Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2017 Innviðaráðuneytið

Drög að reglugerð um fjarstýrð loftför til umsagnar

Drög að reglugerð um notkun og starfrækslu fjarstýrðra loftfara (dróna) eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Umsagnir má senda ráðuneytinu á netfangið [email protected] til og með 27. febrúar næstkomandi.

Reglugerðardrögin voru unnin í kjölfar umsagnarferils sem fram fór vegna kynningar á fyrri drögum árið 2015. Byggjast þau að talsverðu leyti á finnskri fyrirmynd og er ætlað að stuðla að öruggri starfrækslu fjarstýrðra loftfara.

Lagt er til að í stað hugtaksins ómönnuð loftför verði notað fjarstýrð loftför (í daglegu tali oft talað um dróna) sem er í samræmi við skilgreiningar í öðrum löndum enda er verið að fjalla um loftför þar sem stjórnandi er ekki um borð og þeim því fjarstýrt. Þessi skilgreining er einnig í samræmi við ICAO skilgreiningar.

Í megindráttum lúta drögin að því að áhætta af notkun fjarstýrðra loftfara er mismunandi eftir því hvar notkunin á sér stað og eftir því hvort um er að ræða notkun í frístundaskyni eða í öðrum tilgangi. Gert er ráð fyrir því að notkun fjarstýrðra loftfara í frístundaskyni sé heimil í þéttbýli fyrir loftför sem vega 3 kg eða minna en utan þéttbýlis sé notkun í frístundaskyni heimil fyrir loftför sem vega 25 kg eða minna. Séu fjarstýrð loftför notuð í öðrum tilgangi en tómstundaskyni, svo sem í atvinnuskyni, til rannsókna, í hjálparstarfi o.s.frv., er notkun heimil innan þéttbýlis fyrir fjarstýrð loftför sem vega 7 kg eða minna en utan þéttbýlis er hún heimil fyrir loftför sem vega 25 kg eða minna.

Gert er ráð fyrir að loftför sem vega meira en 25 kg þurfi leyfi útgefin af Samgöngustofu. Gert er ráð fyrir að fyrir fjarstýrð loftför sem ekki eru starfrækt í tómstundaskyni geti Samgöngustofa heimilað undanþágur frá takmörkunum sem reglugerðin kveður á um. Að því er varðar fjarstýrð loftför sem eru notuð í öðru en tómstundaskyni er gerð krafa um tilkynningu um notkun þeirra í sérstakt tilkynningarkerfi Samgöngustofu.

Gert er ráð fyrir almennum takmörkunum um flug, svo sem í nánd við flugvelli, við opinberar byggingar og yfir mannfjölda.

Gert er ráð fyrir að Samgöngustofa geti skilgreint ákveðin svæði sem svæði þar sem óheimilt er að fljúga, svo nefnd no-fly zones. Einnig er gert ráð fyrir að önnur stjórnvöld (s.s. skipulagsyfirvöld, Umhverfisstofnun, hafnarmálayfirvöld, lögregla) og rekstraraðilar flugvalla geti skilgreint ákveðin svæði þar sem flug er takmarkað eða bannað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum