Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 15/2009B. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 12. janúar 2010

í máli nr. 15/2009B:

Kraftur hf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 30. október 2009, óskuðu Ríkiskaup eftir endurupptöku á máli kærunefndar útboðsmála nr. 15/2009, Kraftur hf. gegn Ríkiskaupum.

      Varnaraðila, Krafti hf., var kynnt endurupptökukrafan og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Varnaraðili skilaði athugasemdum, dags. 14. desember 2009, og með bréfi, dags. 8. janúar 2010 ítrekar sóknaraðili það sem fram kemur í fyrri greinargerð hans. 

I.

Kærunefnd útboðsmála kvað 16. júlí 2009 upp úrskurð í máli nr. 15/2009. Í málinu kærði varnaraðili útboð sóknaraðila nr. 14540 – Ellefu sameyki: Flugbrautarsópar og dráttarbifreiðar með snjótönnum fyrir Keflavíkurflugvöll ohf. og Flugstoðir ohf. Í málinu komst kærunefnd útboðsmála meðal annars að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili væri skaðabótaskyldur gagnvart varnaraðila vegna kostnaðar varnaraðila við að undirbúa tilboð og taka þátt í framangreindu útboði. Þá var sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.      

II.

Sóknaraðili greinir frá því að honum hafi borist úrskurður kærunefndar útboðsmála í máli nr. 15/2009 með tölvubréfi 17. júlí 2009. Þegar farið hafi verið yfir úrskurðinn í ágúst að loknum sumarleyfum hafi komið í ljós að fjallað væri um atriði sem kærða hafi ekki verið kunnugt um sem ágreiningsatriði eða kæruatriði. Vitnað sé í úrskurðinum til frekari athugasemda kæranda frá 30. júní 2009. Sóknaraðili hafi haft samband við fjármálaráðuneytið og óskað eftir þessum athugasemdum kæranda, en þær hafi ekki borist fyrr en 7. október. Umsjónarmenn útboðsins af hálfu kaupenda hafi síðan farið yfir athugasemdir kæranda og talið að þar hafi komið í ljós nýjar athugasemdir og málsástæður og túlkanir sem ekki hafi verið getið um í kærunni sjálfri. Telur sóknaraðili að því hefði verið full ástæða til að gefa honum kost á að tjá sig um þessi nýju kæruatriði og túlkanir á útboðsgögnum, fyrirspurnum og svörum.

       Sóknaraðili bendir á að við skoðun á niðurstöðu kærunefndar og með hliðsjón af greinargerð varnaraðila 30. júní 2009 sé það mat hans að rangtúlkun varnaraðila á svari og skýringum sóknaraðila 20. mars 2009 (breyting á kafla 2.5 dráttarbifreið) hafi ráðið niðurstöðu kærunefndar. Telur sóknaraðili að hann hefði átt að fá tækifæri til að svara þessum rangfærslum. Þá áréttar hann sérstaklega að í kæru varnaraðila 4. maí 2009 sé ekki minnst á þetta atriði heldur komi það fyrst fram í greinargerð varnaraðila 30. júní 2009.

       Sóknaraðili telur að rangtúlkun varnaraðila byggi í grundvallaratriðum á að sóknaraðili hafi með viðbótum/breytingum 20. mars 2009 dregið til baka fyrri ákvörðun um sameiginlegt val á dráttarbifreið og snjótönn sem hafi verið tilkynnt með svari 13. sama mánaðar eins og gerð hafi verið ítarleg grein fyrir í greinargerð sóknaraðila 15. maí 2009.

       Sóknaraðili leggur áherslu á að þetta hafi verið rökstutt af hálfu varnaraðila með þeim hætti að sóknaraðili hafi bætt eftirfarandi setningu við kafla 2.5 dráttarbifreið: „Kostnaður við tengingu og ásetningu undirtannar og snjóplógs skal innifalinn í tilboðsverði þeirra tækja en ekki dráttarbifreiðar.“ Bendir hann á að þessi setning segi eingöngu hvar eigi að heimfæra ákveðinn nánar tilgreindan kostnað, það er kostnaður við tengingu og ásetningu tækis (snjótannar eða undirtannar) eigi að fylgja tilboðsverði viðkomandi tækis sem sé tengt við dráttarbifreiðina, en sá kostnaður eigi ekki að leggjast við tilboðsverð dráttarbifreiðar. Hvergi komi fram að breyting sé gerð á fyrri ákvörðun hvað varði að velja saman tæki þannig að heimilt sé að velja vörubifreið eina og sér. Telur sóknaraðili að ekki sé hægt að skilgreina framangreindan tilvitnaðan texta þannig að fyrrgreind ákvörðun hafi verið tekin til baka. Í fyrirspurn varnaraðila 6. mars 2009 sé hvergi vikið að því hvort bjóða megi vörubifreiðina sér enda komi skýrt fram í svari sóknaraðila að snjótönn og dráttarbifreið séu metin sameignlega. Að framangreindu telur sóknaraðili ljóst að honum hafi borið nauðsyn til að hafa andmælarétt við rangtúlkun varnaraðila í greinargerð hans 30. júní 2009.

       Þá mótmælir sóknaraðili fullyrðingum varnaraðila í framangreindri greinargerð 30. júní 2009 þess efnis að í samtölum við starfsmenn varnaraðila hafi komið til umræðu að litið væri á dráttarbifreið og snjótönn sem óaðskiljanlegan hluta útboðsins. Hann segir þær rangar og telur að full ástæða hefði verið til að gefa honum kost á að mótmæla þessum ummælum varnaraðila strax þegar greinargerð hans var lögð fram.

       Sóknaraðili mótmælir því ennfremur að útboðsgögn hafi verið óskýr og telur að öllum fyrirspurnum hafi verið svarað skýrt og skilmerkilega. Þá hafi engar athugasemdir um óskýrleika komið fram frá þátttakendum fyrr en í seinni greinargerð varnaraðila. Ítrekar sóknaraðili að honum hafi ekki gefist tækifæri til að skýra eða andmæla ályktunum þar um og krefst hann því endurupptöku kærumálsins á grundvelli alls framangreinds. Loks telur sóknaraðili að réttar upplýsingar hafi ekki legið fyrir við uppkvaðningu úrskurðar í málinu. Jafnframt óskar sóknaraðili eftir að fulltrúar hans fái að mæta hjá kærunefnd og gera grein fyrir útboðsgögnum ásamt breytingum, viðbætum og svörum við fyrirspurnum. 

III.

Varnaraðili ber því við að hvorki séu uppfyllt formleg né efnisleg skilyrði til þess að umrætt mál verði endurupptekið og úrskurðað á nýju.

       Varðandi formlegan þátt endurupptökubeiðninnar telur varnaraðili að á það sé að líta að beiðni sóknaraðila hafi komið fram eftir að þriggja mánaða frestur til að beiðast endurupptöku var liðinn en viðurkennt sé að úrskurðurinn hafi borist sóknaraðila 17. júlí 2009. Að mati varnaraðila hafi nægar upplýsingar legið fyrir í úrskurðinum um málatilbúnað hans þannig að sóknaraðili gæti metið hvort ástæða væri til endurupptöku.

       Þá telur varnaraðili vert að benda á að athugasemdir þær sem sóknaraðili kveðst ekki hafa haft tækifæri til að svara séu athugasemdir varnaraðila við athugasemdum sóknaraðila. Í þeim athugsemdum varnaraðila sé meðal annars komið á framfæri athugasemdum við að sóknaraðili hafi ekki fengið aðgang að öllum gögnum málsins en hluti þeirra hafi verið meðhöndlaðar sem trúnaðargögn sem einungis kærunefndin og sóknaraðili höfðu aðgang að. Þegar litið sé til aðgangs aðila að gögnum verði að hafa þetta í huga auk þess sem því verði á einhverjum stað að linna þegar mál sé rekið skriflega að gagnaðila sé veittur frestur til að gera athugasemdir við sjónarmið gagnaðila.

       Því er jafnframt mótmælt af hálfu varnaraðila að uppfyllt séu efnisleg skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga til endurupptöku enda sé ekki um að ræða að byggt hafi verið á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

       Varnaraðili mótmælir því sérstaklega að um nokkurs konar rangfærslur hafi verið að ræða af hans hálfu sem kærunefnd hafi byggt niðurstöðu sína á. Varnaraðili hafi einungis lýst eigin viðhorfum og túlkunum á útboðsgögnum og útboðsferlinu sjálfu.

       Varnaraðili telur ennfremur að hafa verði í huga að þegar hann lagði fram kæruna hafi hann haft mjög takmarkaðar upplýsingar um það á hverju sóknaraðili hefði byggt val sitt í útboðinu.

       Þá bendir hann á að öll þau atriði og gögn sem sóknaraðili haldi fram að hafi verið ranglega túlkuð af varnaraðila hafi legið fyrir þegar úrskurður var kveðinn upp og því hafi kærunefnd getað metið þau gögn óháð því hvaða skoðanir sóknaraðili kunni að hafa haft. Ekki verði séð að sóknaraðili sé verr settur í þessum efnum en varnaraðili en í þeim efnum þurfi varnaraðili að reiða sig á mat kærunefndar á þeim trúnaðargögnum sem hann hafi ekki fengið aðgang að.

       Varnaraðili áréttar að niðurstaða kærunefndar byggi á því að óskýrleiki hafi verið í útboðsgögnum og að sóknaraðili beri ábyrgð á því gagnvart varnaraðila. Telur hann að ekkert hafi fram komið í endurupptökubeiðni sóknaraðila sem hnekki því mati og/eða réttlæti endurupptöku málsins enda leiði það ekki til endurupptöku þó málsaðili sé ósammála niðurstöðu. 

IV.

Ákvæði 95. gr. laga nr. 84/2007 fjallar um meðferð mála hjá kærunefnd útboðsmála. Samkvæmt 8. mgr. 95. gr. laganna gilda stjórnsýslu­lög nr. 37/1993 um meðferð kærumála að öðru leyti en kveðið er á um í 95. gr. laga nr. 84/2007. Um endurupptöku mála fyrir kærunefnd útboðsmála fer því eftir 24. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. ákvæðisins á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný, eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun, ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

       Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun verður beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá gagnaðila málsins, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laganna segir um 2. mgr. 24. gr. að í ákvæðinu sé að finna skilyrði sem sett séu til þess að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd. Markmiðið með ákvæðum 2. mgr. sé að stuðla að því að mál séu til lykta leidd svo fljótt sem unnt er. Telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar.

       Sóknaraðila var kynntur úrskurður kærunefndar útboðsmála í máli nr. 15/2009 17. júlí 2009. Sóknaraðili ber því við að torsótt hafi reynst að fá í hendur það skjal sem hann telur að hafi ráðið úrslitum í máli þessu, þótt hann hafi farið þess á leit við fjármálaráðuneytið. Engu að síður barst honum, að eigin sögn, umrætt skjal 7. október 2009. Hafði hann þá frest til 17. október 2009 til þess að bera fram beiðni um endurupptöku málsins. Þann frest nýtti hann ekki heldur ber endurupptökubeiðni hans dagsetninguna 30. október 2009. Af þessum sökum telur nefndin óhjákvæmilegt að hafna beiðni sóknaraðila um endurupptöku málsins.

 

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Ríkiskaupa, um endurupptöku kærumáls nr. 15/2009.

 

                   Reykjavík, 12. janúar 2010.

 

 

Páll Sigurðsson,

 Stanley Pálsson,

        Auður Finnbogadóttir

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 12. janúar 2010.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum