Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Skipar starfshóp til að kanna framkvæmdir við stofnleiðir og mögulega fjármögnun

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur skipað starfshóp til að kanna hvernig hátta megi umfangsmiklum framkvæmdum við stofnleiðir út frá höfuðborgarsvæðinu. Markmið verkefnisins er að bæta stofnleiðir út frá höfuðborginni, bæði Vesturlandsveg og Suðurlandsveg, svo og Reykjanesbraut. Jafnframt er hópnum falið að setja fram tillögur um fjármögnun framkvæmdanna, til dæmis með veggjaldi.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur skipað starfshóp til að kanna hvernig hátta megi umfangsmiklum framkvæmdum við stofnleiðir út frá höfuðborgarsvæðinu. Markmið verkefnisins er að bæta stofnleiðir út frá höfuðborginni, bæði Vesturlandsveg og Suðurlandsveg, svo og Reykjanesbraut. Jafnframt er hópnum falið að setja fram tillögur um fjármögnun framkvæmdanna, til dæmis með veggjaldi.

Framkvæmdir sem koma til skoðunar eru bæði tveir+tveir vegir og tveir+einn vegir út frá höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Suðurlandsvegur austur fyrir Selfoss, Reykjanesbraut milli Kaplakrika og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Vesturlandsvegur að Borgarnesi. Einnig skal starfshópurinn skoða tvöföldun Hvalfjarðarganga og lagningu Sundabrautar í tengslum við slíka gjaldtöku. Miðað er við að gjaldtakan falli niður þegar kostnaður við framkvæmdir er að fullu greiddur.

Starfshópinn skipa Eyjólfur Árni Rafnsson verkfræðingur, Kristján Möller, fyrrverandi þingmaður og ráðherra og Gísli Gíslason, forstjóri Faxaflóahafna og stjórnarformaður Spalar. Þá munu starfa með hópnum þau Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, lögfræðingur í ráðuneytinu, og Vigdís Ósk Sveinsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra.

Setji fram verkáfanga og kostnaðarmat

Starfshópnum er falið að stilla upp fjárhags- og viðskiptaáætlun fyrir verkefnið, framkvæmdaáætlun og lista upp lagabreytingar sem kann að þurfa til að unnt sé að hrinda verkefninu í framkvæmd. Helstu verkefnin eru:

  • Meta árlegar tekjur.
  • Stilla upp tillögum fyrir rekstrarfyrirkomulag fyrir innheimtu gjalda.
  • Skilgreina verkáfanga og kostnaðarmeta þá.
  • Stilla upp framkvæmdaáætlun til 6 ára.
  • Stilla upp aðferðum við fjármögun framkvæmda á framkvæmdatíma.
  • Gera tillögur að langtímafjármögnun verkefnanna.
  • Stilla upp rekstrarfyrirkomulagi og utanumhaldi fyrir framkvæmdir.
  • Fara yfir nauðsynleg lagaskilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi.

Frumskýrslu skal skila fyrir 1. maí og skal starfshópurinn hafa samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið og helstu hagsmunaaðila um útfærslu verkefnisins.

Ýmis rök mæla með því að ráðist verði í sérstaka framkvæmdaáætlun fyrir umræddar stofnleiðir og með annars konar fjármögnun en hefðbundnu ríkisframlagi. Undanfarin ár hefur dregið úr fjárveitingum til samgöngumála og hægst á uppbyggingu samgöngukerfisins. Sumarið 2016 samþykkti Alþingi sem þingsályktun samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 sem miðaði við að snúa við þessari þróun en nokkuð vantar á að fjármagna þau framkvæmdaáform sem þar eru sett fram. Langt er í land með að byggja upp samgöngukerfið svo það uppfylli staðla og miðað við það fé sem ætlað er til uppbyggingar mun það taka langan tíma. Ekki hafa allar nauðsynlegar framkvæmdir á framangreindum stofnleiðum komist á áætlun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira