Hoppa yfir valmynd
23. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 60/2021 - Úrskurður

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 60/2021

 

Ákvörðunartaka. Frávísun.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 31. maí 2021, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Greinargerð barst ekki frá gagnaðila, þrátt fyrir ítrekaða beiðni kærunefndar þar um.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 23. september 2021.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls þrjá eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar á miðhæð. Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að viðurkennt verði að varmaskiptar séu í séreign hverrar fasteignar í húsinu.
  2. Að viðurkennt verði að hver eigandi beri ábyrgð á skoðun/viðhaldi og endurnýjun sinna varmaskipta á eigin kostnað en ekki gagnaðili þar sem varmaskiptar tilheyri séreign.

Í álitsbeiðni kemur fram að á aðalfundi, sem haldinn hafi verið 11. maí 2021, hafi verið tekin ákvörðun um að fá pípulagningarmann til að vinna að skoðun/viðhaldi varmaskipta, sem séu í séreign hverrar íbúðar, á kostnað gagnaðila. Í skýrslu stjórnar gagnaðila, dags. 11. maí 2021, segi meðal annars að kominn sé tími á varmaskipti á hitakerfinu. Í 6. tölul. fundargerðar komi fram að það eigi að fá pípulagningarmann til að skoða varmaskipta.

Eigendur hvers eignarhluta hafi séð sjálfir um viðhald lagna og varmaskipta sem tilheyri þeirra séreign. Varmaskiptar séu sex talsins í húsinu og séu tveir fyrir hverja séreign en enginn í sameign.

Varmaskiptar álitsbeiðanda séu tiltölulega nýlegir og í fullkomnu lagi. Skipt hafi verið um þá fyrir nokkrum árum á kostnað fyrri eigenda þar sem um séreign sé að ræða og hafi gagnaðili ekki tekið þátt í þeim kostnaði. Sú staðreynd að tveir varmaskiptar séu í lögnum neysluvatns/ofnhita séu sér fyrir hverja íbúð og þjóni þannig eingöngu hverri íbúð fyrir sig að þá sé um séreign að ræða og viðhald/skoðun þeirra því á ábyrgð hvers eigenda en ekki gagnaðila. Vísað sé til 7. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

III. Forsendur

Í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar um kærunefnd húsamála, nr. 1355/2019, segir að áður en nefndin tekur mál til meðferðar skuli það að jafnaði hafa hlotið afgreiðslu innan húsfélags. Þá segir í 4. mgr. sömu greinar að nefndin veiti ekki umsagnir um fræðilegar spurningar heldur taki afstöðu til krafna aðila.

Samkvæmt fundargerð aðalfundar sem haldinn var 11. maí 2021 var borin upp tillaga um að fá pípulagningamann til að skoða hitavatnskerfi hússins, þar á meðal varmaskipta, og taka í kjölfarið ákvörðun um næstu skref á húsfundi. Var tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Í fundargerðinni kemur fram um aðdraganda þessarar ákvörðunar að einn fundarmanna hafi greint frá því að forhitari/varmaskiptir í húsinu væri að verða kominn á tíma og að hiti væri gjarnan sameiginlegur í fjölbýlishúsum. Álitsbeiðandi óskar viðurkenningar kærunefndar á því að varmaskiptar séu í séreign og að hver eigandi beri því ábyrgð á skoðun/viðhaldi og endurnýjun þeirra.

Lagnir og búnaður sem þeim tengist getur ýmist verið í sameign fjöleignarhúsa, ef þær þjóna sameiginlegum þörfum og þörfum heildarinnar, sbr. 7. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús, eða í séreign, ef þær þjóna eingöngu þörfum viðkomandi séreignar, sbr. 7. tölul. 5. gr. sömu laga. Í framangreindri fundargerð húsfundarins kemur ekkert fram um að ákveðið hafi verið að fela pípulagningamanninum að yfirfara varmaskipta eða annan búnað í séreignum hússins. Þá liggja ekki fyrir gögn sem styðji að rætt hafi verið um kröfur álitsbeiðanda innan húsfélagsins eða að ágreiningur sé uppi meðal eigenda um þær. Telur nefndin þannig að um lögspurningu sé að ræða en það er ekki á valdsviði nefndarinnar að svara slíkum fyrirspurnum, sbr. 4. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 1355/2019. Er máli þessu því vísað frá.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að vísa beri kröfum álitsbeiðanda frá.

 

Reykjavík, 23. september 2021

 

 

Þorsteinn Magnússon

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum