Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 365/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 365/2022

Miðvikudaginn 2. nóvember 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 19. júlí 2022, kærði B, réttindagæslumaður fatlaðs fólks, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um 60% styrk til bifreiðakaupa.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um 60% styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 9. september 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2021, var umsókn kæranda synjað. Kærandi sótti á ný um 60% styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 31. október 2021. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2021, sem veittur var með bréfi, dags. 21. janúar 2022. Kærandi sótti um 60% styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 24. febrúar 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. júní 2022, var kæranda tilkynnt um að litið hefði verið að umsóknina sem beiðni um endurupptöku á ákvörðun, dags. 26. október 2021, og var þeirri beiðni synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. júlí 2022. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. september 2022, barst greinargerð frá Tryggingastofnun og var hún send umboðsmanni kæranda samdægurs til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 27. september 2022, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. september 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um 60% styrk til bifreiðakaupa standist ekki. Hún vilji því kæra ákvörðun stofnunarinnar og krefjist þess að umsókn hennar verði samþykkt.

Kærandi hafi sent inn læknisvottorð þar sem fram komi að vegna veikinda í öxlum sé henni nauðsynlegt að fá styrk til að geta keypt bifreið sem geri henni kleift að koma hjólastól inn í og út úr bíl, án þess að reyna svo á axlirnar að ástand hennar versni enn meira. Kæranda finnist Tryggingastofnun synja umsókninni án rökstuðnings.

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. janúar 2022, segi: „Styrkur skv. 8. gr. reglugerðar hefur verið miðaður við það að hinn hreyfihamlaði sé í þannig aðstæðum að hann geti ekki farið úr rafmagnshjólastól til þess að komast inn í bifreiðina.“ Það viðmið telji kærandi vera geðþóttaákvörðun stofnunarinnar, enda sé það ekki nefnt í reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 8. gr. reglugerðarinnar segi: „Heimilt er að veita styrk til að kaupa bifreið, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar bifreiðar vegna mikillar fötlunar.“

Kæranda sé kunnugt um að einstaklingar, sem ekki uppfylli það viðmið, hafi fengið 60% styrk og telji því líklegt að Tryggingastofnun ríkisins brjóti jafnræðisreglu með því að mismuna skjólstæðingum sínum.

Í athugasemdum kæranda, dags. 27. september 2022, segi að líkt og Tryggingastofnun ríkisins bendi á í greinargerð stofnunarinnar, sé ekki álitamál hvort umsækjandi sé með hreyfihömlun. Ágreiningur snúi að því hvernig litið sé til töluliða 1. og 2. í 4. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða við mat á þörf fyrir styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið samkvæmt 8. gr. sömu reglugerðar, með hliðsjón af rannsóknarskyldu. Þar vísist til þess sem segi í 2. mgr. sömu greinar að þörf fyrir hjálpartæki og bifreið skuli annars vegar hafa verið metin heildstætt og sýnt fram á sérstaka þörf fyrir sérútbúna bifreið.

Umsóknin um sérútbúna bifreiða hafi verið gerð samkvæmt læknisráði. Í gögnum málsins sé að finna tvö læknisvottorð fyrir umsókninni sem byggð séu á skoðun lækna sem hafi haft kæranda til meðferðar og búi yfir upplýsingum úr sjúkraskýrslu og samskiptum sérfræðinga. Í læknisvottorði C, dags. 29. október 2021, sé vísað í læknisvottorð D bæklunarlæknis, dags. 15. júní 2022, um að kæranda beri að forðast mikið álag upp fyrir sig. Þá mæli hann með því að hjálpartækjamál kæranda verði endurskoðuð með það í huga að hlífa álagi á axlirnar. Af því megi lesa að í náinni framtíð eigi að huga að aflgjafa í hjólastólinn og búnað til að stýra honum, líkt og þekkist hjá fólki í sambærilegri stöðu og á svipuðum aldri. Hér þurfi að hafa í huga að kærandi hafi notað handknúinn hjólastól í X ár sem hafi valdið álagi og sliti á axlir og handleggi.

Sambærilegar athugasemdir séu lagðar fram í læknisvottorði E, dags. 14. febrúar 2022. Þar segi að kærandi þurfi nauðsynlega sérútbúinn bíl með lyftu vegna versnandi líkamlegra einkenna í stoðkerfi.

Kærandi sé þar af leiðandi að fylgja eftir læknisráðum um að sækja lögbundinn rétt til styrks til kaupa á sérútbúinni bifreið sem sé henni nauðsynleg vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð. Hún komist ekki af án sérútbúinnar bifreiðar vegna skerðingar sinnar, en langvarandi álag á axlir sé farið að segja illilega til sín, valda sliti og verkjum og takmarka verulega hreyfigetu. Það sé ekkert launungarmál að einstaklingar í þessari stöðu fái misvísandi leiðbeiningar í kjölfar slíkra læknisráða og búi við verulegan skort á upplýsingum um bifreiðar sem kunni að henta þeim heildstætt. Í mörgum tilvikum sé aðeins gengið út frá því að viðkomandi ætli sér sjálfur að keyra, en síður gert ráð fyrir að viðkomandi geti einnig verið farþegi og muni líklega í meira mæli vera það í komandi framtíð. Þannig sé því ástatt í þessu tilviki. Kærandi hafi fyrst leitað upplýsinga til bílasala, sem sé eðlilegt fyrsta skref fyrir fólk í bílahugleiðingum, auk þess sem fólk vilji horfa til ýmissa þjónustuþátta sem varði bifreiðina sjálfa og eiginleika hennar. Stjórnarskrárvarinn réttur fólks til ferðafrelsis, fjölskyldulífs og félagslegra réttinda og aðstæður, til að mynda eign í sveit eða tengsl við landsbyggðina, kunni að valda því að fólk vilji líta til öryggis- og ökuhæfisþátta sem samræmist skilyrðum þar við val á bifreiðum, enda óneitanlega erfiðara fyrir einstakling sem noti hjólastól að sitja fastur í aflminni og ótryggari bifreið. Hjá bílasala hafi kæranda verið bent á ökutæki sem, þrátt fyrir marga kosti, verði telja að mæti hins vegar illa þörfum hennar hvað varði aðgengileika og þægindi að höfðu tilliti til skerðingar hennar. Þar hafi verið um að ræða X. Eftir samtal við fagaðila sem þekki betur til hafi kæranda aftur á móti verið ráðlagt að kaupa sér frekar Y þar sem hægt sé útbúa bifreiðina á þann veg að kærandi komist í hjólastólnum sínum inn í bifreiðina og geti áfram verið í honum á ferð, í stað þess að þurfa að færa sig af ástæðulausu úr hjólastólnum með tilheyrandi álagi og óþægindum.

Í bréfi Tryggingastofnunar segi að kærandi hafi ekki þótt uppfylla þau viðbótarskilyrði sem sett séu til að eiga rétt á styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið, umfram styrk til kaupa á bifreið samkvæmt. 7. gr. reglugerðarinnar. Þar sé vísað til þess að kærandi hafi ekki sýnt fram á þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl. Að teknu tilliti til þess að um matskennda stjórnvaldsákvörðun sé að ræða, sem ætlað sé að byggja á heildstæðu mati á þörf, megi þó af gögnum málsins ráða að það sé álit þeirra sem þekki til að kærandi eigi að forðast það að færa sig úr hjólastólnum til að ferðast í bíl. Aðstæður séu breytta, eins og kærandi lýsi í upphafi rökstuðnings síns í umsókn, dags. 31. október 2021. Aftur á móti hafi villandi ráðgjöf í bílamálum orðið þess valdandi að kærandi hafi í fyrstu sótt um búnað til Sjúkratrygginga sem hafi miðast illa að breyttum þörfum hennar og verið nær þeim veruleika sem hún hafi þekkt hin X árin á undan sem hún hafi notað hjólastól og haft afl í höndum. Afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands, dags. 23. september 2021, og umsókn til Tryggingasstofnunar þann 31. október 2021 beri þess merki. Það sé skiljanleg yfirsjón að teknu tilliti til þess að slíkur búnaður hafi þjónað þörfum kæranda fram að þessu og sé það sem hún þekki. Endurnýjuð umsókn frá 24. febrúar 2022 sé hins vegar fyrir annars konar bifreið og búnaði sem þyki henta betur breyttum aðstæðum. Læknisfræðilegu forsendurnar séu enn sem áður þær sömu, kærandi þurfi að forðast álag á hendur og axlir og geri ráð fyrir að þurfa að ferðast í hjólastólnum sínum. Það sé erfitt að sjá hvaða aðrir möguleikar standi kæranda til boða en að sækja um sérútbúna bifreið, það er til að forða henni frá álagi á hendur og axlir og taka mið af þeim þörfum. Sé það mat sérfræðinga afgreiðsluhópsins hjá Tryggingastofnun að hún komist af með annars konar bifreið og búnað, sé rétt að þeir leiðbeini henni þá í því efni sem og hvaða nauðsynlegu upplýsingar þurfi að liggja fyrir þannig að ákvörðun yrði á annan veg. Það sé ekki um auðugan garð að gresja fyrir einstaklinga í þessari stöðu að fá leiðbeiningar um bifreiðakaup og búnað við hæfi sem mæti þörfum þeirra heildstætt og væntanlega fáir betur til þess fallnir en afgreiðsluhópurinn.

Í því samhengi sé rétt að benda á að hvergi í lögum eða reglum sé þess getið að umsækjandi um styrk til sérútbúinnar bifreiðar, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar, þurfi að vera í „rúmfrekum rafmagnshjólastól“, þótt það gefi að skilja að í þeim aðstæðum sé rúmgóð bifreið óhjákvæmileg. Einstaklingar sem séu að nota fyrirferðarminni hjólastóla, með eða án rafmagnsmótors, þurfi sömuleiðis að komast inn og út úr bifreið og geta setið í stólnum á ferð, rétt eins og þekkist í akstursþjónustum og leigubílum. Útfærsla þessara hjálpartækja sé á alla lund og ekki algilt að þau séu í þeim „dúr“ sem talað sé um í bréfi stofunarinnar. Þar sem svo virðist sem stofnunin styðjist við einhver almenn hlutlæg viðmið við mat á heimild til greiðslu uppbótar samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar og styrkja samkvæmt 7. og 8. gr. hennar, sem séu umsækjendum og öðrum fagaðilum sem að koma ekki að fullu gagnsæ eða aðgengileg, væri ákjósanlegt ef þau væru gerð sýnilegri. Það sé nokkuð ljóst að reglugerðin sé, þrátt fyrir nýlega endurskoðun, ekki nægilega upplýsandi í því tilliti og virðist að stofni til byggð á stoðum og ákvæðum sem séu komin vel til ára sinna og samræmist illa alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum sem stjórnvöld hafi undirgengist, alþjóðlegri stefnumótun og stöðu þekkingar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um styrk samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Kærandi hafi sótti um styrk samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 905/2021 vegna kaupa á bifreið. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 26. október 2021, hafi umsókn kæranda verið synjað, en kæranda hafi verið leiðbeint um að hún uppfyllti læknisfræðileg skilyrði styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi vegna synjunarinnar og hafi hann verið veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 21. janúar 2022. Kærandi hafi svo sent inn erindi þann 24. febrúar 2022 sem hafi verið metið sem beiðni um endurupptöku og verið synjað með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. júní 2022.

Þó að hér reyni í raun eingöngu á 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 8. gr. reglugerðar nr. 905/2021 þá sé nauðsynlegt að rekja einnig á stuttan hátt hvaða kröfur séu gerðar vegna 1. mgr. 10. gr. laganna og 6. og 7. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sömu kröfur séu gerðar í 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021, en þar segi að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi sé talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerðinni. Þá sé heimilt að veita uppbót til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóti umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Í 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 sé þetta ákvæði útfært frekar, en þar segi að heimilt sé að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða vanti líkamshluta, til dæmis að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Skilyrði sé að hinn hreyfihamlaði sé sjúkratryggður hér á landi.

Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 905/2021 sé skilgreint hvað felist í hugtakinu hreyfihömlun samkvæmt reglugerðinni. En þar segi að líkamleg hreyfihömlun sé þegar sjúkdómur eða fötlun sem skerði verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma eða annað sambærilegt.

Í 4. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um mat á þörf á uppbótum/styrkjum samkvæmt reglugerðinni en þar segi að við mat á þörf fyrir uppbætur og styrki samkvæmt reglugerð þessari skuli fyrst og fremst líta á bifreið sem hjálpartæki hreyfihamlaðra. Meta skuli hvort umsækjandi þurfi nauðsynlega á bifreið að halda vegna hreyfihömlunar til að komast ferða sinna, einkum til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Við matið skuli einkum litið til eftirfarandi atriða:

„1. Hreyfihömlunar, þ.e. hvort mat sem staðfestir hreyfihömlun umsækjanda liggi fyrir.

2. Nauðsynjar bifreiðar, þ.e. hvort ótvírætt sé að hinum hreyfihamlaða sé nauðsynlegt að hafa bifreið.

3. Ökuréttinda, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður, sbr. þó 12. gr.

4. Ökuhæfni, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði eða skráður ökumaður sé fær um að aka viðkomandi bifreið.“

Rétt sé að vekja sérstaka athygli á því að í 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar komi einnig fram að skilyrði sé að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja.

Í 8. gr. reglugerðarinnar sé svo veitt heimild til Tryggingastofnunar til að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemi 60% af kaupverði bifreiðar, það er grunnverði án aukabúnaðar. Í þeim tilvikum þurfi að vera um að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin eigi þó einungis við þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 7. gr. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 6. gr. og styrk samkvæmt 7. gr og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá hann þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist um bifreiðar sem heimilt sé að veita uppbót samkvæmt 6. gr. eða styrk samkvæmt 7. gr.

Við mat á hreyfihömlun vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 29. október 2021.

Í hreyfihömlunarvottorði hafi meðal annars komið fram að kærandi væri lömuð fyrir neðan mitti og hafi verið bundin við hjólastól um árabil síðan eftir slys X. Einnig hafi komið fram að kærandi hafi farið í aðgerð á vinstri öxl í X og að í kjölfarið eigi kærandi að reyna að forðast mikið álag á axlir í nánustu framtíð.

Á þeim forsendum hafi skilyrði um hreyfihömlun talist uppfyllt en ekki viðbótarskilyrði vegna styrks samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar.

Umsóknir um styrk samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar séu teknar sérstaklega fyrir á fundi sérstaks afgreiðsluhóps sem meti þörf umsækjanda á stórri og sérútbúinni bifreið. Þessi afgreiðsluhópur sé meðal annars skipaður lækni, lögfræðingi og sérfræðingi frá Sjúkratryggingum Íslands. Sá hópur meti hverja umsókn heildstætt og sé meðal annars horft til þess hve mikil hreyfihömlun umsækjanda sé og hve mikil þörf hans fyrir hjálpartæki sé.

Tryggingastofnun hafi metið kæranda hreyfihamlaða. Eins og fram hafi komið í greinargerðinni eigi kærandi rétt á styrk samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar og hafi sá styrkur nú þegar verið afgreiddur. Tryggingastofnun telji hins vegar að kærandi uppfylli ekki þau viðbótarskilyrði sem séu sett fyrir því að geta átt rétt á styrk samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar.

Eins og áður hafi komið fram eigi heimild Tryggingastofnunar til að veita styrk samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar við í þeim tilvikum þar sem um sé að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 6. gr. og styrk samkvæmt 7. gr. og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá hann þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist um bifreiðar sem heimilt sé að veita uppbót samkvæmt 6. gr. eða styrk samkvæmt 7. gr. Kærandi hafi ekki sýnt fram á það.

Styrkur samkvæmt 8. gr. reglugerðar hafi verið miðaður við það að hinn hreyfihamlaði sé í þannig aðstæðum að hann geti ekki farið úr rafmagnshjólastól til þess að komast inn í bifreiðina. Í þeim tilvikum þurfi hinn hreyfihamlaði bifreið sem sé nægilega stór svo að hann geti, með nauðsynlegum breytingum, verið fluttur í hjólastólnum inn í bifreiðina þar sem hjólastóllinn sé svo festur niður. Í flestum tilvikum sé um svokallaða hjólastólalyftu að ræða en í undantekningartilfellum sé notast við ramp.

Eins og gefi að skilja séu þeir bílar, sem hægt sé lyfta fullvöxnum einstaklingi inn í á meðan hann sitji í rúmfrekum rafmagnshjólastól, mjög stórir og í næstum öllum tilvikum sé nauðsynlegt að um sendibifreið sé að ræða. Á þessum bifreiðum þurfi líka að gera verulegar sérbreytingar sem séu meiri en þær sem almennt þurfi að gera þegar um sé að ræða styrk samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar. Þörfum þessa hóps sé styrk samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 905/2021 ætlað að mæta.

Í tilfelli kæranda sé gert ráð fyrir lyftubúnaði sem lyfti hjólastólnum inn í bifreiðina með sérstakri lyftu á meðan hún komi sér sjálf í bifreiðina með sérstökum lyftubúnaði. Þetta sé ekki einstakt mál, sjá til dæmis kærumál nr. 459/2016, og sé nokkur fjöldi einstaklinga sem hafi leyst sín bifreiðamál á sama hátt. Einstaklingar, sem geti sjálfir komið sér inn í bifreið og þurfi ekki að sitja í hjólastólnum á ferð, fái ekki styrk samkvæmt 8. gr. heldur séu styrkir samkvæmt 7. gr. hugsaðir fyrir þá. Ljóst sé að sá búnaður sem kærandi láti setja í bíl sinn sé í samræmi við þau viðmið sem gert sé ráð fyrir með styrk samkvæmt 7. gr., en ekki í samræmi við þann búnað sem 8. gr. geri ráð fyrir. Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, reglugerð nr. 905/2021 og við fyrri úrskurði úrskurðarnefndar vegna núgildandi reglugerðar og sambærilegra ákvæða í fyrri reglugerðum nr. 170/2009 og 752/2002. Rétt sé að benda á fyrri niðurstöður úrskurðarnefndar í málum nr. 459/2016 og 334/2019.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um 60% styrk vegna kaupa á bifreið.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 8. gr. reglugerðarinnar er fjallað um heimild til að veita styrk til kaupa á sérútbúinni bifreiða. Ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. hljóðar svo:

„Heimilt er að veita styrk til að kaupa bifreið, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin á þó einungis við þegar umsækjandi uppfyllir skilyrði 7. gr. og ekur sjálfur eða annar heimilismaður.

Áður en styrkur er veittur skal þörf umsækjanda fyrir hjálpartæki og bifreið hafa verið metin heildstætt og sýnt fram á sérstaka þörf fyrir sérútbúna bifreið. Þá skal liggja fyrir mat sjúkratryggingastofnunar á þörf umsækjanda fyrir hjálpartæki og skal Tryggingastofnun hafa samþykkt val á bifreið með hliðsjón af þeim hjálpartækjum sem umsækjandi þarf á að halda.“

Fjárhæð styrks samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar getur numið að hámarki 60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, sbr. 5. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar.

Um skilyrði til að hljóta styrk samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar segir meðal annars svo í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar:

„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta, t.d. að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður.“

Að mati Tryggingastofnunar ríkisins uppfyllir kærandi skilyrði 7. gr. framangreindrar reglugerðar til að fá styrk til að kaupa bifreið vegna verulegrar hreyfihömlunar. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á styrk sem nemur allt að 60% af kaupverði bifreiðar, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar. Tryggingastofnun byggir á því að kærandi uppfylli ekki viðbótarskilyrði til að eiga rétt á styrk samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar vegna kaupa á sérútbúinni bifreið vegna mikillar fötlunar.

Í læknisvottorði E, dags. 14. febrúar 2022, er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„Axlarmeinsemdir

Injury of spinal cord, level unspecified“

Í lýsingu á sjúkdómsástandi segir að kærandi sé með paraplegiu og bundin við hjólastól eftir mænuskaða árið X. Hún hafi farið í aðgerð vegna axlarskaða í X. Hún hafi haft umtalsverð einkenni frá báðum öxlum og eigi erfitt með öll átök og álag á axlir. Kærandi þurfi því nauðsynlega sérútbúinn bíl með lyftu. Í rökstuðningi fyrir notkun hjálpartækis segir:

„Konan er lömuð og háðhjólastól og bifreið til að komast leiðar sinnar. Vegna versnandi líkamlegra einkenna frá stoðkerfi þarf konan nú sérútbúið ökutæki.“

Um mat læknis á batahorfum segir:

„Engar-versnar með tímanum“

Þá liggur fyrir hreyfihömlunarvottorð C, dags. 29. október 2021.

Í læknisvottorði D, dags. 15. júní 2022, segir meðal annars:

„Hér með vottast að A, sem er bundin við hjólastól hefur haft verkjavandamál í öxlum og fór í subacromial decompression og AC resection á vinstri öxlinni X. Sjá mátti status eftir tenolysu og hún var með trosnun í supraspinatus sin.

Líklega svipuð vandamál í hægri öxlinni. Mikilvægt er ef hægt er að minnka álagið á axlirnar eins og hægt er til að koma í veg fyrir frekari veikindi í öxlunum og frekari aðgerðir. Sérstaklega með tilliti til rotator cuff áverka. Er því mælt með að hún fái þau hjálpartæki sem hægt er að veita henni þar á meðal bílstólalyftu í bíl.“

Í bréfi F iðjuþjálfa, dags. 4. júlí 2022, segir meðal annars:

„A þarf bíl sem er sérútbúinn gagnvart hennar þörfum í dag og getur aðlagast þörfum hennar og færni næstu 5 árin. Hún er nú þegar komin með verki og slit í axlir út frá daglegum tilfærslum í og úr hjólastól, fór í aðgerð á vinstri öxl í X. Hún er í sjúkraþjálfun og þegar hún hefur náð styrk í vinstri öxl þá er fyrirhuguð aðgerð á hægri öxl vegna slits.“

Samkvæmt bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 28. febrúar 2022, fékk kærandi samþykktan Hurt-Auto straight track lyftubúnað sem flytur hjólastólinn inn um hliðarhurð og Hurt-Auto hækkanlegt flutningsbretti til að lyfta kæranda inn í bifreiðina. Í gögnum málsins kemur fram að bifreiðin, sem kærandi hefur áhuga á að kaupa, sé af gerðinni Y.

Af greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins má ráða að stofnunin hefur ákveðin viðmið um veitingu 60% styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 8. gr. framangreindar reglugerðar. Fram kemur í greinargerðinni að styrkur samkvæmt 8. gr. reglugerðar hafi verið miðaður við það að hinn hreyfihamlaði sé í þannig aðstæðum að hann geti ekki farið úr rafmagnshjólastól til þess að komast inn í bifreiðina. Í þeim tilvikum þurfi hinn hreyfihamlaði bifreið sem sé nægilega stór svo að hann geti, með nauðsynlegum breytingum, verið fluttur í hjólastólnum inn í bifreiðina þar sem hjólastóllinn sé svo festur niður. Í flestum tilvikum sé um svokallaða hjólastólalyftu að ræða en í undantekningartilfellum sé notast við ramp. Tryggingastofnun er heimilt að setja viðmið til þess að stuðla að samræmi og jafnræði við veitingu styrkja til bifreiðakaupa. Viðmiðin verða þó að vera í samræmi við ákvæði laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og ákvæði reglugerðar nr. 905/2021. Þá er Tryggingastofnun ekki heimilt að láta hjá líða að framkvæma það mat sem stofnuninni er ætlað að gera samkvæmt lögum. Stofnunin þarf því að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort einstaklingur komist ekki af án sérútbúinnar bifreiðar vegna mikillar fötlunar.

Af gögnum málsins verður ráðið að Tryggingastofnun hafi synjað kæranda um 60% styrk til bifreiðakaupa þegar af þeirri ástæðu ekki þurfi að flytja hana í rafmagnshjólastól inn í bifreiðina í samræmi við viðmið stofnunarinnar. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála þrengir framangreind túlkun Tryggingastofnunar um of réttindi samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 905/2021 ef höfð er hliðsjón af orðalagi ákvæðisins. Úrskurðarnefndin telur að ráðið verði af orðalagi 7. gr. reglugerðarinnar að styrkur samkvæmt því ákvæði nái yfir einstaklinga í hjólastól og að meira þurfi að koma til svo að veittur sé styrkur samkvæmt 8. gr. Tekið er fram að krafa sé gerð um að einstaklingur komist ekki af án sérútbúinnar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Þá er bent á að skilyrðið um dýra bifreið, sem fram kom í reglugerð nr. 170/2009, var afnumið með reglugerð nr. 905/2021.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur ljóst af gögnum málsins að kærandi sé alfarið háð hjólastól vegna lömunar. Þá er hún jafnframt með umtalsverð einkenni frá báðum öxlum vegna slits sökum daglegra tilfærslna í og úr hjólastól. Þá liggur fyrir að kærandi hefur fengið samþykktan lyftubúnað sem flytur hjólastólinn inn í bifreiðina og hækkanlegt flutningsbretti til að lyfta kæranda inn í bifreiðina. Einnig kemur fram að bifreið sú, sem kærandi hafi áhuga á að kaupa, sé af gerðinni Y.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin ljóst að kærandi þurfi á sérútbúinni bifreið að halda. Þá er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi búi við mikla fötlun. Úrskurðarnefndin telur því að Tryggingastofnun hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um 60% styrk til bifreiðakaupa á þeim grundvelli að viðmið stofnunarinnar væru ekki uppfyllt. 

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um 60% styrk til bifreiðakaupa er því felld úr gildi. Málinu er heimvísað til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um 60% styrk vegna kaupa á bifreið, er felld úr gildi. Málinu er heimvísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum