Hoppa yfir valmynd
8. október 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 333/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 8. október 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 333/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20020045

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. febrúar 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur í […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. janúar 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Þess er aðallega krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda til nýrrar efnismeðferðar á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti upphaflega um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. maí 2017. Þá kvaðst kærandi heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Eþíópíu. Þann 5. desember 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar og synjaði kæranda um efnismeðferð á umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi og ákvarðaði að kærandi skyldi endursendur til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi í annað sinn þann 25. janúar 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 15. og 18. ágúst 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 30. janúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 19. febrúar 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 4. mars 2020. Þá barst viðbótargreinargerð í máli kæranda þann 8. september 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi hann m.a. greint frá því að hann hafi fæðst og alist upp í bænum […] í Eþíópíu til 12 ára aldurs. Kærandi sé hins vegar ættaður frá Sómalíu en foreldrar hans hafi flúið þaðan til Eþíópíu vegna borgarastríðs sem geisaði þar í landi árið 1991. Kærandi hafi neyðst til þess að flýja frá Eþíópíu til Sómalíu árið 2007 þar sem fjölskylda hans hafi lent á milli ONLF (e. Ogaden National Liberation Front) og eþíópíska hersins. Í Sómalíu, n.t.t. Mogadishu, hafi kærandi verið fangelsaður og ofsóttur af hryðjuverkasamtökunum Al-Shabaab. Þá sé kærandi meðlimur […] ættbálksins í Sómalíu og geti af þeim sökum ekki fengið vernd þar í landi.

Kærandi byggir aðallega á því að mál hans skuli sent aftur til Útlendingastofnunar með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Gallar á ákvörðun stofnunarinnar hafi verið slíkir að ekki verði úr þeim bætt einhliða á kærustigi. Í því sambandi byggir kærandi í fyrsta lagi á því að ákvörðun stofnunarinnar um að kærandi sé frá Eþíópíu hafi ekki byggst á áreiðanlegum eða hlutlægum gögnum. Á sama tíma og Útlendingastofnun hafi metið framburð kæranda ótrúverðugan þá hafi umrædd niðurstaða stofnunarinnar um ríkisfang kæranda nær eingöngu byggst á sama framburði. Í öðru lagi telji kærandi tungumálapróf sem hann hafi gengist undir ekki eins afgerandi og við mætti búast hefði hann búið í Eþíópíu alla sína ævi. Vísar kærandi í úrskurð kærunefndar útlendingamála í máli KNU19060016 frá 30. október 2019 þar sem komi fram að nefndinni sé kunnugt um galla tungumálaprófa og fyrirvara sem finna megi í niðurstöðum þess. Þá hafi Verified, sem framkvæmir umrædd tungumálapróf, lýst því yfir í nýlegum svörum fyrirtækisins til Útlendingastofnunar að mállýskur kunni að blandast þvert á svæði og ættbálka og að ekki sé hægt að greina á milli Northern Somali mállýskanna. Séu tungumálaprófin því markleysa að mati kæranda. Í þriðja lagi hafi verið nauðsynlegt fyrir Útlendingastofnun að afla upplýsinga frá eþíópískum yfirvöldum um stöðu kæranda þar í landi og spyrja kæranda nánar út í kunnáttu hans á staðháttum í Mogadishu í stað þess að láta nægja að vísa til tungumálaprófs sem hafði ekki verið yfirlesið. Að auki hafi verið nauðsynlegt að rannsaka betur ættbálkatengsl kæranda þar sem spurningar Útlendingastofnunar hafi verið of takmarkaðar hvað það atriði varðar. Þar sem Útlendingastofnun hafi ekki gætt að ofangreindum atriðum telji kærandi að mál hans skuli sent aftur til stofnunarinnar til efnismeðferðar vegna brota á 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Til vara byggir kærandi á því að honum skuli veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Eins og áður hefur komið fram þá kveðst kærandi vera frá Sómalíu, n.t.t. Mogadishu, og tilheyra […] ættbálkinum. Þar í landi eigi kærandi í hættu á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu en auk þess eigi hann á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum stjórnvalda og ýmissa hryðjuverkasamtaka þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna þar sem komi m.a. fram að á meðal helstu mannréttindabrota sem eigi sér stað í landinu séu ólögmæt, gerræðisleg og handahófskennd manndráp öryggissveita og ókunnra hópa, þvinguð mannshvörf, pyndingar og gerræðislegar og handahófskenndar pólitískar handtökur. Þá skipti ættbálkatengsl miklu máli í öllum þáttum samfélagsins og að ættbálkar geti í mörgum tilfellum veitt skilvirkari og betri vernd en yfirvöld þar í landi. Í því sambandi sé ættbálkur kæranda útskúfaður minnihlutaættbálkur og staða hans mjög veik.

Verði gengið út frá því að kærandi sé frá Eþíópíu þá telji kærandi að hann muni búa við sömu hættur þar í landi og í Sómalíu. Í Eþíópíu tilheyri kærandi minnihlutahópi þeirra sem séu af sómölsku bergi brotnir en stór hluti hópsins hafi komið til Eþíópíu sem flóttamenn vegna borgarastríðs í Sómalíu árið 1991. Í Eþíópíu dvelji hópurinn að miklu leyti í flóttamannabúðum þar sem aðgengi sé að ákveðinni grunnþjónustu, m.a. menntun, heilbrigðisþjónustu og lífsviðurværi, en þó hafi reynst erfitt að vinna bug á matarskorti og vannæringu. Þá sé staða […] ættbálksins sérstaklega erfið á sómalska svæði Eþíópíu og hafi honum m.a. verið lýst sem lægst setta hópnum innan stéttaskiptingar umrædds svæðis. Vegna þessa hafi einstaklingar sem tilheyra hópnum glímt við mismunun og ofbeldi af hálfu ráðandi ættbálka. Þrátt fyrir að virðing fyrir mannréttindum hafi aukist undanfarin ár í landinu séu enn dæmi um viðvarandi mannréttindabrot og árið 2018 hafi á meðal þeirra verið ólögmæt, gerræðisleg og handahófskennd manndráp og handtökur öryggissveita, þvinguð mannshvörf af hálfu opinberra öryggissveita og lífshættulegar aðstæður í fangelsum landsins. Með hliðsjón af ofangreindu telji kærandi fráleitt að endursenda hann til Eþíópíu. Enn fremur liggi ekkert til um réttarstöðu hans þar í landi og að sómalski minnihlutinn hafi þurft að sæta ofsóknum m.a. vegna þess að einstaklingar innan hans hafi verið í forgangi við flutning til annarra ríkja í nokkur ár. Eigi kærandi því í hættu á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu en auk þess eigi hann á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum stjórnvalda og ýmissa hryðjuverkasamtaka þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og lögskýringargagna að baki ákvæðinu telji kærandi að hann uppfylli öll skilyrði þess til að hljóta viðbótarvernd hér landi, hvort sem miðað verði við að hann komi frá Sómalíu eða Eþíópíu.

Til þrautavara byggir kærandi á því að honum skuli veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Byggir kærandi á því að í báðum ríkjum viðgangist mannréttindabrot og að stríðsástand hafi einkennt þau ásamt því að náttúruhamfarir í formi þurrka og engisprettufaraldurs hafi riðið yfir bæði ríkin. Þá hafi kærandi þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna en hann tilheyri annars vegar minnihlutahópi Sómala í Eþíópíu og hins vegar minnihlutaættbálkinum […]. Séu skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, því uppfyllt.

Þann 8. september bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir kæranda. Í viðbótarathugasemdum byggir kærandi á því að hann eigi rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem liðnir séu 18 mánuðir frá því að hann hafi lagt fram umsókn sína og hann hafi ekki enn fengið lokaniðurstöðu hjá íslenskum stjórnvöldum í máli sínu. Telji kærandi að skilyrði a – d stafliða greinarinnar séu uppfyllt í máli hans.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað ungversku ferðaskilríki og kennivottorði. Útlendingastofnun hafi hins vegar ekki lagt umrædd gögn til grundvallar í máli kæranda m.a. vegna ósamræmis í frásögn hans í tengslum við fyrri umsóknir hans um alþjóðlega vernd bæði hér á landi og í Svíþjóð. Yrði því leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærandi væri ríkisborgari Eþíópíu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Svíþjóð árið 2015. Við meðferð umsóknar kæranda þar í landi hafi hann verið skráður sem […], fd. […] og ríkisborgari Eþíópíu. Í viðtölum hjá sænskum stjórnvöldum kvaðst kærandi hafa fæðst í Eþíópíu auk þess sem hann hafi búið þar allt sitt líf. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi í fyrsta sinn þann 16. maí 2017. Var kærandi þá skráður sem […], fd. […], ríkisborgari Sómalíu. Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar vegna þess máls, dags. 26. júlí 2017, eru gerðar athugasemdir við þá skráningu og vísað til eþíópísks fæðingarvottorðs og framburðar kæranda um að hann sé fæddur í Eþíópíu. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. ágúst 2017, til kærunefndar útlendingamála. Í greinargerð sinni til nefndarinnar byggði kærandi á því að Útlendingastofnun hafi farið rangt með ríkisfang hans þar sem hann kæmi frá Eþíópíu en ekki Sómalíu. Benti kærandi á að yfirvöld í Svíþjóð hafi gengið út frá því að hann væri ríkisborgari Eþíópíu og að hann hafi m.a. getað gert grein fyrir nærumhverfi sínu í bænum […] í Eþíópíu við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Vegna þessa hafi ákvörðun Útlendingastofnunar verið byggð á röngum forsendum og haldin verulegum annmörkum að því leytinu til. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli KNU17090035, dags. 5. desember 2017, var ríkisfang kæranda leiðrétt og byggt á því að hann væri ríkisborgari Eþíópíu.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi öðru sinni þann 25. janúar 2019. Við meðferð umsóknar hans var kærandi skráður sem […], fd[…], ríkisborgari Eþíópíu. Kærandi hafi þó borið fyrir sig að vera ríkisborgari Sómalíu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 16. desember 2019 kvaðst kærandi geta útvegað vegabréf frá Sómalíu til þess að sýna fram á ríkisfang sitt en hefur ekki lagt fram vegabréf eða önnur gögn til þess að sýna fram á auðkenni sitt. Við meðferð umsókna kæranda bæði hér á landi og í Svíþjóð er ljóst að kærandi hefur staðfastlega haldið því fram að hann sé fæddur í Eþíópíu auk þess sem hann hafi búið þar stóran hluta ævi sinnar. Jafnframt hafi kærandi við meðferð umsóknar hans í Svíþjóð greint frá skólagöngu í Eþíópíu frá 11 til 14 ára aldurs. Þá styðja önnur gögn málsins, s.s. tungumálapróf og þekking kæranda á staðháttum í Eþíópíu, við þann hluta frásagnar kæranda.

Eftir skoðun gagna málsins og með tilliti til mats á trúverðugleika frásagnar kæranda telur kærunefnd ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé eþíópískur ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Eþíópíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2018 Civil Society Organization Sustainability Index For Sub-Saharan Africa (FHI 360, nóvember 2019);
  • Country Background Note: Ethiopia (UK Home Office, nóvember 2019);
  • Country Policy and Information Note – Ethiopia: Actors of protection (UK Home office, september 2020);
  • Country Policy and Information Note – Ethiopia: Background information, including internal relocation (UK Home Office, september 2020)• Country Policy and Information Note - Ethiopia: Opposition to the government (UK Home Office, júlí 2020);
  • Country Report on Human Rights Practices 2019 – Ethiopia (US Department of State, 11. mars 2020);
  • DFAT Country Information Report Ethiopia (Australian Department of Foreign Affairs and Trade, 12. ágúst 2020);
  • Ethiopia 2020 OSAC Crime & Safety Report (Overseas Security Advisory Council (OSAC), 10. apríl 2020);
  • Ethiopia: COI Compilation (Austria Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACCORD), nóvember 2019);
  • Ethiopia: Political situation and treatment of opposition (The Danish Immigration Service, 1. september 2018);
  • Ethiopia: Opposition groups – recent development (The Danish Immigration Service, mars 2020);
  • Ethiopia: Resources for converting dates from the Ethiopian to Gregorian calendar; formula or method for converting dates between the two calendars (The Immigration and Refugee Board of Canada, 17. janúar 2017);
  • Ethiopia: The Special police (Liyu Police) in the Somali Regional State (Landinfo, 3. júní 2016);
  • Etiopia: Basisinfo (Landinfo, 14. desember 2018);
  • Etiopia: Folkeregistrering og ID-dokumenter (Landinfo, 31. janúar 2020);
  • Etiopia: ONLF i Somali -regionen og reaksjoner fra myndighetene (Landinfo, 6. mars 2017);
  • Respons - Etiopia: ONLF og reaksjoner fra myndighetene (Landinfo, 7. desember 2018);
  • Etiopia: politisk utvikling i 2018 (Landinfo, 30. janúar 2019);
  • Etiopien: ett land i transition (v. 1.0) (Migrationsverket, 30. október 2018);
  • Etiopien - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer: situationen per den 30 juni 2019 (Utrikesdepartimentet, 18. Desember 2019);
  • Fråga-svar. Etiopien. Situation I Somaliregionen efter det senaste årets förändringar i landet (Lifos, 17. september 2019);
  • Freedom in the World 2020 – Ethiopia (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Human Rights in Africa: Review of 2019 – Ethiopia (Amnesty International, 8. apríl 2020);
  • Report of a Home Office Fact-Finding Mission – Ethiopia: The Political situation (UK Home Office, 10. febrúar 2020);
  • Snapshot of Civil Registration and Vital Statistics Systems of Ethiopia (Centre of Excellence for CRVS Systems, 2019; vefsíða: https://crvssystems.ca/sites/default/files/assets/files/CRVS_EthiopiaSnapshot_e.pdf);
  • The World Factbook, Africa: Ethiopia (Central Intelligence Agency, sótt 2. október 2020) og
  • World Report – Ethiopia (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Eþíópía sambandslýðveldi með rúmlega 110 milljónir íbúa. Eþíópía er eina ríkið í Afríku sem hélt sjálfstæði sínu þar til Ítalir réðust inn í landið árið 1936, en árið 1941 sigruðu breskar og eþíópískar hersveitir Ítali og árið 1944 fékk ríkið aftur sjálfstæði. Þann 13. nóvember 1945 gerðist Eþíópía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1976. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1969 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987. Eþíópía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í skýrslu UK Home Office frá september 2020 kemur fram að samkvæmt manntali frá 2007 tilheyri íbúar landsins tilheyri meira en 90 mismunandi þjóðarbrotum (e. ethnic groups), og séu þau fjölmennustu Oromo (34.9%) og Amhara (27.9%) en Sómalar séu 6.2% af þjóðinni. Þá kemur fram í skýrslunni að um 44% þjóðarinnar tilheyri eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunni, 34% séu súnní múslimar og 19% tilheyri kristnum söfnuðum. Í skýrslu áströlsku útlendingamálayfirvaldanna (DFAT) frá ágúst 2020 kemur fram að núverandi stjórnarskrá hafi verið samþykkt árið 1994 og tekið gildi árið 1995. Hafi með stjórnarskránni verið komið á fót sambandsskipulagi svæðisríkja sem afmarkist eftir byggðamynstri, tungumáli og þjóðernisbrotum. Sé í raun um þjóðernissambandsríki að ræða þar sem stærstu þjóðernishóparnir stjórni eigin ríkjum og starfi ríkin með töluverðu sjálfstæði frá alríkisstjórninni. Núverandi ríki séu: Afar; Amhara; Benishangul-Gumuz; Gambela; Harari; Oromia; Somali; SNNP og Tigray. Hins vegar sé burðarliðnum stofnun tíunda ríkisins, ríki fyrir Sidama þjóðina. Fram kemur í skýrslu áströlsku útlendingamálayfirvaldanna að einstaklingar af sómölskum uppruna búi að meginstefnu til aðallega á Sómalí svæðinu (e. Somali State), sem áður fyrr kallaðist Ogaden.

Í skýrslu UK Home Office frá júlí 2020 kemur fram að breytingar hafi orðið á pólitísku landslagi í Eþíópíu frá 2018 þegar þáverandi forsætisráðherra landans, Hailemariam Desalegn, hafi látið af störfum í febrúar 2018 og Abiy Ahmed hafi tekið við sem forsætisráðherra. Hafi hin nýja stjórn Abiy Ahmed strax komið á umbótum, m.a. með því að leyfa áður bönnuðum fjölmiðlum að starfa á ný sem og að frelsa pólitíska andstæðinga sem hafi dvalið í fangelsum ríkisins. Þá hafi eþíópísk stjórnvöld afnumið eldri hryðjuverkalöggjöf sem hafi kveðið á um að stjórnarandstæðingar falli undir löggjöfina. Þá kemur fram að í lok ársins 2018 hafi 60 háttsettir embættismenn verið handteknir á grundvelli ákæra um pyntingar og spillingu. Þá hafi um það bil 10,000 pólitískir föngum verið sleppt úr haldi og/eða náðaðir í apríl 2018, þ. á m. vel þekktir stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og baráttumenn fyrir mannréttindum. Einnig kemur fram að áætlað hafi verið að halda fyrstu fylkja og ríkiskosningar síðan Abiy Ahmed hafi tekið við embætti forsætisráðherra, í ágúst 2020 en þeim hafi verið frestað sökum Covid-19 faraldursins.

Samkvæmt OSAC skýrslu frá 10. apríl 2020 ber eþíópíska alríkislögreglan (e. The Ethiopian Federal Police (EFP)) ábyrgð á því að rannsaka glæpi sem falla undir lögsögu alríkisdómsstólanna, svo sem verknaði sem feli í sér ákveðin brot gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, hryðjuverk, mansal og fíkniefnaflutning. Þá sjái lögregluumdæmin í ríkjunum um rannsókn og málsmeðferð á afbrotum sem falli undir þeirra lögsögu. Í skýrslu dönsku útlendingastofnunarinnar frá janúar 2020 kemur fram að sérstök öryggislögregla, Liyu lögreglan, hafi verið stofnuð í Sómalí fylki árið 2007 þegar vopnuð átök milli ONLF-samtakanna og eþíópískra stjórnvalda stigmögnuðust. Hafi Liyu lögreglan fljótt orðið áberandi í fylkinu í baráttunni við samtökin. Árið 2017 hafi komið fram í skýrslu Human Rights Watch að heimildir væru um það að lögreglan tæki fólk af lífi, beitti pyndingum og ofbeldi og réðist á nærsamfélög. Hlutverk Liyu lögreglunnar hafi hins vegar breyst með nýjum forseta og stjórnarháttum. Fram kemur í framangreindri skýrslu að í ágúst hafi yfirmaður Liyu lögreglunnar, Abdirahman Abdullahi Burale, flúið land í kjölfar þess að fyrrum forseti Sómalí fylkisins, Abdi Mohamoud Omar, hafi verið handtekinn. Þá kemur fram að komið hafi verið á miklum umbótum innan Liyu lögreglunnar og skipt hafi verið um yfirstjórnendur. Þá sé það ekki lengur hlutverk Liyu lögreglunnar að taka þátt í hernaði í Sómalí fylkinu. Hafi meðlimir lögreglunnar verið látnir undirgangast endurmenntunarþjálfun til að tryggja það að starfsaðferðir þeirra fari eftir mannréttindastöðlum.

Fram kemur í skýrslu UK Home Office frá júlí 2020 að meðlimir, eða þeir sem grunaðir hafi verið um aðild að, OLF-samtökunum, ONLF-samtökunum og Ginbot 7 samtökunum hafi í gegnum tíðina sætt eftirliti, áreiti, verið handteknir og fangelsaðir og sætt pyndingum og ómannúðlegri meðferð. Hafi stuðningsmenn og fjölskyldumeðlimir stuðningsmanna samtakanna eða aðila sem taldir hafi verið tengjast samtökunum í einhverjum tilvikum þurft að sæta sömu meðferð. Hins vegar hafi háttsettir leiðtogar innan samtakanna og þeirra hópar verið boðnir velkomnir til baka úr útlegð þegar samtökin hafi verið fjarlægð af lista yfir hryðjuverkasamtök í júní 2018. Þá kemur fram í skýrslunni að í ágúst 2018 hafi ONLF-samtökin lýst yfir vopnahléi og í október sama ár hafi samtökin og eþíópísk stjórnvöld undirritað friðarsamning og meðlimir samtakanna verið boðnir velkomnir til baka til Sómalí fylkisins. Hafi margir hermenn ONLF-samtakanna snúið til baka það ár og þá hafi samtökin í kjölfarið sótt um að verða skráð sem stjórnmálaflokkur og starfi nú með áhrifaríkum hætti í Sómalí fylki. Með nýjum stjórnarháttum Abiy Ahmed ríki stöðugleiki í Eþíópíu og hafi miklar umbætur á sviði mannréttinda átt sér stað í ríkinu. Fram kemur í skýrslu UK Home Office frá febrúar 2020 að undir stjórn Abiy Ahmed hafi verið komist að samkomulagi um það að fyrrum hermenn ONLF-samtakanna sem hafi komið til baka til Sómalí fylkisins gætu ákveðið hver fyrir sig hvort þeir vildu aðlagast samfélaginu eða ganga til liðs við öryggissveitir fylkisins.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að starfandi réttarkerfi sé í Eþíópíu. Þá sé réttur manna til að leita úrlausnar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli stjórnarskrávarinn jafnframt sem allir eigi rétt á að fá aðstoð túlks við réttarhöld, en mörg tungumál séu töluð í Eþíópíu af hinum ýmsu þjóðernishópum. Samkvæmt skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins sé ástandið í eþíópískum fangelsum slæmt og reglulega sé brotið á grundvallarréttindum fanga. Stjórnvöld hafi boðað umbætur í fangelsismálum landsins og séu slík verkefni sem og verkefni gegn spillingu í forgangi.

Í skýrslu ástralskra útlendingamálayfirvalda (DFAT) frá ágúst 2020 kemur fram að heilbrigðiskerfið í Eþíópíu hafi undirgengist þýðingarmiklar breytingar á síðustu tveimur áratugum, sem feli m.a. í sér fjölgun heilbrigðisstofnana og fjölgun heilbrigðisstarfsmanna um allt land. Hins vegar sé heilbrigðiskerfið enn mjög veikburða og undirfjármagnað. Þrátt fyrir að aðgengi að heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum hafi skánað verulega þá sé það samt sem áður enn ófullnægjandi heilt á litið. Þá kemur fram í skýrslunni að eþíópísk stjórnvöld hafi síðan árið 2010 varið meiri fjármunum í geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu. Fram kemur að hægt sé að nálgast geðheilbrigðisþjónustu á flestum almenningssjúkrahúsum og jafnframt hjá frjálsum mannúðarsamtökum sem séu starfandi á þessu sviði. Í skýrslu UK Home Office frá september 2020 er vísað til þess að fram hafi komið í tímaritsgrein eþíópísku geðlæknasamtakanna um geðheilbrigðisþjónustu í Eþíópíu að einungis 63 geðlæknar séu starfandi í landinu og séu þeir flestir starfandi í stærri borgum landsins, svo sem í Addis Ababa.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hann óttist ofsóknir í heimaríki sem megi annars vegar rekja til átaka á milli fjölskyldu hans og eþíópíska hersins vegna tengsla fjölskyldumeðlima hans við ONLF og hins vegar til aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi, þ.e. einstaklinga sem búi í Eþíópíu en séu af sómölsku bergi brotnir. Þá sé staða […] ættbálksins sérstaklega erfið á sómalska svæði Eþíópíu og hafi honum m.a. verið lýst sem lægst setta hópnum innan stéttaskiptingar umrædds svæðis. Meðlimir ættbálksins hafi því mátt þola mismunun og ofbeldi af hálfu ráðandi ættbálka.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Mikið misræmi hefur verið í framburði kæranda fyrir íslenskum og sænskum stjórnvöldum. Kærandi hefur gefið upp mismunandi nöfn, fæðingardaga og upprunaríki. Í mati á auðkenni kæranda kemur fram að kærandi hafi staðfastlega haldið því fram fyrir bæði íslenskum og sænskum stjórnvöldum að hann sé ríkisborgari Eþíópíu, hann hafi fæðst þar og alist upp. Í viðtali hjá sænskum stjórnvöldum kvað hann móður sína vera frá bænum […] og föður frá bænum […] þar sem fjölskyldan hafi búið. Frásögn kæranda af þeim atvikum sem hafi leitt til þess að hann hafi yfirgefið Eþíópíu hefur tekið breytingum á milli viðtala hjá Útlendingastofnun og sænskum útlendingayfirvöldum.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 11. júlí 2017 sem tekið var vegna fyrstu umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi greindi kærandi frá því að hann hafi búið í Eþíópíu þar til hann hafi flúið til Evrópu árið 2013 í kjölfar þess að eþíópíski herinn hafi ráðist inn á heimili fjölskyldu hans og það hafi verið faðir hans sem hafi stutt ONLF. Hermennirnir hafi valdið þar skemmdum, beitt föður hans ofbeldi og nauðgað systur hans. Enn fremur hafi kærandi og faðir hans verið frelsissviptir og haldið föngnum í sama klefa. Á meðan á varðhaldinu hafi staðið hafi kærandi orðið vitni að því þegar faðir hans hafi verið beittur ofbeldi. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun, árið 2019, vegna umsóknar kæranda sem er hér til meðferðar greindi hann frá því að bróðir hans hafi verið drepinn af eþíópíska hernum þar sem hann hafi verið meðlimur ONLF. Vegna tengsla bróður hans við ONLF hafi faðir hans og annar bróðir verið handteknir og sé þeim nú haldið föngnum í Eþíópíu. Fjölskyldan hafi flúið til Sómalíu árið 2007 og kærandi hafi búið þar þar til hann hafi flúið til Evrópu árið 2014. Kærandi nefndi við þessa síðari málsmeðferð ekkert um það að systur hans hafi verið nauðgað.

Til samanburðar bendir kærunefnd á að við meðferð umsóknar kæranda í Svíþjóð hafi hann greint frá því að það hafi verið móðir hans sem hafi verið beitt ofbeldi af hálfu hermanna eþíópíska hersins. Enn fremur greindi kærandi frá því í Svíþjóð að hann hafi gengið þar í skóla frá 11 til 14 ára aldurs en í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 15. ágúst 2019, kvaðst kærandi ekki hafa gengið í skóla í Eþíópíu. Kærandi kvaðst við málsmeðferð sænskra stjórnvalda eiga sex systkini og einn stóran bróður sem væri látinn. Við meðferð síðari umsóknar hans hjá íslenskum stjórnvöldum kveður kærandi að hann eigi tvo eldri bræður og að annar þeirra sé látinn en hinn sé í varðhaldi. Kærandi var ekki spurður frekar um fjölda systkina hjá Útlendingastofnun. Þá kvaðst kærandi hafa búið allt sitt líf í Eþíópíu þar til hann hafi flúið þaðan þegar hann sótti um alþjóðlega vernd í Svíþjóð og að ástæða flótta hans hafi verið áreiti eþíópískra hermanna vegna tengsla bróður hans við ONLF. Er það mat kærunefndar að þær skýringar sem kærandi gaf á mismunandi frásögn hans hjá sænskum stjórnvöldum og íslenskum séu ótrúverðugar.

Þá er það ekki fyrr en við síðari umsókn sína hér á landi sem kærandi kveðst vera ríkisborgari Sómalíu og að hann hafi búið þar áður en hann hafi flúið til Evrópu vegna ofsókna af hálfu Al-Shabaab. Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun dags. 15. og 20. ágúst 2019 hafa verið haldið föngnum af Al-Shabaab í 35 daga samfleytt þar sem hann hafi mátt sæta ofbeldi og pyndingum. Vegna ofangreinds misræmis er það mat kærunefndar að frásögn kæranda er í heild sinni ótrúverðug. Verður því hvorki lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Sómalíu og hafi ástæðu til þess að óttast Al-Shabaab né að hann hafi ástæðu til þess að óttast ofsóknir af hálfu eþíópískra stjórnvald vegna mögulegra tengsla fjölskyldu hans við ONLF. Þá lítur kærunefnd einnig til þess að kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn til þess að styðja við frásögn sína af atburðum. Verður aðeins lagt til grundvallar, líkt og áður hefur komið fram, að kærandi sé frá Eþíópíu og hafi búið þar allt þar til hann flúði til Evrópu.

Kærandi kvaðst einnig vera í hættu í Eþíópíu þar sem hann tilheyri minnihlutahópi þeirra sem séu af sómölsku bergi brotnir. Hópurinn dvelji að miklu leyti í flóttamannabúðum og að erfitt hafi verið að vinna bug á matarskorti og vannæringu innan hans. Líkt og að ofan greinir kvaðst kærandi hafa verið búsettur í þorpinu […] í Eþíópíu en ekki í flóttamannabúðum. Af frásögn hans má ráða að þrátt fyrir mögulega bága efnahagsstöðu hafi fjölskyldan átt heimili og börnin hafi gengið í skóla. Efnahagslegar aðstæður, þ.m.t. matarskortur, teljast almennt ekki til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ekkert í gögnum málsins bendir til þess að annað eigi við í máli kæranda.

Kærandi byggir einnig á því að hann tilheyri […] ættbálknum. Staða hópsins sé erfið þar sem ættbálkurinn sé lægst setti hópurinn innan stéttaskiptingar á sómalska svæði Eþíópíu og meðlimir hans séu beittir mismunun og ofbeldi af hálfu ráðandi ættbálka. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var það mat stofnunarinnar að ekki væri tækt að leggja til grundvallar frásögn kæranda um að hann væri meðlimur af […] ættbálknum. Benti Útlendingastofnun m.a. á að á þeim svæðum sem ættbálkaskipulag Sómalíu finnist sé ættbálkurinn mikilvægasti félagslegi hópurinn sem þeir tilheyri. Tengingin við ættbálkinn sé því sterk og að Sómalir fái þekkingu um ættbálk sinn á barnsaldri. Aðspurður í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvað kærandi sameiginlegan forföður ættbálksins vera […] þrátt fyrir að heimildir bendi til þess að ættbálkar sem standi utan hins eiginlega ættbálkaskipulags Sómalíu, þ. á m. […], geti ekki rakið ættir sínar til sameiginlegs forföður líkt og stærri ættbálkarnir geti. Kærandi hafi að auki nefnt […] ættbálkinn sem yfirættbálk […] en samkvæmt gögnum standi […] utan hinnar hefðbundnu ættbálkaskipan og sé hann því ekki talinn undirættbálkur hins ráðandi ættbálks […]. Þá kom fram í ákvörðun sænskra yfirvalda að kærandi hafi ekki gert það sennilegt að hann tilheyrði […] ættbálknum þar sem skort hafi á framburð kæranda um hvað greindi ættbálkinn frá öðrum ættbálkum og stöðu hans gagnvart öðrum ættbálkum. Þá greindi kærandi aðeins frá almennum upplýsingum um þær ofsóknir sem hann telji meðlimi minnihlutaættbálka á sómalska svæði Eþíópíu verða fyrir en greindi ekki frá neinum atvikum þar sem hann hafi orðið fyrir mismunun eða áreiti vegna þess að hann hafi tilheyrt […].

Kærunefnd tekur undir mat Útlendingastofnunar um að ofangreint dragi úr trúverðugleika frásagnar kæranda af stöðu hans innan […] ættbálksins. Að framangreindu virtu, því ósamræmi sem rakið hefur verið um auðkenni kæranda og á frásögn hans af þeim atvikum sem hann kveður að hafi leitt til flótta hans frá Eþíópíu, sem draga að mati kærunefndar verulega úr trúverðugleika frásagnar hans í málinu, verður heldur ekki lagt til grundvallar að kærandi sé meðlimur minnihlutaættbálksins […]. Þó telur kærunefnd tilefni til að taka fram að ofangreind gögn beri það með sér að öryggisástandið í heimahéraði kæranda, […], sé almennt tryggt og verði kærandi fyrir ofbeldi við endurkomu til heimaríkis eigi hann þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda.Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki hans af öðrum ástæðum hvort sem er af hálfu eþíópískra stjórnvalda eða annarra aðila.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í greinargerð sinni fjallar kærandi um að 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga heimili að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur geti sýnt ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Í því sambandi byggir kærandi á því að í bæði Sómalíu og Eþíópíu viðgangist mannréttindabrot og að stríðsástand hafi einkennt bæði löndin. Þá hafi náttúruhamfarir, s.s. þurrkar og engisprettufaraldur, riðið yfir bæði löndin. Auk þess séu aðstæður kæranda erfiðar en hann tilheyri jaðarsettum minnihlutahópi í bæði Sómalíu og Eþíópíu. Beri því að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi m.a. til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá er í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að leggja ekki til grundvallar að kærandi sé aðili að […] ættbálknum. Þá er það jafnframt mat kærunefndar að almennar aðstæður í Eþíópíu séu ekki þess eðlis að kærandi teljist hafa ríka þörf á vernd í skilningi ákvæðisins. Við meðferð fyrri umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2017 greindi kærandi m.a. frá andlegri vanlíðan auk þess sem talsmaður hans gerði kröfu um að kærandi myndi gangast undir sálfræðimat. Við núverandi málsmeðferð hefur kærandi ekki greint frá sambærilegum heilsufarsvandræðum. Í því sambandi greindi kærandi m.a. frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 25. janúar 2019 að andleg heilsa hans væri góð. Þá liggja ekki fyrir nein heilsufarsgögn í máli kæranda sem sýna fram á að hann hafi ríka þörf fyrir vernd á grundvelli heilbrigðisástæðna, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 25. janúar 2019. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 8. október 2020, eru liðnir 18 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd framvísaði kærandi ungversku ferðaskilríki og kennivottorði vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd hér á landi. Með vísan til fyrri umfjöllunar telur kærunefnd hvorugt vottorðanna sýna fram á auðkenni kæranda svo ekki leiki vafi á því hver hann er, sbr. b-liður 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Enn fremur hefur kærandi gefið upp mismunandi nöfn og fæðingardaga í þau skipti sem hann hefur sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og í Svíþjóð auk þess sem upplýsingar um ríkisfang hans hafa verið á töluverðu reiki. Kærandi lagði ennfremur fram skjal sem hann kvað vera eþíópískt fæðingarvottorð sem kærunefnd sendi til Lögreglustjórans á Suðurnesjum til skjalarannsóknar. Í rannsóknarskýrslunni kemur fram að skjalið sé grunnfalsað, þ.e. falsað að öllu leyti. Verður skjalið því ekki talið hafa þýðingu í máli kæranda. Þá hefur kærandi ekki lagt fram önnur gögn sem gætu staðfest auðkenni hans. Að mati kærunefndar uppfyllir kærandi því ekki skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður honum ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við hina kærðu ákvörðun

Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð og úrlausn Útlendingastofnunar í máli hans, s.s. rannsókn stofnunarinnar og mat á stöðu kæranda.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við hana. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 22. janúar 2019 og sótti um alþjóðlega vernd 25. janúar 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                     Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum