Hoppa yfir valmynd
30. september 2011 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Viðræður um gagnkvæman almannatryggingasamning milli Íslands og Bandaríkjanna

Viðræður eru hafnar milli Íslands og Bandaríkjanna um tvíhliða almannatryggingasamning milli þjóðanna. Margvíslegur ávinningur felst í slíkum samningi fyrir borgara beggja þjóða. Fyrsta áfanga viðræðnanna nýlokið. 

Ósk um að ganga til þessara viðræðna barst frá bandarísku almannatryggingastofnuninni; The Social Security Administration (SSA) í sumar. Áður hafði íslenska heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið óskað eftir slíkum viðræðum og einnig hafði velferðarráðuneytinu borist erindi frá the Icelandic American Business Forum (IABF) um að samningur verði gerður.

Ísland hefur gert milliríkjasamninga um almannatryggingar við mörg erlend ríki á grundvelli Norðurlandasamnings um almannatryggingar og samnings Evrópska efnahagssvæðisins um almannatryggingar. Einnig er í gildi slíkur samningur milli Íslands og Kanada. Bandaríkin eru með tvíhliða almannatryggingasamninga við 24 ríki, þar af mörg ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.

 Markmið þessara samninga er að stuðla að því að einstaklingar tapi ekki áunnum réttindum við flutning milli landa. Í þeim er meðal annars kveðið á um greiðslur bóta til einstaklinga sem búa erlendis, fjallað um hvernig taka eigi tillit til búsetu, - atvinnu-, eða tryggingatíma sem áunnist hafa í öðrum samningsríkjum, jafnræði ríkisborgara samningsríkjanna og fleiri atriði.

Þriggja manna sendinefnd frá Bandaríkjunum var hér á landi í síðustu viku og fundaði með fulltrúum Íslands í samningaviðræðunum. Ms. Georgina R. Harding, yfirmaður á skrifstofu alþjóðasviðs bandarísku almannatryggingastofnunarinnar fór fyrir bandarísku sendinefndinni en Bolli Þór Bollason, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, leiddi viðræðurnar fyrir Íslands hönd.

Áformað er að næsti áfangi viðræðnanna fari fram í Baltimore snemma næsta árs og standa vonir til þess að unnt verði að ljúka viðræðunum með samningi næsta sumar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira