Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2017 Matvælaráðuneytið

Umtalsverð aukning við úthlutun almenns og sértæks byggðakvóta

Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er 5,3% af heildarafla í hverri fisktegund dregið af leyfilegum heildarafla og varið til ýmissa tímabundinna ráðstafana til þess að auka byggðafestu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,  sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur úthlutað alls 14.261 tonnum í sértækan og almennan byggðakvóta en ráðstöfunin byggir á þingsályktun 38/145, 2015-2016.

Sértækur byggðakvóti Byggðastofnunar eykst um 12%

Sértækur byggðakvóti Byggðastofnunar eykst um 701 tonn frá fyrra fiskveiðiári og er 6.335 tonn fiskveiðiárið 2017/2018. Stefna stjórnvalda undanfarin ár hefur verið að auka vægi sértæks byggðakvóta enda hefur hann almennt reynst vel sem byggðafestuaðgerð.

Markmiðið með þessu er að stuðla að sem öflugastri starfsemi í sjávarútvegi til lengri tíma og ná þannig að skapa og viðhalda sem flestum heilsársstörfum fyrir bæði konur og karla við veiðar, vinnslu og afleidda starfsemi í viðkomandi sjávarbyggðum. Nánar má lesa um sértækan byggðakvóta á heimasíðu Byggðastofnunar.

Almennur byggðakvóti

Almennur byggðakvóti fiskveiðiárið 2017/2018 nemur alls 7.926 tonnum, sem eru 6.226 þorskígildistonn. Byggðakvótinn eykst  um 1.828 þorskígildistonn frá fyrra fiskveiðiári, sem er aukning uppá tæplega 42%.

Alls er byggðakvóta úthlutað til 32 sveitarfélags og í þeim fengu 46 byggðarlög úthlutun.

Úthlutun byggðakvótans byggir á talnaupplýsingum frá Fiskistofu um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks annars vegar og samdrætti í rækju- og skelvinnslu hins vegar frá fiskveiðiárinu 2007/2008 til fiskveiðiársins 2016/2017.

Hámarksúthlutun til byggðarlags er 300 þorskígildistonn og fá sex byggðarlög það hámark. Lágmarksúthlutun er 15 þorskígildistonn, eigi byggðarlag á annað borð rétt til úthlutunar, og fá 3 byggðarlög þá úthlutun.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum