Hoppa yfir valmynd
19. desember 2018 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/2018 - Úrskurður

Mál nr. 7/2018

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Lögreglustjóranum á Suðurlandi

 

Skipun í embætti. Hæfnismat. Málskostnaður.

Kærð var skipun aðalvarðstjóra við Embætti lögreglustjórans á Suðurlandi og byggt á því af hálfu kæranda að kona sem skipuð var í embættið hefði fengið of mörg stig en hann sjálfur of fá þegar hæfni þeirra var metin samkvæmt stigakrefi sem kærði nýtti við mat á umsækjendum með þeirri afleiðingu að niðurstaðan hafi orðið röng. Þar sem hann hefði átt að fá fleiri stig en hún hafi skipun hennar brotið í bága við lög nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna þar sem hann hefði verið hæfari en hún. Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að kærði hefði lagt til grundvallar fyrir fram mótað matskerfi til að meta hæfni umsækjenda þar sem ekki hallaði á annað kynið. Því kerfi hefði kærandi fylgt í öllum aðalatriðum þannig að ekki væru forsendur til að telja að jafnréttislög hefðu verið brotin þegar kærandi var ekki skipaður í stöðu aðalvarðstjóra hjá kærða.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 19. desember 2018 er tekið fyrir mál nr. 7/2018 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dagsettri 20. ágúst 2018, kærði Eiríkur Ben. Ragnarsson lögmaður fyrir hönd A ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi um að skipa konu í stöðu aðalvarðstjóra almennrar deildar. Kærandi telur að með ráðningunni hafi lögreglustjórinn brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 27. ágúst 2018. Kærði fékk framlengdan frest til að skila greinargerð í málinu, en hún barst með bréfi, dagsettu 26. september 2018, og var kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 3. október 2018.
 4. Kærunefnd barst bréf kæranda, dagsett 12. október 2018, með athugasemdum við greinargerð kærða sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 19. október 2018.
 5. Með greinargerð kærða fylgdu skjöl sem báru yfirskriftirnar „ráðningarviðtal“ og „lokamat“ og voru bæði óútfyllt. Með bréfi, dagsettu 24. október 2018, óskaði kærunefnd eftir þeim gögnum útfylltum vegna kæranda og þeirrar sem starfið hlaut. Umbeðin gögn bárust kærunefnd með tölvupósti kærða, sendum 6. nóvember 2018. Gögnin voru send kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 9. nóvember 2018, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Athugasemdir kæranda, dags. 12. nóvember 2018, bárust kærunefnd og voru þær sendar kærða með bréfi, dagsettu 27. nóvember 2018.
 6. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 9. nóvember 2018, var óskað eftir því við kærða að hann upplýsti nefndina um hvort matskerfi, sem notað hafi verið til að meta hæfni umsækjenda, hafi verið útbúið fyrir eða eftir að umsóknir um stöðuna bárust og hvort það hafi verið útbúið í tilefni af þessari ráðningu eða hvort það hafi almennt verið notað við ráðningar hjá kærða. Einnig var óskað upplýsinga um hversu umfangsmikil menntun umsækjenda hafi þurft að vera til að fylla matsliðinn „Aukin menntun“ í umræddu matskerfi. Þá var óskað eftir samsvarandi gögnum um þá tvo aðra umsækjendur sem fengu jafn mörg stig samkvæmt matskerfinu og sú sem skipuð var. Upplýsingarnar bárust kærunefnd með tölvupósti kærða, sendum 15. nóvember 2018, og voru þær sendar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 27. nóvember 2018. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dagsettu 29. nóvember 2018, og voru þær sendar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag.
 7. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR

 8. Kærði auglýsti 24. janúar 2018 lausa til umsóknar nýja stöðu aðalvarðstjóra almennrar deildar á vef Stjórnarráðs Íslands, sbr. auglýsingu nr. 201801/207.
 9. Í auglýsingu kom fram að verksvið aðalvarðstjóra almennrar deildar væri meðal annars eftirfarandi: Rannsóknir mála í almennri deild – umsjón, eftirfylgni og fræðsla. Ráðgjöf til varðstjóra/starfsmanna um afgreiðslu mála. Greining mála – yfirfara skráningar Löke – mál séu færð rétt. Varsla og skráning gagna – umsjón/ábyrgð – samantektir. Fræðsla, umsjón og skipulag á fræðslu fyrir almennu deildina. Starfsnám lögreglunema – umsjón í almennri deild. Yfirumsjón með fræðslu og þjálfun vegna valdbeitingar lögreglumanna. Önnur verkefni í samráði við yfirlögregluþjón almennrar deildar.
 10. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar menntunar- og hæfniskröfur. Þar var áskilin góð þekking á rannsóknum, greiningum og afgreiðslu mála í almennri deild. Hæfni til að tjá sig og fræða aðra. Góð þekking á Löke. Hæfni til vinnu á helstu ritvinnslu- og reikniforrit, svo sem word og exel. Þá voru gerðar kröfur um að viðkomandi væri skipulagður í störfum, góður í mannlegum samskiptum, hefði frumkvæði og byggi yfir reynslu af stjórnun í lögreglu. Loks voru gerðar kröfur um próf frá Lögregluskóla ríkisins og störf hjá lögreglu í að minnsta kosti tvö ár.
 11. Umsóknarfrestur rann út 15. febrúar 2018 og var tekið fram að lögreglustjóri myndi skipa í stöðuna frá og með 1. apríl 2018.
 12. Alls bárust sjö umsóknir, ein frá konu og sex frá körlum, og voru allir umsækjendur teknir í sérstakt ráðningarviðtal. Lögreglustjóri tók viðtölin ásamt þremur öðrum yfirmönnum kærða og mátu þeir sjálfstætt umsækjendur eftir viðtölin. Umsækjendur voru metnir eftir 6 hæfnisþáttum og lágu fyrir skilgreiningar á stigagjöf fyrir hvern þátt. Að því loknu lagði yfirstjórn kærða til að kona yrði skipuð í stöðuna. Samkvæmt bréfi hæfnisnefndar lögreglu, dagsettu 4. apríl 2018, var það niðurstaða nefndarinnar að niðurstaða kærða um að skipa konuna í stöðuna væri byggð á málefnalegum sjónarmiðum og væri bæði lögmæt og réttmæt.
 13. Með tölvupósti kærða, sem sendur var 11. apríl 2018, var tilkynnt um skipan konunnar í stöðuna og upplýst að sú niðurstaða væri í samræmi við niðurstöðu hæfnisnefndar. Kærandi fór fram á rökstuðning vegna skipunarinnar með tölvupósti, sendum 13. apríl 2018. Með bréfi kærða, dagsettu 30. apríl 2018, var umbeðinn rökstuðningur veittur.
 14. Með bréfi kæranda, dagsettu 2. maí 2018, óskaði hann eftir gögnum vegna umsóknar sinnar og þeirrar sem skipuð var ásamt öllum öðrum gögnum vegna afgreiðslu málsins. Með tölvupósti kærða, sendum 17. maí 2018, var hluti þeirra gagna sem kærandi óskaði eftir afhentur.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 15. Í kæru kemur fram að kærandi geri kröfu um að kærunefnd jafnréttismála úrskurði að með ráðningu í starf aðalvarðstjóra í almennri deild kærða hafi hann brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá er þess jafnframt krafist að kærða verði gert að greiða málskostnað fallist kærunefnd á kröfu kæranda, sbr. 5. mgr. 5. gr. laganna.
 16. Umsækjendur um stöðuna hafi verið metnir af sérstakri valnefnd kærða sem skipuð hafi verið fjórum karlmönnum, lögreglustjóra, staðgengli lögreglustjóra og tveimur yfirlögregluþjónum. Í umsögn þeirra um þá umsækjendur sem hafi fengið flest stig samkvæmt matskerfi lögreglunnar segi: „Ljóst var að um mjög hæfa einstaklinga var að ræða og mjög lítill munur í mati á þeim, þ.e. þeim sem eru með 13-15 stig og í raun erfitt að gera upp á milli þeirra.“
 17. Þau áhersluatriði sem kærði hafi haft til hliðsjónar við mat sitt hafi verið:

  1. Aukin menntun (2 stig mest)

  2. Reynsla af lögreglustörfum (2 stig mest)

  3. Stjórnunarreynsla þ.e. a) verkefnastjórnun (3 stig mest) og

  b) starfsmannastjórnun (3 stig mest)

  4. Rannsóknarreynsla (3 stig mest)

  5. Önnur reynsla (1 stig mest)

  6. Persónubundnir þættir (4 stig mest)

 18. Mest hafi verið hægt að fá 18 stig fyrir framangreind atriði. Kærandi hafi fengið 13 stig en sú sem skipuð hafi verið 15 stig.
 19. Kærandi telji að hann hafi fengið of fá stig í framangreindu mati en sú sem skipuð var of mörg. Því til rökstuðnings bendi hann á að varðandi lið 1 hafi þau bæði fengið jafnmörg stig þrátt fyrir að kærandi hafi lokið meistaranámi sem klárlega nýtist í starfi á meðan sú sem skipuð var hafi að því er virðist ekki lokið grunngráðu í háskóla.
 20. Varðandi lið 2 hafi þau fengið jafnmörg stig þrátt fyrir að kærandi hafi umtalsvert víðtækari reynslu af löggæslustörfum.
 21. Varðandi lið 3 sé rétt að benda á að sú sem var skipuð hafi fengið fullt hús stiga fyrir starfsmannastjórnun eða meira en 10 ár. Samkvæmt gögnum hafi hún starfað sem varðstjóri frá 2007-2016. Hún hafi byrjað í öðru starfi í október 2016 og því hafi hún ekki náð fullum 10 árum sem varðstjóri. Kærði hafi ekki sýnt fram á að hann hafi staðreynt 10 ára starfsreynslu en engu að síður gefið henni fullt hús stiga. Hún hafi jafnframt fengið fullt hús stiga fyrir verkefnastjórnun eða jafnmörg stig og kærandi. Það sé athyglisvert í ljósi þeirrar staðreyndar að hann hafi stýrt einni af stærstu fíkniefnarannsóknum sem farið hafi fram hér á landi ásamt því að rannsaka bankahrunið.
 22. Varðandi lið 4 sé rétt að benda á að munur á milli kæranda og þeirrar sem var skipuð sé eitt stig. Munurinn sé ekki meiri þrátt fyrir að hún hafi unnið við rannsóknir í rúmlega ár en kærandi starfað við fíkniefnarannsóknir frá 2005-2010 og 2011-2012, hjá Embætti sérstaks saksóknara frá 2012-2013, auk þess sem hann hafi sinnt rannsóknum samhliða varðstjórastöðu í […] frá þeim tíma þar til hann hafi verið settur í starf rannsóknarlögreglumanns á […].
 23. Varðandi lið 5 hafi sú sem var skipuð fengið eitt stig en kærandi ekkert. Við mat á því hafi kærði horft til hæfileika sem gætu nýst við starfið. Ekki sé tilgreint hvaða hæfileika sú sem var skipuð hafi umfram kæranda og sé það sérstakt í ljósi þess munar sem kærandi hafi umfram hana með tilliti til menntunar, reynslu og hæfileika í starfi.
 24. Að lokum hafi verið gefin mest 4 stig fyrir persónubundna þætti en bæði sú sem var skipuð og kærandi hafi fengið 3 stig í þeim flokki sem teljist matskenndur.
 25. Þar sem kærandi hafi verið ósáttur við framangreint mat hafi hann óskað eftir upplýsingum um stigagjöf og/eða minnispunkta sérhvers nefndarmanns vegna viðtala og kynninga umsækjenda, gagngert til þess að geta borið sig saman við þá konu sem var skipuð. Kærði hafi hafnað því að veita framangreind gögn í tölvupósti, sendum 17. maí 2018, með vísan til þess að þau teldust til vinnugagna. Þess megi geta að í umsókn þeirrar sem var skipuð tilgreini hún einn af nefndarmönnum sem umsagnaraðila.
 26. Sá sem sæki um opinbert starf geti krafist þess að fá að sjá og kynna sér gögn um aðra umsækjendur. Þrátt fyrir að takmarkanir geti verið á því, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, séu þær ekki fortakslausar. Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 3091/2000 segi: „Þannig hefur umsækjandi ríkari hagsmuni af því að kynna sér gögn sem hafa að geyma upplýsingar um þann umsækjanda sem ráðinn hefur verið í viðkomandi starf en aðra umsækjendur. Er því jafnan heimilt að ganga lengra í takmörkunum á aðgengi að upplýsingum samkvæmt 17. gr. ssl. um umsækjendur sem ekki hafa fengið starfið en um þá sem voru ráðnir í það.“
 27. Svar kærða sé ekki til þess fallið að kærandi geti borið sig saman við þann einstakling sem hafi verið skipaður í starfið. Þrátt fyrir að kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni sé honum enn þann dag í dag allsendis óljóst af hverju sá einstaklingur sem starfið hafi hlotið hafi verið valinn frekar en hann.
 28. Kærandi telji að kærði hafi með skipun í starfið brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008. Kæran styðjist við 1. mgr. 6. gr. sömu laga og byggi þannig á því að við skipun í umrætt starf hafi framangreind 26. gr. laganna verið brotin og kynferði fremur en hæfni til starfsins verið látin ráða för.
 29. Í rökstuðningi kærða, sem hafi borist kæranda 30. apríl 2018, segi orðrétt: „Þegar horft er til þess að allir yfirmenn embættisins, báðir yfirlögregluþjónarnir sem og lögreglufulltrúi eru karlmenn en engin kona gegnir stjórnunarstöðu við embættið utan einnar varðstjórastöðu þótti því rétt út frá jafnréttissjónarmiðum og að auka hlut kvenna við stjórnun embættisins að A yrði skipuð í stöðuna.“
 30. Kærandi vísi þessum sjónarmiðum á bug og telji að ekki sé hægt að horfa til jafnréttissjónarmiða nema kærandi og sú sem fengið hafi starfið hafi verið jafnhæf en sú hafi ekki verið raunin að mati kæranda. Kærandi telji að gögn málsins sýni fram á að hann sé fremri þeirri sem var skipuð og öðrum umsækjendum þegar horft sé til auglýsingar og málefnalegra sjónarmiða eins og menntunar, starfsreynslu, hæfni og þeirra persónulegra eiginleika sem skipti máli við rækslu starfsins. Markmið jafnréttislaga sé að koma á jafnrétti og veita konum og körlum jöfn tækifæri en ekki sé að sjá að kærði hafi haft það markmið í heiðri við framangreinda skipun.
 31. Sú sem var skipuð hafi útskrifast úr lögregluskólanum í desember 2003. Samkvæmt umsókn hennar hafi hún byrjað störf sem lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurlandi árið 2004. Sumrin 2005 og 2006 kveðist hún hafa starfað sem rannsóknarlögreglumaður við embættið. Frá 2007–2016 hafi hún verið varðstjóri við sama embætti. Frá 20. október 2016 hafi hún starfað sem rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á […] þar til hún hafi verið skipuð í umþrætta stöðu. Því sé ljóst að hún fullnægi lágmarksskilyrðium 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1051/2006 um tveggja ára starfsreynslu í lögreglu eftir útskrift úr lögregluskólanum.
 32. Kærandi hafði starfað hjá lögreglunni í tæplega 19 ár þegar hann hafi sótt um starfið. Starfsreynsla hans sé víðtæk. Megi þar nefna almenna löggæslu, löggæslu á […], hverfalöggæslu, rannsóknir fíkniefnabrota, rannsóknir skipulagðrar brotastarfsemi, rannsóknir alvarlegra efnahagsbrota, þ.á m. mál sem snúi að efnahagshruninu árið 2008 og rannsóknir kynferðisbrota. Kærandi hafi verið varðstjóri hjá kærða, valdbeitingarþjálfari fyrir lögreglumenn ásamt því að sinna nýliðaþjálfun lögreglumanna undanfarin ár. Þess fyrir utan hafi hann starfað víðs vegar um landið við löggæslu, þ.e. á […]. Hann hafi í mörg ár verið í „fíkniefnateymi“ sem hafi starfað á vegum Ríkislögreglustjóra um verslunarmannahelgar. Kærandi hafi meðfram lögreglustarfi klárað grunn- og meistaragráðu í háskóla og sótt víðtæka menntun erlendis á sviði löggæslu. Megi þar nefna námskeið sem varði fíkniefnarannsóknir, skipulagða glæpahópa, skyggingar, fíkniefnaframleiðslu og fleira. Loks megi nefna að kærandi hafi verið formaður […] og stýrt félaginu árið […] en áður hafi hann setið í stjórn […].
 33. Starf aðalvarðstjóra við embætti kærða feli í sér ítarlegar kröfur samkvæmt framangreindri auglýsingu:

  1. Rannsóknir mála í almennri deild – umsjón, eftirfylgni og fræðsla.

  2. Ráðgjöf til varðstjóra/starfsmanna um afgreiðslu mála.

  3. Greining mála – yfirfer skráningar í Löke – mál séu færð rétt.

  4. Varsla og skráning gagna – umsjón/ábyrgð – samantektir.

  5. Fræðsla – umsjón og skipulag á fræðslu fyrir almennu deildina.

  6. Starfsnám lögreglunema – umsjón í almennri deild.

  7. Yfirumsjón með fræðslu og þjálfun vegna valdbeitingar lögreglumanna.

  8. Önnur verkefni í samráði við yfirlögregluþjón almennrar deildar.

 34. Þegar sérstök hæfisskilyrði séu tilgreind í auglýsingu verði veitingarvaldshafi að meta persónulega eiginleika út frá þeim sjónarmiðum sem tilgreind séu. Ekki sé hægt að koma með eftiráskýringar og halda því fram að það séu málefnaleg sjónarmið sem hafi ráðið för. Þegar horft sé til álita umboðsmanns Alþingis beri stjórnvaldi að fylgja kröfum og hæfisskilyrðum sem sett séu fram í auglýsingu um starf.
 35. Varðandi fyrsta tölulið í auglýsingu hafi kærandi yfirgripsmikla þekkingu í rannsóknum mála. Hann hafi unnið að og stýrt viðamestu rannsóknum sem komið hafi upp hér á landi, hvort sem um sé að ræða skipulagða brotastarfsemi eða rannsóknir mála sem hafi snúið að bankahruni. Jafnframt hafi hann aflað sér viðamikillar þekkingar erlendis sem varði slíkar rannsóknir. Megi þar nefna fíkniefnarannsóknir, skyggingar, rannsóknir á útlaga mótorhjólaklíkum, peningaþvætti, mansal, vændi og fleira. Kærandi leyfi sér að fullyrða að með einföldum samanburði á störfum hans innan lögreglunnar og þeirrar sem var skipuð megi hverjum manni vera það ljóst að reynsla hans sé ekki eingöngu mun yfirgripsmeiri heldur hafi hann yfirburðaþekkingu, reynslu og menntun á þessu sviði samanborið við þá sem sem skipuð hafi verið í starfið.
 36. Varðandi annan tölulið vísist til töluliðar eitt en einnig til þeirrar staðreyndar að kærandi hafi verið starfsmaður embættisins á þessum tíma en sú sem var skipuð hafði ekki verið starfsmaður í rúmlega eitt ár. Ljóst sé að verkferlar og starfslýsingar breytist hjá embættum og því verði að telja að kærandi hafi búið yfir meiri þekkingu á þessum þáttum en sú sem var skipuð.
 37. Varðandi þriðja tölulið beri að nefna að kærandi sé lögfræðimenntaður, hafi lokið 300 ECTS einingum, á meðan sú sem var skipuð hafi lokið örfáum einingum eða 54 ECTS einingum í sálfræði við […]. Greining sakamála fari þannig fram að ákveðin háttsemi sé heimfærð til laga og metið hvort haldið sé áfram með mál eður ei. Þrátt fyrir að slík heimfærsla geti stundum verið einföld skipti sköpum að mál séu rétt greind og færð í réttan feril þegar um sé að ræða alvarlega háttsemi, til dæmis kynferðisbrot og flókin fjármunabrot. Með vísan í framangreint hafi kærandi yfirburði í þessum flokki.
 38. Varðandi fjórða tölulið sé vísað í alla framangreinda töluliði. Starf kæranda hjá Embætti sérstaks saksóknara hafi meðal annars falist í utanumhaldi viðamikilla rannsókna. Því megi slá föstu að miðað við reynslu og menntun kæranda hafi hann yfirburði í þessum flokki gagnvart þeirri sem var skipuð.
 39. Varðandi fimmta tölulið skuli bent á þá staðreynd að kærandi hafi síðustu ár séð um fræðslu og þjálfun fyrir afleysingarfólk og aðra lögreglumenn. Sú þjálfun hafi falið í sér bæði valdbeitingar- og vopnaþjálfun. Kærandi hafi meðal annars verið sendur af embætti kærða á sérstakt námskeið vegna innleiðingar á þjálfunarferli sem kallist Iprep, eða árangursmiðuð álagsþjálfun. Kærandi hafi verið skot- og valdbeitingarþjálfari fyrir embættið og sé því með mun víðtækari reynslu og menntun en sú sem var skipuð og sé því mun hæfari til að sinna umsjón og fræðslu fyrir almennu deild lögreglunnar.
 40. Varðandi sjötta tölulið vísist til fimmta töluliðar. Kærandi hafi jafnframt aðstoðað lögreglufulltrúa rannsóknardeildar við starfsþjálfun hjá embættinu og skipulagt fræðsludaga, meðal annars á árinu 2018, þ.m.t. eftir að kærði hafði tekið ákvörðun um skipun.
 41. Varðandi sjöunda tölulið vísist til fimmta og sjötta töluliðar. Varðandi síðasta töluliðinn vísist í allt framangreint og að kærandi hafi þegar verið að sinna þeim verkefnum sem yfirlögregluþjónar hafi sett fyrir og hafi verið lýst yfir ánægju með þau störf innan embættis kærða.
 42. Hvað varði aðrar hæfniskröfur í starfsauglýsingunni telji kærandi sig standa mun framar hvað varði menntun, starfsaldur og starfsreynslu sem nýtist beint í umræddu starfi. Þar fyrir utan telji hann sig uppfylla mun betur þær kröfur sem settar hafi verið vegna starfsins.
 43. Hæfnisnefnd lögreglu sé skipuð samkvæmt 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, með síðari breytingum. Hæfnisnefndin veiti lögreglustjóra umsögn um fyrirhugaða skipun í embætti yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna og annarra lögreglumanna innan embættis hans, sbr. 4. lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga, sbr. a-lið 2. laga nr. 51/2014. Umræddri stöðuveitingu hafi verið vísað til hæfnisnefndar lögreglu. Nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu með vísan til gagna málsins að niðurstaða kærða um að skipa þá sem starfið hlaut í umþrætta stöðu hafi verið lögmæt og réttmæt. Í 6. gr. reglna um skipan og störf hæfnisnefndar lögreglu segi að verkefni hennar sé að yfirfara matsskýrslur lögreglustjóra og umsóknargögn og aðrar þær niðurstöður sem aflað sé til staðfestingar á því að málefnaleg og gild sjónarmið hafi ráðið niðurstöðum lögreglustjórans í matsskýrslu og að ráðningarferlið hafi byggt á lögmætum og réttmætum sjónarmiðum. Ekki verði betur séð en að hæfnisnefndin hafi farið út fyrir verksvið sitt en í umsögn hennar sé tilgreint sjónarmið sem kærði hafi ekki uppi. Um sé að ræða tilvísun í jafnréttis- og framkvæmdaráætlun Ríkislögreglustjóra. Ljóst sé að rökstuðningur með vísan í þá áætlun fari í bága við jafnréttislög og þá meginreglu stjórnsýslulaga um að skylt sé að velja þann umsækjanda sem sé hæfastur.
 44. Í rökstuðningi sínum hafi kærði vísað til þess, eins og áður hafi verið greint frá, að út frá jafnréttissjónarmiðum og til að auka hlut kvenna við stjórnun embættisins hafi verið rétt að skipa þá sem starfið hlaut í stöðuna. Þegar borin séu saman þau atriði sem hafa skuli til hliðsjónar við mat á því hvort um mismunun á grundvelli kynferðis sé að ræða, þ.e. menntun, sérþekking og aðrir sérstakir hæfileikar, verði ekki séð að sú sem var skipuð komist í námunda við kæranda nema hvað varði stjórnun þar sem kærandi telji sig jafnhæfan. Það sé meginregla stjórnsýsluréttar að skylt sé að velja þann umsækjanda sem sé hæfastur með tilliti til þeirra lögmætu sjónarmiða sem lögð séu til grundvallar hverju sinni. Þannig sé stjórnvaldi óheimilt að synja hæfasta umsækjandanum og ráða í hans stöðu óhæfari einstakling, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 4210/2010.
 45. Að öllu framangreindu virtu verði að telja að kærandi standi þeirri sem var skipuð mun framar í öllum þáttum, nema stjórnun, sem kærði hafi haft til hliðsjónar við auglýsingu á starfinu. Verði að telja að kærði hafi haft til hliðsjónar eftiráskýringar um að auka vægi kvenna í stjórnun hjá embættinu. Slík skýring sé hvorki eðlileg né málefnaleg.
 46. Vegna kröfu kæranda um að kærða verði gert að greiða málskostnað skuli bent á að kostnaður kæranda vegna þessarar kæru sé 20x40.000 kr. eða 800.000 kr., auk vsk.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 47. Kærði greinir frá því að sérstök starfslýsing fyrir umrædda stöðu liggi ekki fyrir en um sé að ræða nýja stöðu hjá kærða. Um verkefni og ábyrgð aðalvarðstjóra umfram þá þætti sem tilteknir séu í auglýsingu um stöðuna fari samkvæmt lögreglulögum nr. 90/1996 og reglugerð um starfsstig innan lögreglunnar nr. 1051/2006.
 48. Sjö umsóknir hafi borist um stöðuna. Samhliða auglýsingu um stöðuna hafi verið útbúið matskerfi til að meta hæfni umsækjenda og þannig draga fram þá þætti sem áhersla hafi verið lögð á. Mest hafi verið hægt að fá samtals 18 stig úr matinu.

  1. Aukin menntun 2 stig (1 stig fyrir aukna menntun í Lögregluskóla/lögreglufræðum og 1 stig fyrir annað, menntun verður að nýtast)

  2. Reynsla af lögreglustörfum 2 stig (1 stig minna en 10 ár, 2 stig 10 ár eða meira)

  3 Stjórnunarreynsla 6 stig a. Verkefnastjórnun 3 stig (1 stig minna en 5 ár, 2 stig 5-10 ár og 3 stig 10 ár+) b. Starfsmannastjórnun 3 stig (1 stig minna en 5 ár, 2 stig 5-10 ár og 3 stig 10 ár+) miðað er við stjórnun 3ja starfsmanna eða fleiri.

  4. Rannsóknarreynsla 3 stig (1 stig minna en 5 ár, 2 stig 5-10 ár og 3 stig 10 ár+)

  5. Önnur reynsla 1 stig (2 ár eða meira) 

  6. Persónubundnir þættir 4 stig (1 stig 20-25; 2 stig 26-33; 3 stig 34-37; 4 stig 38-40)

 49. Aukin menntun sé annars vegar metin aukin menntun í beinum lögreglufræðum, bæði frá Lögregluskóla ríkisins sem og frá öðrum sem hana veiti. Hins vegar sé horft til annarrar menntunar og þar sé ekki áskilið að umsækjendur hafi lokið háskólamenntun en þó tekið hana að hluta og þá einnig horft til annarar menntunar sem talin sé nýtast í starfinu.
 50. Við reynslu af lögreglustörfum sé einungis litið til starfstíma í lögreglu og það metið svo að eftir 10 ára starfstíma hafi umsækjendur náð þeirri reynslu að það skili fullu mati í þeim þætti.
 51. Þar sem stjórnunarreynsla vegi mjög þungt í mati á umsækjendum hafi þótt rétt að brjóta hana upp, annars vegar í verkefnastjórnun og hins vegar starfsmannastjórnun. Við starfsmannastjórnun hafi verið litið til þess að um væri að ræða stjórnun á þremur starfsmönnum eða meira. Við verkefnastjórnun hafi verið litið til stjórnunar einstakra verkefna, þar með talda stjórn á rannsóknum mála.
 52. Rannsóknarreynsla hafi verið metin eftir starfstíma og hversu lengi viðkomandi hafi starfað við rannsóknir mála í rannsóknardeild.
 53. Við mat á annarri reynslu hafi verið litið til starfa þar sem reynt hafi á hæfileika sem myndu nýtast viðkomandi í starfi aðalvarðstjóra.
 54. Persónubundnir þættir hafi verið metnir út frá ráðningarviðtali. Allir umsækjendur hafi verið teknir í sérstakt ráðningarviðtal. Öll viðtölin hafi verið byggð á stöðluðum spurningum, auk þess sem farið hafi verið yfir starfsumsóknir viðkomandi og spurt nánar út í einstaka þætti eftir því sem ástæða hafi verið til í því skyni að geta metið þá þætti betur. Þeir sem hafi tekið viðtölin hafi metið persónubundna þætti hvers og eins umsækjenda og hafi við það mat verið notast við sérstakt matsblað.
 55. Niðurstaða mats á hæfni umsækjenda hafi verið sú að fjórir umsækjendur hlutu fleiri stig samkvæmt matskerfinu en kærandi. Nánar tiltekið hafi þrír umsækjendur verið metnir jafnir með samtals 15 stig, tveir karlar og ein kona, einn umsækjandi með 14 stig og kærandi með 13 stig.
 56. Kærandi og sú sem var skipuð hafi verið með sama stigafjölda, þ.e. hámarksstigafjölda í fjórum af þeim sjö matsþáttum sem um ræði. Í einum matsþætti sé kærandi metinn hærri en sú sem skipuð var en í tveimur matsþáttum hafi hún verið metin hærri en kærandi.
 57. Með vísan til framangreinds telji kærði að hæfni umsækjenda hafi verið metin á jafnréttisgrundvelli og byggt á málefnalegum sjónarmiðum.
 58. Kærandi telji að hann hafi fengið of fá stig í umræddu mati og að sú sem var skipuð of mörg. Kærði hafni þessu og vísist í því sambandi meðal annars til þeirra aðferða sem raktar séu hér að framan og notaðar hafi verið við matið.
 59. Varðandi það sem fram komi í kæru um hvern matslið fyrir sig og samanburð kæranda á honum sjálfum og þeirri sem var skipuð vilji kærði koma eftirfarandi á framfæri.
 60. Matsliður 1. Bæði hafi kærandi og sú sem var skipuð lokið stúdentsprófi eða ígildi þess. Þá hafi þau bæði lokið fjölda námskeiða í lögregluskóla/lögreglufræðum og hvort um sig fengið eitt stig fyrir þann þátt. Kærandi hafi lokið meistaranámi sem nýtist í starfi og sú menntun gefið honum eitt stig samkvæmt matskerfinu. Sú sem var skipuð hafi lokið 54 ECTS einingum til BA prófs í sálfræði en auk þess lokið fjölda námskeiða á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands, allt menntun sem nýtist í starfi. Hún hafi fengið eitt stig fyrir þann þátt. Þannig hafi þau hvort um sig fengið samtals tvö stig fyrir þennan matslið. Eins og áður segi hafi ekki verið áskilið að umsækjendur hefðu lokið háskólagráðu heldur jafnframt horft til annarrar menntunar sem talin sé nýtast í starfinu.
 61. Matsliður 2. Að mati kærða blasi við að fullyrðing kæranda um að hann „hafi umtalsvert víðtækari reynslu af löggæslustörfum“ en sú sem var skipuð eigi ekki við rök að styðjast. Bæði hafi þau meira en 10 ára starfsreynslu og fái því hvort um sig tvö stig fyrir þennan matslið.
 62. Matsliður 3a. Kærandi hafi fengið fullt hús stiga eða þrjú stig fyrir þennan lið líkt og sú sem var skipuð, enda uppfylli þau bæði það skilyrði að hafa tíu ára reynslu eða meiri af stjórnun einstakra verkefna sem varðstjórar og rannsóknarlögreglumenn.
 63. Matsliður 3b. Sú sem var skipuð hafi verið skipuð í stöðu varðstjóra í almennri deild lögreglunnar á […] 1. apríl 2007. Hún hafi gegnt þeirri stöðu til loka október 2016 eða í 9 ár og 7 mánuði. Sem varðstjóri hafi hún verið stjórnandi vaktar með 4-7 starfsmenn. Þá hafi hún starfað sem launafulltrúi á skrifstofum […] frá 1991-1997. Það sé mat kærða með tilliti til eðlis þess starfs hennar að rétt hafi verið að meta það að minnsta kosti að hluta til undir þennan matslið þannig að sú sem var skipuð hafi yfir 10 ára reynslu af starfsmannastjórnun og því fengið þrjú stig. Kærandi hafi minna en 5 ára stjórnunarreynslu með þrjá eða fleiri starfsmenn og hafi því fengið eitt stig fyrir þennan lið.
 64. Matsliður 4. Sú sem var skipuð hafi starfað sem rannsóknarlögreglumaður í rannsóknardeild lögreglunnar á […] í fimm og hálfan mánuð árið 2005 og í þrjá mánuði árið 2006. Þá hafi hún verið rannsóknarlögreglumaður í miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á […] frá 1. nóvember 2016 til 15. maí 2018. Samtals hafi hún því starfað sem rannsóknarlögreglumaður í rannsóknardeild í tvö ár og tvo mánuði. Það hafi gefið henni eitt stig fyrir þennan matslið. Kærandi hafi aftur á móti um það bil níu ára starfsreynslu sem rannsóknarlögreglumaður og því fengið tvö stig fyrir þennan lið.
 65. Matsliður 5. Undir þessum matslið sé eðli máls samkvæmt einkum horft til annarra reynslu en reynslu af störfum í lögreglu. Sú sem var skipuð hafi starfað í þrjú ár við gæslu á […] áður en hún hafi byrjað störf í lögreglu og fái eitt stig fyrir þennan matslið. Kærandi hafi ekki aðra þá reynslu utan starfa í lögreglu sem uppfylli skilyrði til að fá stig fyrir þennan matslið.
 66. Matsliður 6. Kærandi og sú sem var skipuð hafi hvort um sig fengið þrjú stig fyrir þennan matslið sem grundvallaður hafi verið á ráðningarviðtali.
 67. Með vísan til alls þess sem að framan greini telji kærði að niðurstaða hans um skipun í umrædda stöðu hafi verið í samræmi við lög og reglur og að mat á umsækjendum hafi grundvallast á málefnalegum sjónarmiðum. Við mat á hæfni umsækjenda hafi verið notast við fyrir fram gefið matslíkan og matskvarða varðandi einstaka þætti. Umsækjendum hafi þannig verið verið gefin stig fyrir hvern og einn þátt og eftir ákveðnu kerfi. Niðurstaðan úr því hafi verið að sú sem var skipuð hafi verið metin hæfari en kærandi. Þegar af þeirri ástæðu telji kærði útilokað að um brot á 26. gr. jafnréttislaga geti verið að ræða gagnvart kæranda við skipun í stöðuna. Því skuli haldið til haga að sú sem var skipuð hafi verið metin jafn hæf og tveir aðrir umsækjendur sem báðir séu karlmenn. Við ákvörðun um skipun hennar hvað það varði hafi kærða þótt rétt út frá jafnréttissjónarmiðum að auka hlut kvenna við stjórnun embættisins og því skipað hana í stöðuna.
 68. Með vísan til alls framangreinds sem og fylgigagna telji kærði hafið yfir allan vafa að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun um val á milli kæranda og þeirrar sem var skipuð. Kærði hafni því þannig alfarið að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við skipun í umrædda stöðu.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA

 69. Í athugasemdum kæranda segir að kærði haldi því fram að 300 eininga háskólanám, þ.e. MA í lögfræði sem kærandi hafi lokið, samsvari 54 einingum sem nái ekki helmingi BS/BA náms, auk námskeiða hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Samkvæmt ferilskrá þeirrar sem var skipuð komi fram að þessi „fjöldi námskeiða“ sé alls átta námskeið. Með einfaldri leit á heimasíðu Endurmenntunar Háskóla Íslands komi í ljós að til dæmis námskeiðið „Erfið starfsmannamál“ sé alls fjögurra klukkustunda námskeið og námskeiðið „Vönduð íslenska“ sé þriggja klukkustunda námskeið. Þess beri að geta að kærandi hafi setið á annan tug sérhæfðra námskeiða erlendis sem varði rannsóknir í löggæslu. Aukinheldur uppfylli kærandi menntunarskilyrði 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga sem sett séu fyrir ríkislögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra, lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra.
 70. Kærði taki fram að ekki hafi verið krafist háskólamenntunar. Á það skuli hins vegar bent að í auglýsingu um umþrætt starf komi fram í 3. tölulið er varði verksvið að hlutverk aðalvarðstjóra sé greining mála. Því megi slá föstu að fimm ára lögfræðimenntun nýtist vel í þeim lið sem og 4. tölulið sem varði vörslu og skráningu mála. Þess beri að geta að í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins komi eftirfarandi fram undir liðnum „Markmið nýrrar starfsmannastefnu og leiðir til að ná þeim markmiðum“: „Gerðar verði auknar kröfur til menntunar og starfsreynslu ríkisstarfsmanna með því t.d. að gera markvissari kröfur til þeirra, sem ráðnir eru í störf á vegum ríkisins, og vanda betur til ráðningar í þau störf. Samhliða þarf að efla og samhæfa endurmenntun og -þjálfun ríkisstarfsmanna til að hún nýtist sem best í starfi.“ Í þessum þætti hafi kærandi átt að fá tvö stig, sem hann hafi fengið, en sú sem var skipuð hefði einungis átt að fá eitt stig en fengið tvö.
 71. Kærði mótmæli fullyrðingu kæranda um að hann „hafi umtalsvert víðtækari reynslu af löggæslustörfum.“ Í fyrsta lagi hafi kærandi byrjað störf í lögreglu árið 1999 en sú sem var skipuð árið 2004. Starfsreynsla hennar sé einhæf, enda hafi hún að mestu leyti starfað hjá kærða eða í tæplega 14 ár, lengst af á vöktum, en eitt ár hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi hafi hins vegar starfað við landamæralöggæslu […], hjá lögreglunni í […], sem hverfislögreglumaður í […], á vöktum í […], sem óeinkennisklæddur lögreglumaður á vöktum í […], hjá […], við rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi, við rannsóknir flókinna efnahagsbrota hjá sérstökum saksóknara og að lokum sem varðstjóri hjá kærða.
 72. Í frumvarpi með lögreglulögum nr. 90/1996 komi meðal annars fram um rannsóknir efnahagsbrota: „Þessi brot sem nefnd eru skatta- og efnahagsbrot, en ganga einnig undir samheitinu „hvítflibbabrot“, geta verið gróf auðgunarbrot, brot sem lúta að löggjöf um tekjuöflun hins opinbera, gjaldeyrismál, verðlags- og samkeppnismál, verðbréfaviðskipti, stjórn fiskveiða og önnur brot sem eðli máls samkvæmt teljast til efnahagsbrota. Rannsókn efnahagsbrota getur oft staðið í mánuð, jafnvel ár og krefst sérstakrar þekkingar á viðskiptum og bókhaldi. Brot þessi eru meðal þeirra flóknustu sem lögregla þarf að glíma við og krefjast sérhæfingar sem telja verður að útilokað sé að byggja upp í fleiri en einni rannsóknardeild á landinu.
 73. Hjá sérstökum saksóknara hafi kærandi gegnt stöðu lögreglufulltrúa samkvæmt starfsstigareglugerð lögreglu nr. 1051/2006, sbr. 1043/2013, og sé það sama staða og aðalvarðstjóri. Kærandi hafi því reynslu á því starfsstigi en ekki sú sem var skipuð. Af framangreindu leiði að einfaldur samanburður á kæranda og þeirri sem var skipuð sýni að kærandi hafi mun víðtækari reynslu en hún. Eins og áður hafi verið bent á hafi kærandi jafnframt séð um þjálfun lögreglumanna hjá embætti kærða líkt og tiltekið sé í 7. tölulið í auglýsingu nr. 201801/207. Í þessum þætti hafi kærandi átt að fá tvö stig, sem hann hafi fengið, en sú sem var skipuð hefði átt að fá eitt stig vegna þess munar sem gæti í mismikilli starfsreynslu þeirra, óháð því hvort menn hafi unnið í tíu ár eða lengur. Stigakerfið sem notað sé í þessum þætti sé ónothæft að mati kæranda þar sem flestir, ef ekki allir, sem hafi sótt um starfið hafi unnið í 10 ár eða lengur. Allir fái þá sama stigafjölda óháð starfsvettvangi umsækjenda í gegnum starfsferilinn. Það teljist að mati kæranda grunnhyggni í ljósi þess að sérstaklega hafi verið tiltekið í auglýsingunni um starfið töluliðir 1-7 en þeir hafi innihaldið mismunandi verkþætti sem hafi kallað eftir víðtækri reynslu og menntun því tengdu.
 74. Varðandi matslið 3a hljóti verkefnastjórnun og reynsla hjá stærri embættum að telja meira en verkefnastjórnun í stöðu varðstjóra hjá kærða.
 75. Matsliður 3b varði reynslu af starfsmannastjórnun. Sú sem var skipuð hafi samkvæmt kærða starfað í 9 ár og 7 mánuði við starfsmannastjórnun. Samkvæmt hennar eigin gögnum telji hún hins vegar að þetta séu 8 ár. Gagngert til þess að hífa stigafjölda hennar upp hafi kærði metið henni til tekna að hún hafi einnig unnið sem launafulltrúi. Í mati á hæfni umsækjanda komi fram um þennan lið að miðað sé við stjórnun þriggja starfsmanna eða fleiri. Þetta skjóti skökku við hvað varði rökstuðning kærða, enda hafi launafulltrúi ekki mannaforráð. Megi því leiða að því líkum að rökstuðningur kærða hvað varði þennan lið sé einungis eftiráskýring komin fram gagngert til þess að rökstyðja handstýrða skipun kærða á grundvelli kyns. Í þessum þætti hafi kærandi átt að fá eitt stig, sem hann hafi fengið, en sú sem var skipuð hefði átt að fá tvö stig en ekki þrjú.
 76. Sú sem var skipuð hafi starfað sem rannsóknarlögreglumaður í meira en eitt ár og fái eitt stig fyrir matslið 4. Kærandi hafi starfað sem rannsóknarlögreglumaður frá janúar 2005 til september 2010 í ávana- og fíkniefnadeild eða alls 5 ár og 9 mánuði, við rannsóknir skipulagðrar brotastarfsemi í tvö ár og hjá Embætti sérstaks saksóknara í rúmt eitt ár. Alls hafi hann því starfað í tæplega 9 ár sem rannsóknarlögreglumaður. Hins vegar hafi kærði horft fram hjá þeirri staðreynd að á meðan kærandi hafi starfað hjá kærða sem varðstjóri í […] hafi honum verið falið að rannsaka fjármunabrot og fari starfsferillinn við stærri rannsóknir því vel yfir 10 ár og ætti því að gefa þrjú stig en ekki tvö fyrir þennan þátt. Þetta sé staðreynd sem kærði hefði átt að vita en kosið að horfa fram hjá. Megi leiða að því líkum að það sé gagngert gert til að lækka stig hjá kæranda. Í þessum þætti hefði kærandi átt að fá þrjú stig en sú sem var skipuð átt að fá eitt stig, eins og hún hafi fengið.
 77. Í matslið 5 hafi sú sem var skipuð fengið eitt stig fyrir „aðra reynslu en störf í lögreglu“ með því að hafa unnið við […]. Eins og áður í þessu máli hafi kærði kosið að horfa fram hjá kæranda. Í þessu sambandi skuli vísað til ferilskrár kæranda, þ.e. hann hafi starfað í […] og tali því reiprennandi […]. Sú tungumálakunnátta nýtist klárlega við löggæslustörf vegna mikils straums ferðamanna um landið, auk samskipta yfirvalda við löggæslustofnanir og aðrar stofnanir á Norðurlöndum. Önnur reynsla kæranda sé heldur ekki metin, eins og til dæmis formennska og stjórnarstörf ungmennafélags og nefndarseta í fræðslunefnd […], enda hafi hann ekki fengið stig fyrir þennan þátt. Í rökstuðningi kærða fyrir skipuninni segi um þennan lið að við mat á honum skuli litið til annarrar reynslu sem nýtist viðkomandi í starfi sem aðalvarðstjóri. Í þessum þætti hefði kærandi átt að fá eitt stig og sú sem var skipuð átt að fá eitt stig, eins og hún hafi fengið.
 78. Í matslið 6 verði að telja óeðlilegt af hálfu kærða að leggja loks fram gögn nú um persónubundna þætti. Kærandi hafi sérstaklega gert kröfu um að fá öll gögn afhent í tengslum við skipunina, þ.á m. minnisblöð eða annað sem varpað gæti ljósi á ákvörðun ráðningarinnar.
 79. Þegar allt að framan sé virt verði að telja að þau málefnalegu sjónarmið sem kærði tefli fram séu haldlítil og í raun tilbúin eftiráréttlæting. Kærandi telji sig hlunnfarinn um tvö stig og ætti með réttu að fá 15 stig. Hann telji jafnframt að sú sem var skipuð hafi fengið þremur stigum of mikið og hefði átt að fá 12 stig en ekki 15.
 80. Umboðsmaður Alþingis hafi bent á það í áliti sínu nr. 4205/2005 að þótt ekki sé búið að lögfesta almennar reglur þá veiti það ekki þeim sem fari með ráðningarvaldið frjálsar hendur um það hvern skuli skipa í embætti. Þá sé það óskráð meginregla stjórnsýsluréttar að sú ákvörðun verði að byggja á málefnalegum sjónarmiðum svo sem menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum persónulegum eiginleikum. Kærði hafi kosið að horfa fram hjá auglýsingu sem hann hafi útbúið sjálfur, gagngert til þess að haga skipun eftir kyni.

  FREKARI UPPLÝSINGAR FRÁ KÆRÐA

 81. Í bréfi kærða sem barst kærunefnd 15. nóvember 2018 vegna beiðni nefndarinnar um frekari upplýsingar segir að matskerfi til að meta hæfni umsækjenda hafi verið útbúið samhliða auglýsingu um viðkomandi starf. Slíkt matskerfi sé alltaf notað við ráðningar hjá kærða og hafi það verið svo frá stofnun embættisins árið 2015.
 82. Í matsliðnum „Aukin menntun“ hafi verið gefin tvö stig. Annars vegar vegna aukinnar menntunar í lögregluskóla/lögreglufræðum og hins vegar fyrir aðra menntun sem yrði að nýtast í starfi. Ljóst sé að ekki hafi verið gerð krafa um að viðkomandi hefði lokið háskólaprófi heldur hafi verið horft til allrar þeirrar menntunar sem umsækjendur hefðu aflað sér utan beins lögreglunáms. Miðað hafi verið við að ekki væri einungis um að ræða örfá námskeið heldur einnig nám og/eða hluta náms, svo sem í háskóla, sem nýttist. Það hafi síðan verið hlutverk matsnefndar, en hana hafi skipað yfirmenn kærða, þ.e. lögreglustjóri, staðgengill lögreglustjóra og tveir yfirlögregluþjónar við kærða en þeir hafi séð um gerð auglýsingar og mótun verksviðs aðalvarðstjóra sem og annast viðtöl og mat á umsækjendum, að meta hvort annað nám teldist uppfylla þessi skilyrði. Í fjórum tilvikum hafi svo verið talið. Í tilviki kæranda sem hafi lokið lögfræðiprófi og þeirrar sem hafi fengið starfið en hún hafi lokið hluta af háskólanámi og sótt námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og lagt þar áherslu á starfsmannamál, sem reyni mjög á í umræddu starfi. Annar umsækjendanna sem flest stig hlutu hafi lokið BA námi í sagnfræði og námi í Markþjálfun HR, auk annarra styttri námskeiða en hinn umsækjandinn hafi lokið hluta af háskólanámi í félagvísindum, eða um 80 einingum, og námi sem símsmiður, auk námskeiða hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.
 83. Kærði telji alveg ljóst að ýmsir þættir við ráðningu starfsmanna séu háðir mati og til að tryggja sem best hlutlaust mat á öllum þáttum hafi fjórir yfirmenn staðið að skipuninni í sameiningu. Meðal annars hafi komið fram í matsskýrslu kærða, sem send hafi verið hæfnisnefnd lögreglu 19. mars 2018, að um væri að ræða mjög hæfa einstaklinga og munur á mati þeirra fimm efstu væri mjög lítill og í raun mjög erfitt að gera upp á milli þeirra. Fram hafi komið í umsögn hæfnisnefndar, dagsettri 4. apríl 2018, að í ljósi jafnréttis- og framkvæmdaráætlunar lögreglunnar, sbr. RLS nr. 5/2015, yrði ekki hjá því komist að hafa hana ávallt til hliðsjónar þegar verið væri að setja/skipa í stöður þar sem halli verulega á annað kynið. Mikilvægt væri að jafna hlut kvenna innan lögreglunnar. Ákvörðun kærða hafi verið í samræmi við ofangreinda framkvæmdaráætlun.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA VEGNA UPPLÝSINGA KÆRÐA

 84. Af hálfu kæranda er lögð áhersla á að þrátt fyrir að téð matskerfi hafi ávallt verið notað af kærða frá árinu 2015 þurfi það að vera eins fyrir sambærilegar stöður. Að öðrum kosti sé hætta á að veitingarvaldshafi geti „stillt“ það af.
 85. Kærði segi að miðað hafi verið við að ekki væri einungis um að ræða örfá námskeið heldur einnig nám og/eða hluta náms, svo sem í háskóla, sem nýtist. Í þessu tilliti séu ítrekuð fyrri svör kæranda vegna þessa „náms“ við endurmenntunarstofnun sem sú sem hafi hlotið starfið hafi lokið. Jafnframt sé bent á að hinir tveir sem hafi fengið fullt hús stiga virðast vera með meiri menntun en sú sem starfið hlaut.

  NIÐURSTAÐA

 86. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
 87. Kærði auglýsti 24. janúar 2018 lausa til umsóknar nýja stöðu aðalvarðstjóra almennrar deildar á vef Stjórnarráðs Íslands, sbr. auglýsingu nr. 201801/207.
 88. Í auglýsingu kom fram að aðalvarðstjóri almennrar deildar heyrði undir yfirlögregluþjón deildarinnar og hefði starfsaðstöðu á lögreglustöðinni á […]. Verksvið aðalvarðstjóra almennrar deildar væri meðal annars eftirfarandi: Rannsóknir mála í almennri deild – umsjón, eftirfylgni og fræðsla. Ráðgjöf til varðstjóra/starfsmanna um afgreiðslu mála. Greining mála – yfirfara skráningar í Löke – mál séu færð rétt. Varsla og skráning gagna – umsjón/ábyrgð – samantektir. Fræðsla, umsjón og skipulag á fræðslu fyrir almennu deildina. Starfsnám lögreglunema – umsjón í almennri deild. Yfirumsjón með fræðslu og þjálfun vegna valdbeitingar lögreglumanna. Önnur verkefni í samráði við yfirlögregluþjón almennrar deildar.
 89. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar menntunar- og hæfniskröfur. Þar var áskilin góð þekking á rannsóknum, greiningum og afgreiðslu mála í almennri deild. Hæfni til að tjá sig og fræða aðra. Góð þekking á Löke. Hæfni til vinnu á helstu ritvinnslu- og reikniforrit. Þá voru gerðar kröfur um að viðkomandi væri skipulagður í störfum, góður í mannlegum samskiptum, hefði frumkvæði og byggi yfir reynslu af stjórnun í lögreglu. Loks voru gerðar kröfur um próf frá Lögregluskóla ríkisins og störf hjá lögreglu í að minnsta kosti tvö ár.
 90. Samkvæmt upplýsingum frá kærða voru stöður yfirmanna hjá kærða er umdeild skipun var afráðin, einvörðungu mannaðar körlum. Sú sem stöðuna hlaut var eina konan í hópi sjö umsækjenda. Til þessa hefur verið vísað af hálfu kærða auk þess sem hæfnisnefnd lögreglunnar, sem fékk niðurstöðu kærða um að skipa konuna í starf aðalvarðstjóra til umfjöllunar áður en skipunin var afráðin, vísaði sérstaklega til þess að ekki yrði hjá því komist að hafa jafnréttis- og framkvæmdaáætlun lögreglunnar, sbr. RLS nr. 5/2015 ávallt til hliðsjónar þegar skipað væri í stöðu þar sem hallar verulega á annað kynið.
 91. Af hálfu kærða var útbúið matskerfi samhliða auglýsingu um starfið til að meta hæfni umsækjenda. Um var að ræða stigakerfi þar sem stig voru gefin fyrir tiltekna þætti sem áhersla var lögð á í auglýsingu. Samkvæmt upplýsingum kærða voru áhersluþættirnir sex, sem samtals gáfu mest 18 stig en vægi einstakra þátta var misjafnt. Þannig gáfu matsþættir er lutu að aukinni menntun og reynslu af lögreglustörfum tvö stig hvor, stjórnunarreynsla gaf samtals sex stig, sem greind var síðan í tvo jafna hluta, annars vegar verkefnastjórnun og hins vegar starfsmannastjórnun. Matsþáttur er laut að rannsóknarreynslu gaf mest þrjú stig og önnur reynsla gaf eitt stig. Persónubundnir þættir gáfu mest fjögur stig sem byggðu á samtölu stigagjafar samkvæmt sérstökum matskvarða sem lagður var til grundvallar í ráðningarviðtali, en þeir sem tóku viðtöl við umsækjendur gáfu hver um sig umsækjendum stig samkvæmt þeim kvarða.
 92. Skilgreint var hvað þyrfti til að koma svo að stig væru veitt fyrir hvern matsþátt og þá hversu mörg. Fyrir aukna menntun var veitt eitt stig fyrir viðbótarmenntun í lögreglufræðum og eitt stig fyrir aðra menntun sem myndi nýtast í starfi. Fyrir reynslu af lögreglustörfum var veitt eitt stig fyrir reynslu sem væri minni en tíu ár og tvö stig fyrir reynslu umfram það. Fyrir verkefnastjórn voru veitt þrjú stig, byggt á starfsaldri við slíka stjórn, eitt fyrir fyrstu fimm árin, annað fyrir næstu fimm ár og þrjú ef umsækjendi byggi að reynslu umfram tíu ár. Sams konar tímaviðmið var lagt til grundvallar við mat á starfsmannastjórnun en miðað var við stjórnun ekki færri en þriggja starfsmanna. Fyrir matsþáttinn rannsóknarreynslu var einnig lagt sams konar tímaviðmið til grundvallar þannig að þrjú stig fengust fyrir reynslu umfram tíu ár. Til að fá stig fyrir matsþáttinn önnur reynsla þurfti sú reynsla að spanna tvö ár eða fleiri. Fyrir persónubundna þætti voru gefin stig í samræmi við einkunnargjöf þeirra sem sátu ráðningarviðtölin.
 93. Af málatilbúnaði kærða verður ráðið að þrenns konar aðferðum hafi verið beitt við mat á umsækjendum. Í fyrsta lagi var lagt huglægt mat á tvo matsþætti við stigagjöf. Annars vegar hvort önnur viðbótarmenntun en í lögreglufræðum myndi nýtast og hins vegar hvort önnur reynsla nýttist. Í öðru lagi voru matsþættir sem lutu að nánar skilgreindri reynslu, af lögreglustörfum, stjórnunarreynslu og rannsóknarreynslu, allir byggðir á starfsaldri. Í þriðja lagi var svo byggt á fyrrnefndri einkunnagjöf sem fundin var út frá meðaltali samtölu stigagjafar þeirra sem sátu ráðningarviðtölin af hálfu kærða. Þau stig voru gefin eftir kvarða er laut að þeim persónubundu eiginleikum sem spurt var eftir. Staðlaðar spurningar voru lagðar fyrir umsækjendur og skráðu fjórir yfirmenn kærða, sem tóku viðtölin, hver um sig svörin, auk þess sem tekin var afstaða til átta atriða: Viðmóts/framkomu, samskiptafærni, frumkvæðis, áhuga, stjórnunarhæfni, sjálfsöryggis, þekkingar á svæðinu og þekkingar á starfinu. Fyrir hvert þessara atriða voru gefin stig byggð á huglægu mati: Eitt stig „mjög slæmt“, tvö stig „undir meðallagi“, þrjú stig „meðallag“, fjögur stig „yfir meðallagi“ og fimm stig „mjög gott“. Stigagjafir hvers yfirmanns fyrir sig voru lagðar saman og þær niðurstöður því næst lagðar saman og að lokum var deilt í með fjórum. Á þann hátt voru fundin þau stig sem viðkomandi umsækjanda voru gefin fyrir þennan matsþátt.

   

 94. Stigagjöf kærða byggð á þessu kerfi leiddi til þeirrar niðurstöðu að kærandi hlaut 13 stig en sú sem starfið hlaut 15 stig. Tveir karlmenn munu hafa fengið jafnmörg stig og sú sem starfið hlaut en meðal annars með vísan til jafnréttissjónarmiða mun kærði hafa afráðið að skipa hana í starfið.
 95. Kærandi hefur gagnrýnt þessa niðurstöðu með þeim rökum að sú sem starfið hlaut hafi fengið of mörg stig fyrir suma af ofangreindum matsþáttum en hann of fá. Ef rétt hefði verið metið hefði hann átt að skáka henni í stigagjöf.
 96. Fyrir fyrsta matsþáttinn, aukna menntun, fengu bæði tvö stig. Eitt fyrir viðbótarmenntun í lögreglufræðum og annað fyrir aðra aukna menntun sem yrði að nýtast í starfi. Fyrir liggur hlutrænt upplýst að kærandi býr að umtalsvert meiri annarri aukinni menntun en sú sem starfið hlaut. Aukin menntun hennar felst að hluta til af sálfræðinámi í háskóla, auk stuttra námskeiða, en kærandi býr að grunn- og meistaraprófi í lögfræði. Málefnaleg rök standa til þeirrar ályktunar að lögfræðiþekking kæranda muni nýtast betur í starfi en aukin menntun þeirrar sem starfið hlaut. Á hinn bóginn eru ekki efni til að hrófla við því mati kærða að nám í sálfræði auk þeirra námskeiða sem sú sem starfið hlaut hafði lagt stund á séu einnig til þess fallin að nýtast í starfi þannig að málefnalegar forsendur hafi staðið til þess að hún hlyti einnig stig fyrir aukna menntun. Það er almennt í valdi kærða að ákveða hvaða vægi hann gefur einstökum matsþáttum við mat á umsækjendum um starf, svo fremi sem það vægi felur ekki í sér fyrir fram gefna niðurstöðu sem er til þess fallin að halli á annað kynið. Kærði hefur byggt á því að ekki hafi sérstaklega verið horft til þess að gefa stig fyrir annað háskólanám, margs konar menntun kæmi þar til álita að því gefnu að hún nýttist í starfi. Af því leiðir að matskerfi kærða tekur mjög lítið tillit til aukinnar menntunar og að lítið þarf að koma til svo að fullri stigagjöf verði náð fyrir aðra menntun. Augljós málefnaleg rök væru fyrir því að veita annarri menntun kæranda meira vægi en þeirrar sem starfið hlaut. Þrátt fyrir það verður ekki með óyggjandi hætti ráðið að matskerfi kærða hafi að þessu leyti falið í sér fyrir fram gefna niðurstöðu sem var til þess fallin að halla á annað kynið. Í þessu ljósi eru ekki rök til að hróflað verði við stigagjöf kærða hvað aukna menntun snertir.
 97. Hvað matsþáttinn reynsla af lögreglustörfum áhrærir hefur kærandi byggt á því að hann hafi mun víðtækari reynslu af löggæslustörfum og því ætti einkunn þeirra ekki að vera sú sama eins og raunin varð. Bæði kærandi og sú sem starfið hlaut höfðu unnið nægjanlega lengi til að hljóta fullt hús stiga fyrir lögreglureynslu í samræmi við matskerfi kærða. Fyrir liggur að stigagjöf kærða fyrir þessa starfsreynslu byggir einvörðungu á starfsaldri, ekki nánari greiningu á inntaki starfsreynslunnar og því á gagnrýni kæranda ekki við rök að styðjast í þessum efnum.
 98. Hvað varðar verkefnastjórnun sem hluta af stjórnunarreynslu, sem bæði fengu þrjú stig fyrir, er gagnrýni kæranda á sömu nótum og lýtur að reynslu af lögreglustörfum. Byggt er á þvíað reynsla hans sé fjölþættari og lúti að verkefnum hjá stærri embættum sem vegi þyngra en verkefnastjórn þeirrar sem starfið hlaut. Bæði kærandi og sú sem starfið hlaut höfðu unnið nægjanlega lengi til að hljóta fullt hús stiga fyrir þennan matsþátt í samræmi við matskerfi kærða. Fyrir liggur að stigagjöf kærða fyrir verkefnastjórn byggir einvörðungu á starfsaldri, ekki nánari greiningu á inntaki verkefnastjórnunarinnar. Með hliðsjón af þeirri afmörkun kærða á gagnrýni kæranda ekki heldur við rök að styðjast í þessum efnum.
 99. Kærandi gagnrýnir að sú sem starfið hlaut hafi fengið fullt hús stiga, þrjú stig, fyrir starfsmannastjórn þar sem ekki liggi fyrir upplýsingar um að hún hafi haft mannaforráð yfir að minnsta kosti þremur starfsmönnum í tíu ár. Fyrir þennan matsþátt fékk kærandi eitt stig sem hann hefur ekki gert athugasemdir við. Óumdeilt er að sú sem starfið hlaut náði ekki tíu ára starfsferli með mannaforráð en kærði hefur rökstutt stigagjöf með því að hún hafi unnið sem launafulltrúi hjá ríkisfyrirtæki um sex ára skeið á tíunda áratug tuttugustu aldar. Ekkert liggur fyrir um að starfi launafulltrúa hafi fylgt mannaforráð yfir þremur starfsmönnum. Niðurstaða kærða í þessum efnum er í ósamræmi við matskerfið og samkvæmt því hefði sú sem starfið hlaut því átt að fá tvö stig en ekki þrjú fyrir þennan matsþátt.
 100. Fyrir matsþáttinn rannsóknarreynsla voru veitt stig eftir starfstíma og hversu lengi viðkomandi hafði starfað við rannsóknir mála í rannsóknardeild. Samkvæmt því virðist ekki hafa verið hugað að inntaki starfa umsækjenda eða hvort þeir hefðu sinnt rannsóknarstörfum þegar þeir sinntu störfum á öðrum vettvangi hjá lögreglunni en í rannsóknardeild. Sú sem starfið hlaut fékk eitt stig fyrir minna en fimm ára starfsreynslu að rannsóknum en kærandi fékk tvö stig fyrir rannsóknarreynslu sem væri minni en tíu ár. Kærandi gagnrýnir þá stigagjöf með vísan til þess að hann hafi í starfi varðstjóra í […], á vegum kærða, verið falið að rannsaka fjármunabrot og því hefði starfsaldur að rannsóknum átt að ná yfir lengra tímabil en tíu ár. Í umsókn kæranda er þessarar rannsóknarvinnu í […] getið. Í umsókn þeirrar sem starfið hlaut var með sama hætti getið um rannsóknarstörf sem hún hefði sinnt er hún hafi verið stjórnandi fíkniefnahóps á tímabili sem fellur ekki innan þess tíma sem kærði telur henni til tekna í þessum efnum. Fyrir liggur eins og áður hefur verið getið að kærði byggði einvörðungu á hlutrænum mælikvarða um tímalengd og formlegri stöðu umsækjenda sem starfsmanna í rannsóknardeild. Fellur önnur rannsóknarreynsla umsækjenda því óbætt hjá garði af þessum sökum. Hallar þar ekki á kæranda umfram þá sem starfið hlaut og því verður ekki ályktað á þann veg að kærandi hafi borið skarðan hlut frá borði samanborið við hana.
 101. Kærandi telur að hann hefði átt að fá stig fyrir þann matsþátt er laut að annarri reynslu þar sem reynt hefði á hæfileika sem myndu nýtast viðkomandi í starfi aðalvarðstjóra. Sú sem starfið hlaut fékk eitt stig fyrir þriggja ára starf á […] en kærandi ekkert. Kærandi telur kærða hafa litið fram hjá því að hann hafi starfað í […] og tali því reiprennandi […] sem myndi nýtast í samskiptum við erlenda ferðamenn og í samskiptum við stofnanir á Norðurlöndum og að litið hafi verið fram hjá reynslu hans af stjórnarstörfum í ungmennafélagi og setu í fræðslunefnd sveitarfélags. Samkvæmt upplýsingum kæranda í ferilskrá var þess getið að hann hefði sinnt starfi lögreglumanns nánast frá því að hann var tvítugur en hefði fyrir þann tíma unnið sem aðstoðarkokkur á veitingahúsum hérlendis og í […], en ekki er vikið nánar að þessum störfum. Í ferilskránni er þess getið að kærandi tali dönsku ágætlega eftir þriggja ára búsetu í […]. Fyrrnefnd stjórnarstörf í ungmennafélagi og nefndarstörf hjá sveitarfélagi eru tilgreind í kafla í ferilskránni er lýtur að félagsstörfum og áhugamálum. Þegar horft er til þess að þessi matsþáttur, eins og hann er skilgreindur af kærða, lýtur að annarri starfsreynslu og huglægu mati á því hvort þau störf nýtist í starfi aðalvarðstjóra eru ekki efni til þess að gera athugasemd við það mat kærða að meta þeirri sem starfið hlaut það til tekna að hafa unnið á […] um árabil en gefa kæranda ekki stig fyrir tungumálakunnáttu eða félagsstörf.
 102. Bæði kærandi og sú sem starfið hlaut fengu þrjú stig fyrir síðasta matsþáttinn er laut að persónubundnum þáttum, byggt á stigagjöf úr viðtölum. Fyrir liggur að fjórir æðstu yfirmenn kærða stóðu saman að því að taka viðtöl við umsækjendurna sjö og gáfu þeim stig fyrir áðurgreinda persónulegu þætti. Meðaltal stigagjafar kæranda varð 35 stig en stigagjöf þeirrar sem starfið hlaut 36 stig sem leiddi til þess að þau fengu bæði þrjú stig fyrir persónubundna þætti en gefin voru þrjú stig þeim umsækjendum sem voru með stig á bilinu 34 til 37. Með hliðsjón af þeim gögnum, sem lögð hafa verið fram er lúta að þessum matsþætti og upplýsingum um úrvinnslu kærða, eru ekki efni til að gera athugasemd við niðurstöðu um stigagjöf kæranda og þeirrar sem starfið hlaut í þessum efnum.
 103. Með hliðsjón af ofanröktu liggur fyrir að ekki standa rök til að hrófla við stigagjöf kærða í neinu verulegu. Jafnvel þó að talið yrði að kærði hafi oftalið stig þau sem sú sem starfið hlaut fékk fyrir reynslu af starfsmannastjórnun, og jafnvel þó að viðbótarmenntun þeirrar sem starfið hlaut yrði ekki gefið jafnmikið vægi og viðbótarmenntun kæranda, myndi niðurstaðan allt að einu verða sú að hún væri með jafnmörg eða fleiri stig en kærandi. Hún teldist því jafnhæf eða hæfari miðað við það matskerfi sem kærði studdist við.
 104. Stigagjöf eins og sú sem um ræðir í máli þessu getur aldrei verið einhlítur mælikvarði á hæfni umsækjenda þannig að hendur ráðningarvaldshafa séu bundnar af slíkri stigagjöf og henni beri að fylgja út í hörgul. Sérstaklega í tilvikum þar sem matskvarði sá sem stigagjöfin byggir á hvílir á tiltekinni forsendu eins og þeirri að líta einvörðungu til starfsaldurs eða reynslu í árum talið en horfa síður til inntaks fyrri starfa. Færa má málefnaleg rök fyrir því að ekki sé öruggt að þessi aðferð sé til þess fallin að varpa ljósi á hæfni umsækjenda í starfi. Aðferðin sýnist fremur varpa ljósi á þrautseigju við að sinna starfi um langt árabil. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að kærði vann eftir fyrir fram mótuðu matskerfi sem hagnýtt hefur verið við ráðningar hjá embættinu frá því að það var stofnað árið 2015. Var þannig lögð sama fyrir fram mótaða mælistikan á hæfni umsækjenda.
 105. Þá var með skipun konu, sem var í það minnsta jafnhæf samkvæmt matskerfi kærða og tveir karlkyns umsækjendur, tekið tillit til sjónarmiða jafnréttis- og framkvæmdaáætlunar lögreglunnar og þau sjónarmið lögð til grundvallar, sbr. reglur RLS 5/2015, sem jafnframt eiga sér skírskotun í 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Engin kona var meðal yfirmanna kærða og því í fullu samræmi við nefndar reglur og lög að hún yrði fyrir valinu og skipuð í starf aðalvarðstjóra í almennri deild hjá kærða. Engar forsendur eru til að endurskoða í þessu máli mat kærða og samanburð á þeirri sem skipuð var og tveimur karlkyns umsækjendum sem metnir voru jafnhæfir henni.
 106. Í ljósi alls ofanritaðs verður lagt til grundvallar að kærði hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2018 er kærandi var ekki skipaður í stöðu aðalvarðstjóra í almennri deild hjá kærða. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu eru ekki efni til að úrskurða kæranda málskostnað úr hendi kærða.
 107. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna veittra fresta til málsaðila til gagnaöflunar.

                                                                                                                                                                                                                                                             

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar kærandi var ekki skipaður aðalvarðstjóri almennrar deildar við embætti lögreglustjórans á Suðurlandi, 16. maí 2018.

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 

Grímur Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira