Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Nemendur Jafnréttisskólans í heimsókn á Bessastöðum

Nemendur jafnréttisskólans á Bessastöðum. Ljósm. UNU-GEST - mynd

Í gær heimsóttu nemendur Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands og Elizu Reid forsetafrú á heimili þeirra að Bessastöðum.

Að sögn fulltrúa skólans fékk hópurinn góðar móttökur. Forsetinn hélt stutta tölu í upphafi þar sem hann fjallaði um mikilvægi baráttunnar fyrir jafnrétti kynjanna á Íslandi og lagði áherslu á kjör Vigdísar Finnbogadóttur til forseta árið 1980. Hann sagði kjör hennar hafa markað tímamót því hún varð fyrsti kvenþjóðhöfðingi veraldar sem kosin var með lýðræðislegum hætti.

Þrír nemendur tóku til máls fyrir hönd hópsins. Sophia Nabukenya sem  starfar sem  æskulýðsfulltrúi í heimalandi sínu, Úganda, fjallaði um starf sitt heima fyrir og hvernig námið á Íslandi mun koma til með að hafa áhrif á þau samfélög sem hún starfar með. Luka Lazović frá Serbíu ávarpaði einnig forsetann og forsetafrúna og fjallaði hann um uppbyggingu námsins og þau viðfangsefni sem nemendur fást við á meðan á dvöl þeirra á Íslandi stendur. Að lokum tók Maaref Fadel frá Líbanon til máls og skýrði frá því hvernig námið gerir henni og öðrum nemendum kleift að fást við viðfangsefni sem eru viðkvæm í heimalöndum þeirra. Sjálf einblínir hún á hvernig bæta má stöðu kvenna og stúlkna þegar kemur að mansali.

Í lok heimsóknarinnar var nemendum boðið að þiggja rammíslenskar veitingar, pönnukökur og kleinur. „Heimsóknin er öllum minnisstæð, enda einstakt tækifæri að hitta þjóðhöfðingja og ræða leiðir til að jafna tækifæri kynjanna,“ segja fulltrúar skólans.

Þetta er í annað sinn sem nemendur Jafnréttisskólans heimsækja Bessastaði.

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum