Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2009 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Reglugerð um öryggisráðstafanir vegna vegaframkvæmda

Tilbúin er í drögum reglugerð um öryggisráðstafanir vegna vegaframkvæmda. Tilgangurinn er að auka öryggi á vinnusvæðum við vegi og skulu verktakar gera öryggisáætlun sem veghaldari skal samþykkja. Óskað er eftir umsögnum í síðasta lagi 28. apríl næstkomandi.

Um langt skeið hefur verið kallað eftir því að sett verði reglugerð um merkingar og aðrar öryggisráðstafanir vegna framkvæmda á vegum og við vegi. Er hér um mikið hagsmunamál fyrir vegfarendur að ræða en með skýrri skilgreiningu á ábyrgð þeirra sem koma að vegaframkvæmdum má ætla að umferðaröryggi aukist og ennfremur öryggi starfsmanna. Samin hafa verið drög að reglugerð um merkingu og aðrar öryggisráðstafanir vegna slíkra framkvæmda og hafa fulltrúar Vegagerðarinnar og Umferðarstofu ásamt öðrum sérfræðingum komið að þessari vinnu.

Helstu atriði reglugerðardraganna eru eftirfarandi:

  • Verktaka sem tekur að sér framkvæmdir á og við veg verður gert skylt að gera öryggisáætlun vegna verksins sem lögð skal fyrir veghaldara til samþykkis. Þar komi meðal annars.fram hvernig vinnusvæði skuli afmarkað, hvernig merkingum skuli háttað og hjáleiðir skipulagðar. Ennfremur skal tilgreina hvernig kynning og auglýsing vegna lokunar fari fram.
  • Við hvert vinnusvæði skal tilgreina eftirlitsmann sem hefur meðal annars það hlutverk að sjá til þess að allar öryggisráðstafanir séu í samræmi við framlagða öryggisáætlun.
  • Gerð er krafa um að merkingar séu fullnægjandi áður en verk hefst og að umferðarmerki séu í samræmi við reglugerð um umferðarmerki.
  • Lögreglu og veghaldara verður heimilt að stöðva verk, ef það telst nauðsynlegt vegna hættu fyrir vegfarendur eða þá sem vinna á vinnusvæði. Sama á við ef samþykkt öryggisáætlun liggur ekki fyrir við upphaf verks eða henni ekki fylgt eftir, jafnvel þó að hætta hafi ekki skapast.
  • Í reglugerðardrögunum eru auk þess ákvæði í tengslum við framkvæmdir á og við veg þegar umferðartafir eiga sér stað, hlé gert á verki og verklok.
  • Vegagerðinni verður heimilt að gefa út verklagsreglur vegna vinnu á og við veg þar sem fram koma helstu atriði sem lögð skulu til grundvallar við gerð öryggisáætlunar. Þess skal getið að gerð þessara verklagsreglna er nú á lokastigi og verða þær birtar á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Þar sem reglugerðardrög þessi varða bæði umferðarmál og vegamál er það niðurstaða ráðuneytisins að rétt sé að setja reglugerðina með stoð í bæði umferðarlögum nr. 50/1987 og vegalögum nr. 80/2007.

Þeir sem koma vilja á framfæri ábendingum og umsögnum um frumvarpið eru beðnir að gera það í síðasta lagi 28. apríl næstkomandi og senda á netfangið [email protected].

 

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira