Jafnrétti og valdefling kvenna forsenda þróunar á viðsjárverðum tímum
Fjármögnun þróunar, skuldamál þróunarríkja og þróunarsamvinna voru í brennidepli á fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um fjármögnun þróunar (Financing for Development 4, FfD4) sem lauk í Sevilla á Spáni í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sótti fundinn fyrir hönd Íslands og flutti ávarp á aðalfundi ráðstefnunnar auk þess að taka þátt í hringborðsumræðum um þróunarsamvinnu.
„Jafnréttismál og efnahagsmál eru nátengd og þannig hefur jafnrétti og valdefling kvenna og stúlkna lagt grunninn að því velsældarríki sem landið okkar er í dag, einungis fimmtíu árum eftir að Ísland var skilgreint sem þróunarríki,“ segir Þorgerður Katrín. „Með þróunarsamvinnu er Ísland að fjárfesta í velsæld, öryggi og sjálfbærni sem getur af sér stöðugleika, allri heimsbyggðinni til heilla. Sem smáríki hefur Ísland grundvallarhagsmuni af auknum stöðugleika og jöfnuði, bættum mannréttindum og sterkara lýðræði á heimsvísu.“
Niðurskurður kemur harðast niður á fátækustu ríkjum heims
Breytt landslag í þróunarsamvinnu í ljósi niðurskurðar stórra framlagsríkja til málaflokksins á síðustu misserum hefur grafalvarleg áhrif á stöðu fátækustu ríkja heims. Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna fór því fram á miklum umbreytingartímum og veitti sömuleiðis tækifæri til að leggja stóru línurnar í fjármögnun í þágu þróunar á næstu árum.
Niðurstöðuskjalið, „Compromiso de Sevilla“, sem samþykkt var við upphaf ráðstefnunar, eftir margra mánaða samningaviðræður, inniheldur jákvætt og markvisst orðalag um mörg lykilatriði sem Ísland leggur áherslu á í sinni þróunarsamvinnu, á borð við aukna aðkomu einkageirans og eflingu skattkerfa í þróunarríkjum.
Óásættanleg staða í jafnréttismálum
Auk þátttöku í aðaldagskrá FfD4, tók utanríkisráðherra þátt í tveimur pallborðsumræðum um jafnréttismál. Í öðrum þeirra greindi ráðherra frá reynslu Íslands af því að vera fyrsta ríki heims til að gefa út svokölluð kynjuð skuldabréf (e. Gender bonds), sem dæmi um velheppnaða nýsköpun í fjármögnun í þágu jafnréttismála, m.a. á sviði þróunarsamvinnu, sem brýn þörf sé á og hafi vakið eftirtekt.
Í seinni pallborðsumræðunum lagði utanríkisráðherra áherslu á þá óásættanlega stöðu sem uppi er í jafnréttismálum hvað varðar kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi. Málaflokkurinn hefur enda sætt umfangsmiklum og kerfisbundnum niðurskurði stórra framlagsríkja að undanförnu í beinu samhengi við bakslagið sem á sér nú stað um allan heim, hvað varðar kvenréttindi, mannréttindi og lýðræði.
Á hliðarlínu ráðstefnunnar átti utanríkisráðherra jafnframt tvíhliða fundi með varaforseta Síerra Leóne, Mohamed Juldeh Jalloh, og varaforseta Malaví, Michael Usi, en ríkin eru tvíhliða samstarfsríki Íslands í þróunarsamvinnu. Þá fundaði utanríkisráðherra með Alberto van Klaveren, utanríkisráðherra Síle, auk þróunarmálaráðherrum Noregs, Åsmund Grøver Aukrust, og Írlands, Neale Richmond.
Aðrir tvíhliða fundir ráðherra voru með Carsten Staur, formanni þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD-DAC), og Ian McFarlane, fulltrúa Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna. Þá náðu saman utanríkisráðherra og Mohammad Mustafa, forsætisráðherra Palestínu, þar sem ráðherra áréttaði stuðning Íslands við palestínsk stjórnvöld og tveggja ríkja lausnina.