Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hlustum á raddir unga fólksins

Í tilefni aldarafmælis útgáfu fyrstu skáldsögu Nóbelskáldsins Halldórs Laxness var í gær opnuð sýning í Landsbókasafni Íslands. Sýningin ber yfirskriftina „Að vera kjur eða fara burt?“  en viðfangsefni hennar er sagan Barn náttúrunnar sem Halldór gaf út árið 1919, þá aðeins 17 ára gamall, tíðarandi hennar og sögulegt samhengi.  Þetta bernskuverk skáldsins bar með sér fyrirheit og var því tekið með nokkurri eftirvæntingu. Í ritfregnum tímaritsins Skírnis, ári síðar, var meðal annars skrifað:

„Höf. er kornungur, og er því öll von til, að smíðagallar séu ærnir á verkinu, enda má margt að sögunni finna, ósamræmdar sálarlífslýsingar og ósennilega atburði. En samt getur engum dulizt það, að hér er um að ræða efni í skáld, sem líklegt er til góðra afreka, er þroski vex og lífsreynsla. Höf. er létt að skrifa, dettur margt í hug og er stál-duglegur. Nú er hann farinn til útlanda til að þroska sig og menta. Er full ástæða til að óska honum góðs gengis, og grunar mig, að hann eigi eftir að auðga íslenzkar bókmentir að góðum skáldskap, ef honum endist aldur og heilsa.“ 

Það varð gæfa landsmanna og lesenda um allan heim að höfundurinn ungi gerði einmitt það, hann auðgaði með verkum sínum íslenskar bókmenntir og þar með bókmenntir heimsins með stílsnilli sinni, hugviti og innsýn, og gerir enn: 

„Saga þessa verks er góð áminning þess fyrir okkur öll að huga vel að bernskuverkum. Að fagna þeim og hlusta á raddir unga fólksins okkar. Þó hinn sautján ára Halldór Guðjónsson hafi verið fremur óvenjulegur ungur maður, og kominn til meiri þroska en flestir jafnaldrar hans þá og ekki síður nú, þá var hann ungmenni með erindi við heiminn,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í ávarpi sínu. 

Sýningin er samstarfsverkefni Landsbókasafnsins, Gljúfrasteins og Forlagsins en hana styrkja einnig Safnaráð og Vinafélag Gljúfrasteins.

  •   - mynd
  • Hlustum á raddir unga fólksins - mynd úr myndasafni númer 2
  • Hlustum á raddir unga fólksins - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum