Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 107/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 107/2016

Miðvikudaginn 11. apríl 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með tölvubréfi 26. mars 2018 óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 107/2016 þar sem staðfestar voru ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna kæranda vegna tekna frá Noregi, um endurreikning og uppgjör á bótum ársins 2014 og um innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. desember 2014, var kæranda tilkynnt um að við endurskoðun á réttindum hans hafi komið í ljós að búsetuhlutfall hafi ekki verið rétt skráð og að breyting yrði á búsetuhlutfalli hans. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. desember 2014, var ákvörðun stofnunarinnar um breytingu á búsetuhlutfalli kæranda ítrekuð. Þá var greint frá því að í janúar 2015 myndu greiðslur til hans lækka vegna þess að stofnuninni hafi verið tilkynnt um greiðslur til hans frá NAV í Noregi og þær greiðslur hefðu áhrif á greiðslur hans frá Tryggingastofnun.

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. október 2015, var kæranda tilkynnt um endurreikning og uppgjör vegna ársins 2014. Með bréfi, dagsettu sama dag, var hann jafnframt krafinn um endurgreiðslu bóta, samtals að fjárhæð X krónur. Í rökstuðningi Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. nóvember 2015 kemur meðal annars fram að upplýsingar hafi borist frá NAV í Noregi um lagabreytingar þar í landi sem hafi tekið gildi 1. janúar 2015. Í bréfinu segir að þar sem nýtt kerfi NAV, tilkomið með hliðsjón af nefndum lagabreytingum, byggi alfarið á launatekjum telji Tryggingastofnun að lífeyrisgreiðslur NAV, að undanskildum bótaflokki sem nefndist „minsteyelse“, hafi sömu áhrif á bætur Tryggingastofnunar og greiðslur íslenskra lífeyrissjóða. Kærandi fái greiddar bætur frá NAV sem nefnist „uføretrygd“ og þar sem stofnunin hafi ekki haft upplýsingar um tekjurnar hafi bætur verið ofgreiddar og mánaðargreiðslur frá Tryggingastofnun lækkað af sömu sökum.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. mars 2016. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 8. febrúar 2017. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna vegna tekna kæranda frá Noregi, um endurreikning og uppgjör á bótum ársins 2014 og um innheimtu ofgreiddra bóta. Þeim hluta kæru, er varðaði ákvörðun stofnunarinnar um búsetuhlutfall kæranda, var vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Með tölvubréfi 26. mars 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku úrskurðarins.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 107/2016.

Í beiðni kæranda um endurupptöku segir meðal annars að breyting hafi orðið á greiðslum NAV, fyrst í byrjun árs 2016 eða ári seinna en Tryggingastofnun hafi lækkað bótagreiðslur hans. Breytingin hafi falist í því að örorkusjóðsgreiðslur væru kallaðar örorkubætur, en annars hafi engu verið breytt. Hið rétta sé að um einföldum á norsku lögunum sé að ræða frekar en breytingar. Þá fjallar kærandi um fjárhæðir bótagreiðslna til hans frá Tryggingastofnun og NAV í Noregi.

III. Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 8. febrúar 2017. Með úrskurðinum voru ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna vegna tekna kæranda frá Noregi, um endurreikning og uppgjör á bótum ársins 2014 og um innheimtu ofgreiddra bóta staðfestar. Þeim hluta kæru er varðaði ákvörðun stofnunarinnar um búsetuhlutfall kæranda var vísað frá. Af beiðni um endurupptöku má ráða að óskað sé endurskoðunar á ákvörðunum Tryggingastofnunar um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna vegna tekna frá Noregi, um endurreikning og uppgjör á bótum og um innheimtu ofgreiddra bóta.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að breyting hafi orðið á greiðslum NAV í Noregi, fyrst í byrjun árs 2016 eða ári seinna en Tryggingastofnun lækkaði bótagreiðslur hans. Beiðni um endurupptöku fylgdi annars vegar óundirrituð yfirlýsing Kristófers Þorleifssonar læknis um að hann hafi aðstoðað kæranda við að fá Tryggingastofnun til að sækja um bætur frá Noregi á árinu 1997 og hins vegar kvittun um greiðslur frá NAV til kæranda í febrúar og mars 2018.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið úrskurð nefndarinnar með tilliti til framangreindra athugasemda. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að niðurstaða málsins hafi ráðist af ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þær breytingar sem gerðar voru á greiðslum NAV og leiddu til þess að Tryggingastofnun ríkisins lækkaði örorkulífeyrisgreiðslur kæranda, tóku gildi 1. janúar 2015 samkvæmt upplýsingum frá NAV. Þær upplýsingar, sem fram koma í yfirlýsingu B læknis, eru í samræmi við þær upplýsingar sem komu fram í kæru. Upplýsingarnar höfðu enga þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 107/2016 synjað.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 107/2016 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum