Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2020 Utanríkisráðuneytið

Nítján grunnskólar byggðir í Buikwe fyrir íslenskt þróunarfé

Frá athöfninni í Buikwe í gær. Ljósmynd: MS - mynd

Framkvæmdir eru að hefjast við byggingu nítján grunnskóla í Buikwe héraði, samstarfshéraði Íslands í þróunarsamvinnu í Úganda. Rúmlega tuttugu þúsund börn á grunnskólaaldri koma til með að fá góðar aðstæður til náms í nýju skólunum en byggingarnar eru fjármagnaðar fyrir íslenskt þróunarfé á vegum sendiráðs Íslands í Kampala.

Fulltrúar héraðsyfirvalda, ásamt fulltrúum tæknideildar héraðsins og verktökunum sem valdir voru að undangengnu útboði, voru viðstaddir athöfn í Buikwe í gær til marks um upphaf verkefnisins. Finnbogi Rútur Arnarson starfandi forstöðumaður sendiráðsins flutti við það tækifæri ávarp og fór nokkrum orðum um verkefnið og stuðning Íslands við menntamál í Úganda á grundvelli heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og þróunaráætlunar stjórnvalda í Úganda. Sú áætlun felur í sér markmið um að landið verði komið í hóp millitekjuríkja árið 2040.

„Við teljum að upplýstur almenningur sé fyrsta skrefið að sjálfbærri þróun, ásamt stuðningi við mannréttindi og virðingu í garð allra, en þessi gildi eru lykilatriði í stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu,“ sagði Finnbogi Rútur og minnti verktaka á að fjármögnun skólabygginganna væri komin frá íslensku þjóðinni.

Í hverjum og einum skóla verða byggðar skólastofur, skrifstofuaðstaða fyrir stjórnendur, eldhús, kennarahús og salerni.

Byggingaframkvæmdum á að vera lokið fyrir árslok.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
4. Menntun fyrir alla

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira