Hoppa yfir valmynd
11. desember 2008 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/2008

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 7/2008:

A

gegn

Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 11. desember 2008 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru dagsettri 25. maí 2008 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi hefði með ráðningu í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar, sem er staðsett á Akranesi og í Borgarnesi, brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi með bréfi dagsettu 10. júní 2008. Með tölvupósti framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofunnar dagsettum 20. júní 2008 var óskað eftir viðbótarfresti til að koma á framfæri umsögn og var sá frestur veittur til 1. júlí 2008. Umsögn Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi um kæruna barst með ódagsettu bréfi mótteknu 30. júní 2008 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi dagsettu 3. júlí 2008.

Með tölvupósti Jafnréttisstofu dagsettum 16. júlí 2008 var óskað eftir viðbótarfresti til að koma athugasemdum kæranda á framfæri og var frestur veittur til 15. ágúst 2008. Með tölvupósti Jafnréttisstofu dagsettum 15. ágúst 2008 var á ný óskað eftir fresti til að skila athugasemdum og var frestur veittur til 22. ágúst 2008. Athugasemdir kæranda við umsögn Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi bárust með bréfi dagsettu 22. ágúst 2008 og voru þær sendar Svæðisskrifstofunni til kynningar með bréfi dagsettu 29. ágúst 2008. Með símtali 11. september 2008 óskaði Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi eftir viðbótarfresti til að koma athugasemdum á framfæri og var frestur veittur til 1. október 2008. Sama dag óskaði Svæðisskrifstofan á ný eftir fresti til að koma á framfæri athugasemdum og var frestur veittur til 7. október 2008. Athugasemdir Svæðisskrifstofunnar við athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 6. október 2008 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi dagsettu 21. október 2008.

Á fundi kærunefndar jafnréttismála 20. nóvember 2008 var ákveðið að óska eftir viðbótarupplýsingum Svæðisskrifstofunnar, meðal annars menntun og fyrri starfreynslu fyrrverandi forstöðumanns Fjöliðjunnar, meðmæli þess sem ráðinn var og kæranda, greinargerð Svæðisskrifstofunnar í heild sinni og um tilurð starfslýsingar forstöðumanns. Svæðisskrifstofunni var veittur frestur til 27. nóvember til að koma umbeðnum upplýsingum á framfæri.

Hinn 3. desember 2008 bárust viðbótarupplýsingar Svæðisskrifstofunnar með símbréfi þar sem fram komu upplýsingar um fyrrverandi forstöðumann og greint frá tilurð starfslýsingar sem samin var árið 1998 en við endurskoðun árið 2006 var ákveðið að hún yrði látin halda sér.

Á fundi kærunefndar 4. desember 2008 var ákveðið að kalla eftir skýrslu um stefnumótun Fjöliðjunnar sem vísað var til í símbréfi því er barst 3. desember sama ár. Afrit af skýrslunni barst nefndinni 10. desember.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavaxtalýsing

Málavextir eru þeir að í október 2007 auglýsti Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi lausa til umsóknar stöðu forstöðumanns Fjöliðjunnar, meðal annars í Morgunblaðinu 28. október 2007. Í auglýsingunni kom fram að Svæðisskrifstofan auglýsi eftir einstaklingi með menntun eða reynslu á sviði uppeldis, félagsvísinda eða viðskipta og stjórnunar í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar. Tekið var fram að nauðsynlegt væri að umsækjendur hafi góða samstarfs- og samskiptahæfileika og virði aðra á jafnréttisgrundvelli. Þá kom fram í auglýsingunni að hlutverk forstöðumannsins væri að stjórna og þróa áfram þjónustu við fólk með fötlun. Því væri gott að væntanlegur forstöðumaður hafi innsýn í málefni fatlaðra. Þá þurfi forstöðumaðurinn að stýra rekstri vinnu- og hæfingarstaðar, þess vegna sé mikilvægt að hann hafi þekkingu á rekstri og á atvinnulífinu, og jafnframt þarf hann að vinna í tengslum við opinbera aðila og atvinnulífið og vinna að öflun nýrra verkefna fyrir vinnustaðinn. Að lokum kemur fram í auglýsingunni að forstöðumaðurinn sé þátttakandi í þverfaglegri þjónustu Svæðisskrifstofunnar og að um fullt starf sé að ræða.

Alls bárust tíu umsóknir um stöðuna, þrír karlmenn sóttu um og sjö konur. Tekin voru viðtöl við fjóra umsækjendur, þar á meðal kæranda og þann umsækjanda sem starfið hlaut. Að viðtölunum loknum var komist að þeirri niðurstöðu að karlmaðurinn B væri hæfastur í starfið á grundvelli mats af þeim fjórum sem komu til greina.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ráðningu Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar. Með bréfi dagsettu 12. desember 2007 fylgdi rökstuðningur Svæðisskrifstofunnar fyrir ráðningunni. Sá rökstuðningur var veittur með bréfi dagsettu 12. desember 2007.

Kærandi telur að Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi hafi gróflega brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar. Kærandi telur sig standa framar þeim sem skipaður var hvað varðar menntun og reynslu sem nýtist beint í umræddu starfi, auk þess sem hún telur sig uppfylla mun betur þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingu um starfið. Telur kærandi að sá sem ráðinn var hafi litla formlega menntun, takmarkaða stjórnunarreynslu og enga menntun eða reynslu svo heitið geti á sviði málefna fatlaðra.

Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi hafnar því að brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðninguna. Það sé mat Svæðisskrifstofunnar að karlmaðurinn B hafi verið hæfastur í starfið, meðal annars með vísan til færni hans í mannlegum samskiptum.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu forstöðumanns Fjöliðjunnar. Kærandi telur sig standa framar þeim sem skipaður var hvað varðar menntun og reynslu sérstaklega.

Kærandi vísar í auglýsingu Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi eftir forstöðumanni fyrir Fjöliðjuna þar sem fram komi að auglýst sé eftir einstaklingi með menntun eða reynslu á sviði uppeldis, félagsvísinda eða viðskipta og stjórnunar í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar. Í auglýsingunni segi jafnframt að hlutverk forstöðumannsins sé að stjórna og þróa áfram þjónustu við fólk með fötlun. Því sé það „gott að væntanlegur forstöðumaður hafi innsýn í málefni fatlaðra“. Þá sé sagt mikilvægt að forstöðumaðurinn hafi þekkingu á rekstri og atvinnulífinu þar sem hann þurfi að stýra rekstri vinnu- og hæfingarstaðar. Tekið sé fram að forstöðumaðurinn þurfi að vinna í tengslum við opinbera aðila og atvinnulífið og vinna að öflun nýrra verkefna fyrir vinnustaðinn. Þá sé sagt að forstöðumaðurinn verði þátttakandi í þverfaglegri þjónustu Svæðisskrifstofunnar. Loks sé minnst á að umsækjendur þurfi að hafa góða samstarfs- og samskiptahæfileika og að þeir virði aðra á jafnréttisgrundvelli.

Kærandi getur þess að ákveðið hafi verið að ræða við þá fjóra umsækjendur sem taldir voru hæfastir. Um hafi verið að ræða þrjá einstaklinga sem höfðu bæði menntun á þessu sviði og reynslu af því að vinna með fötluðum en fjórði einstaklingurinn, karlmaðurinn B, hafi hvorki haft menntun né reynslu á sviði starfs með fötluðum.

Þann 29. nóvember 2007 hafi kærandi fengið tölvupóst frá framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi þar sem kæranda var tilkynnt að karlmaðurinn B hafði verið ráðinn í starf forstöðumanns. Sama dag sendi kærandi framkvæmdastjóranum tölvupóst þar sem hún óskaði eftir rökstuðningi fyrir þessari ráðningu samkvæmt stjórnsýslulögum. Þann 30. nóvember 2007 hafi kærandi fengið rökstuðninginn sendan með tölvupósti frá framkvæmdastjóranum. Þann 12. desember 2007 hafi kæranda verið send greinargerð og þau gögn sem lágu að baki rökum fyrir ráðningu í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar.

Kærandi bendir á að sá sem var ráðinn í starfið hafi hvorki menntun né reynslu á sviði uppeldis eða félagsvísinda. Hann sé með stúdentspróf og hafi síðan fengið diplóma í viðskiptagreinum eftir eins árs nám við London School of Foreign Trade árið 1986. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna var eins árs nám við þennan skóla talið vera sérnám en ekki háskólanám og ekki talið lánshæft. Því virðist sem hann sé ekki með neina menntun á háskólastigi, aðeins framhaldsskólamenntun, enda séu til dæmi um að Íslendingar sem ekki voru með stúdentspróf og jafnvel aðeins með gagnfræðapróf hafi farið í þetta nám.

Kemur fram að kærandi hafi lokið námi í þroskaþjálfun, en auk þess hafi hún lokið 40 einingum í uppeldisfræði og 10 einingum í málþroska barna við háskóla í Svíþjóð. Þá hafi kærandi lokið 80,5 einingum til B.A.-prófs í íslensku. Kærandi hafi verið virk í símenntun og meðal annars lokið símenntunarnámskeiðum fyrir þroskaþjálfa í viðtalstækni, félagsgerð og stjórnun. Loks hafi kærandi lokið 13,5 einingum í réttindanámi fyrir framhaldsskólakennara frá Kennaraháskóla Íslands, eða svonefndu UF-námi. Kærandi hafi leyfisbréf frá menntamálaráðuneytinu til að kenna íslensku og sérkennslu í framhaldsskólum.

Kærandi sé því með margfalt meiri menntun að baki en sá sem var ráðinn og mun meiri menntun á háskólastigi. Auk þess sé menntun kæranda að miklu leyti á fagsviði starfs með fötluðum og á sviði uppeldis, á meðan að sú menntun sem sá sem ráðinn var hafi sé almenn og að litlu eða engu leyti á háskólastigi, enda sé það tekið fram í rökstuðningi að menntun hans sé ekki á faglegu sviði fötlunar og að hann standi að baki öðrum umsækjendum á því sviði. Kærandi telji sig því vera mun hæfari en hann hvað menntun og faglegan bakgrunn varðar.

Telur kærandi að mikið hafi verið gert úr reynslu þess sem ráðinn var á sviði stjórnunar og rekstrar í rökstuðningi framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofunnar. Meðal annars sé sagt að reynsla hans af störfum, meðal annars sem bæjarstjóri og aðstoðarmaður ráðherra, verði „að metast sem reynsla á sviði félagsvísinda“ án þess að það sé rökstutt nánar. Telur kærandi þessa röksemdafærslu út í hött þar sem félagsvísindi eru vísindagrein og hafi vísindi meðal annars verið skilgreind sem „kerfisbundin og gagnrýnin leit að viðeigandi skilningi á lögmálsbundnum fyrirbærum“. Hvað sem segja megi um reynslu eða menntun þess sem ráðinn var þá sé hún áreiðanlega ekki á sviði félagsvísinda.

Kærandi bendir á að sá sem ráðinn var hafi starfað sem aðstoðarmaður félagsmálaráðherra í rétt rúma ellefu mánuði, eða frá 20. júní 2006 til 24. maí 2007. Hann hafi einnig starfað sem bæjarstjóri í rúma sjö mánuði, eða frá 1. nóvember 2005 til 11. júní 2006. Hann hafi einnig verið starfsmannastjóri í 15 ár. Hann sé í rökstuðningi framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi talinn hafa mesta stjórnunarreynslu og sé fullyrt að hann hafi „mikla reynslu“ af því að „stýra viðamiklum rekstri“. Einnig sé sagt í greinargerð að hann hafi „mjög dýrmæta reynslu á sviði viðskipta og stjórnunar“, meðal annars sem starfsmannastjóri í stóru fyrirtæki. Að mati kæranda er fullyrðing framkvæmdastjórans um að sá sem ráðinn var hafi mikla reynslu af því að stýra viðamiklum rekstri og að hann sé því hæfastur á þessu sviði sé einfaldlega röng. Starf aðstoðarmanns ráðherra sé ekki hægt að flokka sem stjórnunarstarf, enda hafi aðstoðarmaðurinn ekki neina undirmenn og beri ekki ábyrgð á neinum rekstri eða málaflokkum í ráðuneytinu. Sem starfsmannastjóri hafi hann heldur ekki neina reynslu af viðskiptum eða rekstri. Starfsmannastjóri beri ábyrgð á mannaráðningum, en ekki á fjármálum eða almennum rekstri. Því megi segja að eina almenna stjórnunarreynsla þess sem ráðinn var, þar sem reyndi á viðamikinn rekstur og viðskipti, sé sjö mánaða reynsla hans í starfi bæjarstjóra. Því fari fjarri að það sé mikil reynsla. Samtals sé stjórnunarreynsla hans tæp 16 ár, að langmestu leyti sem starfsmannastjóri hjá útgerðarfyrirtæki. Eðli málsins samkvæmt sé starf starfsmannastjóra mest inn á við og á takmörkuðu sviði, í samskiptum við starfsmenn, stéttarfélög og umsækjendur. Starfsmannastjóri komi almennt ekki fram út á við sem fulltrúi fyrirtækisins. Því hafi ekki verið sýnt fram á að sá sem ráðinn var hafi mikla reynslu á þessu sviði og telur kærandi sig vera mun hæfari og hafa meiri reynslu en hann af samskiptum við vinnumarkaðinn og hið opinbera. Þá sé kærandi augljóslega hæfari hvað varðar öflun nýrra verkefna, enda komi fram í greinargerð að kærandi hafi mesta reynslu allra umsækjenda á því sviði.

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi í sex ár þar sem hún hafði yfirumsjón með rekstri stofnunarinnar, starfsmannamálum, fjárreiðum hennar og bókhaldi. Þá hafi kærandi í fimm ár verið fagstjóri sérkennslu hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands og í tvö ár forstöðumaður leikfangasafns, auk þess sem hún hafi verið forstöðumaður skammtímavistunarheimilis í eitt ár. Kærandi hafi því samtals fjórtán ára reynslu í stjórnunarstörfum og sé reynsla hennar mun víðtækari en þess sem ráðinn var þar sem hún hafi verið í forsvari fyrir stofnanir og séð um rekstur og fjármál mun lengur en hann. Þau hafi bæði starfað í svipaðan árafjölda við stjórnunarstörf, en reynsla kæranda sé fjölbreyttari og stór hluti hennar sé á sama fagsviði og starfið hjá Fjöliðjunni, á meðan reynsla þess sem ráðinn var sé mun takmarkaðri og meira almenns eðlis. Kærandi telur sig því vera mun hæfari en hann í starf forstöðumanns hvað varðar reynslu af stjórnun, viðskiptum og rekstri.

Kærandi vísar til auglýsingarinnar þar sem sagt sé mikilvægt að forstöðumaðurinn hafi þekkingu á rekstri og atvinnulífinu þar sem hann þurfi að stýra rekstri vinnu- og hæfingarstaðar. Þá sé sagt að forstöðumaðurinn þurfi að vinna í tengslum við opinbera aðila og atvinnulífið og vinna að öflun nýrra verkefna fyrir vinnustaðinn. Í greinargerð sé talið að kærandi og sá sem ráðinn var hafi mest tengsl við opinbera aðila og atvinnulífið af umsækjendunum. Þar sé einnig sagt að sá sem ráðinn var hafi mest slík tengsl, án þess að það sé rökstutt frekar. Í rökstuðningnum sé sagt að sá sem ráðinn var hafi mjög mikla reynslu á þessu sviði, til dæmis vegna reynslu sinnar úr atvinnulífinu sem bæjarstjóri og aðstoðarmaður ráðherra.

Kærandi bendir á að hún hafi mikla reynslu af samskiptum við vinnumarkaðinn og hið opinbera, bæði sem fagstjóri hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands og sem framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi. Í starfi sínu hjá Fjölbrautaskólanum hafi kærandi meðal annars unnið að því að útvega atvinnutækifæri fyrir fatlaða nemendur sem sé reynsla sem nýtist beint í starfi hjá Fjöliðjunni. Kærandi hafi komið á samningum við vinnustaði og verið í miklum samskiptum við Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra og við aðrar stofnanir sem fatlaðir þurfi að hafa samskipti við. Einnig hafi kærandi verið í miklum tengslum við atvinnulífið og hið opinbera í starfi sínu hjá Símenntunarmiðstöðinni þar sem hún útvegaði starfseminni ný verkefni og styrki, en það hafi verið stór hluti af starfi hennar. Því fylgdu mikil samskipti við stjórnvöld og atvinnulífið. Einnig bendir kærandi á að hún hafi setið í bæjarstjórn og gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum, eins og fram kemur í ferilskrá hennar, en kærandi var bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Akraness og formaður barnaverndarnefndar og félagsmálaráðs 1998–2002. Einnig var kærandi formaður nefndar sem vann að væntanlegri yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðra.

Þá segi jafnframt í auglýsingunni að hlutverk forstöðumannsins sé að stjórna og þróa áfram þjónustu við fólk með fötlun. Því sé það „gott að væntanlegur forstöðumaður hafi innsýn í málefni fatlaðra“. Ljóst sé að sá sem ráðinn var skorti þessa innsýn með öllu. Hann hafi aldrei starfað á neinn hátt að málefnum fatlaðra og hafi enga menntun á því sviði. Fullyrt sé í rökstuðningi að sá sem ráðinn var hafi innsýn inn í málefni fatlaðra sem aðstoðarmaður félagsmálaráðherra og bæjarstjóri, en það sé einfaldlega rangt.

Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu hafi nefndaseta hans á meðan hann var aðstoðarmaður ráðherra falist í því að hann var formaður starfshóps um ættleiðingarstyrki og varaformaður stjórnar Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Hann hafi ekki komið að neinum nefndarstörfum varðandi fatlaða. Á þeim tíma þegar hann var bæjarfulltrúi og bæjarstjóri hafi hann aldrei setið í félagsmálanefnd eða í neinum öðrum nefndum tengdum félagsmálum eða fötluðum.

Kærandi hafi bæði mikla menntun og reynslu á sviði starfs með fötluðum. Auk þess hafi kærandi gegnt ýmsum trúnaðarstörfum sem tengjast félagsmálum og má þar nefna að hún hafi verið í stjórn Félags þroskaþjálfa, formaður æskulýðs- og félagsmálaráðs Akraneskaupstaðar, formaður barnaverndarnefndar, setið í stjórn dvalarheimilisins Höfða, verið varamaður í stjórn Fjölmenntar, fullorðinsfræðslu fatlaðra, og trúnaðarmaður fatlaðra á Vesturlandi. Kærandi sé því margfalt hæfari en sá sem ráðinn var hvað innsýn í málefni fatlaðra varðar.

Einnig hafi komið fram í auglýsingunni að umsækjendur þurfi að hafa góða samstarfs- og samskiptahæfileika og að þeir virði aðra á jafnréttisgrundvelli. Fram komi í greinargerð að kærandi og sá sem ráðinn var hafi verið með langsamlega bestu meðmælin. Einnig komi fram að kærandi fái einróma mjög góð meðmæli, meðal annars sem þátttakandi í teymisvinnu. Kærandi hafi mikla reynslu af því að starfa með alls konar fólki og talsverða reynslu af samskiptum við mismunandi stofnanir og fyrirtæki. Því telur kærandi sig að minnsta kosti jafnhæfa og sá sem ráðinn var hvað varði samstarfshæfni.

Í greinargerðinni sé sagt að kærandi hafi komið verr út úr viðtalinu en sá sem ráðinn var, en það hafi ekki verið skýrt frekar. Einnig sé fullyrt að sá sem ráðinn var sé besti kosturinn „varðandi ástandið í Fjöliðjunni í dag“ og jafnframt að „líklega“ yrði ekki sátt um kæranda „meðal starfsfólks Fjöliðjunnar“, þótt það sé ekki rökstutt á nokkurn hátt. Kærandi mótmælir þessari fullyrðingu þar sem hún hafi alltaf verið farsæl í starfi og átt gott samstarf við annað fólk, eins og meðmæli hennar sanna.

Um sé að ræða algerlega huglægt mat en ráðningarviðtalið sjálft hafi verið mjög óformlegt og ekki staðlað á nokkurn hátt. Þetta mat sé ekki stutt neinum gögnum og ekki sé hægt að leggja það til grundvallar ráðningunni, sérstaklega ekki þegar kærandi standi þeim sem ráðinn var margfalt framar hvað varði menntun, faglega þekkingu, reynslu af starfi með fötluðum, víðtæka stjórnunarreynslu og reynslu af rekstri, auk þess sem kærandi sé einróma með mjög góð meðmæli eins og fram komi í greinargerðinni.

Samkvæmt rannsóknum í vinnusálfræði séu lítil tengsl milli frammistöðu í hefðbundnu ráðningarviðtali og frammistöðu starfsmanns í starfi. Hafi slíkum viðtölum verið gefið forspárgildið 0,3 þar sem 1,0 sé fullkomin forspá. Þykja hefðbundin viðtöl sem ekki eru stöðluð því almennt ekki vera mjög áreiðanlegur mælikvarði (sjá til dæmis Riggio, R.E. (2003). Introduction to Industrial/Organizational Psychology).

Í 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að stjórnvöldum beri að gæta samræmis og jafnræðis við úrlausn mála. Þegar veitingarvald gefur sjónarmiðum sem reyna á huglæga þætti verulegt vægi við mat á hæfni umsækjenda skipti miklu máli að fyrir liggi í gögnum málsins með skýrum hætti hvaða atriði hafi ráðið ályktun stjórnvalds um hæfi umsækjanda. Gæta verði varfærni í að veita slíkum sjónarmiðum afgerandi vægi. Þetta komi meðal annars fram í álitum umboðsmanns Alþingis í málum nr. 3198/2001 og 4210/2004. Engin slík gögn hafi verið lögð fram um viðtölin sem fóru fram vegna ráðningar forstöðumanns Fjöliðjunnar.

Meginreglan í íslenskum rétti sé að veitingarvaldið ákveði hvaða sjónarmið vegi þyngst við ákvörðun um ráðningu í starf, sé ekki gerð krafa um tiltekna menntun, starfsreynslu eða aðra eiginleika í lögum eða reglugerðum. Þau sjónarmið þurfi þó að vera málefnaleg og leitast skal við að velja umsækjendur í ljósi hinna málefnalegu sjónarmiða.

Þá bendir kærandi á að í dómum Hæstaréttar nr. 121/2000 og 330/2003 komi fram að atvinnurekanda kunni að vera heimilt að ákveða hvort vegi þyngra menntun eða reynsla umsækjenda, enda sé slík ákvörðun byggð á málefnalegu mati, meðal annars á þýðingu menntunarinnar og þeirrar reynslu sem um ræði.

Vegna raka Svæðisskrifstofunnar um að stefna hennar væri að fjölga karlmönnum í starfsmannahópnum gat kærandi þess að dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi verið á þann veg að sé annað kynið í minnihluta á því starfssviði sem ráðning standi um, og umsækjandi af því kyni sé að minnsta kosti jafnhæfur og aðrir umsækjendur til að sinna starfinu sem um ræði, þá beri að veita þeim umsækjanda starfið. Þetta megi meðal annars lesa úr dómum Hæstaréttar nr. 339/1990 og 431/1995.

Kærandi telur þetta hins vegar aðeins eiga við þegar umsækjendur eru jafnhæfir. Í þessu tilfelli standi sá sem var ráðinn kæranda langt að baki hvað varðar menntun og reynslu af fötlun og uppeldi, reynslu af stjórnun og rekstri, og hvað varðar menntun á háskólastigi. Hann hafi ekki menntun eða reynslu á sviði uppeldis eða félagsvísinda, og uppfylli því varla skilyrði auglýsingar eftir forstöðumanni Fjöliðjunnar þar sem auglýst var eftir einstaklingi með menntun eða reynslu á sviði uppeldis, félagsvísinda eða viðskipta og stjórnunar. Hér eigi þetta því ekki við. Kærandi uppfylli betur en hann öll skilyrðin sem sett voru fram í auglýsingu eftir forstöðumanni og því séu engin málefnaleg rök fyrir því að ráða karlmanninn B frekar en kæranda í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar. Kærandi telur því jafnréttislög hafa verið gróflega brotin og fer fram á að kærunefnd jafnréttismála taki þetta mál til umfjöllunar.

 

IV.

Sjónarmið Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi

Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi hafnar rökstuðningi kæranda til kærunefndar jafnréttismála.

Svæðisskrifstofan hafi aldrei dregið í efa ágæti kæranda og hennar góðu menntun og reynslu. Hins vegar sé ekki hægt að fallast á hvernig kærandi hafi gert lítið úr reynslu þess sem ráðinn var. Án þess að svara hverju atriði í þeim efnum í kærunni sé það mat þeirra sem stóðu að ráðningunni að þau hafi bæði verið hæf og uppfyllt þær hæfniskröfur sem getið var í auglýsingunni um starfið.

Við ráðningu í þetta sem og önnur störf sé spurning um vægi þátta þegar valið standi milli fleiri en eins hæfs einstaklings. Eins og fram komi í kærunni sé ljóst að kærandi hafi menntun og reynslu á sviði fötlunar, umfram þann sem ráðinn var. Niðurstaðan byggist því á að aðrir þættir hafi vegið þyngra við þessa ráðningu.

Fyrst beri að nefna að starfsemi Fjöliðjunnar snúi að mörgum þáttum þar sem almennur rekstur fyrirtækis sé stór hluti af starfi forstöðumannsins. Það hafi ekki verið gerð krafa um faglega menntun á sviði fötlunar í þetta starf. Svæðisskrifstofan leggi áherslu á að ef forstöðumann skorti hana sé unnt að vega það upp með góðri samskiptahæfni og að geta unnið með fagfólki og nýtt sér þekkingu fagfólks. Þetta hafi verið haft í huga við ráðningu forstöðumanns Fjöliðjunnar og það sé mat Svæðisskrifstofunnar að þetta skilyrði hafi verið uppfyllt með ráðningu karlmannsins B í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar.

Auglýsing um starf forstöðumanns Fjöliðjunnar hafi með vilja verið orðuð mjög opin til þess að gefa fólki með ólíkan bakgrunn kost á að sækja um starfið. Meðal annars hafi verið haft í huga að höfða til fólks sem kæmi úr öðru umhverfi en frá störfum að málefnum fatlaðra. Þess vegna hafi verið auglýst eftir fólki með menntun eða reynslu á sviði uppeldis, félagsvísinda eða viðskipta og stjórnunar.

Sá sem ráðinn var hafi á árabilinu 1990–2004 verið í teymi æðstu stjórnenda sem starfsmannastjóri eins af stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum landsins á stjórnunar- og rekstrarlegum forsendum. Hann hafi verið bæjarstjóri á Akranesi, setið í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar í 14 ár og í bæjarráði í 13 ár. Þar var hann meðal annars forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum fer bæjarráð ásamt bæjarstjóra með fjármálalega stjórnun sveitarfélagsins. Þetta geti því ekki talist annað en áralöng reynsla á sviði rekstrar og stjórnunar. Reynsla B sem aðstoðarmaður félagsmálaráðherra hljóti að teljast dýrmæt reynsla þar sem félagsmálaráðuneytið er fagráðuneyti málefna fatlaðra. Í því starfi og samstarfi við ráðherra og aðra starfsmenn málaflokksins hafi hann að sjálfsögðu öðlast ákveðna innsýn í málefni fatlaðra. Það sé mat Svæðisskrifstofunnar að sá sem ráðinn var hafi dýrmæta reynslu á sviði viðskipta og stjórnunar, enda hafi sú reynsla nýst vel í hans starfi sem forstöðumaður Fjöliðjunnar. Á þessum forsendum sé fullyrðingum kæranda vísað á bug þar sem hún geri lítið úr þessari reynslu.

Tekur Svæðisskrifstofan fram að við ráðningu í starfið sé byggt á ýmsum gögnum, skriflegum og munnlegum. Það sé spurning hvert vægi ráðningarviðtala eigi að vera. Umrædd ráðningarviðtöl voru opin þar sem umsækjendum var gefinn kostur á að tjá sig um ástæðu umsóknar og hvað þeir hygðust beita sér fyrir í starfinu. Viðtölin hafi framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofunnar, sálfræðingur Svæðisskrifstofunnar og yfirþroskaþjálfi hjá Fjöliðjunni tekið. Ráðningarviðtölin hafi verið samsvarandi og almennt tíðkast með slík viðtöl. Viðtöl hafi verið tekin við fjóra umsækjendur. Allt ráðningarferlið hafi verið unnið í samvinnu við og í samráði við félagsmálastjóra Akraneskaupstaðar og formann stjórnar Fjöliðjunnar sem tók þátt í ákvörðun um ráðningu forstöðumannsins.

Kærandi hafi gert athugasemdir við aðferðafræði og mat þeirra sem tóku viðtölin vegna atvinnuumsókna og vitnar til rannsókna sem sýna fram á lítið forspárgildi slíkra viðtala. Aðrar rannsóknir sýni eflaust aðrar tölur og ekki verði því viðkomið að vitna til allra þeirra vinnusálfræðilegu rannsókna sem hafi verið gerðar á þessu sviði að svo stöddu. Hins vegar séu opin atvinnuviðtöl, eins og voru tekin í umræddu tilviki, langalgengasta form atvinnu- og ráðningaviðtala og væru tæplega notuð ef svo lítið mark væri á þeim takandi eins og kærandi gefi í skyn. Viðtölin voru tekin af sálfræðingum með áralanga reynslu af klínísku mati í slíkum viðtölum.

Í kærunni hafi verið vitnað í viðtalið og „sagt að ég hafi komið verr út úr viðtalinu en B, en það er ekki skýrt frekar“. Í greinargerð með ráðningu forstöðumanns segi meðal annars: „Í viðtalinu var hún síst þessara fjögurra umsækjenda og vantaði þann kraft sem aðrir höfðu.“ Í svari til kæranda á sínum tíma hafi verið ákveðið að fara ekki nánar út í þetta. Þegar rúmt hálft ár sé liðið frá viðtalinu sé ekki rétt að fara nákvæmlega út í smáatriði í þessu sambandi en þetta hafi verið og sé sameiginleg niðurstaða þeirra þriggja sem tóku viðtalið. Það sé jafnframt mat þeirra að ekki sé unnt að horfa framhjá þessum þáttum við ráðningu í starfið.

Í auglýsingunni um starf forstöðumannsins sé í þeim hæfniskröfum sem taldar séu upp fyrst nefnt: „Nauðsynlegt er að umsækjendur hafi góða samstarfs og samskiptahæfileika og virði aðra á jafnréttisgrundvelli.“

Það sé engin tilviljun að þetta atriði var nefnt fyrst í hæfniskröfum starfsins. Í greinargerð með ráðningunni komi fram að það sé mat þeirra þriggja að „[v]arðandi ástandið í Fjöliðjunni í dag er B besti kosturinn“. Í rökstuðningi með ráðningu karlmannsins B komi fram í þessu sambandi „í þeim aðstæðum sem Fjöliðjan er í dag þá vegur þetta atriði sérstaklega þungt. B sker sig úr á þessu sviði sem sérstaklega ljúfur í samskiptum og jákvæður maður og skorar hæst á þessu sviði.“

Í aðdraganda auglýsingarinnar og ráðningarinnar hafi Fjöliðjan þurft að ganga í gegnum miklar hremmingar þar sem fyrri forstöðumaður Fjöliðjunnar hafði sýnt yfirgang og óásættanlegt hátterni. Starfsfólkið hafði gengið í gegnum mikið áfall og litaðist staðurinn af þessu ástandi sem var sérstaklega viðkvæmt. Þess vegna hafi það verið mat þeirra sem stóðu að ráðningunni að samskiptahæfni vægi þyngra en önnur við ráðningu í starf forstöðumanns.

Það hafi verið mat þeirra þriggja að persónulegir eiginleikar þess sem ráðinn var hentuðu einkar vel til forystu fyrir Fjöliðjuna, sérstaklega undir þessum kringumstæðum.

Farsæld kæranda í starfi og góð meðmæli, eins og fram koma í kærunni, segi ekki alla söguna og verði að metast með öðrum þáttum. Sá sem ráðinn var hafi einnig verið mjög farsæll í starfi og fær enn betri meðmæli en kærandi.

Í kærunni sé vísað til að um sé að ræða „algjörlega huglægt mat, sem ekki er stutt neinum gögnum og ekki er hægt að leggja það til grundvallar ráðningunni“. Mat þeirra á umsækjendum um starf forstöðumannsins byggist á áratuga reynslu tveggja sálfræðinga og eins þroskaþjálfa, þar af eins með langa stjórnunarreynslu. Því sé ekki hægt að vísa mati þeirra á bug á þeim forsendum.

Það sé stefna Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi. Þegar haft sé í huga að konur eru 92% starfsmanna Svæðisskrifstofunnar þá sé það stefna hennar að reyna að fjölga karlmönnum í starfsmannahópnum. Þegar karlmaðurinn B var ráðinn forstöðumaður Fjöliðjunnar hafi enginn karlmaður verið starfandi forstöðumaður hjá Svæðisskrifstofunni og í dag sé hann sá eini. Það sé mjög mikilvægt að fjölga karlmönnum í störfum í þessum málaflokki og þess vegna sé það mikill hagur fyrir starfsemi Svæðisskrifstofunnar að fá karlmann til starfa sem forstöðumann hjá stofnuninni.

Það sé mat þeirra sem stóðu að ráðningu forstöðumannsins að í samræmi við auglýsinguna þá hafi karlmaðurinn B reynslu sem sé ekki síður mikilvæg í starfi forstöðumannsins, en fagleg menntun og reynsla kæranda á sviði fötlunar. Niðurstaða þeirra sé að það séu fullgild rök fyrir því að ráða karlmanninn B frekar en kæranda í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar. Sé þar sérstaklega vísað til færni í mannlegum samskiptum eins og fram hafi komið. Hann hafi því á umræddum tíma verið hæfasti umsækjandinn í umrætt starf.

Í athugasemdum kæranda hafi hún fullyrt að það sé óumdeilt að hún hafi meiri menntun og meiri reynslu en sá sem ráðinn var. Því eigi kynbundin jákvæð mismunun ekki rétt á sér við ráðningu sem þessa þar sem það eigi bara við þegar umsækjendur séu jafnhæfir.

Bendir Svæðisskrifstofan á að þetta er fullyrðing kæranda sjálfrar. Fullyrðing hennar um að hún hafi meiri reynslu af rekstri og stjórnun en sá sem ráðinn var og telur það í árum, veki upp spurningar um hversu víðtækar rekstrar- og stjórnunarstöður sé að ræða. Athuga mætti umfang og stærð þeirra vinnustaða sem umsækjendur þessir telja sem stjórnunar- og rekstrarreynslu.

Um menntun viðkomandi umsækjenda vísast í ferilskrá viðkomandi og óumdeilt sé að þau hafi bæði menntun hvort á sínu sviði sem auglýst hafi verið eftir. Það hafi áður komið fram að Svæðisskrifstofan telji þau bæði hæf til starfsins og því á jákvæð mismunun kynja við. Auk þess hafi komið fram í fyrri gögnum að við þær aðstæður sem Fjöliðjan bjó við á þessum tíma hafi karlmaðurinn B þótt hæfari til að leiða það endurreisnarstarf sem til þurfti.

Forstöðumaður Fjöliðjunnar starfar náið með fagfólki bæði á vinnustaðnum sjálfum og kallar eftir aðstoð fagfólks frá fagteymi Svæðisskrifstofunnar. Þannig er tryggt að faglegt starf sé ávallt unnið markvisst og starfsþjálfun einstaklinga tryggð. Daglegt starf forstöðumanns reyni hins vegar meira á rekstrar- og stjórnunarlega þætti og því nýtist menntun og reynsla B vel í starfi forstöðumanns.

Það sé mat Svæðisskrifstofunnar að báðir þessir umsækjendur hafi uppfyllt skilyrði auglýsingarinnar í starfið hvað varðar menntun og reynslu og báðir hafi góð meðmæli þótt B hafi fengið enn betri meðmæli á sínum tíma.

Með framangreindum athugasemdum og vísun í rökstuðning sé því hafnað að Svæðisskrifstofan hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

V.

Niðurstaða

Hinn 18. mars síðastliðinn tóku gildi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III gilti umboð kærunefndar jafnréttismála samkvæmt áður gildandi lögum, nr. 96/2000, fram til þess tíma er ráðherra skipaði nýja kærunefnd jafnréttismála. Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð með bréfi félags- og tryggingamálaráðherra dagsettu 16. apríl 2008 og tók skipunin gildi 1. maí síðastliðinn. Erindi kæranda var móttekið hjá kærunefnd jafnréttismála hinn 28. maí síðastliðinn og tók nýskipuð nefnd mál þetta til meðferðar.

Ekki er í lögum nr. 10/2008 kveðið á um lagaskil vegna mála sem til meðferðar voru hjá kærunefnd jafnréttismála fyrir gildistöku nýju laganna eða þar sem öll atvik sem urðu tilefni kæru gerast í tíð eldri laga. Af hálfu nefndarinnar er litið svo á að nefndin skuli miða álit sitt við lög sem í gildi voru þegar atvik þau urðu sem eru tilefni kæru til nefndarinnar. Álit þetta er því byggt á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna.

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi réði karlmann í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar en tilkynnt var um ráðninguna þann 29. nóvember 2007. Það sem kærandi telur sig hafa umfram þann sem ráðinn var er að hún hafi meiri reynslu af rekstri og stjórnun á því sviði sem Fjöliðjan starfar, auk mun meiri menntunar bæði á því sviði auk annarrar háskólamenntunar. Enn fremur telur kærandi sig ekki standa þeim sem ráðinn var að baki í öðrum þeim atriðum sem nefnd voru í auglýsingu um starfið.

Umrætt starf var auglýst laust til umsóknar meðal annars í Morgunblaðinu 28. október 2007. Í auglýsingunni var auglýst eftir einstaklingi með menntun eða reynslu á sviði uppeldis, félagsvísinda eða viðskipta og stjórnunar í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar. Greint var frá hlutverki forstöðumanns þannig að honum bæri að stjórna og þróa áfram þjónustu við fólk með fötlun og því væri gott ef forstöðumaðurinn hefði innsýn í málefni fatlaðra. Þar sem forstöðumanninum er ætlað að stýra rekstri vinnu- og hæfingarstaðar er mikilvægt að hann hafi þekkingu á rekstri og á atvinnulífinu. Þá var greint frá því að forstöðumaðurinn þurfi að vinna í tengslum við opinbera aðila og atvinnulífið og vinna að öflun nýrra verkefna fyrir Fjöliðjuna. Loks var þess getið að forstöðumaðurinn yrði þátttakandi í þverfaglegri þjónustu Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi.

Alls bárust tíu umsóknir um starfið. Þrír starfsmenn Svæðisskrifstofunnar og Fjöliðjunnar tóku viðtöl við fjóra umsækjendur, þar á meðal kæranda og þann umsækjanda sem starfið hlaut. Í greinargerð starfsmannanna kemur fram að rökin fyrir því að velja þessa fjóra umsækjendur hafi verið reynsla þeirra og þekking á málefnum fólks með fötlun, stjórnunarleg og rekstrarleg reynsla eða menntun á sviði málefna fatlaðra. Tveir umsækjendanna voru þroskaþjálfar og einn iðjuþjálfi sem hafa sérstaka menntun á þessu sviði og mikla reynslu af vinnu með fötluðum. Sá fjórði var með reynslu og þekkingu á þessu sviði eftir að hafa starfað sem aðstoðarmaður félagsmálaráðherra og bæjarstjóri á Akranesi auk þess sem hann bjó að yfirburða reynslu og þekkingu á öðrum þáttum starfsins. Greint var svo nánar frá menntun og starfsreynslu hvers umsækjanda fyrir sig auk þess vikið að persónulegum eiginleikum umsækjendanna, lagt mat á frammistöðu í starfsviðtali og loks dregnar ályktanir um hvernig til myndi takast í starfinu.

Hvað kæranda áhrærir var greint frá námi hennar og þess getið að hún byggi að mikilli reynslu sem þroskaþjálfi og fagstjóri sérkennslu. Hún hafi mikla reynslu og dýrmæta sem frumkvöðull í nýsköpun í þjónustu við fólk og í kennslumálum. Hún sé þess umkomin að koma með nýjar áherslur og sé hugmyndafræðilega sterk. Þess er getið að hún hafi verið framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands og byggt hana upp frá grunni. Hún hafi einnig mikla reynslu af samskiptum við sveitarfélög og aðra opinbera aðila auk samskipta við vinnumarkaðinn við að fjölga atvinnutækifærum fatlaðra nemenda í Fjölbrautaskóla Vesturlands og á vettvangi Símenntunarmiðstöðvarinnar. Tekið var fram í greinargerðinni að hún fái einróma meðmæli, meðal annars sem þátttakandi í teymisvinnu. Hún er sögð mjög ákveðin en vilji sem stjórnandi dreifa ábyrgð og vera hvetjandi. Hún vilji ráðskast og stjórna, er mjög fylgin sér og eigi á stundum erfitt með að bakka en þetta hafi þó batnað mikið undanfarið. Skilgreint er að hún hafi staðið sig síst þessara fjögurra umsækjenda í viðtalinu og hafi skort þann kraft sem aðrir bjuggu að. Ályktað er að lokum að líklega yrði ekki sátt um hana meðal starfsfólks Fjöliðjunnar án þess þó að það hafi verið rökstutt frekar.

Í greinargerðinni er fjallað um það að sá umsækjandi sem starfið hlaut hafi mjög víðtæka reynslu á sviði viðskipta, rekstrar og stjórnunar, meðal annars sem starfsmannastjóri í stóru fyrirtæki. Þar hafi honum farnast vel í erfiðum verkum þannig að allir hafi verið sáttir við. Hann hafi verið bæjarstjóri á Akranesi og aðstoðarmaður félagsmálaráðherra. Hann sé mjúkur, þægilegur og sveigjanlegur en geti líka staðið á sínu og knúið erfið mál í gegn. Hann búi að víðtækri reynslu og tengslum við opinbera aðila og atvinnulífið. Tekið var fram að þótt hann skorti faglegt nám á sviði fötlunar hafi hann reynslu og innsýn sem nýtist honum í starfi og búi enn fremur að þeim eiginleika að hlusta á aðra og hafi getu til að taka við faglegum ráðleggingum fagfólks. Hann hafi fengið einróma afgerandi góð meðmæli. Ályktað er að mikil sátt og ánægja muni ríkja með hann hjá starfsfólki Fjöliðjunnar án sérstaks rökstuðnings þar að lútandi.

Í greinargerð starfsmannanna er við svo búið settur fram samanburður um umsækjendurna einkum varðandi nokkur þeirra atriða sem getið var í auglýsingu. Fyrst var vikið að faglegri menntun og þess getið að þeir umsækjendur sem ekki hafi verið ráðnir hafi skarað fram úr í þeim efnum en sá sem ráðinn var hafi búið að annarri menntun og reynslu sem nýtist ekki síður í þetta starf. Þeir umsækjendur sem ekki eiga hlut að þessu máli töldust búa að minnstu tengslunum við opinbera aðila, sá sem ráðinn var hafi mestu tengslin en kærandi hafi sýnt það að hún geti skapað og byggt upp slík tengsl. Varðandi þróunarstarf og nýsköpun sé fjórmenningunum öllum treystandi en kærandi hafi þar mesta reynslu og þess getið að sá sem ráðinn var hafi þá seiglu og tengsl sem séu mikilvæg í nýsköpun. Hvað snertir útvegun verkefna, rekstur og viðskiptahliðina var sá sem starfið hlaut talinn sterkastur en kærandi honum næstur. Fullyrt var að sá sem starfið hlaut búi að mestu stjórnunarreynslunni, hann og kærandi hafi langbestu meðmælin en kærandi hafi komið síst út úr viðtölunum. Að lokum er tekið fram að miðað við ástandið í Fjöliðjunni á ráðningarstundu hafi sá sem ráðinn var verið besti kosturinn.

Í starfsferilskrá þess sem starfið hlaut kemur fram að hann hafi lokið samvinnuskólaprófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1978, hafi dvalið við nám í Handelshöjskolen í Kaupmannahöfn 1979, lokið stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1982 og hlotið diplómu í viðskiptagreinum eftir eins árs nám í The London School for Foreign Trade 1986. Hann hafi starfað við ýmis verslunar- og skrifstofustörf 1978–1985 milli þess sem hann sinnti námi. Árin 1986–1990 hafi hann svo lagt stund á ýmis skrifstofustörf hjá Haraldi Böðvarssyni hf. en frá þeim tíma hafi hann verið starfsmannastjóri Haraldar Böðvarssonar hf. og þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem yfirtóku réttindi þess félags og skyldur allt til ársins 2005. Þá hafi hann tekið sæti bæjarstjóra Akraneskaupstaðar sem hann sinnti fram á næsta ár er hann réðist sem aðstoðarmaður félagsmálaráðherra og sinnti því starfi fram á árið 2007. Sá sem starfið hlaut átti jafnframt sæti í bæjarstjórn Akraness frá árinu 1994, meðal annars sem formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar. Jafnframt er þess getið að hann hafi gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og íþróttahreyfinguna á Akranesi.

Fram kemur í ferilskrá kæranda að hún hafi lokið þroskaþjálfaprófi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands 1978, lagt stund á nám í uppeldisfræði og málþroska barna samtals 50 einingar í háskólunum í Umeå og Stokkhólmi í Svíþjóð á árunum 1980–1981. Lagt að baki 80,5 einingar til B.A.-prófs í íslensku frá Háskóla Íslands árin 1986–1992 og loks 13,5 einingum í réttindanámi fyrir framhaldsskólakennara frá Kennaraháskóla Íslands 1995–1997. Þá hafi kærandi greint frá ýmsum námskeiðum af fjölbreyttu tagi, svo sem tungumálanámskeiði, tölvuvinnslunámskeiði og símenntunarnámskeiði þroskaþjálfa. Hún hafi verið þroskaþjálfi við geðdeild Barnaspítala Hringsins 1978–1979 og við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins 1981–1985. Verið forstöðumaður skammtímavistunarheimilis á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi 1985–1986. Þá hafi hún sinnt sumarstarfi hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur árin 1990–1992. Árin 1993–1995 hafi hún gegnt starfi forstöðumanns Leikfangasafns og haft umsjón með frumgreiningu og þjálfun fatlaðra barna á svæði Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra. Frá þeim tíma hafi hún sinnt fagstjórn sérkennslu auk þess að annast slíka kennslu, tungumálakennslu og kennslu í upplýsingatækni í Fjölbrautaskóla Vesturlands árin 1995–2000. Frá ágústmánuði það ár hafi hún svo sinnt starfi framkvæmdastjóra Símenntunarmiðstöðvar á Vesturlandi til ársins 2006 er hún réðst til starfa sem framhaldsskólakennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands á ný með tungumál sem kennslugrein. Þá er getið sérhæfðra verkefna sem kærandi hafi unnið að, svo sem fyrirlestra- og námskeiðshaldi, auk þátttöku í Evrópuverkefnum sem meðal annars lutu að málefnum nemenda með sérþarfir. Loks kom fram að kærandi hafði sinnt ýmsum félagsstörfum einkum á sviði menntamála og fyrir fatlaða auk þess sem hún átti sæti í bæjarstjórn Akraness um fjögurra ára skeið og tók þátt í nefndastörfum á vegum sveitarfélagsins.

Við skipan eða ráðningu í opinber störf hefur almennt verið gengið út frá því að það stjórnvald sem veitir starfið skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggja að teknu tilliti til ákvæða laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Leiði þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ekki til sömu niðurstöðu verður enn fremur að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi stjórnvalds á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð. Kærunefnd hefur litið svo á með vísan til dómaframkvæmdar að játa verði atvinnurekanda nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda. Í þessu felst þó ekki að stjórnvöld hafi frjálsar hendur um það hver skuli skipaður, settur eða ráðinn í opinbert starf hverju sinni. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegu eiginleikum sem talið er að skipti máli við rækslu starfans.

Um Fjöliðjuna er ekki til að dreifa lögbundnum hæfiskröfum til að gegna starfi forstöðumanns. Hins vegar liggur fyrir meðal málsagna starfslýsing vegna starfsins sem síðast var yfirfarin árið 2006 eins og greint var frá í símbréfi Fjöliðjunnar sem barst 3. desember 2008. Í skjalinu er gert ráð fyrir undirritun forstöðumanns, stjórnar Fjöliðjunnar og framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofunnar. Greint er frá eðli starfsins og ábyrgð og verksvið skilgreint í 16 liðum. Starfslýsingin hefur jafnframt að geyma hæfniskröfur til þess sem gegnir forstöðumannsstarfinu og segir þar meðal annars: „Forstöðumannsstarfið er þess eðlis að æskilegt er að viðkomandi hafi staðgóða menntun á félagsvísindalegum grunni eða á sviðum er tengjast fötlun sérstaklega. Einnig er æskilegt að viðkomandi hafi víðtæka reynslu eða menntun í viðskiptum og rekstri. Mestu máli skiptir þó að viðkomandi starfi í anda þeirra megin hugmynda er birtast í lögum um málefni fatlaðra og sé trúr hugmyndafræði þeirra um blöndun og normun fatlaðra. Því er æskilegt að viðkomandi hafi kynnt sér rækilega málefni fatlaðra og hafi félags- eða uppeldisfræðilega menntun. Forstöðumaður þarf að eiga gott með að eiga samskipti við fólk á jafnréttisgrundvelli. Forstöðumaður þarf að hafa skilning á mikilvægi handleiðslu í starfi, bæði í þágu hans sjálfs, svo og annarra sem starfa undir hans stjórn.“

Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi hefur lagt fyrir kærunefndina gögn er varða málsmeðferð við undirbúning umræddrar ráðningar, eins og áður var rakið, svo og rökstuðning til kæranda fyrir ráðningunni sem dagsettur er 28. nóvember 2007. Í síðarnefnda skjalinu kemur fram í samantekt að öll rök standi til þess að karlmaður sá sem starfið hlaut yrði ráðinn. Það sé einungis á einu sviði af þeim atriðum sem auglýst hafi verið eftir sem þrír aðrir umsækjendur hafi haft forskot en það hafi verið varðandi faglega þekkingu á málefnum fatlaðra. Reynsla hans vegi þar á móti og einnig sá eiginleiki að geta hlustað og tekið við leiðbeiningum fagfólks á því sviði. Þessi umsögn sýnist byggð á umsóknargögnum og starfsviðtölum. Ekkert kemur fram um að þau hafi verið stöðluð á einhvern þann hátt að leggja megi hlutlægan mælikvarða á frammistöðu umsækjenda.

Fyrir liggur að menntun þess sem starfið hlaut er umtalsvert minni heldur en kæranda. Kærandi býr að fjölþættri menntun á sviði uppeldisfræða, tungumála og kennslufræða sem og námi í þroskaþjálfun, en sá sem starfið hlaut býr að eins árs námi á sviði viðskipta auk stúdentsprófs. Hann hefur þannig ekki þá menntun sem tilgreind er í samþykktri starfslýsingu sem gilti þegar starfið var auglýst; á sviði félagsvísinda, sviði fötlunar eða uppeldisfræði, en kærandi býr að fjölþættri menntun á þessu sviði.

Hvað starfsreynslu snertir býr sá sem starfið hlaut að staðgóðri reynslu af stjórnunarstörfum sem starfsmannastjóri í stóru fyrirtæki auk áralangs starfs á vettvangi sveitarstjórnarmála þar sem hann var í stjórnunarstöðum sem forseti bæjarstjórnar, formaður bæjarráðs og bæjarstjóri. Kærandi býr einnig að góðri reynslu af stjórnunarstörfum, meðal annars veitt forstöðu stofnunum af svipuðu tagi og Fjöliðjan er, svo sem Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi. Jafnframt hefur hún setið í sveitarstjórn. Því má álykta að ekki halli á kæranda hvað starfsreynslu snertir. Báðir þessir aðilar fengu mjög góðar umsagnir meðmælenda.

Að mati kærunefndar getur ekki ráðið úrslitum í máli þessu að sá sem starfið hlaut hafi fengið jákvæðari umsögn eftir ráðningarviðtal. Þegar litið er til þess hvernig staðið var að ráðningarviðtölum sýnist ákvörðun byggð á slíkum grundvelli falla utan þess svigrúms sem játa verði atvinnurekendum við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda. Huglægt mat á persónulegum eiginleikum þess sem starfið hlaut getur ekki vikið til hliðar þeim hlutlægu mælistikum sem sérhæfð menntun og starfsreynsla, á því sviði sem starfslýsing tilgreinir, er. Var því ekki réttmætt að gefa því sjónarmiði jafn ríkt vægi og gert var.

Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi hefur borið fyrir sig vilja til að jafna kynjahlutföll meðal starfsmanna sinna. Svigrúm atvinnurekanda til þess takmarkast af því að um jafnhæfa einstaklinga sé að ræða en því er ekki til að dreifa í máli þessu eins og áður er rakið.

Ef litið er á hlutlæg gögn um menntun og reynslu kæranda annars vegar og þess sem hlaut starfið hins vegar má ljóst vera að það er Svæðisskrifstofunnar að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið að baki ákvörðun um ráðningu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000.

Að teknu tilliti til framangreinds verður að telja að Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Vesturlandi hafi ekki sýnt fram á það að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun að ráða karlmann í umrædda stöðu forstöðumanns. Verður því talið að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 með ráðningunni.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í máli þessu. Er því beint til Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi að leitað verði lausna í máli þessu sem kærandi getur sætt sig við.

 

Björn L. Bergsson

Ingibjörg Rafnar

Þórey S. ÞórðardóttirEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira