir á eru að hagvöxtur verði neikvæður um 1,9%, verðlag hækki um 5,0%, kaupmáttur ráðstöfunarteknar dvíni um 11,4%, atvinnuleysi verði 10,6% og viðskiptajöfnuður 0,8% af vergri landsframleiðslu (VLF).

Útgjöld lækka á milli ára

Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld ársins 2010 verði 546 milljarðar kr. samanborið við 589 milljarðar kr. í ár. Því er gert ráð fyrir að útgjöldin lækki um 43 milljarða kr. milli ára þegar launa-, gengis- og verðlagshækkanir næsta árs eru frátaldar. Að raunvirði svarar það til 7,3% lækkunar.

Útgjöld hækka sem hlutfall af VLF árið 2009 en lækka aftur 2010

Veigamesta breytingin felst í ákvörðunum stjórnvalda um fjölmargar almennar og sértækar aðgerðir til að draga saman ríkisútgjöldin sem nemur 42,8 milljörðum kr. á árinu 2010 eins og nánar er rakið hér á eftir. Breyting frumgjalda frá fjárlögum 2009 er þannig að samanlögðu um 21 milljarður kr. til lækkunar á föstu verðlagi.

Útgjöld sem leiða af óhjákvæmilegum afleiðingum efnahagskreppunnar eða ýmsum öðrum útgjaldaskuldbindingum sem eru bundin í lögum, samningum eða með ákvörðunum ríkisstjórnar nema um 21 milljarði kr. umfram fjárlög 2009. Mest munar þar um aukin útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs, 12,3 milljarða kr., áfallnar ríkisábyrgðir, 2,3 milljarða kr. og áhrif á launakostnað ríkisins af hækkun tryggingagjalds um 1,66%, sem nema um 2,2 milljörðum kr.

Auknar tekjur milli ára

Áformað er að tekjur ríkissjóðs árið 2010 verði 468,2 milljarðar kr., sem er um 61 milljarðs kr. aukning frá því sem gert er ráð fyrir í endurskoðaðri áætlun fyrir árið 2009. Tekjuáformin eru byggð á markmiðum áætlunarinnar um jöfnuði verði náð í ríkisfjármálunum á næstu fjórum árum. Í frumvarpinu eru skatttekjur áætlaðar um 422,9 milljarðar kr. samanborið við 350,6 milljarða kr. í áætlun fyrir árið 2009.

Á árinu 2009 lækkuðu skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu úr 28,0% árið 2008 í 23,8%. Það er tilkomið vegna lækkun tekna og samdráttar í eftirspurn sem eðlilega leiddu til minni tekju- og neysluskatta. Í fjárlagafrumvarpi 2010 gert ráð fyrir að þetta hlutfall færist nær því sem verið hefur undanfarin ár eða 27,07%.

Greina má þessa breytingu milli ára í þrennt: verðlagsbreytingar og breytingar á skattstofnum vegna hagþróunar á næsta ári, heilsársáhrif af þeim skattahækkunum sem tóku gildi um mitt ár 2009 og fyrirhugaðar skattabreytingar sem þarf til að ná markmiði um frumjöfnuð.

Skatttekjur lækka sem hlutfall af VLF 2009 en hækka aftur 2010

Skatttekjur lækka sem hlutfall af VLF 2009 en hækka aftur 2010

Tekjur af fyrirhuguðum skattabreytingum eru ekki sundurliðaðar nákvæmlega í fjárlagafrumvarpinu en aðeins gerð grein fyrir áætlaðri skiptingu á helstu skattaflokka. Þannig er áætlað að beinir skattar að meðtöldum verðlags- og stofnbreytingum og heilsársáhrifum fyrri aðgerða hækki um 37,6 milljarða kr. Óbeinir skattar að meðtöldum verðlags- og stofnbreytingum og heilsársáhrifum fyrri aðgerða hækka um 25,5 milljarða kr. Fyrirhuguð er upptaka nýrra orku-, umhverfis- og auðlindagjalda en einnig breytingar á vörugjöldum og hugsanleg breikkun stofns virðisaukaskatts og endurflokkun í þrep hans.

Aukinn trúverðugleiki fjárlaga

Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á að tryggja trúverðugleika fjárlaga nú þegar framundan er árabil mikils og nauðsynlegs aðhalds í útgjöldum ríkissjóðs. Trúverðugleikinn er m.a. kominn undir vilja og getu ríkisstjórnar, ráðuneyta og stofnana til að halda útgjöldum ríkissjóðs innan heimilda fjárlaga. Því mun fjármálaráðherra á haustdögum leggja fyrir ríkisstjórn til afgreiðslu verklagsreglur og viðmiðanir sem auka á trúverðugleika fjárlaga og styrkja framkvæmd þeirra.

Fjárlagafrumvarpið er að finna á vefnum: www.fjarmalaraduneyti.is og www.fjarlog.is.

Fjármálaráðuneytinu, 1. október 2009

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum