Hoppa yfir valmynd
16. júní 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 57/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 57/2020

Þriðjudaginn 16. júní 2020

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 29. janúar 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 25. október 2019 á umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 30. ágúst 2018, vegna tjóns sem hún telur að rekja megi til ófullnægjandi meðferðar á úlnliðsbroti sem hún fékk á C í kjölfar slyss sem hún varð fyrir 13. apríl 2017.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 25. október 2019, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. janúar 2020. Með bréfi, dags. 3. febrúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 24. febrúar 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi geti ekki fallist á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og óski eftir því að ákvörðun stofnunarinnar verði endurskoðuð. Kærandi byggi kröfu um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu á því að hún hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni vegna ófullnægjandi meðferðar í kjölfar brots á vinstri úlnlið og eigi atvikið undir 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Aðdragandi málsins sé sá að kærandi hafi orðið fyrir slysi þann 13. apríl 2017 og hlotið tilfært brot á vinstri úlnlið. Að sögn kæranda hafi læknakandídat tekið á móti henni sem muni hafa reynt að koma brotinu í skorður við komuna eftir slysið og á næstu vikum á eftir. Að mati kæranda hafi verið fullt tilefni til þess að senda hana strax á D til frekara mats hjá sérfræðingi með tilliti til mögulegrar aðgerðar. Kærandi byggi á því að hún hafi ekki fengið bestu mögulegu meðferð og þar af leiðandi séu varanlegar afleiðingar slyssins umfangsmeiri en þær hefðu þurft að vera. Í dag sitji kærandi uppi með skekkju, styttingu, dofa, verki og mikla skerðingu á hreyfigetu í hendinni.

Í bréfi sínu vísi Sjúkratryggingar Íslands til þess að kærandi hafi að mati C fengið mjög þétt og ítarlegt eftirlit á heilsugæslunni sem hafi ávallt verið í samráði við bæklunarlækna D. Lokuð rétting hafi verið framkvæmd af viðkomandi lækni í þrígang á fyrstu tveimur sólarhringunum og bæklunarlæknar D hafi alltaf verið hafðir með í ráðum. Þá byggi Sjúkratryggingar Íslands á því að ekki væri hægt að fullyrða að árangur hefði verið betri og þar með einkenni kæranda ef annarri meðferð hefði verið beitt heldur en meðferð án aðgerðar. Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi meðferð því verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Einkenni kæranda megi því rekja til grunnáverka en ekki meðferðar eða skorts á henni.

Kærandi vilji leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði. Hún hafi leitað á C strax um nóttina þegar slysið hafi átt sér stað. Hún hafi verið sett í spelku og beðin um að koma aftur eftir kl. 14:00 sama dag. Í nótu frá E læknakandídat segi:

„Kemur í endurkomu í rtg. Er með mikla verki, ákveðið að taka spelku af og taka mynd. Mynd sýnir tilfært brot með styttingu og talsverðum dorsal angulaiton. [...]Næ sambandi við bæklun næsta dag sem segja legu brots nokkuð góða, en vegna aldurs sjúklings þá vilja þeir láta reyna að toga betur í brotið og leggja gips í meiri flexion, ca. 20°. Þeir segja mikilvægt að reyna að gera þetta meðan brotið er ferskt. Hef því samband við A 14.4 og bið hana að koma aftur 15.4 til að toga aftur í brotið og reyna að leggja gipsið í betri flexion.“

Þann 15. apríl sama ár hafi kærandi komið aftur í reponeringu og tekin hafi verið ný mynd og óskað eftir áliti bæklunarlækna. Talað hafi verið um að lega brotsins væri nokkuð góð. Kærandi geri athugasemdir við það hvers vegna hún hafi ekki verið beðin um að koma strax seinna sama dag, þ.e. 14. apríl, til þess að láta toga aftur í brotið fyrst bæklunardeild hafi talið mikilvægt að það yrði gert á meðan brotið væri ferskt. Þá telji kærandi að sennilega hafi brotið ekki verið fest nægilega vel þann 15. apríl og í raun hafi enginn gengið úr skugga um að gipsið hefði verið sett nægilega vel, þrátt fyrir að hafa óskað eftir áliti bæklunardeildar á röntgenmyndinni.

Næsta koma kæranda hafi verið 18. apríl 2017 og þá hafi verið talið að brotið hafi legið betur en áður og legan væri betri en eftir upphaflega reponeringu. Þá hafi næsta endurkoma verið þann 21. apríl sama ár. Í nótu segi:

„Þekkt brot á vinstra úlnlið. Bæklunarlæknar ráðleggja endurmat í dag. Fær nýtt gips þar sem gamla er laust, bæklunarlæknar skoða myndir og mæla með ktrl eftir viku og svo áframhaldandi gipsmeðferð í samtals 6 vikur.“

Kærandi bendi á að gipsið sem hafi verið sett á þann 15. apríl 2017 hafi verið laflaust og mögulega átt þátt í því að brotið hafi ekki haldist nægilega vel. Þá hafi komið í ljós í röntgenmyndatöku þann 21. apríl sama ár að aukin radial compression hafi verið í brotinu sem renni frekari stoðum undir það að gips hafi ekki verið sett rétt á þann 15. apríl.

Þann 28. apríl sama ár hafi aftur verið tekin röntgenmynd og í niðurstöðum segi:

„Ástandið er mjög áþekkt og það var við fyrri rannsókn. Dorsal vinklun er álíka og áður og er liðflötuurinn vinklaður hornrétt á lengdarás radius.“

Þann 8. maí 2017 hafi kærandi mætt í endurkomu samkvæmt fyrirmælum E á C til þess að taka nýja röntgenmynd. Í nótu frá 9. maí segi:

„Sjá símtal frá bæklun, aðeins verri lega – var ekki á landinu fyrir 1,5 viku þegar best hefði verið að kontrolera. Ekkert í raun hægt að gera nú vegna gróanda.“

Kærandi telji þetta skjóta skökku við, enda hafi hún komið í myndatöku þann 28. apríl sama ár, eða 11 dögum eða 1,5 viku fyrir þann 8. maí. Skráning E bendi til þess að mögulega hefði verið hægt að kontrolera þá, en það hafi ekki verið gert. Þá telji kærandi einnig sérkennilegt að í úrlestri niðurstaðna frá 8. maí segi að „ekki sjáist nein merki um gróanda með vissu“, en í nótu frá 9. maí segi að „ekki sé hægt að gera neitt vegna gróanda“.

Að mati kæranda beri fyrrgreindar skráningar með sér að hún hafi ekki fengið rétta meðferð frá slysdegi og þangað til bæklunardeild hafi staðfest að ekkert væri hægt að gera vegna gróanda þann 9. maí 2017. Á tímabilinu 13. apríl til 9. maí 2017 hafi kærandi hitt fjóra lækna á C í sex skipti, þar af tvo kandítata, einn almennan lækni og einn sérfræðing í heimilislækningum. Kærandi telji að greinilega hafi enginn þeirra haft nægilega mikla yfirsýn eða tekið ábyrgð á máli hennar og það kunni að hafa leitt til þess að brotið greri ekki rétt. Miðað við færslur hefði sennilega verið hægt að laga stöðu brotsins, annaðhvort með því að senda hana strax til sérfræðings eða með því að setja gipsið rétt á þann 15. apríl 2017. Í öllu falli telji kærandi auðsýnt að hún hafi ekki fengið ásættanlega meðferð.

Þegar kærandi hafi hitt sérfræðilækni um það bil hálfu ári eftir að hún hafi hlotið áverkann, hafi hann lýst því yfir, að sögn kæranda, að hún hefði að öllum líkindum fengið betri meðhöndlun hjá sérfræðilæknum ef hún hefði leitað beint á bráðamóttöku D í kjölfar slyssins. Hvort sem ákveðið hefði verið að senda hana strax í aðgerð eða brotið verið reponerað og sett í gips með réttum hætti. Það hafi verið hans mat í ljósi legu brotsins, aldurs hennar og þeirrar staðreyndar að hún væri örvhent.

Í dag búi kærandi við veruleg óþægindi vegna brotsins og hún telji afleiðingarnar meiri en svo að hægt sé að rekja þær bara til grunnáverkans. Ljóst sé að brotið hafi gróið með styttingu og í því sé sýnileg skekkja. Kærandi hafi verið metin til 10% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku vegna afleiðinga slyssins í matsgerð F, dags. 28. nóvember 2019.

Sem fyrr segir byggir kærandi kröfu sína um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu á því að hún hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni vegna ófullnægjandi meðferðar í kjölfar brots á vinstri úlnlið. Samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu sé kveðið á um að greiða skuli bætur án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins ef komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 111/2000 komi fram að tilgangur laganna hafi meðal annars verið sá að tryggja tjónþola víðtækari rétt á bótum en hann eigi samkvæmt almennum skaðabótareglum og jafnframt að gera honum auðveldara að ná fram rétti sínum. Þá segi einnig að samkvæmt frumvarpinu skipti meginmáli um greiðsluskyldu sjúklingatryggingar hvort komast hefði mátt hjá tjóninu sem sjúklingur hafi orðið fyrir. Samkvæmt 2. gr. laganna skuli í fyrsta lagi greiða bætur vegna allra tjóna sem rakin verði til þess að eitthvað fari úrskeiðis hjá lækni eða öðrum starfsmanni. Við mat á því hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis hjá lækni eða öðrum skuli ekki nota sama mælikvarða og stuðst sé við samkvæmt hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar heldur miða við hvað hefði gerst ef rannsókn eða meðferð hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið. Við mat á því hvort nauðsynlegt orsakasamband sé á milli tjóns og rannsóknar eða meðferðar sjúklings, sé nægilegt að sýnt sé fram á að tjón hafi að öllum líkindum hlotist af þessari rannsókn eða meðferð, sbr. upphafsákvæði 2. gr.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar, sem og gagna þeirra sem fylgi kæru, telji kærandi sig uppfylla skilyrði 1. tölul. 2. gr. laganna þannig að hún eigi rétt til bóta vegna þess líkamstjóns sem hafi leitt af meðferðinni á C Leiða megi líkur að því að ef rétt hefði verið staðið að læknismeðferð hefði brot kæranda ekki gróið með jafn mikilli skekkju og kærandi byggi ekki við jafn umfangsmikil einkenni.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands komi fram að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem hafi farið fram á C. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 25. október 2019, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að skilyrði 1.–4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi ekki verið uppfyllt.

Afstaða Sjúkratrygginga Íslands til kæruefnis hafi nú þegar komið fram í ákvörðun stofnunarinnar frá 25. október 2019. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram:

„Við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þarf að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo skilyrði séu fyrir greiðslu bóta. Sjúklingatrygging bætir ekki tjón sem er afleiðing grunnsjúkdóms eða grunnáverka og er það því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar sem hann gekkst undir.

Af tilkynningu umsækjanda má ráða að hún telji að rétt hefði verið að senda hana til sérfræðings í Reykjavík, með aðgerð í huga. Tiltekur umsækjandi einkenni sín nú sem heilsutjón sem hún hafi orðið fyrir í tengslum við rannsókn og sjúkdómsmeðferð. Byggir umsókn á því að ef meðferð hefði verið í höndum sérfræðinga og þá jafnvel gripið til aðgerðar fljótlega í ferlingu hefði útkoman orðið önnur og betri.

Fyrir liggur að meðferð á C fór fram í samráði við bæklunardeild LSH frá upphafi. Röntgenmyndir voru þannig skoðaðar á LSH þegar dregið hafði verið í brotið í umrædd sinn. Því var að mati SÍ óþarfi að senda umsækjanda til Reykjavíkur til meðferðar.

Í máli þessu snýr álitaefni einnig að vali á meðferð, það er hvort að grípa hefði átt til aðgerðar strax eða hvort að meðferð sú sem valin var hafi verið rétt. Það er sú íhaldsama meðferð án aðgerðar sem ákveðin var í tilviki umsækjanda.

Að mati SÍ verður ekkert fullyrt um að árangur hefði verið betri og þar með einkenni ef annarri meðferð hefði verið beitt í kjölfar slyssins. Þannig er ósannað að langtímaárangur eftir lokaða réttingu og ytri festingu sé betri en eftir lokaða réttingu og gipsspelku.[1] Þá standa heldur ekki rök til þess að aðgerð með plötu og skrúfum leiði til betri árangurs en lokuð rétting með pinnum og gipsspelku.[2] Þannig er ekki meiri líkur en minni á að einkenni nú væru önnur og betri ef umsækjandi hefði verið send til Reykjavíkur til meðferðar og eftir atvikum gengist undir aðgerð í kjölfarið. Eins og fram hefur komið var meðferð raunar skipulögð með aðstoð bæklunarlækna á LSH. Þá er rétt að fram komi að ekki er óþekkt að draga þurfi brot í rétta stöðu oftar einu sinni, jafnvel þegar umrætt meðferð er veitt af sérfræðingum á sviðinu.

Umsækjandi leitaði aftur á C þann 1. nóvember 2017 vegna verkja í úlnliðnum eins og fram hefur komið. Í sömu komu var fengin segulómskoðun af úlnliðnum sem vafasamt er að bæti við nothæfum upplýsingum fyrir meðferð. Að mati SÍ var það því miður raunin að rannsóknin olli misskilningi því að þar var afturhalli á einni sneið mældur 25° og styttingin 5 mm, eða svipað og brotið í upphafsstöðu fyrir réttingar. Eins og fram hefur komið eru röntgenmyndir notaðar við mat á brotum sem þessum og við misræmi milli slíkra rannsókna og segulómskoðanna er miðað við röntgenrannsókn. Bæði G og H handarskurðlæknir slógu að mati SÍ réttilega útaf borðinu allar hugmyndir um skurðaðgerðir til að rétta beinið á brotstað enda styðja rannsóknir ekki að aðgerð gagnist sjúklingum með svo litla skekkju, þó svo að beinið líti betur út á röntgenmynd eftir á.

Óþægindi frá brotnum úlnlið eru algeng og það jafnvel eftir vel heppnaðar skurðaðgerðir. Ef ákveðið er að taka slík brot til aðgerðar má einnig gera ráð fyrir óþægindum og einkennum tengdum aðgerðinni. Þá er venjan að leggja áherslu á hreyfiþjálfun og styrktaræfingar á brotna úlnliðinn um leið og umbúðir eru fjarlægðar. Í sjúkraskrá sést að áhersla var lögð á slíkar æfingar.

Að mati SÍ var meðferð því hagað eins vel og unnt var og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Lokaárangur og þar með einkenni umsækjanda nú eru að mati SÍ viðbúinn eftir áverka sem þetta. Einkenni nú má því rekja til grunnáverka en ekki til meðferðar eða skort á henni.

Með vísan í ofangreinda umfjöllun og gögn málsins er það niðurstaða SÍ að ekkert í fyrirliggjandi gögnum bendi til þess að meðferð og aðgerð hafi ekki verið hagað eins vel og unnt var og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði sbr. 1. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Einkenni nú megi þannig rekja til grunnáverka. Þá á 2. tl. sömu greinar ekki við enda ekkert sem bendir til bilunar eða galla í tækjum, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður var við rannsókn eða meðferð. Hvað varðar 3. tl. sömu greinar þá er það ekki svo að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferð, líkt o fram hefur komið. Hvað varðar 4. tl. er það niðurstaða SÍ að einkenni sem umsækjandi lýsir í umsókn sinni séu fylgikvillar grunnáverka en ekki þeirrar meðferðar sem hann hlaut eða vali á meðferð. Fyrir liggur að lög um sjúklingatryggingu taka aðeins til tjóns sem hlýst af meðferð eða skort á henni en ekki þess sem rekja má til grunnáverka.“

Engin ný gögn hafi verið lögð fram sem taka þurfi afstöðu til. Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun á bótum á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna tjóns sem hún telur að rekja megi til ófullnægjandi meðferðar í kjölfar brots á vinstri úlnlið.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Afleiðingar, sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs, eru þannig ekki bótaskyldar, en aftur á móti getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi telur að líkamstjón hennar komi til vegna ófullnægjandi meðferðar sem hún hlaut á c vegna brots á vinstri úlnlið. Kærandi telur að leiða megi líkur að því að ef rétt hefði verið staðið að læknismeðferð hefði brot kæranda ekki gróið með jafn mikilli skekkju og kærandi byggi ekki við jafn umfangsmikil einkenni. Því telur hún að skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu sé fullnægt.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Í greinargerð meðferðaraðila, dags. 4. janúar 2019, kemur meðal annars fram að kærandi hafi fengið þétt og ítarlegt eftirlit á heilsugæslunni sem hafi ávallt verið í samráði við bæklunarlækna á C. Lokuð rétting hafi verið framkvæmd af meðferðaraðila í þrígang á fyrstu tveimur sólarhringum og hafi bæklunarlæknar alltaf verið hafðir með í ráðum með útkomuna og meðferðaráætlun. Þar með standist sú staðhæfing ekki að „brot var sett í skorður endurtekið á næstu vikum“. Myndir hafi verið hengdar upp á morgunfundum sérfræðinga í bæklunarlækningum á Landspítala og hafi lokuð rétting verið talin ákjósanleg meðferð fyrir sjúklinginn. Á engum tímapunkti í þeim fjölmörgu skiptum sem haft hafi verið samráð við sérfræðinga í bæklun í bráðafasa kæranda, hafi þeir viljað fá hana senda til Reykjavíkur í frekari meðferð eða aðgerð.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur á grundvelli fyrirliggjandi gagna að meðferð á tilfærðu úlnliðsbroti kæranda hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið. Ljóst er að slík meðferð er vandasöm og ekki hægt að tryggja að varanlegar afleiðingar verði ekki af brotinu. Í greinargerð meðferðaraðila, dags. 4. janúar 2019, er greint frá því að reynt hafi verið að fá fram góða legu á brotinu í samráði við bæklunarlækna og tókst það á fyrstu sólarhringum eftir brotið. Sú töf sem varð á því að góð lega fengist var ekki til þess fallin að valda kæranda tjóni. Kæranda var síðan fylgt eftir og bent á viðeigandi þjálfun þegar hún var laus við umbúðir. Þannig verður ekki unnt að rekja tjón kæranda til meðferðar heldur einvörðungu til sjálfs slyssins. Að áliti úrskurðarnefndar var rannsókn og meðferð á áverkum kæranda því hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Með hliðsjón af framangreindu er bótaskylda ekki til staðar samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 25. október 2019, þar sem kæranda var synjað um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótum til A, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 



[1] Handoll HHG. et al. Cocharane review. 18 July 2007.

[2] Costa ML. et al. BMJ2014;349:g4807. Costa ML. et al. The Bone & Joint Journal. Volume 101-B, Issue 8, 31

Jul 2019. Zong et al. Journal of Orthopedic Surgery and Research DOI 10.1186/s13018-015-0252-2.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum