Hoppa yfir valmynd
27. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Setið fyrir svörum um framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Sameinuðu þjóðirnar
Sameinuðu þjóðirnar

Fjölmörg málefni sem varða velferð barna, lagasetning og stefnumótun voru til umfjöllunar þegar Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna spurði sendinefnd Íslands um framkvæmd Barnasáttmálans við fyrirtöku í Genf í liðinni viku. 

Ísland fullgilti Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1992. Sáttmálinn hefur ekki verið lögfestur hér en fullgildingin felur í sér að Ísland er skuldbundið að þjóðarrétti að til að virða og uppfylla ákvæði hans.

Þeim löndum sem eiga aðild að sáttmálanum ber að gera grein fyrir framkvæmd hans reglulega, bæði skriflega og í fyrirtöku sem að jafnaði er á fjögurra ára fresti. Fyrirtakan fór fram í Genf í síðustu viku og sat íslensk sendinefnd fyrir svörum gagnvart Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Málefni til umræðu voru mörg enda spönnuðu þau allt svið sáttmálans sem er alls 54 greinar.

Af einstökum umræðuefnum sem tengjast velferðarmálum má nefna spurningar um  ADHD, foreldrafræðslu, barnavernd, ofbeldi gegn börnum, fóstureyðingar, offitu, brjóstagjöf, niðurskurð í velferðarkerfinu,  geðheilbrigðisþjónustu, aðgerðaáætlun  til að styrkja stöðu barna og ungmenna, málefni  fatlaðra barna, lagasetningu og stefnumótun.

Í framhaldi fyrirtökunnar mun Barnaréttarnefndin vinna úr upplýsingunum frá Íslandi og sendir síðan tillögur til stjórnvalda um hvað þurfi að bæta. Með þessu fyrirkomulagi veita Sameinuðu þóðirnar þeim ríkjum sem aðild eiga að Barnasáttmálanum mikilvægt aðhald og stuðning við framkvæmd hans.

Á vefsíðu sérfræðinganefndarinnar um barnasáttmálann  má sjá kafla um Ísland. Þar er skýrsla Íslands, spurningalisti frá nefndinni og svör Íslands. Þá er þar einnig að finna upplýsingar um sendinefndina.

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, fór fyrir sendinefndinni en auk hennar voru fulltrúar Íslands þau María Rún Bjarnadóttir, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, Margrét Björnsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu og Guðni Olgeirsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Einnig sat fundinn Veturliði Stefánsson, fulltrúi fastanefndar Íslands í Genf.

Viðstödd fyrirtökuna í Genf voru einnig fulltrúar frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, UNICEF á Íslandi og umboðsmaður barna. Þessir aðilar hafa skilað svonefndum skuggaskýrslum um stöðu barna á Íslandi og eru þær aðgengilegar á barn.is og humanrights.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum