Hoppa yfir valmynd
22. desember 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 778/2023 Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum ásamt því að brottvísa honum frá Íslandi og ákveða endurkomubann er staðfest

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 22. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 778/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23070047

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 7. júlí 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Tyrklands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. 

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 3. júlí 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 12. september 2022 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 7. júlí 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var ákvörðun Útlendingastofnunar kærð til kærunefndar útlendingamála 7. júlí 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum 21. júlí 2023. Frekari upplýsingar og gögn bárust kærunefnd frá kæranda 19., 20. og 21. desember 2023. 

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar að þjóðfélagshópi Kúrda.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður. 

Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. 

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er um málavexti vísað til greinargerðar hans sem lögð var fram hjá Útlendingastofnun, dags. 26. september 2022. 

Í greinargerð kæranda til kærunefndar byggir hann á því að tilvísaðar heimildir beri með sér að ástandið í Tyrklandi sé mjög alvarlegt og óöruggt. Kúrdar séu enn þann daginn í dag sérstaklega ofsóttir þar í landi og verði fyrir mikilli mismunun og fordómum. Þá hafi hatursglæpir gegn Kúrdum í Tyrklandi aukist til muna síðustu ár og hafi margir kúrdískir almennir borgarar látið lífið vegna þeirra. 

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki. Byggi ótti kæranda meðal annars á persónulegri reynslu hans en hann hafi orðið fyrir ofsóknum fyrir það eitt að vera Kúrdi og þá hafi hann jafnframt orðið vitni að því að aðrir Kúrdar hafi verið ofsóttir. Kærandi hafi lagt fram myndband sem sýni hann beittan ofbeldi af lögreglunni og skjáskot af sjúkrasögu þar sem fram komi að hann hafi í þrjú skipti leitað læknishjálpar vegna ofbeldis og árásar ónefndra aðila. Þá leggi kærandi fram gögn sem sýna gæsluvarðhaldsúrskurð á hendur honum og húsleit á heimili hans, dags. 17. mars 2022. Í umræddum gögnum komi einnig fram að lögreglan hafi haldlagt bæklinga tengda PPK, PCK og HDP flokkunum við leitina. Gerð hafi verið húsleit á heimili hans og gæsluvarðhald úrskurðað vegna aðildar foreldra hans að HDP-flokknum í Tyrklandi. Að mati kæranda sé ótti hans ástæðuríkur þrátt fyrir að hann tilheyri ekki PPK-flokknum

Kærandi telur jafnframt að hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi með vísan til þess að það gangi gegn hans siðferðislegu gildum að ganga í herinn. Kærandi leggi fram með greinargerð skjal, dags. 7. júní 2023, sem sýni að hann hafi verið kallaður til að sinna herskyldu í tyrkneska hernum. Kærandi telur að verði hann endursendur til Tyrklands verði hann neyddur til að sinna herskyldu. 

Þá telur kærandi að hann eigi á hættu að verða ofsóttur vegna samsafns athafna. Kærandi vísar til þess að öryggisástandið í Tyrklandi sé óstöðugt og séu Kúrdar í mikilli hættu á að verða fyrir mismunun, ofbeldi eða myrtir. Kærandi geti ekki notið verndar stjórnvalda í Tyrklandi vegna framangreindra ofsókna. 

Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með vísan til þess að hann eigi á hættu ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í heimaríki. Kærandi telur að frásögn hans sé í samræmi við fyrirliggjandi heimildir um almennt ástand í Tyrklandi og þau mannréttindabrot sem eigi sér stað þar. Bendi fyrirliggjandi gögn og einstaklingsbundnar aðstæður hans til þess að hann eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð verði hann endursendur til Tyrklands. Með vísan til þess sem rakið hafi verið í tengslum við aðalkröfu hans telur kærandi að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga að veita honum viðbótarvernd. 

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu einkum á því að hann muni búa við afar erfiðar almennar og félagslegar aðstæður í heimaríki verði honum gert að snúa þangað aftur. Kærandi telur að samkvæmt heimildum um aðstæður í Tyrklandi sé ljóst að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í landinu og að yfirvöld veiti Kúrdum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum. Með vísan til þess telur kærandi að hans bíði aðstæður í heimaríki sem flokka megi sem erfiðar almennar aðstæður sem annars vegar grundvallist á viðvarandi mannréttindabrotum og hins vegar á því að yfirvöld þar í landi geti ekki veitt þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá byggir kærandi kröfu um dvalarleyfi af mannúðarástæðum á því að heimaborg hans, [...], hafi orðið fyrir barðinu á jarðskjálfta sem riðið hafi yfir suðurhluta Tyrklands í febrúar sl. Hafi foreldrar kæranda misst heimili sitt í skjálftanum og muni kærandi því ekki hafa skjól yfir höfuð sitt verði hann endursendur til heimaríkis. Kærandi telur að í ljósi ungs aldurs hans, kúrdísks uppruna hans og fyrirliggjandi gagna um aðstæður í Tyrklandi hafi hann sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að lokum telur kærandi að með endursendingu hans til Tyrklands yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna. 

Í greinargerð gerir kærandi ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að það sé mat stofnunarinnar að erfitt sé að greina á framlögðu myndbandi hvort kærandi eða einhver annar hafi orðið fyrir harðræði lögreglumanns og því renni myndbandið ekki stoðum undir frásögn hans um að hafa orðið fyrir ofsóknum vegna kúrdísks uppruna síns. Kærandi er sammála Útlendingastofnun að erfitt sé að greina á umræddu myndbandi hvort ofbeldið beinist að honum. Kærandi leggi hins vegar nú fram nýtt fylgiskjal sem sýni að vegna ofbeldis hafi hann leitað þrisvar sinnum til læknis á árunum 2017 og 2018. Kærandi telur að fylgiskjalið styðji við framburð hans um að hann sé einstaklingurinn sem hafi verið beittur ofbeldi í umræddu myndbandi og því skuli leggja það til grundvallar við úrlausn málsins að hann hafi orðið fyrir ofsóknum vegna uppruna síns sem tyrkneskur Kúrdi. Þá gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar þess efnis að staða Kúrda í Tyrklandi sé ekki með þeim hætti að kærandi eigi á hættu ofsóknir vegna uppruna síns. Kærandi telur ljóst af fyrirliggjandi heimildum um aðstæður í Tyrklandi að ofsóknir tyrkneskra stjórnvalda beinist ekki aðeins að Kúrdum í hærri stöðu heldur einnig að almennum borgurum. Þá gerir kærandi athugasemd við niðurstöðu Útlendingastofnunar um 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Að mati kæranda hafi stofnunin við það mat ekki litið til einstaklingsbundinna aðstæðna hans og þess að hann sé ekki aðeins almennur borgari í Tyrklandi heldur tilheyri hann minnihlutahópi Kúrda. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við þá úrlausn Útlendingastofnunar að þar sem hann hafi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á að húsnæði fjölskyldu hans hafi farið illa út úr jarðskjálftanum, sem hafi riðið yfir suðurhluta Tyrklands 3. febrúar 2023, eigi hann raunhæfan kost á að setjast að á svæðum sem séu fjarri jarðskjálftasvæðum og því sé það mat stofnunarinnar að ekki verði séð að rík mannúðarsjónarmið á grundvelli erfiðra aðstæðna í heimaríki séu fyrir hendi í máli hans. Kæranda hafi gengið erfiðlega að verða sér út um gögn um að jarðskjálftinn hafi eyðilagt heimili hans. Kærandi telur að engar góðar eða gildar ástæður mæli því í móti að kærandi fái að njóta vafans um framangreint enda sé ljóst af fyrirliggjandi heimildum að 1,5 milljón manns hafi misst heimili sín vegna skjálftana

Jafnframt telur kærandi að Útlendingastofnun hafi beitt lögum nr. 136/2022 um landamæri með afturvirkum hætti. Lögin hafi tekið gildi 10. janúar 2023 en kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd 3. júlí 2022, fyrir gildistöku laganna. Fallist kærunefnd ekki á að framangreindum lögum hafi verið beitt afturvirkt í máli kæranda byggir kærandi á því að um ósanngjarna ráðstöfun sé að ræða að brottvísa honum. Ráðstöfunin skerði ferðafrelsi kæranda óhóflega og hindri hann í því að heimsækja landið og vini sína. Þá telur kærandi að líta verði til hann hafi dvalið hér á landi í meira en eitt og hálft ár og hafi myndað sérstök tengsl við það. 

Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið í bága við málshraðareglu stjórnsýslulaga, sbr. 9. gr. laganna og 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga í ljósi þess að hann hafi ekki fengið niðurstöðu í máli sínu hjá stofnuninni fyrr en ári eftir að hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Kærandi telur að framangreindar tafir í máli hans séu annmarki, einkum þar sem hann hafi ekki verið upplýstur um að ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar væri að vænta. 

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað tyrknesku nafnskírteini. Var það mat Útlendingastofnunar að þar sem kærandi hefði ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti yrði leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Með vísan til þeirra gagna sem kærandi hefði lagt fram til að sanna á sér deili og lýsingar hans á staðháttum taldi Útlendingastofnun enga ástæðu til að draga í efa að hann hefði verið búsettur í bænum [...] í Tyrklandi og væri ríkisborgari Tyrklands. Útlendingastofnun taldi kæranda að öðru leyti ekki hafa sannað auðkenni sitt.

Við málsmeðferð hjá kærunefnd hefur kærandi engin frekari gögn lagt fram til sönnunar á auðkenni sínu. Það er mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi forsendur til að hagga mati Útlendingastofnunar þess efnis að kærandi sé tyrkneskur ríkisborgari og verður það því lagt til grundvallar í málinu. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Tyrklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum: 

  • 2023 Türkiye Earthquake Disaster Brief (The International Federation of Red Cross and Crescent Societies (IFRC), 2023);

  • Country Policy and Information Note: Turkey: Peoples’ Democratic Party (HDP) (UK Home Office, mars 2020);

  • Country Policy and Information Note: Turkey: Kurds (UK Home Office, október 2023);

  • Country Policy and Information Note: Peoples’ Democratic Party/Green Left Party (HDP/YSP) (UK Home Office, október 2023);

  • Country Policy and Information NoteTurkey: Military service (UK Home Office, október 2023);

  • DFAT Country Information Report – Turkey (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 10. September 2020);

  • Freedom in the World 2023 – Turkey (Freedom House, 9. mars 2023);

  • General Country of Origin Information Report – Turkey (Utanríkisráðuneyti Hollands, 2. mars 2022);

  • Progress report on the preparation for EU membership – Türkiye 2023 Report (European Commission, 8. nóvember 2023);

  • Report on the human rights situation covering 2022 – Türkiye (Amnesty International, 27. mars 2023);

  • The World Factbook - Turkey (Central Intelligence Agency, 6. desember 2019);

  • Turkey 2022 Human Rights Report (U.S. Department of State, 20. mars 2023);

  • Turkey’s Constitution of 1982 with Amendments through 2017 (https://www.constituteproject.org/constitution/Turkey_2017.pdf?lang=en, skoðað 12. desember 2023);

  • Turkey: Situation of Kurds, including in Istanbul, Ankara and Izmir; situation of supporters or perceived supporters of the People’s Democratic Party (Halklarin Demokratik Partisi, HDP); situation of Alevi Kurds (Immigration and Refugee Board of Canada, 7. janúar 2020);

  • World Report Turkey 2023 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023) og

  • World Directory of Minorities and Indigenous Peoples - Turkey: Kurds (Minority Rights Group International, júní 2018).

Tyrkland er lýðveldi með rúmlega 83 milljónir íbúa. Ríkið er aðili að Evrópuráðinu og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Ríkið er jafnframt aðili að m.a. flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis.

Í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um Tyrkland frá október 2023 kemur fram að landið og verði áfram lykilsamstarfsaðili Evrópusambandsins. Tyrkland hafi verið tengt Evrópusambandinu með samstarfssamningi síðan 1964 og hafi tollabandalag verið stofnað árið 1995. Þá hafi Tyrkland stöðu umsóknarríkis að Evrópusambandinu frá desember 1999 og aðildarviðræður hófust í október 2005. Aðildarviðræður við Tyrkland eru í biðstöðu og hafa verið frá árinu 2018. Fram kemur að ekki hafi verið brugðist við alvarlegum áhyggjum Evrópusambandsins af áframhaldandi hnignun lýðræðislegra viðmiða, réttarríkisins, sjálfstæði dómstóla og virðingu fyrir grundvallarréttindum borgara landsins. Í maí 2023 fóru fram forseta- og þingkosningar í Tyrklandi og hélt stjórnarbandalagið meirihluta sínum á þinginu og var sitjandi forseti endurkjörinn. Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar séu meðal annars aðstoð og endurreisn eftir jarðskjálfta, fjármálastöðugleiki og endurskoðun stjórnarskrárinnar. 

Stjórnarskrá ríkisins gerir ráð fyrir einu þjóðerni fyrir alla ríkisborgara og viðurkennir ekki minnihlutahópa á grundvelli þjóðernis, svo sem Kúrda, eða kynþáttar að undanskildum Armenum, gyðingum og þeim sem tilheyri grísku rétttrúnaðarkirkjunni. Rétturinn til eigin tungumáls, menningarlegra og trúarlegra réttinda sé ekki tryggður öðrum hópum fyllilega samkvæmt lögum. Í skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá október 2023 um aðstæður Kúrda í Tyrklandi kemur fram að rúmlega 15 milljónir íbúa landsins séu af kúrdískum uppruna og tali kúrdískar mállýskur. Samkvæmt tyrkneskum lögum sé leyfilegt að opna einkareknar menntastofnanir þar sem kennsla fari fram á tungumálum og mállýskum sem íbúar noti í daglegu lífi. Sumir háskólar bjóði upp á valkvæða kúrdísku áfanga og tveir háskólar séu með kúrdískar málvísindadeildir. Lögin heimili jafnframt að kúrdísk þorp og hverfi taki upp sín fyrri nöfn í stað þeirra tyrknesku og leyfi stjórnmálaflokkum og meðlimum þeirra að velja tungumál í stjórnmálabaráttu sinni og kynningarefni. Sá réttur hafi þó ekki alltaf verð virtur í framkvæmd. Þá banni lög notkun annarra tungumála en tyrknesku í opinberum stofnunum. Þrátt fyrir að kúrdíska sé formlega leyfð í einkareknum menntastofnunum og opinberri orðræðu hafi ríkisstjórnin ekki framlengt leyfi fyrir kennsluefni á kúrdísku í almenningsskólum. Þá kemur fram í skýrslunni að vísbendingar séu um áframhaldandi samfélagslega mismunun gagnvart Kúrdum og hafi fjölmargar fregnir borist af árásum sem beinst hafi að Kúrdum árið 2023. Í sumum tilfellum hugsanlegt að þessar árásir hafi ekki verið rannsakaðar á réttan hátt eða ekki verið viðurkenndar sem árásir byggðar á kynþáttahatri. Kúrdar sem búi í borgum í vesturhluta Tyrklands kunni að vera hræddir við að upplýsa um kúrdískt þjóðerni sitt eða tala kúrdísku á almannafæri, og atvinnumöguleikar geti verið takmarkaðir fyrir kúrdískt fólk, sérstaklega ef það virkt í kúrdískum stjórnmálum eða áberandi um stuðning sinn við málstað Kúrda. Hins vegar geti flestir Kúrdar sem ekki eru virkir í stjórnmálastarfi og þeir sem styðja AKP lifað án mismununar í borgum í vesturhluta Tyrklands. Nokkrar heimildir séu um að Kúrdum hafi verið meinaður aðgangur að leiguhúsnæði vegna þjóðernis síns. Þá geti Kúrdar sem ekki tali tyrknesku átt í erfiðleikum með að fá aðgang að læknisþjónustu.

Í mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá mars 2023 um aðstæður í Tyrklandi kemur fram að átök stjórnvalda og PKK hafi leitt af sér umfangsmikið tjón á svæðinu. Stjórnvöld hafi af þeim sökum árið 2016 lagt hald á tilteknar eignir í sérstökum héruðum í suðausturhluta landsins. Hafi yfirvöld lýst því yfir að tilgangur yfirtökunnar væri að auðvelda uppbyggingu eftir átökin. Sumir íbúanna sem hafi orðið fyrir áhrifum yfirtökunnar hafi fram lagt fram kröfur fyrir dómstólum þar sem þeir hafi sóst eftir leyfi til að vera áfram á yfirteknu landsvæði og fá bætur. Hafi mörg þessara mála enn verið óafgreidd í árslok. Í ákveðnum tilfellum hafi dómstólar dæmt íbúum bætur. Frá og með júní hafi 5,7 milljarðar líra verið greiddar út til umsækjenda. Fram kemur að í [...]-hverfi [...] hafi stjórnvöld ekki lokið viðgerðum á mörgum þeirra eigna sem lagt hafi verið hald á. Ríkisstjórnin hafi úthlutað 30 milljónum líra til að gera við fjórar kirkjur, þar á meðal sögulega staði eins og Surp Giragos Armenian Church og Mar Petyun Chaldean Church, sem báðar hafi verið opnaðar aftur í maí 2022.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá október 2023 um kúrdíska lýðræðisflokkinn (HDP flokkinn) í Tyrklandi kemur fram að flokkurinn og Verkamannaflokkur Kúrda (PKK) starfi að ólíkum markmiðum. HDP flokkurinn hafi verið stofnaður með það að markmiði að stuðla að réttindum Kúrda og annarra minnihlutahópa. PKK flokkurinn sé aftur á móti talinn hryðjuverkahópur af tyrkneskum yfirvöldum. PKK hafi upphaflega verið kúrdískur aðskilnaðarflokkur sem hafi haft það að markmiði að stofna sjálfstætt ríki Kúrda í suðausturhluta Tyrklands. HDP flokkurinn hafi neitað tengslum við PKK flokkinn og gefið sig út fyrir að berjast fyrir auknum réttindum Kúrda með friðsamlegum hætti. Þá kemur fram í skýrslunni að hryðjuverkalöggjöf landsins hafi verið beitt ítrekað á andstæðinga ríkisstjórnarinnar. Þá kveði tyrknesk lög á um að allir þeir sem smáni forseta landsins geti átt yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi. Meðlimir HDP flokksins sem vinni að mannréttindamálum eigi á hættu að vera handteknir og ákærðir fyrir brot gegn hryðjuverkalöggjöf landsins. Í skýrslunni kemur fram upplýsingar bendi til þess að stjórnvöld kunni að líta svo á að þeir sem gagnrýni stjórnvöld eða öryggissveitir séu meðlimir í hryðjuverkasamtökum. Aðgerðarsinnar sem starfi innan raða HDP flokksins hafi margir hverjir hlotið refsingu án beinnar tengingar við ákveðinn glæp eða brot gegn lagaákvæðum. Frá árinu 2015 hafi tugþúsundir verið til rannsóknar af hálfu yfirvalda vegna meintra brota gegn hryðjuverkalögum landsins sem síðar hafi leitt til ákæru. Ættingjar meðlima HDP flokksins geti einnig átt á hættu afskipti yfirvalda sér í lagi ef fjölskyldumeðlimur er áberandi innan flokksins, hafi verið ákærður fyrir brot, ættingjar sýni áhuga á dómsmáli fjölskyldumeðlima sinna, geri pólitískar athugasemdir á samfélagsmiðlum eða mæti á pólitíska fundi. Það eitt og sér að vera meðlimur HDP flokksins geri það þó ekki að verkum að viðkomandi eigi á hættu afskipti yfirvalda. Aftur á móti aukist líkurnar með frekari þátttöku í starfi flokksins, s.s. með því að taka þátt í mótmælum, láta skoðun sína á stjórnvöldum opinberlega í ljós eða dreifa bæklingum fyrir flokkinn. Meðlimir HDP flokksins sem settir hafa verið í varðhald séu oft látnir lausir gegn því að viðkomandi veiti yfirvöldum í té upplýsingar um flokkinn. Jafnframt tíðkist að aðilar sem hafi verið handteknir og síðar sleppt séu áfram undir eftirliti yfirvalda. 

Samkvæmt 1. gr. tyrkneskra herlaga nr. 1111/1997 eru allir tyrkneskir karlmenn skyldugir til að gegna herþjónustu í samræmi við ákvæði laganna. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá október 2023 um herskyldu í Tyrklandi kemur fram að herþjónusta skyldubundin fyrir tyrkneska karlmenn á aldrinum 20 til 41 árs í sex til tólf mánuði. Þeir sem sinni herskyldu séu einn mánuð í herþjálfun og séu síðan sendir til þjónustu og frekari þjálfunar og fái greitt fyrri uppihald þann tíma sem þeir sinni skyldunni. Nýliðar og einstaklingar sem ekki séu starfandi hermenn séu ekki sendir á átakasvæði eða í sérstakar aðgerðir gegn hryðjuverkum nema rík nauðsyn sé til, þar sem nóg sé um atvinnuhermenn til að sinna slíkum verkefnum. Eftir að hafa lokið eins mánaðar grunnþjálfun, hafi hermenn kost á að koma sér undan síðustu fimm mánuðum skyldubundinnar herþjónustu með því að greiða ákveðna peningaupphæð (í júlí 2023 var upphæðin 122.351 tyrknesk líra). Þeir sem hafi þegar hafið herþjónustu, komið sér undan herskyldu eða u í felum geti ekki nýtt sér þennan valmöguleika. Þá séu sumir karlmenn undanþegnir skyldubundinni herþjónustu, svo sem vegna heilsufarsástæðna og öðrum geti verið heimilt að fresta herþjónustu vegna sérstakra aðstæðna, þar á meðal ef þeir eru að sækja sér framhaldsmenntun. Aðrar undanþágur frá herskyldu eru ekki heimilaðar, s.s vegna trúar eða sannfæringar. Samkvæmt ákvæðum herlaga liggi refsing við því að koma sér undan herskyldu (a-liður 1. mgr. 63. gr. laganna) og að yfirgefa stöðu sína í hernum (a-liður 1. mgr. 66. gr. laganna). Þeir sem gefi sig ekki fram við skráningarskrifstofur hersins séu sektaðir þann tíma sem yfirvöld telji aðilann vera að koma sér undan herskyldu. Sektirnar hækki í hlutfalli við fjölda þeirra ára sem aðili komi sér undan skyldunni. Þrátt fyrir að lögin heimili fangelsisrefsingu við því að koma sér undan herskyldu þá sé slíkri refsingu ekki beitt í framkvæmd. Þá kunni undanskot frá herskyldu að hafa aðrar afleiðingar í för með sér, s.s. að aðili sé skráður í eftirlitsgagnagrunn yfirvalda, geti ekki sótt um vegabréf, gift sig, opnað bankareikning, tekið þátt í kosningum eða gegnt opinberum störfum. 

Í febrúar 2023 urðu tveir öflugir jarðskjálftar og margir eftirskjálftar í suðausturhluta Tyrklands. Í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kemur fram jarðskjálftarnir hafi valdið dauða tugþúsunda manna og leitt til víðtækrar eyðileggingar á opinberum og einkareknum innviðum, þar á meðal skólum og heilsugæslustöðvum. Hafi Evrópusambandið strax brugðist við og veitt umtalsverða neyðaraðstoð bæði með mannúðarstyrkjum og með aðstoð frá almannavarnarkerfi sambandsins. Í mars 2023 hafi Evrópusamband í samvinnu við tyrknesk yfirvöld haldið alþjóðlega ráðstefnu til að afla fjár frá alþjóðasamfélaginu til að styðja við neyðaraðstoð og enduruppbyggingu á viðkomandi svæðum. Á ráðstefnunni hafi safnast meira en 6 milljarðar evra og sé uppbyggingarstarf hafið. Þá kemur fram í skýrslunni þau héruð sem verst hafi orðið úti vegna skjálftanna hafi verið Kahramanmaraş, Hatay, Gaziantep, Malatya, Kilis, Osmaniye, Diyarbakir, Adana, Adıyaman og Sanliurfa þar sem flestir innflytjendur og flóttamenn landsins séu búsettir. Samkvæmt yfirlýsingu innanríkisráðherra hafi tæplega sjö þúsund útlendingar, aðallega Sýrlendingar, látið lífið vegna jarðskjálftanna. 

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir: 

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir: 

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna. 

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, 

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. 

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013). 

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi orðið fyrir mismunun, áreiti og ofbeldi af hálfu lögreglu og almennra borgara í Tyrklandi vegna kúrdísk þjóðernis síns. 

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lagt fram tvö myndbönd. Annars vegar myndband sem hann kvað sýna lögreglu ráðast á sig og hins vegar myndband sem hafi sýnt skriðdreka skjóta á það sem virtist vera íbúðarhús. Að mati Útlendingastofnunar var erfitt að sjá á fyrra myndbandinu hvort það væri kærandi sem hafi orðið fyrir harðræði af hálfu lögreglu. Þá væri ógerlegt að sjá hvort síðara myndbandið væri tekið upp í heimaborg kæranda, [...], eða í einhverri annarri borg eða bæ. Kærunefnd hefur skoðað framangreind myndbönd og tekur undir það mat Útlendingastofnunar að af myndböndunum sé hvorki hægt að sjá að kærandi sé sá sem verður fyrir barsmíðum né að skotárás skriðdreka beinist að húsnæði í heimaborg kæranda.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram ný gögn. Um er að ræða skjáskot af gögnum sem kærandi tilgreinir sem aðild foreldra að HDP-flokknum í Tyrklandi, lögmannsumboð til öflunar gagna, úrskurð um gæsluvarðhald og húsleit á heimili hans, herskyldu hans og gögn um sjúkrasögu hans. Vegna hinna nýju gagna í máli kæranda óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum frá honum og bárust kærunefnd svör frá kæranda 19. desember 2023. Framlögð gögn og svör við spurningum kærunefndar vörðuðu atriði sem komu ekki fram í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun, greinargerð til stofnunarinnar eða öðrum samskiptum við stofnunina.

Kærandi var spurður að því hvers vegna hann hefði ekki greint frá aðild foreldra sinna að HDP-flokknum í viðtali hjá Útlendingastofnun og hvaða þýðingu sú aðild hefði fyrir málatilbúnað kæranda. Í svörum kæranda kom fram að hann hefði verið stressaður og hræddur og það gæti verið ástæðan fyrir því að hann hefði ekki tjáð sig almennilega. Kærandi kvað gögnin sýna fram á að hann væri í mikilli hættu í heimaríki. Að mati kærunefndar er ekki tilefni til að draga í efa að foreldrar kæranda kunni að vera flokksbundin HDP-flokknum. Samkvæmt framangreindum heimildum geta ættingjar meðlima HDP-flokksins átt á hættu afskipti yfirvalda ef fjölskyldumeðlimur er áberandi innan flokksins, hafi verið ákærður fyrir brot, ættingjar sýni áhuga á dómsmáli fjölskyldumeðlima sinna, láti í ljós pólitískar athugasemdir á samfélagsmiðlum eða mæti á pólitíska fundi. Þá geta ættingjar meðlima í HDP-flokknum átt í erfiðleikum með að fá ákveðin störf eða leyfi. Af heimildum verður ekki ráðið að ættingjar meðlima HDP-flokksins sem eru sjálfir ekki í flokknum eða á annan hátt opinberlega gagnrýnir á stjórnvöld séu í sérstakri hættu eða verði fyrir kerfisbundnum ofsóknum stjórnvalda. Af svörum kæranda verður ekki ráðið að foreldrar hans séu í háttsettum stöðum í flokknum eða að þau hafi lent í ágreiningi við stjórnvöld vegna þeirrar aðildar. Þá hefur kærandi eins og áður segir ekki lýst neinum atvikum sem hann hafi lent í vegna aðildar foreldra sinna að HDP-flokknum. Að mati kærunefndar gefur aðild foreldra kæranda að HDP-flokknum ein og sér ekki ástæðu til að ætla að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. 

Þá var athygli kæranda vakin á því að hann hefði lagt fram tvö skjöl sem bæði væru dagsett 17. mars 2022. Annað skjalið gæfi til kynna að kærandi hefði þann dag farið í lögreglufylgd til skoðunar á spítala og hitt skjalið gæfi til kynna að hans hefði þann sama dag verið leitað af lögreglu en samkvæmt frásögn fjölskyldumeðlima verið farinn af landi brott. Kærandi var meðal annars spurður að því hvers vegna hann hefði ekki greint frá þessum atburðum í viðtali hjá Útlendingastofnun. Þá var kærandi spurður að því hverjir eftirmálar hafi orðið af heimsókn lögreglunnar á heimili hans 17. mars 2022. Kærandi svaraði því að lögreglan hafi verið að leita að honum og sagt að hann væri hryðjuverkamaður. Hafi lögreglan meðal annars fundið kúrdíska fánann. Kærandi hafi þurft að flýja heimaríki vegna þess. Þá hafi yngri bróðir hans verið settur í fangelsi vegna framangreinds. Kærandi kvað ástæðu fyrir því að hann hafi ekki greint frá framangreindu í viðtali hjá Útlendingastofnun vera þá að hann hafi verið stressaður og hræddur og þá muni hann ekki hvað hann hafi sagt í viðtalinu. Kærandi kvað eftirmála af leit lögreglu að honum vera þá að búið væri að handtaka bróður hans og þá teldi kærandi að lögreglan væri búin að lýsa eftir sér. Kærandi veitti engin svör eða útskýringar á því að hann hefði sama dag annars vegar verið í fylgd með lögreglu í skoðun hjá lækni og hins vegar verið leitað af lögreglu á heimili hans. Kærandi lagði fram skjáskot af vefsíðunni www.turkiye.gov.tr. Kæruefnd hefur skoðað umrædda vefsíðu en um er að ræða eins konar upplýsingasíðu fyrir tyrkneska ríkisborgara hvar þeir geta nálgast hinar ýmsu upplýsingar um sig og mál sín fyrir stjórnvöldum, svo sem dómsmál. Samkvæmt því ætti kærandi á einfaldan hátt að geta aflað frekari upplýsinga um skyldur sínar og réttindi í Tyrklandi á framangreindri síðu, svo um það hvort hann væri eftirlýstur eða mál hafi verið höfðað gegn honum, en slíkar upplýsingar hafa ekki borist frá kæranda. 

Einnig var kærandi spurður að því hvenær hann hefði veitt lögmanni umboð til að gæta hagsmuna sinna, hvaða hagsmunir það hafi verið sem viðkomandi lögmaður hefði fengið umboð til að gæta og hvort umrætt umboð væri enn í gildi. Kærandi kvaðst hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu lögreglunnar og lögmaður hans hafi gætt hagsmuna hans í því máli. Lögmaðurinn gætti hins vegar ekki lengur hagsmuna hans. Að mati kærunefndar voru svör kæranda óljós varðandi það hvaða mál það voru sem lögmaður hans hafi gætt hagsmuna í. Þá hefur kærandi eins og áður segir aðgang að vefsíðu stjórnvalda í Tyrklandi þar sem hann ætti að geta nálgast upplýsingar um mál hans sem hafa verið eða eru til meðferðar í réttarkerfinu í heimaríki. 

Jafnframt var kæranda tjáð að upplýsingar á framlögðu skjáskoti af „herskyldu kæranda“ væru ekki ítarlegar um herskyldu þá sem hann kvaðst eiga yfir höfði sér og þá sæist hvorki eftirnafn eiganda reikningsins sem skjáskotið sýndi né aðrar persónuupplýsingar. Kærandi kvaðst ætla að verða sér út um betri gögn í tengslum við framangreint. Framangreint skjáskot er tekið af vefsíðunni www.turkiye.gov.tr. Sjá má að reikningshafi hafi leitað eftir öllum skilaboðum sem hafi verið send honum. Samkvæmt lauslegri þýðingu má sjá að sendandi sé herráðningar“ og „aðalstjórn“, séu skilaboðin send 7. júní 2023 og að efni skilaboðanna séu herkvaðning, flóttamaður og Takibi“. Þá má sjá að hægt sé að smella á tengil til að fá ítarlegri upplýsingar um skilaboð. Eins og áður segir var hvorki hægt að sjá eftirnafn reikningseiganda né frekari persónuupplýsingar. Með tölvubréfi kærunefndar 20. desember 2023 var athygli kæranda vakin á því að hann gæti nálgast frekari upplýsingar á vefsíðunni til að leggja fram hjá kærunefnd. Kærandi lagði fram afrit skjala, dagsett 12. og 13. desember 2023, sem hann kvað varða herskyldu sína. Í þeim gögnum kemur fram, skv. óformlegri þýðingu, yfirvöld hafi komið að heimili [...] þar sem hann hafi ekki brugðist við kvaðningum um herskyldu. Hans hafi verið leitað án árangurs og fjölskylda hans hafi verið beitt þrýstingi um að gefa upp hvar hann væri. Ekki hafi verið gefið upp hvers vegna hans væri leitað en hann gæti aflað upplýsinga hjá viðkomandi yfirvöldum. Þá er í öðru skjalinu skorað á kæranda að gefa sig fram við yfirvöld. Ekki er ljóst af gögnunum eða upplýsingum frá kæranda hvaðan hann aflaði þessara gagna.

Í svörum kæranda til kærunefndar gerði kærandi athugasemd við viðtal hans hjá Útlendingastofnun. Kærandi vísar til þess að í viðtali hafi túlkurinn bent á að hún teldi að uppruni hennar gæti haft áhrif á framburð kæranda en hún væri frá Tyrklandi og kærandi væri að tala illa um Tyrki. Þessi athugasemd túlksins hafi hins vegar ekki verið bókuð. Kæranda var í upphafi viðtals gerð sérstaklega grein fyrir því að ástæða þess væri að fá frásögn hans á því af hverju hann teldi sig vera flóttamann og hvaða atburðir eða atburður hafi valdið flótta frá heimaríki. Þá var jafnframt ítrekað fyrir kæranda að tilkynna fulltrúa Útlendingastofnunar ef hann skildi ekki túlkinn og þá gæti hann óskað eftir nýjum túlk ef þess gerðist þörf. Kærunefnd hefur hlustað á upptöku af viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun. Um miðbik viðtals segir túlkur við fulltrúa þann sem tekur viðtalið kærandi viti að hún sé tyrknesk og til að honum líði betur vilji hún segja honum frá því að hún sé bara að vinna vinnu sína með því að túlka. Hvorki kærandi né talsmaður hans gera athugasemd við það sem túlkurinn sagði og var áfram haldið með viðtalið. Þá vekur kærunefnd athygli á því að í lok viðtalsins var tekin samantekt á helstu málsástæðum kæranda og borið undir hann hvort rétt væri haft eftir honum sem hann svaraði játandi. Þá var kæranda og talsmanni hans í kjölfarið boðið að bæta við frekari upplýsingum eða gera athugasemdir. Hvorki kærandi né talsmaður hans gerðu athugasemd við framkvæmd viðtalsins eða bættu við frásögnina. Kærandi lagði fram tvær greinargerðir vegna máls hans, þá fyrri hjá Útlendingastofnun og hina síðari hjá kærunefnd. Engar athugsemdir voru gerðar við túlk í viðtali eða framkvæmd viðtals í þeim greinargerðum eða við málsmeðferð fyrr en spurningar voru lagðar fyrir kæranda með tölvubréfi kærunefndar 14. desember 2023. 

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 12. september 2022, kvaðst kærandi vera kúrdískur. Kærandi kvaðst ekki tilheyra stjórnmálaflokki og væri ekki virkur í þágu neins málsstaðar í heimaríki, kærandi kvaðst ekki blanda sér í svoleiðis. Kærandi kvað lögregluna handtaka hann út af engu og þá hefði hann upplifað ofbeldi af hálfu lögreglunnar. Aðspurður um hvers vegna hann hefði yfirgefið heimaríki kvað kærandi það hafa ver vegna þess að lögreglan og tyrkneska fólkið hafi beitt hann ofbeldi og hótað honum. Kærandi kvaðst oft hafa lent í ofbeldi frá lögreglunni og meðal annars hafi hann verið nefbrotinn. Aðspurður um hvenær það hafi átt sér stað kvað kærandi það hafa verið árið 2018. Þá kvaðst hann hafa lent í svipuðu atviki fimm mánuðum fyrir viðtalið. Þá kvaðst kærandi verða oft fyrir fordómum. 

Af framburði kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun og greinargerð hans til Útlendingastofnunar, dags. 26. september 2023, má ráða hann og fleiri Kúrdar hafi orðið fyrir fordómum og einhverri mismunun í heimaríki hans, svo sem af hálfu almennings og lögreglu. Renna heimildir stoðum undir þann framburð kæranda og er að mati kærunefndar ekki tilefni til að draga í efa að hann hafi orðið fyrir einhverju áreiti eða fordómum af hálfu lögreglu og almennings í heimaríki. Kærandi hefur hins vegar ekki lýst neinu sem talist gæti til ofsókna gagnvart honum eða á annan hátt leitt að því líkur að tyrknesk yfirvöld beini sjónum sínum sérstaklega að honum eða hann sé á annan hátti í verri stöðu í heimaríki en aðrir einstaklingar af sama þjóðernisuppruna. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér gefa til kynna að Kúrdar kunni að eiga á hættu einhverja mismunun í heimaríki kæranda af þeirri ástæðu að þeir tilheyri þjóðarbrotinu. Ekkert í þeim gögnum gefur þó til kynna að sú mismunun nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Líkt og áður hefur komið fram eru refsingar lagðar við glæpum sem grundvallast á hatri gegn tilteknu þjóðerni.  Þá geti einstaklingar er verði fyrir áreiti af hálfu aðila ótengdum ríkinu leitað til m.a. umboðsmanns og stofnunar mannréttinda og jafnréttismála (NHREI). Þó hlutleysi þeirra og skilvirkni hafi sætt gagnrýni verður ekki fallist á að Kúrdar sæti kerfisbundinni mismunun þar í landi eða áreiti sem nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1.mgr. 37. gr. laga um útlendinga eingöngu á grundvelli þjóðarbrots síns. Er það því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki orðið fyrir eða eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila í Tyrklandi sem nái því marki að teljast ofsóknir skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga á grundvelli þjóðarbrots síns.

Kærandi lagði fram frekari gögn og athugasemdir til kærunefndar 20. og 21. desember 2023. Um var að ræða gögn sem kærandi tilgreindi staðfestu að bróðir kæranda hafi verið fangelsaður, gögn sem sýndu að heimili hans í [...] hafi verið eyðilagt í stríðinu og gögn um herskyldu kæranda. Að mati kærunefndar hafa gögn um fangelsun bróður kæranda takmarkaða þýðingu fyrir mál kæranda. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að heimili hans og fjölskyldu hans hafi verið eyðilagt í átökum. Kvaðst hann halda að það hafi gerst 2016 eða 2017. Samkvæmt aðgengilegum upplýsingum á netinu áttu sér stað átök milli meðlima PKK-flokksins og tyrkneska hersins í hluta [...] frá desember 2015 til janúar 2016. Voru margar byggingar lagðar í rúst og leiddu átökin til flótta meira en 20 þúsund íbúa borgarinnar. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekki sé tilefni til að draga í efa að heimili kæranda hafi eyðilagst í framangreindum átökum, líkt og margra annarra í heimaborg hans. Að mati kærunefndar rennur það hins vegar ekki frekari stoðum undir málatilbúnað kæranda um að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli kúrdísks þjóðernis síns.

Kærandi hefur eins og áður segir byggt á því við meðferð máls hans hjá kærunefnd að hann hafi í júlí síðastliðnum verið kvaddur í tyrkneska herinn. Kærandi lagði fram skjáskot af vefsíðu tyrkneskra stjórnvalda og afrit tveggja bréfa dagsett 12. og 13. desember 2023. 

Í nóvember 2014 gaf flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna út leiðbeiningarreglur vegna umsókna um alþjóðlega vernd í tengslum við herþjónustu (Guidelines on International Protection no. 10: Claims to Refugee Status related to Military Service within the context of Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or the 1967 Protocol relating to the Status of Refugees). Í leiðbeiningunum segir m.a. að ríkjum sé heimilt að skylda ríkisborgara sína til að gegna herþjónustu. Þá sé þeim heimilt að refsa þeim sem reyni að koma sér undan slíkri þjónustu án gildra samviskuástæðna að því gefnu að slíkar refsingar fylgi alþjóðlegum stöðlum. Réttur einstaklinga til að neita að gegna herþjónustu af samviskuástæðum sé afleiddur réttur byggður á túlkun á 18. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 18. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (e. ICCPR). Í þeim tilvikum þar sem ríki bjóði ekki upp á undanþágu frá herþjónustu á grundvelli samviskuástæðna eða annars konar þjónustu þess í stað verði að kanna hvaða afleiðingar séu af því að einstaklingur neiti að gegna herþjónustu. Eigi einstaklingur á hættu óhóflega eða handahófskennda refsingu fyrir að neita að gegna herþjónustu geti komið til athugunar að veita viðkomandi alþjóðlega vernd. Þá segir að í þeim tilvikum þar sem að einstaklingur neiti að gegna herþjónustu vegna þess að hann sé mótfallinn framgöngu stríðsaðila sé nauðsynlegt að leggja mat á líkur þess að hann verði neyddur til að taka þátt í verknaði sem brjóti í bága við alþjóðalög. Ólíklegt sé að einstaklingur sem, stöðu sinnar vegna, sé útilokaður frá því að taka þátt í slíkum verknaði, s.s. matráður eða starfsmaður í skipulags- og tækniaðstoð (e. logistical or technological support), eigi rétt á alþjóðlegri vernd án þess að eitthvað meira komi til. Í samræmi við þessi viðhorf er mælt fyrir um í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga að saksókn eða refsing sem sé óhófleg eða mismuni einstaklingum á ómálefnalegum grunni geti talist ofsóknir.

Í 4. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er mælt fyrir um bann við þrældómi og nauðungarvinnu. Samkvæmt greininni tekur þvingunar- eða nauðungarvinna ekki til herþjónustu eða þjónustu sem krafist er í hennar stað af mönnum sem synja herþjónustu samvisku sinnar vegna og búa við lög sem heimila slíka synjun, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. sáttmálans. Ákvæðið skal skýrt í samræmi við 1. mgr. 9. gr. mannréttindasáttmálans, þar sem kveðið er á um rétt manna til að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Til að ákvörðun um að neita að gegna herþjónustu falli undir 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verður að vera um að ræða ástæður af trúarlegum toga eða að viðkomandi hafi lýst yfir fastmótuðum og einlægum skoðunum um að hann sé mótfallinn hvers kyns stríðsrekstri eða því að bera vopn, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 7. júní 2016 í máli Enver Aydemir gegn Tyrklandi frá 2016 (mál nr. 26012/11).

Þrátt fyrir að framlögð gögn um herskyldu kæranda séu í formi skjáskots og afrita þá er það mat kærunefndar með vísan til framangreindra landaupplýsingar að ekki sé ástæða til að draga í efa að kærandi hafi verið kvaddur til að sinna lögbundinni herskyldu enda er hann á herskyldualdri. Samkvæmt framangreindum heimildum getur kærandi hins vegar komið sér undan herskyldu með því að greiða sekt. Það er mat kærunefndar að sú refsing, fjársekt, sem kærandi kann að eiga yfir höfði sér í Tyrklandi teljist hvorki til „harðra viðurlaga“ í skilningi í handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna né geti refsingin talist „óhófleg eða að hún muni mismuna honum á ómálefnalegum grundvelli“, sbr. c-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Verður því ekki fallist á með kæranda að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda vegna framangreinds. Þá telur kærunefnd gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærandi eigi á hættu ofsóknir af því alvarleikastigi sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um, sbr. 1. og 2. mgr. 38. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. 

Er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling. 

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Líkt og að framan er rakið er lagt til grundvallar að kærandi sé frá [...] borg í [...] héraði og hafi búið þar áður en hann yfirgaf heimaríki sitt. Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir til þess að átök hafi geisað á milli stjórnvalda og PKK flokksins í suðausturhluta landsins en samkvæmt fyrirliggjandi heimildum hafi mikið dregið úr þeim frá árinu 2016. Samkvæmt fyrirliggjandi heimildum geisa ekki átök í [...] héraði um þessar mundir. Þrátt fyrir að almennir borgarar geti þurft að lúta útgöngubanni og öðrum tímabundnum takmörkunum á meðan tyrkneski herinn berst gegn árásum frá PKK á ákveðnum svæðum er það mat kærunefndar að ástandið sé ekki á því alvarleikastigi að kærandi eigi á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, í heimaborg sinni, á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til Tyrklands.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Er því ljóst að kærandi uppfyllir heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir á því að hans bíði erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki þar sem viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað þar

Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga og athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er jafnframt fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við heimkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. 

Þá byggir kærandi kröfu um dvalarleyfi af mannúðarástæðum á því að heimaborg hans, [...], hafi orðið fyrir barðinu á jarðskjálftanum sem átti sér stað í Tyrklandi í febrúar sl. Líkt og að framan er rakið brást tyrkneska ríkið, með aðstoð Evrópusambandsins, við afleiðingum þeim sem urðu af völdum jarðskjálftans sem reið yfir Tyrkland 6. febrúar 2023 og hefur hafið uppbyggingu á svæðinu. Verður ekki séð af heimildum að aðstæður í borginni séu slíkar að þær hafi verulegar afleiðingar fyrir félagslegar aðstæður kæranda. Af gögnum málsins má ráða að kærandi, sem er tuttugu og tveggja ára gamall, sé almennt heilsuhraustur og vinnufær. Þá má af gögnum málsins ráða að hann eigi fjölskyldumeðlimi og kunningja í heimaríki.

Að framangreindu virtu og með vísan til framangreinds mat kærunefndar á aðstæðum tyrkneskra Kúrda í Tyrklandi er það mat nefndarinnar að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu til heimaríkis séu ekki með þeim hætti að þær teljist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að nánar tilteknum skilyrðum. Ef um barn er að ræða skal miða við 16 mánuði. 

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 3. júlí 2022 og á ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga því ekki við.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar og málsmeðferð kærunefndar

Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Kærunefnd hefur að framan tekið afstöðu til athugasemda kæranda að því leyti sem þær kunna að hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd útlendingamála gerði hann athugasemdir við að honum hafi verið veittir of stuttir frestir til þess að leggja fram gögn og svör við spurningum kærunefndar. Kærunefnd bendir á að kærandi hefur dvalið hér á landi í málsmeðferð stjórnvalda í tæpa 18 mánuði. Var honum leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun um að leggja fram öll þau gögn sem hann teldi styðja við málsástæður sínar. Þá gafst kæranda færi á að leggja fram gögn og upplýsingar til stuðnings málsástæðum sínum til kærunefndar frá því hann lagði fram kæru. Kærandi hefur því haft nægan tíma til þess að leggja fram þau gögn og upplýsingar sem hann taldi nauðsynleg til þess að styðja við málatilbúnað sinn. Verður því ekki fallist á það með kæranda að honum hafi verið veittur of stuttur frestur til þess að leggja fram gögn. Þá hefur kærunefnd fallist á síðar framkomnar málsástæður kæranda og þrátt fyrir að gögnin hafi ekki verið talin styðja við málatilbúnað kæranda að öllu leyti var tekin afstaða til þeirra og hvaða þýðingu þau hefðu við niðurstöðu málsins.

Brottvísun og endurkomubann

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 3. júlí 2022. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hefur hann því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa honum úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda var með tölvubréfi, 20. júní 2023, tilkynnt að til skoðunar væri að brottvísa honum frá Íslandi og ákvarða endurkomubann hingað til lands. Var kæranda gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Í svörum kæranda kemur fram að hann hafi engin tengsl við Ísland eða önnur lönd á Schengen-svæðinu. Þá kvað kærandi að brottvísun með endurkomubanni væri ósanngjarnt, hann gæti ekki farið aftur til heimaríkis vegna þess að líf hans væri í hættu.

Af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hans og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð hans eða nánustu aðstandenda hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hann Ísland innan þess frest sem honum er gefinn.

Í ákvörðunarorðum í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið auk þess sem tekið var fram að yfirgefi hann landið sjálfviljugur innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur innan framangreinds frests.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Endurkomubann kæranda verður fellt úr gildi fari hann sjálfviljugur frá Íslandi innan 15 daga.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry ban will be revoked.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta