Hoppa yfir valmynd
20. september 2013 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra fundar með formanni hermálanefndar NATO

Utanríkisráðherra og Knud Bartels

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í gærkvöldi fund með Knud Bartels, hershöfðinga og formanni hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, sem er staddur hér á landi í heimsókn. Á fundinum ræddu þeir framtíðarþróun bandalagsins, Mið-Austurlönd, loftrýmiseftirlit á Ísland, netöryggi og öryggismál á norðurslóðum.

Gunnar Bragi og Knud Bartels voru sammála um að framkvæmd loftrýmiseftirlits á Íslandi hafi gengið vel síðastliðin fimm ár. Á þessu tímabili hafa átta bandalagsþjóðir tekið þátt í sextán loftrýmisvöktum.  Á fundinum var rætt um mögulega fjölgun á vöktum í fjórar árlega í samræmi við ákvörðun fastaráðs Atlantshafsbandalagsins frá 2007. Gunnar Bragi sagði þátttöku Svíþjóðar og Finnlands í loftrýmiseftirliti í febrúar á næsta ári vera mikilvægan áfanga í norrænu varnarsamstarfi.

Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi jafnréttismála í störfum bandalagsins og þá sérstaklega að það framfylgdi í verki ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Aukið vægi netöryggismála var einnig til umræðu, en nú er í undirbúningi þátttaka Íslands í störfum netöryggisseturs NATO í Eistlandi. Bartels þakkaði Íslendingum fyrir framlag til verkefna á vegum bandalagsins þ.á.m. störf borgaralegra sérfræðinga í Afganistan og áður í Kósóvó.

Knud Bartels hélt feinnig fyrirlestur um núverandi og framtíðarverkefni NATO í Norræna húsinu sem var vel sóttur. Þá fundaði hann með utanríkismálanefnd Alþingis og heimsótti landhelgisgæsluna, Hann bar lof á störf gæslunnar og þá ekki síst hina nýju a'gerðamiðstöð hennar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum