Hoppa yfir valmynd
7. maí 2019 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Framfaraskref fyrir íslenskt vísindasamfélag: ný lög um opinberan stuðning við rannsóknir

Ný lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir sem samþykkt voru á Alþingi í gær bæta stoðkerfi rannsókna og vísinda á Íslandi og auka möguleika íslenskra vísindamanna til þátttöku í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi. Nýju lögin auðvelda meðal annars þátttöku Rannsóknasjóðs í samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaáætlana og heimila að sjálfstæð stjórn verði sett yfir Innviðasjóð.

Sameiginleg stjórn hefur verið yfir Rannsóknasjóði og Innviðasjóði þrátt fyrir að eðli sjóðanna sé talsvert ólíkt. Rannsóknasjóður veitir styrki til einstakra rannsóknaverkefna án þess að sjóðurinn leggi áherslu á tiltekin fræðasvið eða rannsóknarefni. Hlutverk Innviðasjóðs er hins vegar að byggja upp rannsóknainnviði á Íslandi en þeir eru nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að stunda vísindarannsóknir. Rannsóknainnviðir eru aðstaða, aðföng og þjónusta sem vísindamenn nýta við rannsóknir og til að stuðla að nýsköpun á fagsviðum sínum. Til rannsóknainnviða teljast til dæmis sérhæfður tækjabúnaður, skjala- og gagnasöfn, rafrænir innviðir svo sem háhraðatengingar, samskiptanet og önnur tæki sem geta talist ómissandi og nauðsynleg til að ná árangri í rannsóknum og nýsköpun.

Með lögunum verður sú breyting að Rannsóknasjóði verður gert kleift að taka þátt í verkefnum sem krefjast alþjóðlegrar samfjármögnunar. Slík samfjármögnun felur í sér að rannsóknasjóðir frá mismunandi löndum koma sér saman um áætlanir með áherslu á sérstök svið ásamt því að skipa sameiginlega fagráð til að meta umsóknir. Í slíkum samstarfsverkefnum rannsóknasjóða verður stjórn Rannsóknasjóðs heimilt að taka ákvarðanir um styrki á grundvelli umsagna fagráða sem skipuð eru sameiginlega af samstarfsaðilum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging
4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum