Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 378/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 378/2022

Miðvikudaginn 2. nóvember 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. júlí 2022, kærði B f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. apríl 2022, um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 30. desember 2021. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. febrúar 2022, var óskað eftir að kærandi skilaði staðfestu afriti af eyðublaðinu RSK 5.04 og undirritaðri yfirlýsingu þar sem fram kæmi að hann myndi ekki starfa við rekstur á eigin kennitölu/taka að sér verktakavinnu án undanfarandi tilkynningar til Vinnumálastofnunar og afskráningu á meðan á verkefni stæði. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. febrúar 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið synjað þar sem umbeðin gögn hefðu ekki enn borist stofnuninni. Tekið var fram að umsóknin væri ófullnægjandi og því ekki ljóst hvort hann uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða skilyrði um virka atvinnuleit sem kveðið væri á um í 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þann 4. apríl 2022 barst Vinnumálastofnun erindi frá kæranda sem litið var á sem beiðni um endurupptöku. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. apríl 2022, var kæranda tilkynnt að beiðni um endurupptöku hefði verið hafnað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. júlí 2022. Með bréfi, dags. 18. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 6. október 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. október 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærandi hafi undanfarin ár verið í 100% vinnu á almennum vinnumarkaði en sé jafnframt sauðfjárbóndi með 25% reiknað endurgjald eins og skylt sé. Kærandi sé enn að byggja upp búið og hafi ekki mikið upp úr rekstrinum frekar en aðrir sauðfjárbændur. Kærandi hafi unnið á veitingahúsi sem hafi lokað í desember 2021 vegna Covid og öðru en opnað aftur í maí/júní og hann hafi byrjað aftur að vinna þar í byrjun júní. Kærandi sé því að sækja um 75% atvinnuleysisbætur frá janúar til maí 2022.

Vinnumálastofnun haldi því fram að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum vegna 100% vinnu þar sem hann sé með opið virðisaukaskattsnúmer og reiknað endurgjald, þó svo að það sé bara 25%. Ef kærandi hefði hins vegar lokað reiknuðu endurgjaldi og virðisaukaskattsnúmerinu hefði hann getað fengið bætur og þá 100% bætur. Ef kærandi hefði verið iðnaðarmaður með rekstur á eigin kennitölu í hlutastarfi hefði kannski verið hægt að loka rekstrinum tímabundið. Sauðfjárbóndi með rekstur á eigin kennitölu geti hins vegar ekki lokað rekstri sínum tímabundið af augljósum ástæðum. Ef kærandi myndi loka virðisaukaskattsnúmerinu þyrfti hann að endurgreiða þann virðisaukaskatt sem hann hafi fengið vegna vélakaupa og fjárhúsbyggingar.

Það sé skiljanlegt að einstaklingur með rekstur verði að loka reiknuðu endurgjaldi og virðisaukaskattsnúmeri þegar hann sæki um atvinnuleysisbætur vegna þeirrar vinnu, hvort sem um sé að ræða fulla eða hlutfallslega á reiknuðu endurgjaldi. Kærandi geti þó hvergi fundið í lögum um atvinnuleysistryggingar að einstaklingur sem vinni bæði sem launþegi og sé með rekstur á eigin kennitölu með hlutfallað reiknað endurgjald verði að loka sínum rekstri til að fá atvinnuleysisbætur vegna vinnu sinnar sem launþegi. Það virðist ekki vera gert ráð fyrir því að einstaklingur með reiknað endurgjald sé með það hlutfallað og sé líka launþegi annars staðar.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 30. desember 2021. Á umsókninni hafi kærandi tiltekið að hann hefði starfað sem sjálfstætt starfandi. Þann 10. janúar 2022 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur með öllum helstu upplýsingum um umsókn hans. Athygli kæranda hafi meðal annars verið vakin á því að hann þyrfti að staðfesta atvinnuleit sína á milli 20. og 25. hvers mánaðar. Þá hafi kæranda verið leiðbeint að skila inn nauðsynlegum gögnum, nánar tiltekið staðfestingu á starfstímabili frá C, D og E ásamt tilkynningu um lokun rekstrar til Skattsins með eyðublaði RSK 5.04.

Með erindi, dags. 2. febrúar 2022, hafi aftur verið óskað eftir staðfestri tilkynningu um afskráningu af launagreiðendaskrá RSK 5.04 og undirritaðri verktakayfirlýsingu. Umræddu erindi hafi kærandi svarað með tölvupósti, dags. 2. febrúar 2022, sem hafi verið móttekinn af Vinnumálastofnun þann 9. febrúar 2022. Kærandi hafi tekið fram að hann hefði verið í samskiptum við Vinnumálastofnun vegna umsóknar sinnar um atvinnuleysisbætur og hafi fengið þær upplýsingar að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum þar sem hann væri með opið virðisaukaskattsnúmer vegna reksturs á sauðfjárbúi. Kærandi hafi bent á að hann gæti ekki lokað virðisaukaskattsnúmeri þar sem innkoma væri einungis á haustin en útgjöld allt árið sem mætti nota innskatt af. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. febrúar 2022, hafi umsókn kæranda verið synjað þar sem umbeðin gögn, þ.e. staðfestri tilkynningu um afskráningu af launagreiðandaskrá og verktakayfirlýsingu hefði ekki verið skilað.

Þann 8. apríl 2022 hafi kærandi skilað afriti af RSK 5.04. Þann 19. apríl 2022 hafi Vinnumálastofnun borist upplýsingar frá Ríkisskattstjóra um að kærandi hefði tilkynnt um lokun á launagreiðendaskrá frá 1. febrúar 2022 og síðan tilkynnt um niðurfellingu á reiknuðu endurgjaldi í febrúar, mars og apríl 2022 en báðum beiðnum hefði verið synjað þar sem virðisaukaskattsnúmer væri opið og þá bæri honum að vera með reiknað endurgjald, enda bæri kæranda að skipta reiknuðu endurgjaldi niður á alla mánuði ársins, óháð innkomu hvers mánaðar. Mál kæranda hafi því verið tekið til endurumfjöllunar með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. apríl 2022. Endurupptöku hafi verið hafnað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. febrúar 2022, enda hafi kærandi enn verið með opna launagreiðendaskrá samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.  

Í kæru greini kærandi frá því að hafa verið við 100% vinnu á almennum vinnumarkaði en að hafa jafnframt starfað sem sauðfjárbóndi og sé af hálfu skattyfirvalda gert að vera með 25% reiknað endurgjald. Kærandi bendi á að hann sé að byggja upp sauðfjárbúið og að það sé ekki mikið upp úr rekstrinum að hafa. Þá nefni kærandi ástæður þess að hann sé atvinnulaus en hann hafi starfað á veitingahúsi sem hafi verið gert að loka vegna sóttvarnaaðgerða yfirvalda. Veitingahúsið hafi opnað aftur í maí 2022 og kærandi hafi byrjað að vinna þar í júní 2022. Hann hafi ætlað sér að sækja um 75% atvinnuleysisbætur frá janúar til maí 2022 þar sem hann hafi misst starf sitt hjá veitingahúsinu. Þá segi kærandi að ekki sé unnt að verða við kröfu Vinnumálastofnunar um að loka launagreiðendaskrá vegna eðli starfsemi sauðfjárræktenda.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Eins og að framan hafi verið rakið starfi kærandi í eigin rekstri sem sauðfjárbóndi. Kærandi sé því sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem hljóði svo:

,,Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.“

Í 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í f-lið 1. mgr. 18. gr. sé kveðið á um að skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögunum sé meðal annars að hann hafi stöðvað rekstur, sbr. 20. gr. laganna. Þá sé í g-lið 1. mgr. 18. gr. kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingur skuli leggja fram staðfestingu um stöðvun rekstrar, sbr. 21. gr. laganna. 

Ákvæði 1. mgr. 20. gr. laga nr. 54/2006 sé svohljóðandi:

,,Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Þegar metið er hvort starfsemi hafi verið stöðvuð skal líta til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá ríkisskattstjóra. Heimilt er að taka tillit til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá vegna eignasölu enda hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur lagt fram yfirlýsingu þess efnis að hann hyggist hætta rekstri.“

Af samhengi framangreindra lagaákvæða telji Vinnumálastofnun að ekki sé heimilt að greiða einstaklingum atvinnuleysisbætur á meðan þeir séu með opinn rekstur, enda uppfylli þeir ekki skilyrði laganna á sama tíma.

Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta, dags. 30. desember 2021.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. apríl 2022, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 28. febrúar 2022 um synjun á umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann stjórnvöldum að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis þegar fyrirliggjandi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds eða ef efnislegur annmarki er á ákvörðun stjórnvalds.

Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var synjað á þeirri forsendu að þau gögn sem hafi verið óskað eftir þann 2. febrúar 2022 hefðu ekki enn borist stofnuninni. Í því bréfi var meðal annars óskað eftir að kærandi legði fram staðfest afrit af eyðublaðinu RSK 5.04 (Tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá) til að hægt væri að taka afstöðu til réttar hans til atvinnuleysistrygginga. Kærandi hefur vísað til þess að hann verði að vera með opna launagreiðsendaskrá vegna reksturs sauðfjárbús.

Við mat á því hvort ákvörðun hefur byggst á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik“, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, er horft til þess hvort fram séu komnar nýjar eða fyllri upplýsingar um málsatvik sem telja má að hefðu haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hafa ekki komið fram upplýsingar í málinu sem leiða eigi til þess að Vinnumálastofnun skuli taka ákvörðun sína frá 28. febrúar 2022 til endurskoðunar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að aðstæður kæranda hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin á þann veg að réttlætanlegt sé að mál hans verði tekið aftur til meðferðar hjá Vinnumálastofnun, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans.   


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. apríl 2022, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum