Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2010 Innviðaráðuneytið

Þýðingarmikið að menn þekki vel til flugslysarannsókna

Rannsóknarnefnd flugslysa stóð ásamt bandarísku flugöryggisstofnuninni Southern California Safety Institute fyrir námskeiði í vikunni um rannsóknir flugslysa. Námskeiðið sóttu 26 manns frá flugrekendum, Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Flugstoðum ohf. og björgunarsveitum.

Þorkell Ágústsson, forstöðumaður RNF, segir þýðingarmikið að geta boðið reglulega uppá námskeið sem þessi. ,,Þarna kynnast menn starfi rannsóknarnefnda og rifja upp allt regluverkið kringum rannsóknir á flugslysum og flugatvikum. Þegar flugslys verður koma margir aðilar við sögu, bæði á vettvangi, svo sem lögregla og björgunaraðilar, fyrir utan okkur hjá rannsóknarnefndinni og síðan í framhaldinu þegar leita þarf eftir upplýsingum og gögnum frá þeim sem málið varðar, flugrekendum, þeim sem veita flugumferðarþjónustu og síðan þeim sem setja reglur og lög. Það er mjög brýnt fyrir okkur að allir hafi góðan skilning á verkefnum hver annars og einn liður í því er að halda reglulega svona námskeið til að viðhalda þessari þekkingu,” segir Þorkell og kveðst mjög ánægður með að flugrekendur og aðrir sem sent hafa fulltrúa sína á námskeiðið hafa verið fúsir til að leggja í þann kostnað og tíma.

Námskeið um flugslysarannsóknir hjá RNF.

Fimmta námskeiðið

Þetta er í fimmta sinn sem RNF hefur milligöngu um námskeið sem þetta í samstarfi við SCSI en fyrri námskeið voru haldin árin 2003, 2004, 2005 og 2007. Fyrirlesarar eru sérfræðingar á vegum áðurnefndar öryggisrannsóknarstofnunar sem hefur í tvo áratugi sérhæft sig í starfsemi af þessum toga. Einn af stjórnendum hennar er Gary R. Morphew, sem hefur langa reynslu af flugslysarannsóknum. ,,Við hófum starfsemi 1987 og höfum haldið námskeið bæði í Bandaríkjunum og í öðrum löndum. Við höfum fáa fasta starfsmenn en leitum til sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum til að halda fyrirlestra og kenna á námskeiðum okkar,” segir hann. Það að fá námskeiðin hingað heim gerir fleirum kleift að sækja þau að mati Þorkels.

Stofnunin sérhæfir sig í námskeiðum um öryggismál, einkum rannsóknir á slysum og atvikum og stjórnun öryggismála og rannsókna. Meðal efnis á námskeiðinu hér er hvernig tryggja á varðveislu gagna strax á slysstað, hverjar eru skyldur og réttindi viðkomandi aðila og þeirra sem sinna rannsóknum og hvernig setja á fram tillögur í öryggisátt sem oftlega kemur fram með rannsóknarskýrslum þegar niðurstaða liggur fyrir. Þá var farið í ýmis tæknileg atriði varðandi flugvélar svo og mannlega þætti og fleira.

Caj Frostell, sem starfaði um árabil sem sérfræðingur í flugslysarannsóknum hjá Alþjóða flugmálastofnuninni, ICAO, segir að regluverk um flugslysarannsóknir sé alþjóðlegt og allir eigi að fara eftir sömu stöðlum og verklagi. Með því sé reynt að tryggja að rannsóknir séu faglegar og samanburðarhæfar til að unnt sé að draga lærdóm af orsökum og forðast að slys endurtaki sig. ,,Auðvitað getur komið upp ágreiningur um hvernig túlka á hinar ýmsu reglur og í starfi mínu hjá ICAO kom fyrir að leitað var til okkar um aðstoð þegar menn greindi á um notkun og varðveislu gagna eða önnur atriði. En alþjóðlegt regluverk á þessu sviði auðveldar að allir temji sér sams konar vinnubrögð.”

Stjórnendur bera ábyrgð á öryggismálum

Þeir félagar telja að skilningur á öryggismálum fari vaxandi og til dæmis að stjórnendur flugfélaga séu reiðubúnir að leggja í nauðsynleg útgjöld vegna flugöryggismála: Það er ekki nóg að flugöryggisfulltrúar hjá flugrekendum séu talsmenn þessa málaflokks, þeir verða að hafa hundrað prósent stuðning yfirstjórnar. Ábyrgð á öryggismálum liggur hjá yfirmönnum. Öryggismál í flugi snúast um hugarfar eða afstöðu, menn eiga að hugsa fyrst og fremst um öryggi, fara að reglum og temja sér aga á öllum sviðum sem tengjast flugi. Öðruvísi náum við ekki árangri og það hefur of oft sýnt sig að mannlegur þáttur er oft orsakavaldur slysa, menn hafa ekki undirbúið sig, ekki farið eftir vinnureglum og ekki nýtt sér nauðsynleg tæki og upplýsingar til að sinna störfum sínum, er kjarninn í boðskap þeirra.

Caj Frostell segir aðspurður að á síðari árum hafi meira borið á þeirri tilhneigingu að finna sökudólg þegar flugslys er annars vegar. Rannsóknir flugslysa og flugatvika snúist fyrst og fremst um að leita orsaka og skýringa í því skyni að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Í sumum ríkjum sé hins vegar að verða algengt að höfðað sé mál ef menn telja að orsakir megi rekja til mannlegrar yfirsjónar.

Námskeið um flugslysarannsóknir hjá RNF.

Á myndinni eru frá vinstri: Þorkell Ágústsson, forstöðumaður RNF og kennararnir Gary R. Morphew, Richard L. Perry og Caj Frostell. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum