Hoppa yfir valmynd
20. júní 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 363/2023 Úrslurður

 

 

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 20. júní 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 363/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23010027

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 17. janúar 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Malí (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. janúar 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 75. eða 76. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 3. nóvember 2020. Með ákvörðun, dags. 14. maí 2021, synjaði Útlendingastofnun því að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 1. júní 2021. Með úrskurði nr. 469/2021, dags. 22. september 2021, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar. 

Hinn 3. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 22. september 2021. Með úrskurði nr. 672/2021, dags. 16. desember 2021, hafnaði kærunefnd kröfu kæranda um endurupptöku málsins. Hinn 22. mars 2022 barst önnur beiðni um endurupptöku. Með úrskurði nr. 183/2022, dags. 4. maí 2022, féllst kærunefnd á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans. Var ákvörðun Útlendingastofnunar frá 14. maí 2021 felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. 

Hinn 31. maí 2022 kom kærandi í viðtal hjá Útlendingastofnun ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun 5. janúar 2023 synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá var kæranda jafnframt synjað um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 75. og 76. gr. laga um útlendinga. Var ákvörðun Útlendingastofnunar kærð til kærunefndar 17. janúar 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 31. janúar 2023. Með tölvubréfi 9. júní 2023 óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum og gögnum frá kæranda. Með svari sem barst kærunefnd 19. júní 2023 kvaðst kærandi ekki hafa frekari gögn eða upplýsingar og vísaði til fyrri svara sinna.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu vegna ofsókna af hendi fjölskyldu manns sem hafi látist í kjölfar bílslyss sem hann hafi verið valdur að. Þá byggi kærandi á því að hann hafi verið fórnarlamb mansals.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá var kæranda einnig synjað um dvalarleyfi sem fórnarlambi mansals eða gruns þar um samkvæmt 75. og 76. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun 31. maí 2022 greint frá því að hann hefði fæðst í Gabero í Malí. Kærandi kvaðst ekki eiga fjölskyldumeðlimi í landinu eða minningar frá þeim tíma er hann bjó þar. Hafi móðir kæranda sagt honum frá að þau hafi flust til Latrikunda í Gambíu eftir að hryðjuverkahópur hafi myrt föður hans í Malí. Hafi móðir hans tjáð honum að hópur fólks hafi ráðist á þau í Gabero og hafi ætlað að myrða þau. Kærandi kvaðst ekki þekkja til þess hóps. 

Þá greindi kærandi frá því að hann hafi flúið Gambíu í janúar 2014 þar sem hann hafi af slysni keyrt á mann sem hafi látist af þeim sökum. Hafi fjölskylda mannsins haft upp á kæranda og fjölskyldu hans, ráðist á frænda hans og hótað kæranda lífláti. Í kjölfarið hafi kærandi flúið til höfuðborgar Gambíu og þaðan til Senegal. Kærandi hafi kynnst manni sem hafi komið honum í samband við mann frá Nígeríu sem hafi aðstoðað hann við flótta til Ítalíu. Kærandi hafi verið tjáð að fargjaldið væri 70 þúsund evrur og honum verið boðið að vinna fyrir því en við það leiðst í gildru mansals. Þegar kærandi hafi komið í flóttamannabúðir á Ítalíu hafi hann haft samband við mansalshópinn til að vinna upp skuldina. Um kynlífsvinnu hafi verið að ræða og hafi  honum verið hótað áhrif vúdú eiðs hans ef hann innti ekki starfið af hendi. Vegna Covid-19 faraldursins hafi enga vinnu verið að fá og hafi hópurinn þá neytt hann til að flytja fíkniefni til þess að greiða upp skuldina. Þau sex ár sem kærandi hafi verið á Ítalíu hafi hann greitt hópnum 30 þúsund evrur og skuldi hann hópnum enn 40 þúsund evrur. Kærandi hafi dvalið ólöglega á Ítalíu frá árinu 2018. Kærandi hafi kynnst ítalskri stúlku sem hafi boðið honum að búa hjá sér og hafi þau gengið í hjúskap í júní 2020. Vegna þrálátra hótana frá mansalshópnum hafi kærandi séð þann eina kost að yfirgefa Ítalíu. 

Kærandi byggir aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi þurft að þola ofsóknir og eigi ofsóknir yfir höfði sér. Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar að þjóðfélagshópi þar sem hann hafi verið skotmark hryðjuverkahóps í Malí vegna fjölskyldutengla sinna. Kærandi búi yfir takmörkuðum upplýsingum um ástæður ofsóknanna þar sem hann hafi verið ungabarn þegar atburðurinn átti sér stað. Í öðru lagi byggir kærandi á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir þar sem hann sé þolandi mansals. Kærandi vísar til þess að lágmarksviðmið hvað varðar aðgerðir gegn mansali séu ekki uppfyllt í Gambíu og að í Senegal, sem umlyki landið, hafi mansalshópurinn mikla starfsemi. Kærandi óttist hefndaraðgerðir og að verða fyrir endurteknu mansali. Kærandi vísar til þess að hann hafi lýst andlegu heilsufari sínu og að hann upplifi meðal annars vænisýki og þunglyndi. Þá hafi kærandi sótt viðtöl hjá ráðgjafa á Stígamótum sem hafi staðfest í vottorði að frásögn hans af mansali samræmist þeirri reynslu sem mansalsfórnarlömb hafi lýst hjá Stígamótum. Í þriðja lagi byggir kærandi aðalkröfu sína á því að hann hafi búið við hótanir um líflát og eigi í ástæðuríkum huglægum ótta vegna þess banaslyss sem hann hafi verið valdur að í Gambíu en aðstandendur mannsins sem hafi látist hafi ráðist á frænda hans og hótað kæranda lífláti sem hafi orðið til þess að hann hafi flúið landið. Kærandi telur að ljóst sé af heimildum að hefndaraðgerðum sé jafnan beitt í Gambíu. Þá vísar kærandi framangreindu til stuðnings til niðurstöðu kærunefndar í úrskurði nr. 482/2020, uppkveðnum 17. desember 2020. Þar hafi aðili málsins sem var gambískur ríkisborgari borið fyrir sig að hafa valdið eldsvoða á jörð á barnsaldri og óttaðist afleiðingar vegna þess sem kæmu fram í ofsóknum. Að mati kærunefndar hefði Útlendingastofnun ekki rannsakað með fullnægjandi hætti afleiðingar af því broti og hvort hann ætti á hættu að sæta refsingu sem væri óhófleg eða myndi mismuna honum á ómálefnalegum grundvelli. Kærandi telur að hið sama eigi við um hans mál enda sé ekkert fjallað um tilvonandi refsingu hans í ákvörðun Útlendingastofnunar, hvort sem hún yrði af hálfu almennings eða stjórnvalda. Þá telur kærandi að vilji og geta gambískra stjórnvalda til að veita honum vernd gegn ofsóknum sé ófullnægjandi. 

Kærandi byggir varakröfu sína um viðbótarvernd meðal annars á því að hann eigi á hættu ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í Gambíu. Kærandi vísar til röksemda fyrir aðalkröfu máli sínu til stuðnings, en ljóst sé að upplifun hans af mansali hafi einkennst af grófum mannréttindabrotum og ofbeldi. Kærandi vísar til þess að samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins beri að rannsaka mál í samvinnu við umsækjanda eins og unnt er og túlka vafa umsækjanda í hag sé frásögn hans trúverðug og eigi hún sér stoð í hlutlægum gögnum. Að mati kæranda hafi frásögn hans verið trúverðug og eigi sér stoð í fjölda heimilda sem liggi til grundvallar í málinu. 

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á 1. mgr. eða 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir kröfu um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. á því að hann hafi ríka þörf á vernd með tilliti til almennra og erfiðra aðstæðna og heilbrigðisaðstæðna. Kærandi telur að verði honum gert að snúa aftur til Gambíu sé líklegt að hann muni verða fyrir sambærilegri meðferð og hann hafi áður þurft að þola og verði hann sérstaklega útsettur fyrir félagslegri mismunun og ófullnægjandi grunnþjónustu, þar með talið aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þá vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi ekki tekið tillit til þess að hann sé þolandi langvarandi kynferðisofbeldis, vændis og mansals. Hvað félagslegar aðstæður varði þá telur kærandi að hann eigi á hættu að verða hnepptur aftur í mansal eða verða fyrir ofbeldi af hálfu þess mansalshrings sem hann standi enn í skuld við. Bendi heimildir til þess að þolendur mansals eigi erfitt uppdráttar í Gambíu. Kærandi óttist mansalshópinn þar sem hópurinn hafi látið hann gangast undir vúdú-galdur. Hvað varðar heilbrigðisaðstæður bendir kærandi á að hann sé í meðferð sem sé óforsvaranlegt að rjúfa og að hann glími við veikindi sem eigi að leiða til þess að honum beri að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi vísar til þess að samkvæmt framlögðu vottorði frá ráðgjafa Stígamóta komi fram kærandi glími við afleiðingar af vændi og kynferðislegu ofbeldi og þurfi að vinna úr þeim afleiðingum til að öðlast betri líðan og öryggi. Kærandi telur að upplýsingar sem komi fram í ákvörðun Útlendingastofnunar um heilbrigðiskerfi í Gambíu séu misvísandi. Kærandi vísar til þess að af landaupplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni frá árinu 2019 megi sjá að um 90% fólks með alvarlegan geðheilbrigðisvanda hafi ekki aðgang að meðferð í landinu. Þá leiði félagslegt umhverfi í Gambíu til þess að ólíklegt sé að litið verði á kæranda sem þolanda mansals. 

Kærandi byggir kröfu um dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á því að þar sem meira en 18 mánuðir séu liðnir frá því að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins. Að mati kæranda hafi hann í greinargerð gefið skýringar á þeim atriðum sem Útlendingastofnun hafi metið ótrúverðug. Telur kærandi að þær skýringar veiti viðhlítandi upplýsingar um hann. Því séu skilyrði b- og d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt. 

Til þrautaþrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 75. eða 76. gr. laga um útlendinga þar sem hann sé fórnarlamb eða hugsanlegt fórnarlamb mansals. Kærandi vekur athygli á því að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé ekki einu orði minnst á fyrirliggjandi vottorði Stígamóta. Kærandi telur að líta verði til persónulegra aðstæðna hans þar sem hann glími við afleiðingar mansalsins og hafi brýna þörf á sálfræði- og heilbrigðisþjónustu vegna þess sem hann muni ekki hafa kost á í Gambíu. Þá hangi enn yfir kæranda sú kvöð að greiða mansalshópnum 40 þúsund evrur. Kærandi vísar til þess að hann eigi engan að í heimaríki sínu sem geti veitt honum stuðning og verði því að meta það sem hluta af persónulegum aðstæðum hans. Kærandi sé berskjaldaður fyrir áframhaldandi mansali verði hann sendur úr landi. Kærandi bendir á að Gambía sé landlukt af Senegal þar sem kærandi hafi komist í samband við mansalshópinn og sé það ekki ólíklegt að honum stafi enn hætta af hópnum.

Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar. Kærandi bendir í fyrsta lagi á það að hann sé af annarri kynslóð flóttamanna og geti því ekki sannað á sér deili með persónuskilríkjum. Kærandi hafi greint frá því að hafa alist upp í Gambíu og sé frásögn hans um aðstæður í Malí ekki annað en endurtekning á frásögn móður hans. Þá telur kærandi að tungumála- og staðháttarpróf sem hann hafi gengist undir sé ekki í þversögn við framburð hans enda hafi hann greint frá því að móðir hans hafi talað Wolof og faðir hans Mandiga. Með vísan til þess telur kærandi að ekki sé tækt að leggja til grundvallar að hann hafi með ásetningi og gegn betri vitund gefið upp rangar upplýsingar um heimaríki sitt og villt fyrir íslenskum stjórnvöldum líkt og haldið sé fram í ákvörðun Útlendingastofnunar. Í öðru lagi mótmælir kærandi því að það hafi verið metið honum í óhag að hafa fyrst um sinn kveðið móður sína á lífi en síðar látna. Kærandi bendir á að hann hafi verið fjarri heimaríki sínu í fjölda ára og í óstöðugu sambandi við ættingja sína í landinu. Í þriðja lagi telur kærandi að svo virðist sem að hjúskaparstaða hans hafi dregið úr trúverðugleika hans. Að mati kæranda hafi hann útskýrt samviskusamlega ástæðu þess að hann hafi yfirgefið Ítalíu. Hafi skuldaánauð hans og yfirvofandi ógn af mansalshringnum orðið engu minni eftir að hann hafi gengið í hjúskap. Að lokum gerir kærandi athugasemd við könnun á auðkenni hans og aðferðarfræði aldurgreiningu sem hann hafi gengist undir. 

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni og ríkisfang kæranda

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þar sem kærandi hefði ekki lagt fram nein gögn sem fallin væru til að sanna á honum deili yrði leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. 

Fram kemur í ákvörðuninni að kærandi hafi við komuna til Íslands lagt fram grunnfalsað belgískt kennivottorð. Kærandi hafi ekki lagt fram önnur kennivottorð við meðferð málsins. Samkvæmt upplýsingum frá ítölskum stjórnvöldum 9. febrúar 2021 hafi kærandi verið skráður á Ítalíu undir nafninu [...] með fæðingardaginn [...] og gambískt ríkisfang. Útlendingastofnun vísaði til þess að engin gögn lægju fyrir í málinu sem gæfu til kynna að kærandi væri ríkisborgari Malí eins og hann byggði á, einungis væri frásögn hans sjálfs sem lægi til grundvallar þar um. Þá hefði kærandi sjálfur gengist við því hjá lögreglu hér á landi að hafa veitt yfirvöldum rangar upplýsingar um nafn sitt og heimaríki. Jafnframt hefðu gögn málsins og aldursgreining sem kærandi gekkst undir sýnt fram á það að hann væri eldri en 18 ára og útilokað væri að fæðingardagur hans væri [...]. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að ekki væri tækt að leggja til grundvallar að kærandi væri ríkisborgari Malí líkt og hann segðist vera. Á hinn bóginn taldi stofnunin enga ástæðu til að draga í efa að kærandi væri frá Gambíu og lagði því til grundvallar úrlausn málsins hann væri gambískur ríkisborgari en óvissa væri um auðkenni hans.

Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á ríkisfangi hans. Kærandi vísar til þess að hann sé af annarri kynslóð flóttamanna og geti því ekki sannað á sér deili með persónuskilríkjum. Þá hafi móðir kæranda ein verið til frásagnar um líf þeirra í Malí. Kærandi telur sig hafa verið frá upphafi hreinskilinn um uppsprettu þekkingar sinnar á Malí. Gambía sé uppeldisstaður kæranda og frásögn um heimaríki sé ekkert annað en endurtekning á frásögn móður hans. 

Í gögnum málsins er að finna leitarniðurstöður úr Eurodac kerfinu frá 10. nóvember 2020. Í þeim kemur fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd á Ítalíu 11. september árið 2014. Þá liggur fyrir svar frá ítölskum stjórnvöldum til Útlendingastofnunar, dags. 9. febrúar 2021, þar sem fram kemur að kærandi hafi verið skráður þar í landi undir nafninu [...], með fæðingardaginn [...] og með gambískt ríkisfang líkt og að framan er rakið. Í svarinu er sérstaklega tekið fram að þegar kærandi sótti um alþjóðlega vernd þar í landi hafi hann ekki verið barn. Fram kemur í svörum frá ítölskum stjórnvöldum að kærandi hafi ekki lagt fram nein skilríki eða gögn varðandi auðkenni sitt þar í landi. Þá má ráða af svörunum að kæranda hafi verið brottvísað frá Ítalíu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 21. desember 2020 kvaðst kærandi hafa sótt um alþjóðlega vernd á Ítalíu en ekki fengið. Kærandi kvað ítölsk stjórnvöld hafa veitt honum dvalarleyfi til tveggja ára.

Vegna misræmis í upplýsingagjöf til stjórnvalda á Ítalíu annars vegar og á Íslandi hins vegar um persónuupplýsingar kæranda taldi kærunefnd tilefni til að óska eftir frekari upplýsingum frá honum. Með tölvubréfi, dags. 9. júní 2023, óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá kæranda um hvað væri hans rétta nafn og skýringar á misræmi í upplýsingagjöf til ítalskra og íslenskra stjórnvalda. Þá óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá kæranda um það hvort ítölsk stjórnvöld hefðu tekið við hann viðtal í tengslum við umsókn hans um alþjóðlega vernd, hvort þau hefðu tekið ákvörðun í máli hans og hvort hann gæti lagt fram gögn í tengslum við málsmeðferðina á Ítalíu. Jafnframt væri kærandi spurður að því hvaða auðkennisgögn/skilríki hann hefði lagt fram til ítalskra stjórnvalda þegar hann gekk í hjúskap með konu þar í landi sumarið 2020. Engin svör eða gögn bárust frá kæranda. 

Við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun gekkst kærandi þann 12. september 2022 undir tungumála- og staðháttarpróf. Var tungumálahegðun kæranda rannsökuð út frá Manding tungumálasamfélaginu í Gambíu. Í almennum athugasemdum greiningarinnar kemur fram að kærandi tali Manding líkt og innfæddur (e. native-speaking level). Sé tilgáta rannsakenda sú að tungumálahegðun kæranda falli að Western Manding málsamfélaginu. Gambía, sem kærandi hefði greint frá að hafi verið aðalbúsetusvæði hans, sé staðsett innan Western Manding málsvæðisins. 

Eins og fram hefur komið byggði kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd á Ítalíu á því að hann væri ríkisborgari Gambíu. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hvar í ferlinu umsókn hans um alþjóðlega vernd hafi verið, þ.e. hvort kærandi hafi verið búinn að fá ákvörðun í máli sínu. Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum um framangreint í erindi sínu til kæranda en engin svör bárust eins og áður segir. Allt að einu þá liggur fyrir að kærandi var skráður sem einstaklingur frá Gambíu hjá ítölskum stjórnvöldum og virðist samkvæmt gögnum málsins ekki hafa gert tilraun til að breyta því hjá þeim. Samkvæmt framangreindu gera ráð fyrir því að kærandi hafi verið fullmeðvitaður um það að ítölsk stjórnvöld tækju umsókn hans um alþjóðlega vernd til skoðunar út frá aðstæðum í Gambíu, landi sem hann hafi tilgreint sem heimaríki sitt við komuna til Ítalíu árið 2014. Kærandi hefur eins og áður engin haldbær gögn lagt fram um ríkisfang og auðkenni. 

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar ekki séu fyrir hendi forsendur til að hagga mati Útlendingastofnunar þess efnis að kærandi sé gambískur ríkisborgari og verður það því lagt til grundvallar í málinu. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Aldursgreining

Kærandi gerir í greinargerð athugasemdir við að mat á trúverðugleika hans hafi verið byggt á aldursgreiningu hans frá 25. nóvember 2020 sem hafi sýnt fram á að hann væri eldri en 18 ára. Að mati kæranda sé hægt að draga í efa aðferðarfræði aldursgreiningar sem hann hafi verið látinn gangast undir. 

Í ákvörðun Útlendingastofnunar segir meðal annars ef tekið yrði mið af frásögn kæranda hér á landi um aldur þá hefði hann verið 11 ára gamall við komuna til Ítalíu. Taldi Útlendingastofnun það ólíklegt að ítölsk stjórnvöld hefðu skráð 11 ára gamlan dreng sem 24 ára gamlan mann. Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að í svari ítalskra yfirvalda við upplýsingabeiðni stofnunarinnar hefði verið skýrt tekið fram að kærandi hefði ekki verið fylgdarlaust ungmenni þegar hann hafi komið til Ítalíu. Yrði því í ljósi niðurstöðu aldursgreiningar kæranda og upplýsinga frá ítölskum stjórnvöldum lagt til grundvallar að hann væri fæddur [...], til samræmis við skráningu hans hjá ítölskum stjórnvöldum, og væri því eldri en 18 ára gamall.

Í úrskurði kærunefndar nr. 469/2021 tók nefndin afstöðu til athugasemda kæranda við mat Útlendingastofnunar á aldri hans og niðurstaðna aldursgreininga sem hann hefði verið látinn gangast undir. Í úrskurðinum segir að samkvæmt ákvæðum 113. gr. laga um útlendinga hafi löggjafinn ákveðið að stjórnvöld á sviði útlendingamála skyldu beita tilteknum rannsóknaraðferðum þegar upplýsa þyrfti um aldur umsækjanda um alþjóðlega vernd. Þá hafi löggjafinn jafnframt ákveðið að mat á aldri skyldi vera heildstætt og vera byggt, eftir atvikum, á fleiri gögnum en líkamsrannsókn. Var það mat kærunefndar að af upplýsingum frá Ítalíu yrði ráðið að misræmi væri í framburði kæranda um aldur hans og auðkenni. Í málinu lægju fyrir gögn, annars vegar aldursgreining og hins vegar gögn frá ítölskum stjórnvöldum, sem gæfu til kynna að kærandi væri fullorðinn. Kærandi hefði gefið upp mismunandi upplýsingar um fæðingardag hjá íslenskum og ítölskum stjórnvöldum, annars vegar [...] og hins vegar [...]. Þegar litið yrði með heildstæðum hætti til gagna málsins, þ. á m. misvísandi framburðar kæranda um aldur, aldursgreiningar, upplýsinga frá ítölskum stjórnvöldum, andmæla kæranda og framlagðra gagna hans, teldi kærunefnd ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að kærandi væri eldri en 18 ára. Þá var það mat kærunefndarvafi léki ekki á um það í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga.

Í fyrrgreindu tölvubréfi sem kærunefnd sendi talsmanni kæranda 9. júní 2023 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá kæranda varðandi hjúskap hans við konu þar í landi. Kærunefnd vísað til þess að kærandi hefði greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun hann hefði gifst umræddri konu sumarið 2020 en þá hefði hann, samkvæmt uppgefnum fæðingardegi hér á landi, ekki verið orðinn 18 ára. Samkvæmt ítölskum lögum væri lágmarksaldur til að ganga í hjúskap 18 ára og þyrftu einstaklingar sem væru yngri að fá samþykki hjá foreldri eða dómara til að ganga í hjúskap. Kærandi var meðal annars spurður að því hvers konar skilríki og gögn hann hafi lagt fram við hjónavígsluna og hvaða fæðingardag hann hefði gefið upp. Engin svör bárust frá kæranda. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki lagt fram haldbærar skýringar á misræmi í upplýsingagjöf til íslenskra og ítalskra stjórnvalda um aldur. Þá hefur kærandi ekki sýnt vilja í verki að varpa frekari ljósi á staðreyndir málsins hvað framangreint varðar. 

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekki sé tilefni til að hagga mati Útlendingastofnunar á aldri hans. Verður því ekki lagt til grundvallar við úrlausn málsins að fæðingardagur kæranda sé [...] eða að hann hafi verið barn við komuna til Ítalíu árið 2014 líkt og hann hefur haldið fram.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Gambíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum: 

  • 2022 Country Report on Human Rights Practices – The Gambia (U.S. Department of State, 20. mars 2023);

  • 2022 Sex Trafficking in Persons Report (U.S. Department of State, 19. júlí 2022);

  • A Training Curriculum on Mental Health and Psychosocial Support Services for Migrants in The Gambia (Ministry of Health of Gambia, 2020);

  • Amnesty International Report 2022/2023 – Gambia (Amnesty International, 27. mars 2023);

  • EASO Country of Origin Information Report - The Gambia Country Focus (European Asylum Support Office, desember 2017); 

  • Freedom in the World 2022 – The Gambia (Freedom House, 24. febrúar 2022);

  • Gambia Nationality and Citizenship Act, Cap. 82 (8 February 1965, aðgengilegt á : https://www.refworld.org/docid/3ae6b4fb18.html, sótt 16. júní 2023);

  • Stjórnarskrá Gambíu (http://hrlibrary.umn.edu/research/gambia-constitution.pdf; 

  • The Gambia National Development Plan (2018-2021) (Forsætisráðuneyti Gambíu, 2017); 

  • World Directory of Minorities and Indigenous People – Gambia (Minority Rights Group International, uppfært maí 2020) og

  • The World Factbook. Africa: The Gambia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 21. desember 2021);

Gambía er lýðveldi í Vestur-Afríku með rúmlega 2,4 milljónir íbúa. Landið hlaut sjálfstæði frá Bretlandi 18. febrúar 1965. Hinn 21. september 1965 gerðist Gambía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1978 og alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ári síðar. Gambía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2018 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983. 

Í mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 kemur fram að helstu mannréttindavandamál í Gambíu snúi meðal annars að pyntingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu af hálfu eða fyrir hönd stjórnvalda; erfiðar og lífshættulegar fangelsisaðstæður; skortur á rannsókn og ábyrgð á kynbundnu ofbeldi, þar með talið heimilisofbeldi og makaofbeldi, kynferðisofbeldi, nauðungarhjónaböndum og umskurði/skurði á kynfærum kvenna

Þá kemur fram að Gambíuherinn aðstoði borgaraleg yfirvöld í neyðartilvikum og veiti náttúruhamfarahjálp og heyri undir varnarmálaráðherrann. Lögreglan í Gambíu haldi uppi innra öryggi og heyri undir innanríkisráðuneytið. Hafi borgaraleg yfirvöld haldið virku eftirliti yfir öryggissveitum landsins. Einnig kemur fram að ríkisstjórnin hafi gert ráðstafanir til að rannsaka og saksækja brot embættismanna en engu að síður sé refsileysi og skortur á fullnustu refsinga enn vandamál. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur jafnframt fram að stjórnarskrá Gambíu tryggi sjálfstæði dómsvaldsins. Réttur til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar fyrir dómi sé tryggður samkvæmt lögum landsins og þeir sem séu bornir sökum um refsiverða háttsemi séu taldir saklausir þar til sekt þeirra hafi verið sönnuð. Lögin geri ráð fyrir málsmeðferð innan hæfilegs tíma en vegna mikils fjölda uppsafnaðra mála hafi málsmeðferðartíminn lengst. Sakborningar njóti ýmissa réttinda, t.a.m. eigi þeir rétt á að vera viðstaddir réttarhöld sín, rétt á aðstoð lögmanns og rétt á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð við tilteknar aðstæður. Venjuréttur og Sharía-lög séu viðurkennd í Gambíu og beitt á ákveðnum sviðum. Hægt sé að fara með einkaréttarmál og mál er varða mannréttindi fyrir Hæstarétt en einstaklingar geti einnig leitað réttarúrræðis hjá embætti umboðsmanns. 

Í skýrslu Amnesty International fyrir árið 2022 kemur fram að í maí það ár hafi ríkisstjórnin birt hvítbók og samþykkt 263 tilmæli af 265 tilmælum svonefndrar sannleiks-, sátta- og skaðabótanefndar (e. the Truth, Reconciliation and Reparaations Commission), þar á meðal tilmæli um tímabundinn brottrekstur embættismanna sem hafi verið sakaðir um mannréttindabrot í skýrslu skaðabótanefndarinnar og jafnframt tilmæli um saksókn gegn fyrrverandi forseta landsins Yahya Jammeh. Í júní hafi ríkislögmaður landsins og dómsmálaráðherrann upplýst að ríkisstjórnin hefði ekki nægt fjármagn til að hefja framkvæmd tilmæla skaðabótanefndarinnar árið 2022. Þá kemur fram að í nóvember 2022 hafi dómsmálaráðherra landsins sagt að ríkisstjórnin hefði hafið viðræður við Efnahagsbandalag Vestur-Afríkuríkja (e. the Economic Community of West African States) um að koma á fót gerðardómstóli til að saksækja glæpi sem framdir hefðu verið undir stjórn fyrrverandi forseta landsins, Yahya Jammeh.

Á vefsíðu Minority Rights Group International kemur fram að 34% af gambísku þjóðinni séu af Mandinka þjóðarbrotinu, 22,4% tilheyri Fulani/Fula þjóðarbrotinu og 12,6% tilheyri Wolof þjóðarbrotinu. Önnur þjóðarbrot séu meðal annars Jola/Karoninka, Serahuleh, Serer, Manjago, Bambara og Creole. Í framangreindri mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 kemur fram að gambísk lög banni mismunun á grundvelli kynþátta- og þjóðernis. Þá sé pólitískum frambjóðendum bannað að kynda undir ættbálka- eða þjóðernisspennu. Hafi eftirfylgni með þessum lögum verið góð hjá ríkisstjórn landsins.

Í skýrslu EASO frá árinu 2017 kemur fram að heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytið fari með ábyrgð heilbrigðiskerfisins sem sé skipt upp í þrjú stig. Meirihluti heilsugæslustöðva sé staðsettur í þéttbýli og að aðgangur að heilbrigðisþjónustu sé minni í dreifbýli. Heilbrigðiskerfið skorti alla jafna vel þjálfað starfsfólk og séu annmarkar hvað varði innviði, lækningatækni og birgðir tiltekinna lyfja. Í Gambíu sé engin heilbrigðistrygging og geti það verið þung byrði fyrir heimili og kostnaðarsamt þegar einstaklingar þurfi að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Í námskrá Heilbrigðisráðuneytisins í Gambíu um andlega heilsu og félagslegan stuðning til handa farandfólki í Gambíu gefin út 2020 kemur fram að markmiðið með námskránni sé að styrkja og auka þekkingu og færni viðeigandi menntastofnana í andlegri heilsu og félagslegum stuðningi og þjónustu. Í Gambíu sé þó aðeins eitt geðsjúkrahús sem meðhöndlar andleg vandamál, er það Tanka Tanka geðsjúkrahúsið sem staðsett er vesturhluta landsins. Hins vegar u starfandi sálfræðingar í landinu þó þeir séu ekki margir miðað við höfðatölu. Þá er í landinu starfandi góðgerðarsamtök (e. Supportive Activists Foundation (SAF) International Voluntary Mental Health Foundation) sem styðja fólk með geðræn vandamál og berjast fyrir því að tekið sé á fordómum og skorti á fjármagni til geðheilbrigðisþjónustu í vestur-Afríku. Samtökin hafi verið stofnuð og opinberlega skráð sem góðgerðarsamtök fyrir geðheilbrigði í Gambíu 12. apríl 2016. Fram kemur að 100 einstaklingar starfi fyrir samtökin og sé markmið samtakanna meðal annars að draga úr fordómum, veita geðfötluðum einstaklingum stuðning, annast þá sem séu hjálparvana og efla þekkingu og rannsóknir sem tengjast geðheilbrigði. 

Í fréttatilkynningu á vefsíðu Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar (IOM) sem birt var 6. október 2022 kemur fram að stofnunin hafi viku áður þjálfaði 50 lögreglumenn sem taka þátt í komu og móttöku fólks sem snúi aftur til landsins í mannúðlegum og réttindatengdum aðferðum við endurkomuaðgerðir. Hafi markmið þjálfunarinnar verið þjálfa lögreglumenn og veita þeim nauðsynlega þekkingu og færni til að bregðast við aðkallandi þörfum gambískra ríkisborgara sem snúi aftur. Fram kemur að frá því í janúar 2017 hafi IOM, í samvinnu við ríkisstjórn Gambíu, auðveldað sjálfviljuga endurkomu meira en 6.600 strandaðra gambískra farandverkamanna og veitt þeim móttökuaðstoð við komu til landsins. Þjálfun lögreglumannar tímabær og muni tryggja að endurkoma þeirra sé örugg og virðuleg og að enduraðlögun þeirra að fjölskyldu þeirra og samfélagi verði snurðulaus. Þá kemur fram að með sálfræðilegri skyndihjálp, mannréttindum og alþjóðalögum um fólksflutninga þjálfuninni ætlað að byggja upp getu Gambíustjórnvalda sem virka sem fyrsta tengiliðinn fyrir innflytjendur sem snúa aftur. Þessi nálgun muni bæta samhæfingu, verklag og uppbyggingu varðandi móttöku og enduraðlögun endurkomufólks sem stuðli á jákvæðan hátt að sjálfbærri og heildrænni aðlögun þeirra.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mansal frá júlí 2022 kemur fram að Gambía uppfylli ekki lágmarksviðmið ríkja vegna baráttu gegn mansali en hafi sýnt verulega viðleitni til þess. Fram kemur að árið 2007 hafi sérstök löggjöf verið sett sem gerði kynlífs- og vinnumansal refsivert með refsiramma frá fjársekt á milli 50 til 500 þúsund Dalasi til 50 ára fangelsi til lífstíðarfangelsis. Þá kemur fram að stjórnvöld hafi árið 2021 hafi hafið mál gegn 14 einstaklingum sem grunaðir hefðu verið um brot gegn lögum um mansal og haldið áfram rannsóknum í málum gegn 51 einstaklingi. Hafi verið ákært í níu málum og þrír einstaklingar hlotið allt að 15 ára fangelsism og sekt. Jafnframt kemur fram að stjórnvöld hafi í samvinnu við alþjóðleg samtök þjálfað lögreglu, útlendingamálayfirvöld og flugstöðvarekendur í því að bera kennsl á mansalsfórnarlömb. Fram kemur að stjórnvöld hafi starfrækt skammtímaathvarf fyrir viðkvæma einstaklinga, meðal annars gambísk og erlend mansalsfórnarlömb. Þá hafi bæði stjórnvöld og borgaryfirvöld starfrækt í sameiningu athvörf sem opin væru á daginn og veittu þjónustu, þar á meðal félagslega þjónustu, mat og læknisaðstoð til mansalsfórnarlamba og viðkvæm börn. 

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir: 

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir: 

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna. 

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, 

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. 

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013). 

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í Gambíu vegna ofsókna af hendi fjölskyldu manns sem hafi látist í kjölfar bílslyss sem kærandi hafi verið valdur að. Í öðru lagi byggir kærandi á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir þar sem hann sé þolandi mansals. Í þriðja lagi byggir kærandi á því að hann hafi búið við hótanir um líflát og eigi í ástæðuríkum huglægum ótta vegna þess banaslyss sem hann hafi verið valdur að í Gambíu en aðstandendur mannsins sem hafi látist hafi ráðist á frænda hans og hótað kæranda lífláti sem hafi orðið til þess að hann hafi flúið landið.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í hælisbeiðni kæranda, dags. 3. nóvember 2020, kemur fram að hann hafi framvísað grunnfölsuðu belgísku kennivottorði við komu til landsins. Kvaðst kærandi hafa fengið kennivottorðið frá pólskum vini sínum sem hafi hjálpað honum í Póllandi. Greindi kærandi frá því að hafa farið frá Malí þar sem að hópur vígamanna hafi ráðist á þorpið hans og drepið föður hans þegar hann streittist á móti. Þá hafi mannræningjar rænt kæranda í Malí. Kærandi kvaðst hafa flúið til Tyrklands og þaðan farið til með bát til Grikklands. Kærandi kvaðst ekki hafa vitað hvar hann hefði verið eða í gegnum hvaða lönd hann hafi farið á leið sinni til Póllands. Kærandi kvaðst hafa verið í Póllandi í um það bil ár en hann hafi ekki sótt áður um alþjóðlega vernd í Evrópu. Kærandi kvað móður sína vera á lífi en að hann vissi ekki hvar hún væri. Í beiðninni er vísað til þess að kærandi hafi verið með trúlofunarhring og hafi haft í veski sínu mynd af sér og konu að kyssast. Aðspurður um það síðar hafi kærandi verið búinn að fjarlægja af sér hringinn og kvaðst ekki eiga kærustu en konan á myndinni væri eingöngu vinkona sín. 

Í gögnum málsins liggur fyrir skýrsla Lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 4. nóvember 2020. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að framlagt belgískt kennivottorð sé ánafnað [...], með fæðingardaginn [...].

Í nótu frá Göngudeild sóttvarna, dags 17. nóvember 2020, kemur fram að kærandi hafi greint frá því að vera 17 ára drengur frá Malí sem hafi yfirgefið heimaríki sitt árið 2015 og verið til að mynda í Túnis, Tyrklandi og Póllandi áður en hann hafi komið til Íslands. Kærandi kvaðst hafa verið rændur af hryðjuverkamönnum þegar hann hafi verið 12 ára og hafa séð föður sinn myrtan. Kærandi hafi náð að sleppa frá þessum mönnum og verið mikið á flakki um Evrópu. 

Viðtal sem tekið var við kæranda við aldursgreiningu þann 19. nóvember 2020 liggur fyrir í gögnum málsins. Í viðtalinu kvaðst kærandi vera fæddur [...] og ríkisborgari Malí. Kærandi kvaðst hafa búið í úthverfi stórrar borgar í heimaríki sínu. Kærandi hafi áður en hann hafi komið til Íslands verið í Túnis í einhverja mánuði en þar áður í heimaríki. Kærandi kvaðst hafa verið 11 til 12 ára gamall þegar hann hafi yfirgefið heimaríki.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun 2. febrúar 2021 greindi kærandi frá því að heilsa hans væri slæm þar sem að hann hefði verið neyddur til þess að vinna kynlífsvinnu á Ítalíu. Fólk sem hann hefði hitt í Senegal hefði látið hann undir Vúdú-eið. Hann hefði aðeins hitt það fólk í Senegal en ekkert eftir það. Þegar kærandi hafi verið settur í flóttamannabúðir á Ítalíu hafi honum verið afhent símanúmer ótilgreinds fólks til að spyrjast fyrir um vinnu. Þegar hann hefði haft samband í gegnum það númer hafi hann komist að eðli vinnunnar og honum hafi verið hótað með Vúdú-galdri ynni hann ekki umrædda vinnu. Kærandi kvaðst hafa unnið við vændi í sex ár á Ítalíu og að fólkið sem hann skuldaði pening væri frá Nígeríu. Aðspurður um hvort hann væri með einhver auðkennisgögn kvað kærandi föður sinn hafa verið myrtan og þá hafi hann farið með móður sinni til Gambíu og hann hefði aldrei átt nein skilríki. Kærandi kvað móður sína hafi tjáð honum að hann væri fæddur árið 2003 en hann vissi það þó ekki fyrir víst. Kærandi kvaðst hafa yfirgefið Gambíu vegna þess að árið 2014 hefði hann keyrt á mann sem hafi látist af þeim völdum. Kærandi kvaðst hafa átt ítalska kærustu á Ítalíu og þau hafi gifst í júní árið 2020. Kærandi kvaðst hafa farið í eitt viðtal á Ítalíu og fengið dvalarleyfi í tvö ár á Ítalíu sem hafi runnið út í nóvember 2018. Kærandi kvaðst aðspurður hafa fengið gögn frá ítölskum stjórnvöldum. Þá greindi kærandi frá því að hann hafi sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar og hafi átt að fá svar frá ítölskum stjórnvöldum í janúar 2021 en hann hafi yfirgefið Ítalíu vegna þess að fólkið hafi verið á eftir honum og sagt við hann að vegna Covid takmarkana þyrfti hann afhenda fíkniefni í stað þess að stunda vændi. 

Í gögnum málsins liggja fyrir tölvubréfasamskipti milli Lögreglustjórans á Suðurnesjum og Alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra. Í tölvubréfi frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum sem sent var 19. febrúar 2021 kemur fram að til að svara fyrirspurn Alþjóðadeildar varðandi týndan einstakling þá sé allt sem bendi til þess að kærandi sé sá einstaklingur, þ.e. maður að nafni [...], sem leitað sé á Ítalíu. Í tölvubréfi milli embættanna þann 24. febrúar 2021 kemur fram að ítölsk stjórnvöld hafi staðfest að um sé að ræða sama einstaklinginn og hér sé skráður sem [...]. Í tölvubréfi frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum til Ríkislögreglustjóra sent 11. maí 2021 er greint frá því að gögn frá Ítalíu hafi verið borin undir kæranda og hann hafi kannast við að vera sá einstaklingur sem leitað væri að á Ítalíu, hann myndi ekki hversu gamall hann væri og kvaðst hann vera giftur konu þar í landi.

Hinn 11. maí 2021 kom kærandi til skýrslutöku hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum vegna skjalafals. Í skýrslutökunni var kærandi spurður að því hvort hann hefði hlotið refsidóma í heimaríki. Kærandi svaraði því hann hefði verið handtekinn og leiddur fyrir dóm vegna þess hann hefði keyrt á einstakling sem hefði látist af þeim völdum. Af þeim sökum hafi kærandi flúið. Kærandi kvaðst hafa búið með frænda sínum í Gambíu. Í skýrslutökunni var vísað til þess að eiginkona hans á Ítalíu hefði tilkynnt hann sem týndan einstakling og að það kæmi fram í tilkynningunni að hann væri fæddur 1990. Kæranda var boðið að tjá sig um það. Kærandi svaraði því að ártalið væri samkvæmt skilríkjum sonar frænda hans en hann vissi ekki hvenær hann sjálfur hefði fæðst

Í efnismeðferðarviðtali hjá Útlendingastofnun 31. maí 2022 greindi kærandi frá því að hann hefði keyrt á mann og hafi maður af látist af þeim völdum. Kærandi vísaði til þess að í Gambíu sé það hefðsá sem sé valdur að dauða annars verði að deyja í staðinn. Eftir slysið hafi kærandi farið til höfuðborgar Gambíu og verið þar yfir nótt. Kærandi hafi ætlað að fara til ættingja í Barak til að vera öruggur en breytt áætlunum sínum og farið til Senegal. Nokkrum dögum síðar hafi aðstandandi mannsins sem kærandi hafi keyrt á farið til heimilis frænda kæranda og ráðist á frænda hans og sagt honum að hann myndi drepa kæranda. Kærandi kvað aðstandendur mannsins sem hann hafi keyrt á tjáð fjölskyldu hans að þeir myndu drepa kæranda ef hann kæmi til baka. Kærandi kvað fjölskyldu sína hafa verið í hættu og fjölskylda hans hafi tjáð honum að fólkið kæmi reglulega til þeirra til að kanna hvort kærandi væri þar. Eftir að móðir kæranda hafi látist árið 2017 hafi fjölskylda hans flutt til annarrar borgar. Kærandi kvað fjölskyldu sína hafa leitað aðstoðar hjá lögreglu en hún hafi ekki verið tilbúin til að hjálpa þeim þar sem hún hafi haldið að fjölskylda hans hafi aðstoðað hann við að flýja. Kærandi kvaðst aðspurður vera í samskiptum við dætur frænda síns. Kærandi kvaðst ekki vita um aðstæður fjölskyldu hans í Gambíu en að þær gætu verið verri en áður. 

Kærandi gaf við komuna til landsins vísvitandi rangar persónulegar upplýsingar. Við komuna til landsins lagði kærandi fram grunnfalsað belgískt kennivottorð með nafninu [...] og fæðingardaginn [...]. Í hælisbeiðni gaf kærandi upp nafnið [...] og fæðingardaginn [...]. Þegar borið var undir kæranda upplýsingar frá ítölskum stjórnvöldum um staðfesti hann að hann væri sá einstaklingur en kvaðst ekki muna hver fæðingardagur hans væri. Þrátt fyrir áskoranir kærunefndar um að leggja fram frekari upplýsingar og gögn, þar á meðal gögn frá Ítalíu sem hann kvað í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi fengið afhent, þá hefur kærandi ekki sýnt samstarfsvilja til þess að varpa frekara ljósi á staðreyndir málsins.

Það er mat kærunefndar að framangreint misræmi í frásögn kæranda, misvísandi upplýsingagjöf um persónuupplýsingar og ferðaleið frá heimaríki allt þar til hann kom til Íslands og skortur á haldbærum gögnum og upplýsingum til stuðnings málatilbúnaði hans leiði til þess, heildstætt metið, að frásögn hans af atburðum og ástæðum flótta frá heimaríki hans, Gambíu, sé ótrúverðug. 

Verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi sætt eða eiga á hættu að sæta ofsóknum af hálfu yfirvalda í Gambíu eða annarra aðila sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. 

Kærandi hefur verið nokkuð samkvæmur sjálfum sér frá upphafi um að hafa flúið Ítalíu vegna ótta síns við hóp ótilgreinda manna, frá Nígeríu, sem hafi neytt hann í vændi og hann standi enn í skuld við fyrir að hafa komið honum til Ítalíu. Kærandi lagði fram vottorð ráðgjafa hjá Stígamótum, dags. 10. mars 2021, þar sem fram kemur að kærandi hafi lýst reynslu sinni sem fórnarlamb mansals og hafi sú lýsing samræmst lýsingu þeirra mansalsfórnarlamba sem til samtakanna hafi leitað. Að mati kærunefndar er ekki tilefni til að draga í efa að kærandi hafi þurft að greiða ótilgreindum hópi manna fyrir ferðina til Evrópu og hafi verið gert að greiða þá skuld með því m.a. að stunda vændi. Styðja heimildir að algengt sé að einstaklingar sem vilji komast til Evrópu leiti til manna eða hópa sem geti gert slíkt að veruleika og að fólk sé neytt til að stunda vændi eða aðra ólöglega iðju til þess að greiða skuld sína vegna ferðalagsins. Við mat á því hvort að einstaklingur hafi almennt ástæðuríkan ótta við að vera þvingaðar í mansal skal m.a. líta til þess hversu mikið smyglarinn viti um bakgrunn einstaklingsins og fjölskyldu hans, hvort að fjölskylda einstaklingsins hafi tekið þátt í smyglinu og hvort að hann hafi borið vitni gegn smyglaranum. Kærandi kvaðst hafa komist í samband við smyglarann, mann frá Nígeríu, í gegnum vin sinn í Senegal. Kærandi kvað aðilana sem hafi staðið að baki mansalinu hafa verið í sambandi við hann með hótunum allt þar til hann hafi yfirgefið Ítalíu. Þá kvaðst kærandi enn skulda þessum aðilum peninga. Kærandi hefur hins vegar engin gögn lagt fram um hótanir þeirra eða önnur samskipti þeirra á milli. Þá hefur hann ekki leitt líkur að því að hópurinn, sem hann kveður vera nígerískan, sé með tengsl við einstaklinga í heimaríki hans. Að mati kærunefndar hefur kærandi því ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að honum stafi ógn eða hætta á ofsóknum af hendi umræddra aðila í heimaríki sínu. Þá bera framangreindar heimildir um aðstæður í Gambíu með sér kærandi geti leitað aðstoðar yfirvalda verði hann fyrir áreiti eða ofbeldi þar en í landinu séu til staðar innviðir sem sérhæfi sig í þjónustu og aðstoð við þolendur mansals og að sækja gerendur til saka. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki hans af öðrum ástæðum.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. 

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling. 

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi ríka þörf fyrir vernd á grundvelli félagslegra eða almennra aðstæðna eða af heilbrigðisástæðum.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun 2. febrúar 2021 greindi kærandi frá því að vera haldinn vænisýki og vera þunglyndur. Í viðtalinu kom fram að kærandi hefði leitað til Bjarkarhlíðar vegna ofbeldis og væri í viðtölum hjá Stígamótum. Aðspurður um hvort eitthvað hefði gerst fyrir hann sem hefði haft áhrif á andlega og líkamlega heilsu hans svaraði kærandi því að faðir hans hefði verið myrtur þegar kærandi hefði verið ungur. Þá hefði það haft mikil áhrif á hann þegar móðir hans hefði dáið árið 2017. Þá liggur fyrir vottorð ráðgjafa hjá Stígamótum þar sem fram kemur að kærandi hafi lýst reynslu af mansali sem samræmist lýsingu þeirra mansalsfórnarlamba sem leitað hafi til Stígamóta. Í greinargerð er vísað til þess að kærandi sé í meðferð sem sé óforsvaranlegt að rjúfa. Engin gögn voru lögð fram er styðja þá staðhæfingu. Þá voru engin frekari gögn lögð fram við meðferð málsins hjá kærunefnd um heilsufar kæranda. 

Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að geðheilbrigðisþjónusta hafi mætt afgangi í heimaríki kæranda. Hins vegar bera gögnin með sér að mikil vitundarvakning sé hjá stjórnvöldum um andlega heilsu og mikilvægi þess að fjölga geðheilbrigðisstarfsfólki í landinu. Í höfuðborg landsins, Banjul, er þó aðeins eitt geðsjúkrahús en hins vegar eru starfandi sálfræðingar í landinu og góðgerðarsamtök sem aðstoða einstaklinga með geðheilbrigðisvandamál. Því geti kærandi sótt sér meðferð vegna andlegrar vanheilsu sinnar. Er það jafnframt mat kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að geðræn veikindi kæranda séu svo alvarleg að þau geti talist grundvöllur dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Þá verður, eins og áður sagði, ekki ráðið af gögnum málsins að kærandi sæki meðferð hér á landi sem ekki sé læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað bera ekki með sér að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í Gambíu eða að yfirvöld þar í landi hafi ekki vilja eða getu til að veita þegnum sínum vernd.

Kærandi er fullorðinn karlmaður fertugsaldri. Kærandi kvaðst eiga fjölskyldu í heimaríki og væri í sambandi við frænkur sínar. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi sé almennt heilsuhraustur og vinnufær og sé fullfær um að standa á eigin fótum í heimaríki. 

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 38. gr. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau er að tekin hafin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 3. nóvember 2020. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 22. júní 2023, eru liðin tvö ár og rúmir 7 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi hefur engum skilríkjum framvísað til íslenskra stjórnvalda vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd hér á landi. Leikur því vafi á hver kærandi er. Verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi sýnt fram á auðkenni sitt. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá verður í ljósi framangreinds trúverðugleikamats og skorts á samstarfsvilja kæranda um að upplýsa mál sitt og vinna þannig með stjórnvöldum ekki talið að undantekning 4. mgr. 74. gr. laganna eigi við í tilviki kæranda. Þá er það mat kærunefndar að ekki sé slíkum erfiðleikum bundið fyrir kæranda að vinna að því, jafnvel með aðstoð íslenskra stjórnvalda,upplýsa um auðkenni sitt, svo sem með því að afla gagna með aðstoð ættingja sinna í heimaríki. Verður kæranda því ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna.

Dvalarleyfi vegna mansals eða gruns þar um samkvæmt 75. og 76. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt ákvæði 75. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem grunur leikur á að sé fórnarlamb mansals dvalarleyfi í allt að níu mánuði þótt skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna sé ekki fullnægt. Í athugasemdum við fyrrgreint ákvæði í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að stuðla að því að fórnarlamb mansals fái tækifæri til að ná bata og losna undan áhrifum þeirra sem stunda mansal. Veiting dvalarleyfisins sé óháð því hvort lögreglurannsókn fari fram en dvalarleyfinu sé m.a. ætlað að gefa hugsanlegu fórnarlambi svigrúm til þess að taka upplýsta ákvörðun um samstarf við yfirvöld við rannsókn málsins. Efni ákvæðisins ber með sér að því sé ætlað að veita þeim einstaklingum tímabundið atvinnuleyfi sem nýlega hafa losnað undan mansali eða eru enn undir áhrifum þeirra sem stunda mansal.

Í 76. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita fórnarlambi mansals og barni viðkomandi sem statt er hér á landi endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs þegar sérstaklega stendur á, þótt skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. sé ekki fullnægt, þegar það telst nauðsynlegt ýmist vegna persónulegra aðstæðna viðkomandi eða að mati lögreglu vegna samvinnu viðkomandi við yfirvöld vegna rannsóknar og meðferðar sakamáls. Í athugasemdum við fyrrgreint ákvæði í frumvarpi til laga um útlendinga kemur m.a. fram að ákvæðið sæki fyrirmynd sína til 14. gr. samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og fullnægi einnig skuldbindingum samkvæmt 1. mgr. 7. gr. Palermó-bókunarinnar. Í athugasemdum er vísað til greinargerðar með samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali þar sem fram komi að persónulegar aðstæður fórnarlambs mansals geti verið allt frá öryggi eða heilsufari þess til fjölskylduaðstæðna.

Í greinargerð kæranda er byggt á því að hann sé fórnarlamb mansals og nauðsynlegt sé að veita honum dvalarleyfi á þeim grundvelli. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa verið þvingaður í vændi árið 2014 á Ítalíu til að greiða upp skuld fyrir ferðina til landsins. Í bréfi þjónustuteymis Bjarkarhlíðar, dags. 19. mars 2021, kemur fram að kærandi hafi greint frá því að hafa verið þolandi mansals við komuna til Ítalíu og látinn stunda vændi þar til greiða fyrir farið til Evrópu. Kærandi kvaðst ekki vera í vændi á Íslandi og væri ekki lengur í sambandi við þá sem hefðu flutt hann til Evrópu og hagnýtt hann í vændi. Í hælisbeiðni sem lögð var fram hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum kvaðst kærandi hafa verið í Póllandi í um ár áður en hann kom til Íslands. Kærandi kom til Íslands í nóvember 2020. Samkvæmt framangreindu má ráða að kærandi hafi yfirgefið Ítalíu í upphafi árs 2020 og því séu um það bil þrjú og hálft ár síðan kærandi flúði til Ítalíu. Líkt og framan greinir kvaðst kærandi í mars 2021 ekki vera lengur í samskiptum við mansalshópinn og hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur til kynna að þeir séu ennþá á eftir honum

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess kærandi sé enn undir áhrifum hóps af einstaklingum sem hann kveður hafa beitt sig mansali. Er það því mat kærunefndar að sá umþóttunartími sem ákvæðinu er ætlað að gefa mögulegum þolendum mansals eigi ekki við í tilfelli kæranda. Að mati kærunefndar, með vísan til framangreinds og annarra gagna málsins, er hvorki grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 75. gr. laga um útlendinga né 76. gr. sömu laga. Þrautaþrautavara kæranda er því hafnað.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 3. nóvember 2011 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun. 

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. 

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

 

 

Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta