Hoppa yfir valmynd
14. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Álit, að því er tekur til forsendna matskerfis sem Menntasvið Reykjavíkurborgar hefur tekið upp við eftirlit á starfsháttum grunnskóla

Vísað er til tölvupósta, dags. 3. og 4. mars 2010, þar sem óskað er eftir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið skoði forsendur matskerfis sem Menntasvið Reykjavíkurborgar hefur tekið upp við eftirlit á starfsháttum grunnskóla og felst m.a. í því að fulltrúar Menntasviðs eru viðstaddir kennslustundir í tiltekinn tíma og meti út frá því gæði kennslunnar.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 segir að markmið mats og eftirlits með gæðum grunnskólastarfs sé að veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda, tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla, auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum og að tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.

Hver grunnskóli á að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs á grundvelli 35. gr. með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á og birta opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur. Þá sinna sveitarfélög mati og eftirliti með gæðum skólastarfs, sbr. 5. og 6. gr., laganna og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur. Sveitarfélög eiga að fylgja eftir innra og ytra mati þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi.

Af erindi yðar verður ekki annað ráðið en að það varði samskipti stjórnenda grunnskóla Reykjavíkurborgar og einstaka kennara um framkvæmd starfa þeirra. Af 3. gr. reglugerðar nr. 658/2009 um mat og eftirlit í grunnskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald og 35. og 36. gr. laga um grunnskóla leiðir að beinlínis er gert ráð fyrir því að starfsfólk skóla taki þátt í mati eftir því sem við á. Auk þess verður almennt að gera ráð fyrir því að stjórnendur grunnskóla fylgist reglubundið með árangri skólastarfs þ.á m. hvernig starfsfólk rækir starfsskyldur sínar.

Af yfirstjórnarhlutverki mennta- og menningarmálaráðuneytis, sbr. 4. gr. laga um grunnskóla leiðir að ráðuneytið fjallar ekki um, hvernig stjórnendur grunnskóla sveitarfélaga beita stjórnunar- og eftirlitsheimildum sínum gagnvart því starfsfólki sem starfar á þeirra vegum. Ekki er hægt að sjá af erindi yðar með hvaða hætti tilvísun í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 658/2009 eigi við í þessu sambandi.

Ráðuneytið bendir yður á að þér getið borið málið undir borgarstjórn Reykjavíkur, sem er æðsta stjórnvald í málefnum borgarinnar. Einnig er unnt að beina málinu til persónuverndar sem getur eftir atvikum látið í ljós álit eða túlkun á því hvort sú framkvæmd Menntasviðs Reykjavíkurborgar sem vitnað er til í tölvupóstum yðar sé í samræmi við lög um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum