Hoppa yfir valmynd
27. júní 2005 Innviðaráðuneytið

Fjölþjóðleg ráðstefna um húsnæðis- og borgarmál

Ráðstefna um húsnæðis- og borgarmál
Ráðstefna um húsnæðis- og borgarmál

Fjölþjóðleg ráðstefna um húsnæðis- og borgarmál verður haldin Öskju náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands dagana 29. júní - 2. júlí. Að ráðstefnunni standa Borgarfræðasetur Háskóla Íslands og Rannsóknarsetur í húsnæðismálum við Viðskiptaháskólann Bifröst í samvinnu við Íbúðalánasjóð og félagsmálaráðuneytið.

Veffang ráðstefnunnar er: http://registration.yourhost.is/enhr2005iceland/

Yfirskrift ráðstefnunnar er “Housing in Europe: New Challenges and Innovations in Tomorrow's Cities” og er með henni leitast við að draga fram hvernig stefnumótun í húsnæðismálum er að verða æ þýðingarmeiri fyrir heildarþróun borga hvarvetna heiminum á 21. öldinni. Ráðstefnan er sú 16. í röð fjölþjóðlegra húsnæðis- og borgarmálaráðstefna sem ENHR, European Network for Housing Research, hefur staðið að frá og með árinu 1988. Ráðstefnan verður haldin í Háskóla Íslands og fjöldi þátttakenda er um 300. Kynntar verða um 200 rannsóknargreinar í alls 13 málstofum og 8 lykilfyrirlesarar munu flytja pallborðserindi.

Fjármögnun íbúðarhúsnæðis í brennidepli

Fjármögnun húsnæðismála, sem mikið hefur verið á döfinni hérlendis, skipar háan sess á ráðstefnunni, m.a. mun John M. Quigley, prófessor við Berkeley háskóla, einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna um húsnæðismál og fjármögnun fasteignamarkaða, flytja lykilfyrilestur. Einnig mun Edda Rós Karlsdóttir, yfirmaður greiningardeildar Landsbanka Íslands fjalla um breytingar í fjármögnun húsnæðis á Íslandi og Jóhann G. Jóhannsson yfirmaður áhættu- og fjárstýringar Íbúðalánasjóðs fjalla um mikilvægi Íbúðalánasjóðs fyrir íslenskan fjármálamarkað. Einnig verða í málstofum kynntar ríflega 50 rannsóknargreinar er snerta fjármála- og markaðsþætti húsnæðismála.

Sjálfbær þróun borgarumhverfis

Meðal helstu málstofa má nefna þá er fjallar um sjálfbæra þróun borgarumhverfis og húsnæðis í borgum, þar sem kynntar verða um 25 rannsóknargreinar. Einnig verður fjallað um sjálfbæra þróun borga í einum af átta aðalfyrirlestrum ráðstefnunnar.

Þá mun John Doling, fræðimaður við háskólann í Birmingham flytja lykilfyrirlesturinn “Home Ownership in Europe” og greina frá rannsóknum sínum á þróun eignarhúsnæðis í Evrópulöndum. Einnig munu tveir þekktir fræðimenn, Peter Marcuse, Columbia háskóla í Bandaríkjunum og Michel Bonetti, Centre Scientifique et Technique du Bâtiment í Paris fjalla í lykilfyrirlestum um mikilvægi húsnæðisþáttarins fyrir þróun nútímaborga, undir yfirskriftinni “Housing in the Urban Context”.

Hinar 200 rannsóknargreinar verða kynntar í málstofum (workshops) ráðstefnunnar. Auk þeirra, sem áður er getið, má nefna málstofu um þætti tengda eignarhaldi á húsnæði og aðra um málefni húsnæðislausra, svo og málstofu um inflytjendamál í borgum og félagslegt landslag þeirra.

Þá verður í einni málstofanna fjallað um breytingar í rekstrarumhverfi félagslegs húsnæðis, í annarri um heilsutengda þætti í húsnæðis- og borgarrannsóknum, í einni um viðhald og endurnýjun húsnæðis og einnig verður á ráðstefnunni málstofa um rannsóknir flutningshreyfinga innan og milli borga.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna veita Magnús Árni Skúlason hjá Bifröst, farsími 822 0401 og Jón Rúnar Sveinsson hjá HÍ s. 525 4395, farsími 845 8917.

Styrktaraðilar

Aðalstyrktaraðili ráðstefnunar er Íbúðalánasjóður og félagsmálaráðuneytið. Aðrir styrktaraðilar eru: Fasteignamat ríkisins, Félagsbústaðir, Landsbanki Íslands hf., Garðabær, Varasjóður húsnæðismála, Umhverfisráðuneytið, Sendiráð Bandaríkjanna og Búseti. Vátryggingarfélag Íslands og Orkuveita Reykjavíkur.

Undirbúningsnefnd og skipuleggjendur

Stefán Ólafsson, prófessor og forstöðumaður og Jón Rúnar Sveinsson, sérfræðingur, frá Borgarfræðasetri Háskóla Íslands; Magnús Árni Skúlason, forstöðumaður Rannsóknarseturs í húsnæðismálum við Viðskiptaháskólann á Bifröst; Ingi Valur Jónsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu og Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir á Þróunarsviði Íbúðalánasjóðs. Skipuleggjandi ráðstefnunar er Inga Sólnes fyrir hönd Gestamóttökunar ehf.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum