1265/2025. Úrskurður frá 9. apríl 2025
Hinn 9. apríl 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1265/2025 í máli ÚNU 25030001.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 2. mars 2025, kærði […] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál ákvörðun ríkissaksóknara að synja beiðni hans um aðgang að gögnum.
Með erindi, dags. 27. febrúar 2025, óskaði kærandi eftir að fá aðgang að gögnum sem tengdust ábendingu sem borist hefði ríkissaksóknara og varðaði kæranda. Ríkissaksóknari afhenti kæranda samdægurs afrit af texta tölvupósts þar sem innihald póstsins kom fram. Í framhaldi af því óskaði kærandi eftir að fá tölvupóstinn í heild sinni afhentan, þar sem upplýsingar um sendanda kæmu fram. Með svari, dags. 28. febrúar 2025, hafnaði ríkissaksóknari því að afhenda kæranda frekari upplýsingar og kvaðst ekki hafa upplýsingar um hver hefði sent tölvupóstinn.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að tölvupósturinn muni hafa verið sendur ríkissaksóknara nafnlaust. Tölvupósturinn innihaldi ýmsar dylgjur um kæranda. Kærandi hafi persónulega hagsmuni af því að vita hver vegi að mannorði hans með þeim hætti sem gert sé í tölvupóstinum, enda komi til greina að höfða meiðyrðamál gegn viðkomandi.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt ríkissaksóknara með erindi, dags. 6. mars 2025, og embættinu gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að ríkissaksóknari afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál þau gögn sem kæran varðar.
Gögnin sem kæran varðar bárust úrskurðarnefndinni 6. mars 2025. Umsögn ríkissaksóknara barst úrskurðarnefndinni 12. mars 2025. Í umsögninni kemur fram að sendandi þess tölvupósts sem um ræðir skrifi undir dulnefni og netfangið sem hann noti sé líklega útbúið þannig að erfitt sé að rekja það til sendandans. Ástæðan sem sendandi gefur upp fyrir að skrifa undir dulnefni sé ótti við hefndaraðgerðir eða útilokun af hálfu stuðningsmanna kæranda og annarra einstaklinga sem nefndir eru í tölvupóstinum. Með vísan til þessa teldi ríkissaksóknari varlegra, með hliðsjón af 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, að afhenda kæranda ekki þau gögn sem innihalda netfang sendanda, þar sem ekki væri útilokað að hann geti tengt það við sendanda þrátt fyrir dulnefnið.
Umsögn ríkissaksóknara var kynnt kæranda með erindi, dags. 18. mars 2025, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir frá kæranda bárust ekki.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að tölvupósti sem varðar kæranda og sendur var ríkissaksóknara. Ríkisaksóknari afhenti kæranda afrit af innihaldi tölvupóstsins en synjaði honum um aðgang að tölvupóstinum í heild á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
Úrskurðanefnd um upplýsingamál hefur farið yfir gagnið og af innihaldi þess er ljóst að efni tölvupóstsins varðar kæranda sjálfan með þeim hætti að um aðgang að honum fer samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga. Sá réttur er ríkari en réttur almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt 5. gr. laganna.
Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í 3. mgr. sömu greinar kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum.
Í athugasemdum við 14. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir um 3. mgr. að algengt sé að gögn sem hafi að geyma upplýsingar um aðila sjálfan hafi að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptamálefni annarra. Þegar fram komi beiðni um aðgang að slíkum gögnum sé þannig líklegt að það reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni. Aðgangur að gögnum verði því aðeins takmarkaður ef talin sé hætta á að einkahagsmunir skaðist verði aðila veittur aðgangur að upplýsingunum. Leggja þurfi mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig.
Úrskurðarnefndin vekur athygli á að í lögum er ekki að finna ákvæði þar sem mælt er fyrir um nafnleynd þess sem kemur á framfæri ábendingu til stjórnvalds í tilviki á borð við það sem er uppi í máli þessu, sem kynni að takmarka rétt kæranda til aðgangs að upplýsingunum. Slík ákvæði um nafnleynd er að finna í lögum, sbr. til dæmis 19. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, um nafnleynd tilkynnanda í barnaverndarmálum. Þar sem sambærilega reglu er ekki að finna varðandi þá ábendingu sem mál þetta lýtur að verða takmarkanir á rétti kæranda til aðgangs að umbeðnum tölvupósti aðeins byggðar á 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðanefndin hefur farið yfir tölvupóstinn sem deilt er um aðgang að. Ljóst er að nafn sendandans er dulnefni og tölvupóstfangið sem pósturinn var sendur frá vísar til dulnefnisins. Í póstinum segir að það sé gert af ótta við hefndaraðgerðir eða útilokun af hálfu stuðningsmanna kæranda. Af gögnum málsins og atvikum þess að öðru leyti verður ekki ráðið að unnt sé með góðu móti að rekja tölvupóstinn til ákveðins einstaklings. Það er því mat nefndarinnar að upplýsingar um nafn og netfang sendanda teljist ekki vera upplýsingar um einkamálefni hans í skilningi 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Nefndin telur að jafnvel þótt unnt reyndist að bera kennsl á sendanda tölvupóstsins vægju hagsmunir kæranda af að fá aðgang að upplýsingum um auðkenni sendandans þyngra en hagsmunir sendandans af að upplýsingarnar færu leynt. Þar sem ekki liggur fyrir hver er sendandi tölvupóstsins verður afstöðu hans til afhendingar gagnsins ekki leitað. Að framangreindu virtu telur nefndin að hvorki 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga né önnur takmörkunarákvæði laganna eigi við um aðgang kæranda að tölvupóstinum í heild sinni. Verður ríkissaksóknara því gert að veita kæranda aðgang að honum.
Úrskurðarorð
Ríkissaksóknari skal veita kæranda, […], aðgang að tölvupósti í heild sinni, sem sendur var embættinu 24. febrúar 2025 kl. 6.31 og varðar kæranda.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson