Hoppa yfir valmynd
12. september 2008 Innviðaráðuneytið

Hækkaður aldur vegna ökuréttinda til rútuaksturs

Gengið hefur í gildi breyting á reglugerð um ökuskírteini þess efnis að ökuskírteini í D-flokki, sem veita réttindi til farþegaflutninga í atvinnuskyni, má nú aðeins veita þeim sem orðnir eru 23 ára í stað 21 árs áður.

Þá gengur í gildi 10. september á næsta ári hækkun á aldursskilyrði fyrir ökuréttindi til vöruflutninga í atvinnuskyni úr 18 árum í 21 ár.

Einnig var breytt ákvæðum um gildistíma og skal nú gefa út til fimm ára ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokka D og D1 og til vöruflutninga í atvinnuskyni fyrir flokka C og C1. Þeir sem sækja um endurnýjun ökuskírteinis til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni þurfa framvegis að sækja endurmenntunarnámskeið. Þetta á við um þá sem endurnýja vilja slík réttindi varðandi farþegaflutninga frá 10. september 2011 og vöruflutninga frá 10. september 2012.

Í viðauka reglugerðarinnar eru ákvæði um ofangreinda endurmenntun. Segir þar að nægilegt sé að sækja námskeið fyrir annan hvorn flokkinn, þ.e. hópbíla eða vörubíla. Er áskilið að það sé 35 stunda langt og fari fram á vegum ökuskóla með starfsleyfi. Markmið slíkrar endurmenntunar er að gera ökumönnum sem stunda fólksflutninga- eða vörubílaakstur í atvinnuskyni kleift að viðhalda þekkingu sinni og færni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum