Hoppa yfir valmynd
25. maí 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 205/2022 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 25. maí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 205/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22040045

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...]

 

  1. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU21030064, dags. 10. júní 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 4. mars 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Gana (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

    Niðurstaða kærunefndar var birt fyrir kæranda hinn 14. júní 2021. Hinn 21. júní 2021 barst beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar sem synjað var með úrskurði hinn 15. júlí 2021. Hinn 22. apríl 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Hinn 27. apríl 2022 bárust upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra um málsmeðferð í máli kæranda. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 5. maí 2022, voru kæranda kynntar framangreindar upplýsingar og veittur frestur til andmæla í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Engin andmæli bárust frá kæranda.

    Endurupptökubeiðni kæranda byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

     

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi fjallar í greinargerð sinni um 1. mgr. 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) en þar sé mælt fyrir um tiltekna fresti er varðar flutning umsækjenda um alþjóðlega vernd milli aðildarríkja. Frestur til að flytja kæranda samkvæmt greininni hafi runnið út hinn 10. desember 2021 og því sé farið fram á endurupptöku málsins hjá kærunefnd útlendingamála með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland Dyflinnarreglugerðina, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Hinn 18. janúar 2021 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari frá þýskum yfirvöldum, dags. 21. janúar 2021, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Við rekstur máls sem fer samkvæmt fyrirkomulagi Dyflinnarreglugerðarinnar þurfa stjórnvöld að gæta að tilteknum tímafrestum, sbr. m.a. 1. og 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um fyrirkomulag og fresti. Í því ákvæði felst m.a. að flutningur á umsækjanda skal fara fram innan sex mánaða frá því að lokaákvörðun var tekin um kæru eða endurskoðun. Þó er heimilt í undantekningartilvikum að framlengja frest til flutnings í að hámarki 18 mánuði ef hlutaðeigandi einstaklingur hleypst á brott (e. abscond). Ef umræddir frestir líða leiðir það til þess að ábyrgð á viðkomandi umsókn um alþjóðlega vernd færist sjálfkrafa yfir til þess aðildarríkis sem leggur fram beiðni, sbr. til hliðsjónar dómur Evrópudómstólsins í máli Shiri, C-201/16, frá 25. október 2017 (26.-34. mgr. dómsins). Ef frestir samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar líða er íslenskum stjórnvöldum því ekki lengur heimilt að krefja viðkomandi ríki um viðtöku einstaklings í skilningi c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU19040090 frá 9. maí 2019 ákvað kærunefnd að þegar mál hefur verið kært til kærunefndar og réttaráhrifum frestað yrði upphafstími þessa frests miðaður við dagsetningu birtingar úrskurðar kærunefndar. Eins og að framan greinir samþykktu þýsk stjórnvöld endurviðtökubeiðni íslenskra stjórnvalda hinn 21. janúar 2021. Þá var endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi birt fyrir kæranda hinn 14. júní 2021. Rann því upphaflegur sex mánaða frestur til þess að flytja kæranda úr landi út hinn 14. desember 2021.

Hinn 26. apríl 2022 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um flutning kæranda til viðtökuríkis, s.s. hvort frestur til flutnings hafi verið framlengdur úr sex mánuðum í 18 mánuði, sbr. 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari Útlendingastofnunar, dags. 26. apríl 2022, kemur fram að frestur til að flytja kæranda hafi verið framlengdur, sbr. 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en hann hafi verið skráður horfinn og eftirlýstur frá 23. ágúst 2021. Miðað við það sé frestur til að flytja kæranda til og með 21. júlí 2022, eða 18 mánuðum eftir að samþykki barst frá þýskum stjórnvöldum. Samkvæmt skráningu í málaskrá Útlendingastofnunar hafi talsmaður kæranda verið upplýstur um að kærandi hafi látið sig hverfa og samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg, þar sem hann hafi verið í þjónustu, hefði kærandi ekki veitt upplýsingar um dvalarstað sinn fyrir flutning og ekki látið ná í sig. Svar stoðdeildar við fyrirspurn kærunefndar barst hinn 27. apríl 2022. Þar kemur fram að hinn 16. ágúst 2021 hafi stoðdeild haft samband við kæranda símleiðis og tjáð honum að það væri verið að undirbúa brottför frá Íslandi. Hafi kærandi af því tilefni bent á lögmann sinn. Hinn 17. ágúst 2021 hafi tölvubréf verið sent á viðtökuríki og farpöntun gerð fyrir kæranda og áætluð brottför verið 24. ágúst 2021. Hinn 18. ágúst 2021 hafi verið haft samband við kæranda að nýju og stoðdeild mælt sér mót við hann á búsetustað daginn eftir en þegar þar hafi verið komið hafi kærandi ekki verið á staðnum og verið búinn að taka eigur sínar úr herberginu. Hafi póstur verið sendur á stjórnvöld í Þýskalandi hinn 23. ágúst 2021 þar sem ferðinni hafi verið aflýst og kærandi settur í kjölfarið í eftirlýsingu.

Kærunefnd tekur fram að samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er almennt lagt til grundvallar að flutningur hlutaðeigandi einstaklings til ábyrgs aðildarríkis skuli fara fram innan 6 mánaða frá þar tilgreindum tímamörkum, þ.e. til dæmis eftir að lokaákvörðun hefur verið tekin um kæru, hafi réttaráhrifum verið frestað. Framlenging á þeim tímafresti í 18 mánuði, sbr. 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar, felur í sér undantekningu frá þeirri almennu reglu. Í því ljósi og með hliðsjón af því að sex mánaða tímafrestinum er ætlað að tryggja að flutningur fari fram eins skjótt og hægt er í þágu umsækjanda telur nefndin að stjórnvöld þurfi að sýna fram á í hverju tilviki fyrir sig og með fullnægjandi hætti að hlutaðeigandi einstaklingur hafi hlaupist á brott svo komið geti til beitingar 18 mánaða frests 2. mgr. 29. gr.

Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hefur hugtakið að hlaupast á brott (e. abscond) í skilningi 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar verið skýrt sem svo að það geti gefið til kynna ásetning hlutaðeigandi einstaklings um að komast undan einhverju eða flýja einhvern, í þessu tilviki yfirvöld eða fyrirhugaðan flutning á viðkomandi, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstálsins í máli Jawo, C-163/17, frá 19. mars 2019. Samkvæmt þeim dómi, sem kærunefnd telur að hafa megi nokkra hliðsjón af, verða þær kröfur þó ekki gerðar til stjórnvalda að þurfa að færa fram sönnur um ásetning hlutaðeigandi einstaklings um að hlaupast á brott. Samkvæmt dómi Evrópudómstólsins í máli Jawo taldi dómstóllinn að yfirgefi aðili búsetuúrræði sitt án þess að upplýsa stjórnvöld um fjarveru sína geti stjórnvöld metið það svo að honum hefði staðið ásetningur til að hlaupast á brott, með þeim fyrirvara þó að honum hafi verið gerð grein fyrir þessari tilkynningarskyldu sinni og afleiðingum þess að henni sé ekki sinnt.

Í því máli sem hér er til meðferðar stóð til að flytja kæranda hinn 24. ágúst 2021. Þegar lögreglumenn hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra hugðust hitta kæranda fyrir hinn 19. ágúst kom í ljós að hann hafði yfirgefið búsetuúrræði sitt og tekið saman eigur sínar. Hafi kærandi verið settur í eftirlýsingu hinn 23. ágúst 2021, tilkynning send á þýsk stjórnvöld og benda gögn málsins ekki til annars en að ekki hafi spurst til kæranda frá þessu tímamarki. Af gögnum málsins verður séð að kæranda hafi, við upphaf málsmeðferðar, m.a. verið leiðbeint um að honum væri skylt að gefa sig fram við Útlendingastofnun. Þá var kæranda kynnt að ef hann gæti ekki gefið lögmæta ástæðu fyrir fjarveru sinni þá gæti það orðið til þess að hann yrði skráður horfinn. Af framangreindu er ljóst að kæranda hafi með formlegum hætti verið leiðbeint um skyldur hans gagnvart stjórnvöldum við upphaf málsmeðferðar. Framangreindur dómur í máli Jawo ber með sér að upplýsingagjöf og leiðbeiningar til umsækjenda um alþjóðlega vernd hafi vægi við mat á því hvort talið verði að viðkomandi einstaklingur hafi hlaupist á brott. Af gögnum málsins verður ráðið að kæranda hafi verið leiðbeint með fullnægjandi hætti við meðferð málsins um skyldur sínar gagnvart stjórnvöldum og hvaða afleiðingar það hefði í för með sér ef hann sinnti ekki umræddum skyldum sínum. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi hlaupist á brott í skilningi 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar með því að yfirgefa búsetuúrræði sitt fyrirvaralaust enda var kæranda fullkunnugt um fyrirhugaðan flutning til Þýskalands hinn 24. ágúst 2021.

Í ljósi framangreinds er því ljóst að frestur til að flytja kæranda til viðtökuríkis er ekki liðinn og ber Þýskaland enn ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd. Af því leiðir að skilyrði 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar fyrir því að Ísland beri ábyrgð á umsókn hans um alþjóðlega vernd eru ekki uppfyllt. Er beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðar kærunefndar því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                 Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum