Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2012 Dómsmálaráðuneytið

Hæstiréttur Íslands hafnar kröfum um að ógilda forsetakosningarnar

Hæstiréttur hefur hafnað kröfu Ásdísar Jennu Ástráðsdóttur, Guðmundar Magnússonar og Rúnars Björns Herrera Þorkelssonar um að forsetakjörið 30. júní verði lýst ógilt. Þá hefur Hæstiréttur einnig hafnað kröfu Ástþórs Magnússonar Wium um að ógilda kosningarnar. Þetta kemur fram í endurritum úr gerðabók Hæstaréttar í dag sem innanríkisráðuneytinu hefur borist.

Kæra Ástþórs Magnússonar Wium laut að því að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis, sem gefið hafði út vottorð 22. maí 2012 þar sem tekin voru gild meðmæli úr Vestfirðingafjórðungi með framboði Ástþórs, hefði ekki verið heimilt að afturkalla þá stjórnsýsluákvörðun. Ástæðan sé sú að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því sé ákvörðun yfirkjörstjórnar 25. maí um afturköllun vottorðsins ógild. Einnig er kæran reist á því að ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 1. júní um að framboðið teljist ekki gilt þar sem vottorð yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis hafi ekki legið fyrir hafi byggt á ólögmætum sjónarmiðum. Þá telur kærandi að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hafi farið út fyrir verksvið sitt með því að standa að könnun á meðmælendalistum kærandans.

Í ákvörðun Hæstiréttar segir að vegna þess galla sem verið hafi á framboði Ástþórs Magnússonar Wium hafi yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis verið rétt að afturkalla að eigin frumkvæði hinn 25. maí ákvörðun frá 22. maí um að gefa út vottorðið enda hafi sú ákvörðun verið ógildanleg. Því til samræmis hafi innanríkisráðuneytinu verið skylt að hafna framboði Ástþórs eins og gert hafi verið 1. júní.

Tilefni kæru þremenninganna er að kjósendum, sem ekki var fært að kjósa með eigin hendi í forsetakosningunum, hafi ekki verið heimilað að að njóta þar liðsinnis aðstoðarmanns að eigin vali heldur hafi þeim verið gert að fá aðstoð eins af kjörstjórnarmönnum í viðeigandi kjördeild til að rita á kjörseðil. Kjósendum sem ekki hafi unað þessu hafi verið meinað að neyta atkvæðisréttar síns.

Hæstiréttur telur að engin heimild sé til þess í lögum að annar en kjörstjórnarmaður veiti kjósanda aðstoð við atkvæðagreiðslu á kjörstað. Kjörstjórnarmanni sé ekki heimilt að færast undan þessari skyldu og leyfa öðrum að veita kjósanda aðstoð í sinn stað enda hvíli engin lögmæt skylda á þeim sem ekki á sæti í kjörstjórn að halda því leyndu hvernig kjósandi hefur greitt atkvæði við þessar aðstæður.

Hæstiréttur vísar til þess í ákvörðun sinni að í 86. gr. laga nr. 24/2000 sé mælt svo fyrir að skýri kjósandi kjörstjórn svo frá að hann sé ekki fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skuli sá úr kjörstjórninni, sem kjósandi nefndir til, veita honum aðstoð til þess í kjörklefa enda sé sá sem aðstoðina veitir bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Segir Hæstiréttur að sú skipan sem mælt sé fyrir um í áðurgreindu lagaákvæði sé ekki andstæð stjórnarskránni. Aðrar heimildir sem kærendur hafi vísað til geti heldur ekki staðið til þess að krafa þeirra um ógildingu forsetakjörs verði tekin til greina.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira