Nr. 453/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 24. ágúst 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 453/2023
í stjórnsýslumálum nr. KNU23040042 og KNU23040043
Kæra [...],
[...] og barna þeirra
á ákvörðunum Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 14. apríl 2023 kærðu [...], fd. [...], (hér eftir M), og [...], fd. [...], (hér eftir K), ríkisborgarar Kólumbíu, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2023, um að synja þeim og börnum þeirra, [...], fd. [...], [...], fd. [...], og [...], fd. [...], um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Hinn 29. mars 2023 voru ákvarðanir Útlendingastofnunar sendar þáverandi talsmanni kærenda með rafrænum hætti.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga. Í ákvæði 7. gr. kemur fram að heimilt sé að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Þar sem ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra voru birtar þáverandi talsmanni þeirra 29. mars 2023 var kærufrestur til 13. apríl sama ár. Kæra kærenda barst kærunefnd hins vegar ekki fyrr en 14. apríl 2023 þegar kærufrestur var liðinn.
Hinn 25. apríl 2023 barst kærunefnd tölvubréf frá núverandi talsmanni kærenda. Var kærunefnd tjáð að kærendur hefðu leitað til hans og óskað eftir því að hann tæki yfir mál þeirra og skilaði inn greinargerð fyrir þeirra hönd. Meðfylgjandi voru umboð kærenda til talsmannsins, dagsett 24. apríl 2023. Með tölvubréfi 26. apríl 2023 var talsmanni kærenda boðið að leggja fram greinargerð með skýringum, sbr. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Hinn 28. apríl 2023 bárust kærunefnd greinargerð ásamt fylgigögnum frá talsmanni kærenda fyrir þeirra hönd. Meðal fylgigagna voru WhatsApp samskipti kærenda við fyrrum talsmann sinn og bréf frá vini þeirra, dags. 28. apríl 2023.
II. Athugasemdir kærenda
Í greinargerð kærenda er gerð sú krafa að kæra í málum þeirra verði tekin til hefðbundinnar kærumeðferðar hjá kærunefnd og að talsmanni þeirra verði veitt heimild til að leggja fram greinargerð fyrir þeirra hönd. Í greinargerðinni eru samskipti kærenda við fyrrum talsmann rakin. Meðal annars kemur fram að fyrrum talsmaður hafi með textaskilaboðum þann 1. apríl 2023 tilkynnt kærendum að Útlendingastofnun hafi synjað umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd og hafi jafnframt tjáð þeim að þau hefðu rétt á að kæra ákvarðanirnar. Kærendur hafi viljað kæra ákvarðanirnar og hafi vinur þeirra, sem tali ensku, hringt í talsmanninn 4. apríl 2023, og hafi hann og talsmaðurinn sammælst um að hittast og fara yfir ákvarðanirnar og kæruferlið. Kærendur hafi hins vegar ekkert heyrt frá talsmanninum og hringt í hann 11. apríl 2023. Talsmaðurinn hafi svarað en skellt aftur á og sent þeim svo skilaboð þess efnis að hann hafi átt í vandræðum með símann sinn og sé að glíma við fjölskylduvandamál. Hafi talsmaðurinn tjáð þeim að hann hafi kært ákvarðanirnar til kærunefndar útlendingamála og hafi einhvern tíma til að skila greinargerð til stuðnings málatilbúnaði þeirra. Í greinargerð kemur fram að kærendur hafi verið í góðri trú um að búið væri að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála samkvæmt skilaboðum frá fyrrum talsmanni þeirra þann 1. apríl 2023. Kærendur taka fram að þau hafi ekki séð ákvarðanirnar fyrr en núverandi talsmaður þeirra hafi sent þeim þær 27. apríl 2023. Kærendur vísa til framlagðs bréfs vinar þeirra, dags. 28. apríl 2023, þar sem fram kemur að hann hafi reynt eftir bestu getu að aðstoða kærendur við að ná sambandi við fyrrum talsmann þeirra þar sem þau hafi verið orðin verulega óttaslegin og kvíðin yfir stöðu mála þar sem engin svör hafi borist frá fyrrum talsmanni þeirra. Kærendur óttist afleiðingar þess ef mál þeirra verði ekki tekin til hefðbundinnar kærumeðferðar hjá kærunefnd þá muni þau nú fá brottvísun og endurkomu bann til Íslands og mögulega til annarra ríkja innan Schengen-svæðisins. Í ljósi þess að fyrrum talsmaður hafi ekki kært ákvarðanirnar innan lögmæts frests sé ekki um frestun réttaráhrifa á ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum þeirra og sé fjölskyldan í lausu lofti og verulega óttaslegin um stöðu sína. Kærendur vísa til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi verði að geta treyst því að Útlendingastofnun skipi þeim hæfa talsmenn sem hafi verulega góða þekkingu á lögum um útlendinga og þeim frestum sem gilda samkvæmt 7. gr. þeirra laga og að talsmenn sinni störfum sínum af alúð og tryggi að engin réttarspjöll verði á málum þeirra, sbr. 13. gr. sömu laga. Kærendur telja það algerlega ótækt að láta þau gjalda fyrir mistök sem fyrrum talsmaður þeirra hafi gert í störfum sínum fyrir þau. Kærendur telja að með því að neita þeim um að fá hefðbundna málsmeðferð fyrir kærunefnd og fá ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra skoðaðar á æðra stigi verði þau fyrir miklum réttarspjöllum. Kærendur telja að með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga sé, með tilliti til mistaka fyrrum talsmanns þeirra, afsakanlegt að kæra í málum þeirra hafi ekki borist fyrr. Þá mæli veigamiklar ástæður, skv. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, með því að kæra þeirra verði tekin til kærumeðferðar hjá kærunefnd þar sem um öryggi og líf fjölskyldunnar sé að ræða og að gögn mála þeirra beri ótvírætt með sér um að líf þeirra sé raunverulega í hættu í heimaríki og beri því að veita þeim alþjóðlega vernd á Íslandi.
III. Niðurstaða
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“
Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt sé að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér geti t.a.m. fallið undir þau tilvik ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitir rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi megi taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæli með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar hefur í stjórnsýsluframkvæmd meðal annars verið litið til hagsmuna aðila máls svo og almannahagsmuna, t.a.m. hvort mál hafi fordæmisgildi.
Hinn 29. mars 2023 voru ákvarðanir Útlendingastofnunar sem fyrr segir sendar fyrrum talsmanni kærenda með rafrænum hætti í gegnum Signet transfer, sbr. 4. mgr. 44. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, og voru því sannanlega aðgengilegar talsmanni kæranda þann dag. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar var, í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og hvert kærendur skyldu beina kæru. Ekki verður séð að þær upplýsingar sem kærendum voru veittar í ákvörðunum Útlendingastofnunar varðandi kæru til kærunefndar útlendingamála hafi verið ófullnægjandi eða að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt.
Í 7. gr. laga um útlendinga kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Kveðið er á um útreikning frests í 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga á eftirfarandi hátt: ,,Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum.“ Samkvæmt þessu var fyrsti dagur kærufrests í málum kærenda og barna þeirra 30. mars 2023 og síðasti dagur 15 daga frestsins 13. apríl 2023. Var kærufrestur því liðinn er kæran barst kærunefnd útlendingamála 14. apríl 2023.
Samkvæmt skipunarbréfi Útlendingastofnunar, dags. 21. september 2022, var kærendum og börnum þeirra skipaður talsmaður í samræmi við 30. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er hlutverk talsmanns að koma fram fyrir hönd umsækjanda og veita honum liðsinni. Samkvæmt leiðbeiningum á vef Útlendingastofnunar hefst hlutverk talsmanns við skipun hans og lýkur við endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi. Ljóst er að skipaður talsmaður kærenda og barna þeirra bar ábyrgð á því að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar innan lögbundins kærufrests. Gögn málsins, einkum framlögð WhatsApp samskipti milli kærenda og fyrrum talsmanns þeirra, gefa til kynna að sá talsmaður hafi ekki gefið kærendum misvísandi upplýsingar um störf hans fyrir þau eftir að ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra voru birtar honum. Í greinargerð kærenda er afrit af samskiptum K við núverandi talsmann, dags. 28. apríl 2023, þar tjáir hún talsmanni að þann 1. apríl 2023 hafi fyrrum talsmaður tjáð kærendum að Útlendingastofnun hefði synjað umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd og að þau gætu kært ákvarðanir stofnunarinnar. Samkvæmt framangreindu var kærendum kunnugt 1. apríl 2023 að Útlendingastofnun væri búin að komast að neikvæðri niðurstöðu í málum þeirra. Þá hafa einstaklingar sem hafa fengið ákvarðanir frá Útlendingastofnun ávallt þann kost að hafa sjálfir samband við stofnunina með fyrirspurnir um mál sín þrátt fyrir að hafa skipaðan talsmann sem kemur fram fyrir þeirra hönd og veitir þeim liðsinni. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærendur hafi haft samband við Útlendingastofnun eða kærunefnd vegna starfa talsmanns síns. Er það á ábyrgð umsækjenda um alþjóðlega vernd og talsmanna þeirra að fylgja eftir framgangi mála sinna hjá stjórnvöldum, m.a. að kynna sér kærufresti og leita eftir frekari upplýsingum stjórnvalda telji þeir þörf á því.
Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé afsakanlegt að kæra kærenda hafi borist of seint. Það er því niðurstaða kærunefndar að ekki beri að taka kæruna til meðferðar á grundvelli 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, þ.m.t. ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra. Að mati nefndarinnar verður ekki ráðið af gögnum málsins að hagsmunir kærenda, barna þeirra eða almannahagsmunir krefjist þess að málið verði tekið til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þótt fallast megi á það með kærendum að ákvarðanir er lúta að alþjóðlegri vernd og mannúðarvernd séu í eðli sínu veigamiklar, og hagsmunir aðila slíkra mála miklir, þá er í 7. gr. laga um útlendinga mælt fyrir um kærufrest til kærunefndar vegna slíkra ákvarðana og verður ekki vikið frá honum nema veigamikil rök mæli með því. Að öðrum kosti væri kærufresturinn til lítils í ljósi eðlis málaflokksins.
Kærunefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum, s.s. úrskurði nr. 35/2023, lagt til grundvallar að aðstæður í heimaríki kærenda standi að jafnaði endursendingum þangað ekki í vegi. Í ákvörðunum sínum lagði Útlendingastofnun mat á einstaklingsbundnar aðstæður kærenda og barna þeirra. Var í ákvörðunum Útlendingastofnunar sérstaklega litið til hagsmuna barna kærenda og verður ekki séð að ágallar hafi verið á vinnslu málsins hjá Útlendingastofnun.
Kærunefnd bendir kærendum á að telji þau aðstæður í málum sínum og barna sinna gefa tilefni til geta þau lagt fram endurteknar umsóknir hjá Útlendingastofnun samkvæmt 35. gr. a laga um útlendinga.
Með vísan til framangreinds er kæru kærenda vísað frá.
Úrskurðarorð:
Kæru kærenda á ákvörðunum Útlendingastofnunar er vísað frá.
The applicants’ appeals of the decisions of the Directorate of Immigration are dismissed.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir
Sindri M. StephensenÞorbjörg I. Jónsdóttir