Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Gefa út góð ráð til foreldra á tímum COVID-19 faraldursins

Félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og embætti landlæknis hafa tekið höndum saman við útgáfu góðra ráða til foreldra á tímum COVID-19 faraldursins. Foreldraráðin eru meðal annars unnin í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og UNICEF.

Margvíslegt álag hvílir á foreldrum um þessar mundir en takmarkanir á skóla- og frístundastarfi ásamt því að margir foreldrar vinna nú heima leiðir af sér mikla röskun á daglegu lífi fjölskyldna. Foreldrar eru í flóknu hlutverki við að samræma vinnu inni á heimili, nám barna og samveru með fjölskyldunni. Á sama tíma eru margir að glíma við áhyggjur af heilsufari, efnahag og atvinnu.

Það er því brýnt að styðja við bakið á foreldrum og veita þeim stuðning og aðstoð. Þegar álagið er mikið er aukin hætta á því að samskipti innan fjölskyldunnar bíði hnekki og börn, sem voru í viðkvæmri stöðu fyrir, eiga enn frekar á hættu að verða fyrir ofbeldi eða vanrækslu. Markmið útgáfunnar er að ráðin verði foreldrum leiðarljós í því flókna hlutverki sem þeir standa nú frammi fyrir.

Samhliða útgáfu foreldraráðanna hefur félagsmálaráðuneytið, í samstarfi við dómsmálaráðuneytið og Rauða kross Íslands, einnig sett af stað vitundarvakningu um barnavernd og velferð barna. Annars vegar er um að ræða myndband með ákalli til almenning um að láta vita ef áhyggjur vakna af velferð barns með því að hringja í barnanúmerið 112. Hins vegar er um að ræða myndband sem beint er að börnum og ungu fólki með hvatningu um að hafa samband við Hjálparsímann 1717 eða netspjallið 1717.is ef þau þurfa á aðstoð eða hvers kyns stuðningi að halda. Myndböndin má nálgast á Facebook síðu félagsmálaráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum